• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Feb

Verðtryggingarvítisvélin að ganga frá íslenskum heimilum

Afstaða stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness hvað varðar verðtrygginguna og kröfu um leiðréttingu á skuldavanda íslenskra heimila er hvellskýr. Á síðasta þingi ASÍ í október lagði stjórn og trúnaðarráð félagsins til dæmis fram ályktun um afnám verðtryggingar á neytendalánum til einstaklinga og að þak yrði sett á húsnæðisvexti til íslenskra heimila. Einnig var kveðið á um í þessari ályktun að stjórnvöld beittu sér fyrir því að leiðrétta þann skelfilega forsendubrest sem íslensk heimili urðu fyrir í kjölfar hrunsins vegna verðtryggingarinnar. Á þessu sést hver stefna Verkalýðsfélags Akraness er í þessum málum og þessu til viðbótar er félagið nú að láta reyna á lögmæti verðtryggingar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Það er engum blöðum um það að fletta að verðtryggingin hér á landi er að ganga af íslenskum heimilum dauðum en nú í febrúarmánuði liggur fyrir að neysluvísitalan er að hækka um 1,64% sem þýðir að verðtryggðar skuldir íslenskra heimila munu hækka um allt að 23 milljarða og það einungis á 28 dögum. Þetta er álíka há upphæð og loðnuvertíðin sem stendur nú sem hæst mun skila íslenska þjóðarbúinu. Formaður VLFA hefur verið að kalla eftir því hjá stjórnmálamönnum í hverju þessi verðmætasköpun upp á 23 milljarða hækkun á verðtryggðar skuldir heimilanna er fólgin. Öll sjáum við raunverulega verðmætasköpun í kjölfar loðnuvertíðarinnar en það mun skila okkur gjaldeyristekjum inn í okkar samfélag. En það er formanni hulin ráðgáta í hverju þessi verðmætasköpun upp á 23 milljarða er fólgin. Það er líka rétt að benda á að meðalverðtryggðar húsnæðisskuldir í dag hjá heimilunum nema um 22 milljónum sem þýðir að höfuðstóll slíkra lána er að hækka um, takið eftir, 360 þúsund krónur og það einungis á þessum 28 dögum.

Já formaður félagsins talar algjörlega í anda samþykktar félagsins hvað varðar afnám verðtryggingar og skuldavanda heimilanna enda er það skoðun félagsins eins og áður sagði að verðtryggingarvítisvélin sé að ganga frá íslenskum heimilum dauðum. Það verður að afnema verðtrygginguna en samhliða því verður að setja vaxtaþak á húsnæðislán og einnig finna leið til að leiðrétta títtnefndan forsendubrest sem heimilin urðu fyrir. Það er mat formanns að öll orðræða stjórnmálaflokka um að draga úr vægi verðtryggingar sé til þess fallin að slá ryki í augu almennings með það að markmiði að viðhalda hér verðtryggingu um ókomin ár. Þess vegna ítrekar Verkalýðsfélag Akraness afstöðu sína um að afnema verður verðtryggingu á neytendalánum til heimila án tafar.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image