• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Jan

Leiðrétting upp á tæpar 30 milljónir

Um mitt síðasta ár gerði félagið alvarlegar athugasemdir hjá einu fyrirtæki við það að lausráðið starfsfólk og fólk í sumarafleysingum væri ekki að vinna sér inn frídaga vegna rauðra daga, en starfsmenn í fullri vaktavinnu ávinna sér 72 tíma á ári í frítökurétt vegna vinnu á rauðum dögum. Eftir að Verkalýðsfélag Akraness færði góð og gild rök fyrir því að þessi réttur væri klárlega einnig til staðar hjá lausráðnum og sumarafleysingafólki féllst fyrirtækið á að lagfæra þessi mistök fjögur ár aftur í tímann. 

Sú leiðrétting nam um 23 milljónum og fengu um 300 manns leiðréttingu sem gerði um 76.000 kr. að meðaltali á hvern starfsmann. Verkalýðsfélag Akraness fór síðan yfir þessa útreikninga og komst að því að leiðréttingin hafi ekki verið vaxtareiknuð og gerði því kröfu um að slíkt væri gert og að sjálfsögðu samþykkti fyrirtækið þá kröfu félagsins. Áðurnefndir starfsmenn fengu því reiknaða dráttarvexti og nam sú greiðsla yfir 6 milljónum króna. 

Þessi hagsmunagæsla Verkalýðsfélags Akraness skilaði því félagsmönnum VLFA rétt tæpum 30 milljónum og þetta sýnir hversu mikilvægt það er að launafólk komi til síns stéttarfélags og láti kanna hvort verið sé að greiða eftir þeim kjarasamningum sem í gildi eru.  Þetta sýnir einnig hversu miklivægt það er að stéttarfélögin bregðist skjótt og örugglega við öllum ábendingum um kjarasamningsbrot því miklir fjármunir geta verið í húfi fyrir starfsmenn eins og þetta dæmi sannar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image