• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Atvinnuástandið á Akranesi nokkuð gott Í hvalstöðinni í Hvalfirði
26
Jun

Atvinnuástandið á Akranesi nokkuð gott

Að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness geta Akurnesingar verið nokkuð ánægðir með það atvinnuástand sem ríkir á þeirra svæði um þessar mundir sé miðað við mörg önnur sveitarfélög hér á landi. Akurnesingar búa við þann munað að vera með gríðarlega sterkar stoðir í sínu samfélagi og má þar nefna Grundartangasvæðið með stóriðjurnar Elkem og Norðurál í broddi fylkingar en mörg önnur smærri fyrirtæki hafa verið að hefja starfsemi á svæðinu að undanförnu.

Þessu til viðbótar er nú hvalurinn kominn á fulla ferð og unnið er á sólarhringsvöktum bæði í Hvalfirði sem og hér á Akranesi við vinnslu á hvalafurðum en þessi starfsemi skilar uppundir 150 manns atvinnu fyrir utan afleidd störf sem eru fjölmörg. Ekki má heldur gleyma því að HB Grandi hefur hafið undirbúning að því að auka vinnsluna hér á Akranesi umtalsvert á þessu ári og því næsta sem væntanlega mun þýða fjölgun starfsmanna en talað er um að vinnslan muni fara úr um 3500 tonnum upp í allt að 6000 tonn á ársgrundvelli sem er umtalsverð aukning.

Á þessu sést eins og áður sagði að við Akurnesingar búum við nokkuð gott atvinnuástand og ekki spillir fyrir að þessir burðarstólpar sem hér hafa verið taldir upp eru allt fyrirtæki sem skapa íslensku þjóðarbúi gjaldeyristekjur en það er þannig sem við náum að halda úti því velferðarsamfélagi sem við viljum búa í.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image