• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Áskorun send á þingmenn um flýtimeðferð vegna verðtryggingarmálsins Áskorun send til þingmanna
19
Feb

Áskorun send á þingmenn um flýtimeðferð vegna verðtryggingarmálsins

Verkalýðsfélag Akraness hefur sent öllum þingmönnum Alþingis bréf með áskorun um að þeir beiti sér af fullum þunga fyrir því að það dómsmál sem Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur um ólögmæti verðtryggingar fái algjöra flýtimeðferð fyrir dómsstólum. Enda er gríðarlega mikilvægt í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í þessu máli að þeirri réttaróvissu verði eytt eins fljótt og kostur er. Umrætt bréf var sent þingmönnum rétt í þessu og er það á þessa leið:

____________________________________________

Ágæti þingmaður.

 

Eins og þér er eflaust fullkunnugt um þá  var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur þann 29. janúar sl. mál er lýtur að því hvort verðtrygging hér á landi standist gildandi lög, en málinu var stefnt gegn Landsbankanum hf.  Í raun var það tilviljun ein sem réði því hvaða fjármálafyrirtæki varð fyrir valinu sem gagnaðili, vinnist málið verður að telja að niðurstaða þess verði fordæmisgefandi gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum.  Kröfur málsins sem varða verðtrygginguna og lögmæti hennar eru aðallega að ákvæði skuldabréfsins um verðtryggingu sé óskuldbindandi.  Til vara er þess krafist, að viðurkennt verði með dómi að óheimilt sé að uppreikna mánaðarlega höfuðstól skuldabréfsins skv. vísitölu neysluverðs.

Aðal málsástæður lögmanna Verkalýðsfélags Akraness í þeim hluta málsins sem snýr að verðtryggingunni eru í fyrsta lagi þær að verðtryggingin eins og hún er framkvæmd, fari gegn MiFID tilskipuninni, sem gerir það að kröfu að ekki megi eiga viðskipti með flókna fjármálagerninga (afleiður) við neytendur.  Í öðru lagi er á því byggt, að lánveitingin, framkvæmd greiðsluáætlunar og upplýsingar um birtingu árlegrar hlutfallstölu kostnaðar standist ekki skilyrði neytendalánalaga og þeirra Evróputilskipana sem þau byggja á.

Nú liggur fyrir nýlegt  álit frá sérfræðingi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem ýjað er sterklega að því að framkvæmd verðtryggðra lána standist ekki skilyrði neytendalánalaga og þeirra Evróputilskipana sem þau byggja á.  En álit sérfræðings framkvæmdastjórnar er algjörlega í samræmi við aðal málsástæður sem lögmenn Verkalýðsfélags Akraness halda fram um ólögmæti verðtryggingarinnar.  En rétt er einnig að geta þess að það lán sem VLFA er með fyrir dómstólum er hefðbundið neytendalán en ekki fasteignalán.

Það dylst engum að hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir almenning og reyndar samfélagið allt og á þeirri forsendu verður að eyða þeirri réttaróvissu sem ríkir um það hvort verðtryggingin standist lög eða ekki eins fljótt og kostur er.  Á þeirri forsendu  þá skora ég sem formaður Verkalýðsfélags Akraness á þig sem þingmann að þú beitir þér af fullum þunga fyrir því að þetta mál fái algjöra flýtimeðferð fyrir dómstólum.

Óska ég eftir því að þessu erindi verði svarað eins fljótt og kostur er.

 

Virðingarfyllst,

 

____________________________

Vilhjálmur Birgisson,

formaður Verkalýðsfélags Akraness

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image