• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Gleðitíðindi - vinnsla á hval hafin Vinnsla á hval
19
Jun

Gleðitíðindi - vinnsla á hval hafin

Þau gleðitíðindi bárust í gær að fyrsta langreyðurin væri komin á land í Hvalfirði og það þýðir ekki nema eitt - að veiðar og vinnsla á hval eru komin á fulla ferð. Í tilefni af því fór formaður VLFA í vinnustaðarheimsókn í húsakynni HB Granda á Akranesi þar sem verið var að skera og ganga frá fyrsta hvalnum. Ríkti mikil ánægja meðal starfsmanna með að vertíðin væri nú hafin eftir tveggja ára stopp.

það er morgunljóst að hvalveiðarnar veita umtalsverða innspýtingu inn í atvinnulífið hér á Akranesi enda eru uppundir 200 manns sem koma að veiðum og vinnslu á þessari vertíð. Á vertíðunum 2009 og 2010 voru tekjumöguleikar starfsmanna mjög góðir enda voru meðallaun við vinnslu á hval hér á Akranesi yfir 700 þúsund krónur þó rétt sé að geta þess að umtalsvert vinnuframlag lá að baki slíkum launum. Unnið er á sólarhringsvöktum hér á Akranesi sem eru keyrðar áfram af tveimur vakthópum. Einnig eru tugir manna að störfum uppi í Hvalfirði þar sem líka er unnið á sólarhringsvöktum eðli málsins samkvæmt.

Það er alveg ljóst að þessar veiðar og vinnsla hafa umtalsverða þýðingu fyrir okkur Akurnesinga og reyndar samfélagið allt enda skila þessar veiðar sér til ríkis og sveitarfélaga meðal annars  í formi útsvarstekna. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að átta okkur á því að við þurfum að hafa hér fyrirtæki sem skapa gjaldeyristekjur því það er einungis þannig sem við náum að halda úti því velferðarsamfélagi sem við viljum búa við.

Fyrirtækið Hvalur hf, undir dyggri stjórn Kristjáns Loftssonar, á þakkir skildar fyrir þá elju og atorkusemi við að halda þessum veiðum ætíð áfram þó oft hafi á móti blásið. Allavega erum við Akurnesingar afar þakklátir fyrir þessi atvinnutækifæri sem Hvalur hf býður okkur upp á. Það liggur fyrir að mun færri komust að en sóttu um að fá að starfa hjá Hval hf á þessari vertíð og það segir allt sem segja þarf hvað þennan atvinnumöguleika snertir. Myndir frá vinnslunni er hægt að sjá hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image