• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
May

Ótrúleg vinnubrögð fjármálaráðneytisins

Eins og allir muna stóðu hjúkrunarfræðingar á Landsspítalanum í mikilli kjaradeilu á síðasta ári og endaði hún með því að ríkisstjórnin ákvað að hækka laun þeirra í gegnum svokallaða stofnanasamninga. Sú hækkun nam um 7%. Í kjölfar þessarar hækkunar kom eðlilega krafa frá öðum kvennastéttum innan heilbrigðisstofnana um sambærilega launahækkun og gerðist á Landspítalanum. Á grundvelli þessa þrýstings ákvað ríkisstjórnin þann 21. janúar 2013 að hækka laun kvennastétta á heilbrigðisstofnunum um 4,8% undir heitinu „jafnlaunaátak.“   

Fyrir nokkrum vikum síðan kom tilkynning frá fjármálaráðneytinu til heilbrigðisstofnana  um  þessa launahækkun, en í þeirri tilkynningu var kveðið á um að hún ætti að gilda afturvirkt frá 1. mars 2013.  Þessi launahækkun var til dæmis tilkynnt starfsmönnum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands fyrir skemmstu og þeim sagt að launahækkunin kæmi til framkvæmda um næstu mánaðarmót og einnig greiðsla vegna afturvirkninnar.

Í morgun heyrði formaður VLFA í forsvarsmönnum Heilbrigðisstofnunnar Vesturlands og var honum tjáð að þeir hefðu átt fund með aðilum frá fjármálaráðuneytinu. Þar var þeim tjáð að þeir fengju enga fjármuni til þessara launahækkana fyrr í desember á þessu ári og það þrátt fyrir að þeim hafi borist bréf um að þeim bæri að hækka laun frá og með 1. mars síðastliðnum.

Forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunnar Vesturlands tilkynntu formanni VLFA að þar sem að ekki komi fjármunir til þessara launahækkana fyrr í desember þá muni þessar launahækkanir ekki koma til framkvæmda fyrr en þá þó svo að starfsmönnum hafi áður verið tilkynnt að greiðslan kæmi um næstu mánaðarmót. Það kom fram hjá forsvarsmönnum HVE að ekki væru til fjármunir til að mæta þessum launahækkunum og að þeim bæri skylda til að halda sig innan þeirrar fjárheimildar sem þeir hafa og á þeirri forsendu geta þeir ekki orðið við þessum launahækkunum fyrr en í desember.

Formaður verður að lýsa yfir undrun sinni á vinnubrögðum fjármálaráðuneytisins í þessu máli, að tilkynna heilbrigðisstofnunum að hækka eigi laun starfsmanna um 4,8% og láta stofnanirnar tilkynna starfsmönnum að fyrirhuguð hækkun eigi að taka gildi frá 1. mars en segja síðan eftir á að fjármagn með hækkuninni eigi ekki að koma fyrr en 1. desember.

Formaður skorar á stjórnvöld að veita Heilbrigðisstofnun Vesturlands þá fjármuni sem búið var að lofa í þetta verkefni án tafar þannig að hægt verði að standa við þær launahækkanir sem búið var að tilkynna starfsmönnum um.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image