• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Dec

Aðalfundi Sjómanna- og vélstjóradeildar lokið

Rétt í þessu lauk aðalfundi sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var samþykkt ályktun þar sem það er harmað innilega að starfsöryggi sjómanna sé ógnað vegna ágreinings útgerðarmanna við stjórnvöld vegna auðlindagjalds. Fram kom í máli fundarmanna að þeir séu verulega óánægðir með að ekki skuli vera búið að ná fram kjarasamningi ennþá og það sé ekki undir neinum kringumstæðum hægt að sætta sig við þann drátt sem orðið hefur á nýjum kjarasamningi en nú eru liðin tvö ár frá því að eldri kjarasamningur rann út.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum:

  

Ályktun

 

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness harmar þá óvissu sem upp er komin varðandi kjör og starfsöryggi sjómanna og fiskvinnslufólks vegna ágreinings sjávarútvegsfyrirtækja við stjórnvöld.

Á þeirri forsendu telur aðalfundurinn það afar brýnt að áðurnefndir aðilar leysi þennan ágreining sín á milli þannig að sjávarútvegurinn geti haldið áfram að vaxa og dafna og að sá vöxtur leiði til fjölgunar í greininni  í stað fækkunar eins nú stefnir í. 

Aðalfundurinn skorar á Landssamband útgerðarmanna að ganga tafarlaust frá kjarasamningi við sjómenn því það er með öllu ólíðandi að sjómenn séu búnir að vera samningslausir í heil tvö ár.

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness vill að það komi skýrt fram að það mun aldrei koma til greina að sjómenn taki á sig lækkun á sínum kjörum vegna ágreinings  útgerðarmanna við stjórnvöld vegna auðlindagjaldsins og vill fundurinn minna útgerðarmenn á að stjórnvöld hafa ráðist á kjör sjómanna með því að afnema sjómannaafsláttinn í áföngum á liðnum árum.  Það er því morgunljóst að sjómenn munu krefjast þess að þeim verði m.a bætt upp það fjárhagstjón sem þeir hafa orðið fyrir vegna skerðingar á sjómannaafslættinum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image