• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Feb

34 sjómenn hjá HB Granda missa vinnuna

Forsvarsmenn HB Granda boðuðu sjómenn sína ásamt fulltrúum þeirra stéttarfélaga sem eiga félagsmenn sem starfa hjá fyrirtækinu til fundar á Grand hóteli í gær. Því miður var tilefni fundarins ekki jákvætt hvað varðar sjómenn fyrirtækisins en forstjóri fyrirtækisins tilkynnti að fækka þyrfti um 34 sjómenn vegna þess að afkoma í landvinnslunni er mun betri en þegar aflinn er unninn og frystur um borð í skipunum. Einnig nefndi forstjóri HB Granda að þessar skipulagsbreytingar séu tilkomnar vegna skerðingar á aflaheimildum.

Það kom fram hjá forstjóranum að á næsta ári muni félagið gera út þrjá frystitogara í stað fimm en fjóra ísfiskstogara í stað þriggja. Venusi sem er elsti togari félagsins verður lagt og Helgu Maríu AK verður breytt úr frystitogara yfir í ísfiskstogara. En þessar breytingar munu hafa í för með sér að 34 sjómenn munu missa lífsviðurværi sitt. Það er alveg ljóst að þeir 320 sjómenn sem nú starfa hjá fyrirtækinu munu þurfa að búa við visst óöryggi allt til 27. mars því það mun ekki liggja fyrir niðurstaða fyrr en þá um það hverjir það verða sem munu missa sitt lífsviðurværi.

Formaður er ekki í neinum vafa um að ein af ástæðum þess að fyrirtækið tekur þá ákvörðun að auka við landvinnsluna á kostnað vinnslu í frystitogurum sé vegna mikils launamunar á þeim sem starfa á frystiskipunum og þeirra sem starfa í landvinnslu í frystihúsum. Formaður hefur sagt það áður að launakjör fiskvinnslufólks eru til skammar og þau þarf að lagfæra í komandi kjarasamningum. Því miður þá voru unnin skemmdarverk í síðustu kjarasamningum en stefna Verkalýðsfélags Akraness var sú að laun fiskvinnslufólks yrðu lagfærð með afgerandi hætti þá en vegna hinnar svokölluðu samræmdu launastefnu þá var komið í veg fyrir það. Á þessari forsendu er gríðarlega mikilvægt að slík skemmdarverk verði ekki ástunduð í komandi kjarasamningum.

Það er ekkert óeðlilegt við það að fyrirtæki skuli leita hagræðingar í rekstri sínum þegar það liggur fyrri að umtalsvert meiri eftirspurn er eftir ferskum fiskafurðum heldur en frosnum og einnig vegna þeirra staðreynda að landvinnslan er að skila meiru heldur en sjófrystingin. Hins vegar er það slæmt fyrir samfélagið í heild sinni að 34 hálaunastörf skuli tapast við þessar skipulagsbreytingar.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image