• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
May

Verðlagseftirlit VLFA - vörukarfan hækkað um 4,9% síðan í febrúar

Fyrr á þessu ári ákvað stjórn Verkalýðsfélags Akraness að gangsetja eigið verðlagseftirlit og fylgjast með reglubundnum hætti með þróun verðlags á matvöru og öðrum vörum til heimilanna. Eftirlitið fer þannig fram að félagið kaupir fyrirfram ákveðna vörukörfu og staðgreiðir hana á kassa. Enginn ágreiningur er um verð á vörunni því hann kemur skýrt fram á strimlinum og verðsamanburður milli tímabila ætti því að vera óumdeilanlegur.

Vinna við þetta verðlagseftirlit VLFA hófst í febrúar síðastliðinn þegar fyrsta vörukarfan var keypt og í dag fór starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness aftur á stúfana með innkaupalistann. Búið er að taka saman vörukörfu sem inniheldur ýmsar vörur úr flestum vöruflokkum og kostaði sú vörukarfa í febrúar kr. 23.287. Þessi sama vörukarfa kostar í dag kr. 24.430. Hækkunin á þessum þremur mánuðum nemur kr. 1.143 eða 4,9%. Velflestar vörutegundir hækka á tímabilinu, mest er hækkun á Icebergi um 57%, Kjarna jarðaberjasulta hækkar um 54% og frosið lambalæri hækkar um 17%. Ýmsar vörur standa í stað í vörukörfunni eins og mjólk, ostur, smjörvi og hreinsivörur sem hafa hvorki hækkað né lækkað á tímabilinu. Fáar vörur hafa lækkað í verði milli tímabila og þá er lækkunin ekki mikil.

Athygli vekur að ekki birtist ákveðið mynstur í þeim verðbreytingum sem orðið hafa, íslenskar vörur eru bæði að hækka og lækka, t.d. hækkar agúrkan um tæp 6% en tómatarnir lækka í verði um 5% hvað svo sem veldur því. Innfluttar vörur eru fáar að lækka, flestar standa í stað eða hækka þrátt fyrir styrkingu krónunnar undanfarna mánuði.

Þessu verðlagseftirliti verður haldið áfram og verður fróðlegt að vita hvaða breytingar verða á strimlinum að þremur mánuðum liðnum þegar næsta vörukarfa verður keypt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image