• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Jun

Verkafólk eins og hamstrar í búri!

Það er eins og við manninn mælt að þegar styttist í að kjarasamningar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði eru að verða lausir þá heyrast varnaðarorð vítt og breitt um samfélagið. Varnaðarorð sem byggjast á því að nú þurfi að ganga frá hófstilltum kjarasamningum til handa verkafólki til að stöðugleiki ríki í íslensku samfélagi. Varnaðarorð í þessum anda hefur verkafólk ætíð þurft að heyra þegar kemur að kjarasamningum. Frægt er til dæmis þegar greiningastjórar bankanna sögðu í janúar 2008 að það yrði að ganga frá hófstilltum kjarasamningum til að hér myndi ríkja stöðugleiki en þá voru kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði lausir. Hugsið ykkur, greiningastjórar bankanna vöruðu við því í byrjun hrunársins mikla árið 2008 að ef verkafólk fengi örlitla hækkun þá yrði stöðugleika í íslensku hagkerfi ógnað. Á sama tíma og þessi orð voru látin falla var nánast verið að ræna bankana innan frá sem hafði skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag eins og allir þekkja og það beint fyrir framan nefið á þessum greiningastjórum sem höfðu mestar áhyggjur af því að verkafólk fengi einhverjar launahækkanir sem talandi væri um.

Fræg eru líka orð seðlabankastjóra þegar kjarasamningar voru lausir árið 2011 en þá lagði hann mikla áherslu á að kjarasamningarnir yrðu hófstilltir og að innistæða væri fyrir þeim því annars myndi stöðugleikanum verða ógnað. Á sama tíma og hann lét þessi orð falla var hann að stefna sínum eigin banka fyrir dómstóla og krefjast hundruð þúsunda í launahækkun á mánuði.

Og síðast í gær kemur nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og hvetur til þess að gengið verði frá hófstilltum kjarasamningum því innistæðulausir samningar leiði óhjákvæmilega til verðbólgu og verri lífskjara. Segir hann í þessu samhengi að „enginn sigri í launakapphlaupinu.“ Gott og vel, ugglaust margt til í þessu hjá framkvæmdastjóra SA. En málið er einfalt. Ef við skoðum kjarasamningana sem gerðir voru 2011 þá var til dæmis samið um 12 þúsund króna launahækkun á mánuði fyrir verkafólk það ár. Það var gengið frá svokallaðri samræmdri launastefnu, launastefnu sem gekk út á það að launafólk ætti að fá sambærilegar launahækkanir. En þetta sama ár og var samið um þessa 12 þúsund króna launahækkun til handa verkafólki þá hækkuðu stjórnendur, framkvæmdastjórar og æðstu stjórnendur fyrirtækja laun sín um 200-300 þúsund krónur á mánuði samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. Það má því eiginlega segja að það væri nær fyrir Samtök atvinnulífsins að hvetja æðstu stjórnendur í fyrirtækjum til að gæta hófs í sjálfskömmtunarlaunahækkunum sínum heldur en að vara við að verkafólk sem er með skammarlega lág laun sem duga vart til lágmarksframfærslu fái einhverja leiðréttingu á sín laun.

Hlaupaleiðirnar misjafnar

Já, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði að enginn sigri í launakapphlaupinu. Það liggur fyrir og það er staðfest að nánast allir kjarasamningar sem gengið er frá hjá Ríkissáttasemjara eftir að samið hefur verið fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði eru mun innihaldsríkari heldur en kjarasamningar verkafólks. Þannig hefur þetta ætíð verið og því má segja að launakapphlaupið sem framkvæmdastjóri SA talar um byggist á því að hlaupaleiðir launþega séu afar mismunandi. Það má eiginlega segja að hlaupaleið verkafólks sé eins og fyrir hamstur í búri sem hleypur í hlaupahjólinu og kemst ekkert áfram á meðan hlaupaleið til dæmis æðstu stjórnenda í fyrirtækjum og sumra launahópa virðist liggja í því að þeim er keyrt í limmósínu í mark og þurfa ekki einu sinni að hafa fyrir því að svitna.

Ekkert verður gefið eftir

Það liggur fyrir að það þarf að laga kjör verkafólks eins og til dæmis þeirra sem starfa í fiskvinnslunni enda verður þar nægt svigrúm þar sem búið er að lækka sértæka veiðigjaldið um milljarða króna og því morgunljóst að þar verður innistæða fyrir þeim launahækkunum sem sækja þarf til handa fiskvinnslufólki. Það liggur einnig fyrir að afkoma útflutningsfyrirtækja hér á landi er mjög góð um þessar mundir og því morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki sjá neina ástæðu til þess að gefa þeim fyrirtækjum sem klárlega hafa svigrúm fyrir hækkun launa sinna starfsmanna neinn afslátt í komandi kjarasamningum. Vonandi er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sammála formanni Verkalýðsfélags Akraness í því að fyrirtæki eins og útflutningsfyrirtækin þar sem klárlega er innistæða fyrir launahækkun deili góðri afkomu með starfsmönnum í formi góðrar launahækkunar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image