• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
May

Hækka stjórnarlaun um 87% - verið að skerpa á ábyrgðinni!

Þann 27 maí síðastliðinn var umfjöllun hér á heimasíðunni um þá gríðarlegu hækkun sem orðið hefur á stjórnarlaunum í lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði.  En frá árinu 2011 til ársins 2013 hafa stjórnarlaun í nokkrum lífeyrissjóðum hækkað frá 28% uppí allt að 87% eins og gerðist hjá Stapa lífeyrissjóði.

 Eðli málsins samkvæmt vakti þessi mikla launahækkun verðskuldaða athygli fjölmiðla og sem dæmi þá fjallaði mbl.is um þessa umfjöllun Verkalýðsfélags Akraness um launahækkun stjórnarmanna lífeyrissjóðanna.

Formaður vill byrja á því að ítreka að hann var að fjalla um hækkanir á stjórnarlaunum sjóðanna frá árinu 2011 til 2013 en ekki hvort stjórnarlaun hafi verið skert árin þar á undan.  Enda hafa allir launþegar orðið fyrir skerðingu á sínum launum og meira að segja hefur lífeyrir verið skertur um tugi prósenta frá hruni hjá þeim sjóðum sem hafa núna hækkað stjórnarlaun um tugi prósenta.

Ástæðan fyrir því að formaður er að skoða launahækkanir lífeyrissjóðanna frá 2011 eru þeir kjarasamningar sem undirritaðir voru 5. maí 2011, samningar sem báru nafnið „samræmd launastefna“.  En í samningi Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands var gerð bókun þar sem skýrt var kveðið á um að almennar launahækkanir skyldu vera samtals 11,4% í þriggja ára samningi og í þessari bókun kemur skýrt fram að samningsaðilar skuldbundu sig til þess að framfylgja þeirri launastefnu í framhaldinu. Orðrétt segir í þessari bókun ASÍ og SA frá 5. maí 2011:

"Almennar launahækkanir verða samtals 11,40% á samningstímanum. Sérstök hækkun kauptaxta er láglaunaaðgerð sem hækkar launakostnað misjafnlega eftir því hve margir taka laun skv. kauptöxtum. Framangreind niðurstaða kjarasamninga felur í sér að mótuð hefur verið sameiginleg og samræmd launastefna gagnvart þeim fjölmörgu samningum sem enn eru ógerðir á samningssviði aðila. Samningsaðilar skuldbinda sig til þess að framfylgja framangreindri launastefnu í framhaldinu"

Grundvallaratriðið í þessu er að það eru aðilar vinnumarkaðarins sem fara með stjórn lífeyrissjóðanna og eru þeir sömu og gerðu þessa bókun sem kvað á um að laun skyldu ekki hækka meira en 11,4% á samningstímanum. Já, þessir aðilar semja um 11,4% til handa verkafólki og hækka síðan stjórnarlaun sín um allt að 87%.

Fréttamenn mbl.is höfðu samband við framkvæmdastjóra þessara lífeyrissjóða og báru þessar miklu launahækkanir undir þá. Þessir ágætu menn fóru eins og köttur í kringum heitan graut og svöruðu út og suður.  En flestir komu sér undan því að svara því hvort rétt væri að stjórnarlaunin hefðu hækkað um þessar prósentu tölur, heldur töluðu þeir um hver stjórnarlaunin voru fyrir árið 2011 og töluðu jafnvel um að stjórnarlaun hafi verið lækkuð 2008 og svo framvegis.

Það undarlega í þessu er að framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Verslunarmanna sagði að stjórnarlaunin hefðu ekki hækkað um 51% hjá þeim heldur 22,7%.  Ég verð að viðurkenna að ég hef áhyggjur ef framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs VR kann ekki prósentureikning, því stjórnarlaunin árið 2011 voru 89.500 kr. en eru í dag 135.000 kr. og samkvæmt mínum útreikningum er þetta 51% hækkun.

Málið er að umfjöllun formanns snérist ekkert um hvað gerðist fyrir 2011 heldur hversu mikið stjórnarlaunin hækkuðu frá árinu 2011, einfaldlega vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins voru búnir að skuldbinda sig til að semja ekki um hærri launahækkanir en 11,4% . Svo koma þessir snillingar og reyna að réttlæta það að hækkun stjórnarlauna í lífeyrissjóðum langt umfram það sem samið var til handa verkafólki eigi sér eðlilega skýringar. Við skulum ekki gleyma því að lífeyrissjóðirnir töpuðu 500 milljörðum af lífeyri launafólks og hafa frá hruni skert réttindi sjóðsfélaga skv. fjármálaeftirlitinu um 130 til 150 milljarða. Svo reynir framkvæmdastjóri Stapa að réttlæta 87% launahækkun á stjórnarlaunum þannig að verið sé að skerpa á ábyrgð stjórnarmanna. Í fyrsta lagi hefur nánast enginn framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs borið nokkra ábyrgð þrátt fyrir þetta gríðarlega tap sjóðanna og einnig að búið sé að skerða réttindi um 150 milljarða frá hruni. Í öðru lagi er rétt að benda framkvæmdastjóra Stapa á að sjóðurinn hans tapaði 5,2 milljörðum og það bara vegna þess að þeir gleymdu að lýsa kröfu í þrotabú Straums. Já, takið eftir, 5,2 milljörðum og tala svo um að það þurfi að hækka stjórnarlaun um 87% því verið sé að skerpa á ábyrgð stjórnarmanna, ja hérna.

Málið er að það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að sömu lögmál gilda ekki fyrir almennt verkafólk þegar kemur að launahækkunum eins og hjá þeim sem eiga auðveldar með að skammta sér sínar eigin launahækkanir, eins og t.d. hjá lífeyrissjóðselítunni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image