• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jun

Samtök atvinnulífsins vissu af falli krónunnar en...

Eins og allir vita þá liggur fyrir þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna en skuldsett alþýða er búin að bíða eftir þessum aðgerðum í fimm ár. Í þessari aðgerðaáætlun kemur fram að afnema á verðtrygginguna og leiðrétta á forsendubrest heimilanna sem varð vegna bankahrunsins.

Það þarf ekki að spyrja að því að þegar til stendur að gera eitthvað fyrir skuldsetta alþýðu þá sprettur sérhagsmunaelítan fram og öskrar hátt og skýrt að sauðsvartur almúginn skuli gjöra svo vel að borga sínar skuldir uppí topp því hér hafi enginn „forsendubrestur“ orðið.  Slíkt má klárlega lesa úr umsögn Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans.

Rétt er að geta þess að nokkrir af æðstu stjórnendum bankanna sitja í stjórnum Samtaka atvinnulífsins og því kemur það ekki á óvart að SA finni því allt til foráttu að gera eigi eitthvað fyrir heimilin í þessu landi

Orðrétt segja Samtök atvinnulífsins í sinni umsögn: „ Gengislækkun krónunnar árin 2008 og 2009 og verðlagshækkun í kjölfarið var alls ekki ófyrirséð.Samtök atvinnulífsins  og ýmsir greiningaraðilar bentu þvert á móti ítrekað á það, frá árinu 2005, að raungengi krónunnar væri allt of hátt og gengi krónunnar hlyti þar af leiðandi að falla mikið á komandi misserum“

Með þessu eru Samtök atvinnulífsins að segja við skuldsetta alþýðu að hún hafi átt að vita að raungengi krónunnar væri alltof hátt og myndi því falla mikið sem myndi leiða til mikillar verðbólgu og hækka verðtryggðar skuldir heimilanna. Með öðrum orðum það varð enginn forsendubrestur að mati Samtaka atvinnulífsins.

Já, þetta eru gríðarlegir snillingar hjá Samtökum atvinnulífsins sem vissu allan tímann að krónan ætti eftir að falla eins og steinn með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið og heimilin. Það vildi bara enginn hlusta á þá, "að þeirra sögn".

En bíðið nú við, Samtök atvinnulífsins skipa 50% af öllum stjórnarsætum í lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði. Eins og allir vita þá töpuðu lífeyrissjóðirnir 500 milljörðum vegna þess að þeir stigu trylltan dans með útrásinni. Skoðum þetta tap lífeyrissjóðanna betur í ljósi þeirrar staðreyndar að Samtök atvinnulífsins skipa 50% af stjórnarsætum sjóðanna og segjast hafa vitað um og varað við því að krónan ætti eftir að falla umtalsvert.

Tóku stöðu með krónunni

Rifjum upp gjaldmiðlasamninga lífeyrissjóðanna í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins hafa nú upplýst í sinni umsögn að þeir vissu að krónan myndi falla gríðarlega á árunum 2008 og 2009.  Formaður vill byrja á því að upplýsa að lífeyrissjóðirnir töpuðu í það minnsta 50 milljörðum af lífeyri launafólks á gjaldmiðlasamningunum, já takið eftir 50 milljörðum. Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur fram að íslensku lífeyrissjóðirnir gerðu tugmilljarða króna gjaldmiðlavarnarsamninga við Landsbankann, Kaupþing og Glitni fyrir bankahrun. Alls var staða gjaldmiðlasamninganna 2,2 milljarðar evra við bankahrun og hafði umfang þeirra tvöfaldast á einu ári. Með öðrum orðum, lífeyrissjóðirnir tóku stöðu með krónunni, sem þýddi að þeir högnuðust ef krónan styrktist en eins og allir vita þá féll krónan gríðarlega og tap sjóðanna varð því 50 milljarðar eins og áður sagði. 

 

Hvernig í himninum stendur á því að stjórnarmenn Samtaka atvinnulífsins í lífeyrissjóðunum gerðu gjaldmiðlasamninga þar sem veðjað var á að krónan myndi styrkjast í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins vissu samkvæmt umsögn sinni til Alþingis að krónan myndi falla gríðarlega.

Rannsaka verður þetta mál   

Mál hafa verið rannsökuð út af minna tilefni en þessu en hér var um 50 milljarða að ræða. Formaður telur því að rannsaka verði hví í ósköpunum lífeyrissjóðirnir gömbluðu með lífeyri launafólks í gjaldmiðlasamningunum í ljósi þessara upplýsinga sem SA telur sig hafa vitað - að krónan myndi falla.

Já, Samtök atvinnulífsins segja núna þegar til stendur að koma til móts við forsendubrest heimilanna að það hafi ekki orðið neinn forsendubrestur því allir hefðu átt að vita að krónan myndi falla. Það grátbroslega í þessu öllu saman er að lífeyrissjóðirnir báru fyrir sig forsendubresti þegar gera átti upp gjaldmiðlasamningana við slitastjórnir föllnu bankanna. Þeir byggðu sína vörn meðal annars á því að  sumir bankanna hefðu misnotað gjaldeyrismarkaðinn í upphafi árs 2008 til að fella krónuna. Rétt er að geta þess að sjóðirnir vildu gera gjaldmiðlasamningana upp á genginu 126,5 en bankarnir á því gengi sem var þegar samningarnir runnu út sem var langt yfir genginu 200. Með öðrum orðum, lífeyrissjóðirnir báru fyrir sig „forsendubresti“ og gleymum því ekki að 50% stjórnarmanna í lífeyrissjóðunum eru fulltrúar Samtaka atvinnulífsins.  

Hafi Samtök atvinnulífsins ævarandi skömm fyrir umsögn sína – að þykjast hafa vitað að krónan væri að falla eins og enginn væri morgundagurinn á sama tíma og fulltrúar þeirra í stjórnum lífeyrissjóðanna gömbluðu með lífeyri launafólks þar sem veðjað var á að krónan myndi styrkjast  sem gerði það að verkum að sjóðirnir töpuðu 50 milljörðum eins og áður hefur komið fram. Formaður spyr hver er ábyrgð Samtaka atvinnulífsins að hafa látið slíkt gerast í ljósi þess að þeir telja sig hafa vitað af falli krónunnar? Því við skulum ekki heldur gleyma því að samkvæmt skýrslu Fjármálaeftirlitsins er búið að skerða lífeyrisréttindi launafólks á hinum almenna vinnumarkaði um í það minnsta 130 milljarða frá hruni.

Þessir snillingar koma svo núna og segja að sauðsvartur almúginn hefði átt að vita að verðtryggðar skuldir heimilanna myndu hækka gríðarlega vegna þess að þeir hafi verið búnir að vara við falli krónunnar. Málflutningur af þessu tagi er ekki boðlegur íslensku samfélagi og það hjá samtökum sem vilja láta taka sig alvarlega.

Nei, þessi sérhagsmunaelíta segir að enginn forsendubrestur hafi orðið en fer síðan sjálf hálfgrenjandi og ber fyrir sig forsendubresti eins og til dæmis vegna gjaldmiðlasamninganna. Og ekki má heldur gleyma að Samtök iðnaðarins báru fyrir sig forsendubresti fyrir hönd verktaka við Orkuveituna og Reykjavíkurborg.

Við ríkisstjórnina vil formaður segja: Standið í lappirnar gagnvart þessari sérhagsmunaelítu sem hér vill öllu ráða og reynir að koma í veg fyrir það með öllum tiltækum ráðum að alþýða þessa lands og skuldsett heimili fái einhverja leiðréttingu á því efnahagshruni sem hún ber ekki nokkra einustu ábyrgð á. Standið í lappirnar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image