• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
May

Stjórnarlaun í lífeyrissjóði hækkuð um 87%

Eins flestir muna þá var gengið frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði þann 5. maí 2011 undir heitinu „samræmd launastefna“. En í þessum kjarasamningum skuldbundu Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög Alþýðusambands Íslands, að undanskildu Verkalýðsfélagi Akraness, sig til þess að ganga frá öllum sínum kjarasamningum á þeim nótum að launahækkanir yrðu ekki hærri en 11,4% í þriggja ára samningi.

Eins og áður sagði gagnrýndi Verkalýðsfélag Akraness þessa samræmdu launastefnu harðlega á grundvelli þess að um 70% félagsmanna félagsins tilheyra fyrirtækjum sem eru starfandi í útflutningi og hafa því verið að hagnast umtalsvert m.a. vegna gengisfalls krónunnar. Það var mat félagsins að ekki kæmi til greina að setja útflutningsfyrirtækin uppá þennan láglaunavagn sem þarna var verið að semja um. Félagið var jafnframt tilbúið að sýna fyrirtækjum skilning sem ættu í rekstrarerfiðleikum vegna efnahagshrunsins, en var alls ekki tilbúið að setja öll fyrirtæki undir einn og sama hattinn hvað launahækkanir varðar.

Verkalýðsfélag Akraness fékk bágt fyrir þá afstöðu sína að vilja ekki taka þátt í þessari samræmdu launastefnu sem ASÍ og SA gengu frá. Það var algerlega ótrúlegt að forysta ASÍ skuli hafa lagst gegn því að nýta þetta tækifæri til verulegra launahækkana eins og t.d. handa fiskvinnslufólki og öðrum sem störfuðu hjá útflutningsfyrirtækjum en þessi fyrirtæki voru að hagnast eins og enginn væri morgundagurinn.

Gildir bara fyrir verkafólk

En kæru félagar, samræmda launastefnan uppá 11,4% í þriggja ára samningi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, virðist bara átt að hafa gilda fyrir verkafólkið á hinum almenna vinnumarkaði. Alla vega er kristalskýrt að samræmda launastefnan gildir ekki fyrir launahækkanir stjórnarmanna í sumum lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði. Það er þyngra en tárum taki að aðilar vinnumarkaðarins sem fara með sameiginlega stjórn lífeyrissjóðanna skuli ætlast til þess að almennu verkafólki skuli vera gert að fara eftir samræmdri launastefnu sem kveður á um 11,4% launahækkun í þriggja ára samningi en tryggja svo sjálfum sér launahækkun á sama tímabili sem nemur 87% sem er 77% meira en samið var um handa verkafólki.

Það liggur fyrir að stjórnarlaun t.d. í lífeyrissjóðnum Stapa voru hækkuð fyrir nokkrum dögum síðan um 87%, já takið eftir, um 87% og það skrautlega í þessu var að þetta var tillaga sem fulltrúar atvinnurekenda í lífeyrissjóðnum lögðu fram, en atvinnurekendur fara með 50% atkvæða á aðalfundum sjóðanna. Rétt er að geta þess að Stapi er alls ekki eini lífeyrissjóðurinn sem hefur hækkað stjórnarlaun umtalsvert frá árinu 2011 og nægir að nefna lífeyrissjóð Verslunarmanna sem hefur hækkað sín stjórnarlaun um 51% og lífeyrissjóðinn Gildi sem hefur hækkað sín stjórnarlaun um 36%. Hér að neðan er myndræn samantekt sem sýnir hækkanir nokkurra lífeyrissjóða á launum stjórnarmanna frá árinu 2011 til 2013:

 Já, aðilar vinnumarkaðarins sögðu í kjarasamningunum 2011, við verðum að semja af skynsemi til að viðhalda hér stöðugleika og máttu launahækkanir alls ekki vera hærri en 11,4%. Svo koma þeir sjálfir og hækka laun sín um tugi prósenta meira en samið var um til handa verkafólki.

Já, það er von að hækka þurfi launakjör stjórnarmanna lífeyrissjóðanna og það í sumum tilfellum um tugi prósenta, þeir bera jú svo „mikla ábyrgð“ eins og sannaðist þegar sjóðirnir töpuðu 500 milljörðum af lífeyri launafólks og hafa samkvæmt skýrslu Fjármálaeftirlitsins skert lífeyrisréttindi launafólks á hinum almenna vinnumarkaði um allt að 150 milljarða frá hruni.  Nei, stjórnendur lífeyrissjóðanna bera ekki nokkra ábyrgð enda eru nánast allir framkvæmda- og forstjórar lífeyrissjóðanna enn við störf þrátt fyrir þessa útreið sem sjóðirnir fengu.

Rétt er að rifja upp í ljósi mikillar „ábyrgðar“ að Stapi lífeyrissjóður sem hækkaði stjórnarlaun sín um 87% þurfti að afskrifa t.d. 4 milljarða og það bara vegna þess að lögmenn sjóðsins gleymdu að lýsa kröfu í þrotabú Straums árið 2009.

Formaður félagsins vill taka það skýrt fram að auðvitað eigi fólk að fá sem mestar launahækkanir, en það á ekki að gilda bara fyrir sérhagsmunaelítuna, það að gilda fyrir alla.  En stór hluti þeirra sem sömdu samræmdu launastefnuna sem kvað á um einungis 11,4% launahækkun til handa verkafólki er núna að skammta sér launahækkun fyrir stjórnarsetu í lífeyrissjóðum sem nemur eins og áður sagði tugum prósenta umfram samræmdu launastefnuna og við slíku segir formaður VLFA: algjör hræsni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image