• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað jafnmikið á einu ári og Icesave hefði kostað íslensku þjóðina. Leysum skuldavanda heimilanna og afnemum verðtrygginguna til að koma í veg fyrir að svona ástand skapist á nýjan leik.
31
Jan

Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað jafnmikið á einu ári og Icesave hefði kostað íslensku þjóðina.

Í gær var formanni Verkalýðsfélags Akraness boðið að halda erindi hjá Framsóknarmönnum en fundurinn var haldinn á Grand hóteli og var fundarefnið afnám verðtryggingar og skuldavandi heimilanna. Það er óhætt að segja að fundurinn hafi verið afar góður. Kjaftfullt var út úr dyrum en talið er að yfir 300 manns hefðu mætt á fundinn.

Formaður fór meðal annars yfir málsókn Verkalýðsfélags Akraness vegna ólögmæti verðtryggingarinnar og upplýsti að málshöfðunin byggðist á lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, svokölluðum MiFid reglum.

Einnig fór hann yfir þá grafalvarlegu stöðu sem skuldsett heimili eru nú í en það er óhætt að segja að þau logi nú stafnanna á milli enda er áætlað að uppundir 50% íslenskra heimila séu tæknilega gjaldþrota eða með öðrum orðum, þau skulda meira en þau eiga. Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað frá 1. janúar 2008 um 400 milljarða króna sem sýnir svo ekki verður um villst um hverslags skaðvald er að ræða.

Sláandi samhengi

Formaður setti verðtryggðar skuldir heimilanna í samhengi við þann glæsilega sigur sem náðist hjá íslensku þjóðinni vegna Icesave samninganna. En þjóðin steig eðli málsins samkvæmt trylltan dans yfir þeirri glæsilegu niðurstöðu að íslenskum skattgreiðendum væri ekki gert skylt að greiða skuldir einkabanka. Áhrifamenn og fræðimenn hafa sagt að þessi niðurstaða vegna Icesave dómsins skipti íslenska þjóðarbúið gríðarlegu máli og menn hafa jafnvel talað um að lánshæfismat þjóðarinnar muni lagast í kjölfarið sem og að niðurstaðan muni hafa önnur jákvæð efnahagsleg áhrif. Talið er að Lee Buchheit samningurinn hefði kostað íslenska skattgreiðendur um 64 milljarða króna. Verðtryggðar skuldir íslenskra heimila í dag eru um 1400 milljarðar króna. Verðbólga síðustu 12 mánaða er 4,2% sem þýðir að verðtryggðar skuldir íslenskra heimila hækkuðu um tæpa 60 milljarða á einu ári sem er álíka há upphæð og síðasti Icesave samningur átti að kosta íslenska skattgreiðendur. Á þessu sést hvernig verðtryggingin er að leika íslensk heimili og sýnir svo ekki verður um villst hversu gríðarlega mikilvægt það er að hún verði afnumin með öllum tiltækum ráðum. Já, verðtryggðar skuldir heimilanna hækkuðu nánast um sömu upphæð á einu ári og síðasti Icesave samningur átti að kosta íslenska þjóð.

Formaður fór í sínu erindi yfir skjaldborgina sem íslenskum heimilum hafði verið lofað. Skjaldborgin sem aldrei kom og það nema síður sé. Formaður rifjaði upp á fundinum grein sem fyrrverandi efnahags- og viðskiparáðherra, Gylfi Magnússon, skrifaði 1. júní 2009 en í þeirri grein var hann að fara yfir að íslenska ríkið gæti auðveldlega staðið við skuldbindingar vegna Svavars-samningsins vegna Icesave en sá samningur átti að kosta íslenska skattgreiðendur uppundir 250 milljarða króna.  Í greininni sagði Gylfi meðal annars orðrétt: „Því fer þó fjarri að byrðarnar fyrir ríkið eða þjóðarbúið verði slíkar að engin von sé til að hægt verði að standa undir þeim... Byrðarnar verða engan veginn óbærilegar fyrir þjóðarbúið... Það er sama hvernig reiknað er. Ekkert bendir til annars en að landsmenn geti staðið undir skuldbindingum sínum vegna Icesave.“ Já, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra sagði árið 2009 að það væri ekkert mál fyrir ríkissjóð að taka á sig skuldbindingar sem námu allt að 250 milljörðum króna. Og það vegna skulda einkabanka á erlendri grundu. En hvað skyldi þessi sami ráðherra hafa sagt 8 mánuðum síðar eða 1. febrúar 2010, í viðtali þegar hann var spurður hvort ekki ætti að hjálpa skuldsettum heimilum? Orðrétt sagði Gylfi Magnússon „að engar töfralausnir væru í boði hvað varðar skuldavanda heimilanna. Ekki sé hægt að láta skuldir heimilanna hverfa með einu pennastriki, einhver þurfi að greiða reikninginn.“  Já þessi fyrrverandi skjaldborgarráðherra sagði 8 mánuðum áður að íslenskir skattgreiðendur gætu auðveldlega tekið á sig 250 milljarða skuldbindingu en þegar hann var spurður um hvort hægt væri að gera eitthvað fyrir skuldsett heimili þá var slíkt ekki til umræðu og alþýðu landsins gefið langt nef af stjórnvöldum.

Heimilin fá að brenna

Það kom einnig fram í erindi formanns að allt slökkvistarf núverandi stjórnvalda hefur miðast við það að slökkva elda í fjármálafyrirtækjum, erlendum vogunarsjóðum og hrægammasjóðum. Stjórnvöld hafa brunað á forgangshraða með blikkandi ljós á milli fjármálastofnana og slökkt þar elda á sama tíma og þau hafa horft á heimilin loga stafna á milli. Þau brunuðu meira að segja á forgangshraða eftir Reykjanesbrautinni til Keflavíkur til að slökkva þar eld vegna íkveikju sem átti sér stað í Sparisjóði Keflavíkur. Íkveikju sem kostaði íslenska skattgreiðendur uppundir 30 milljarða króna. En þetta slökkvistarf núverandi stjórnvalda gagnvart fjármálakerfinu hefur kostað íslenska skattgreiðendur  400 milljarða króna samkvæmd ríkisendurskoðanda. Stjórnvöld voru meira að segja áfjáð í að fá að slökkva elda á erlendri grundu eða nánar tiltekið í Bretlandi og Hollandi vegna Icesave samninganna, samninga sem hefðu getað kostað þessa sömu skattgreiðendur hundruð milljarða.

En hvað hefur verið gert fyrir heimilin? Nánast ekki neitt en samt vilja stjórnvöld meina að afskrifaðar hafi verið skuldir hjá heimilunum fyrir yfir 200 milljarða króna. En mat formanns er einfalt hvað það varðar, þetta er kolrangt. Einu alvöru leiðréttingarnar sem heimilin hafi fengið eru í gegnum dómskerfið en samkvæmt dómi Hæstaréttar vegna gengistryggðu lánanna voru skuldir leiðréttar sem námu 150 milljörðum króna. 50 milljarðar hafa fallið niður vegna svokallaðrar 110% leiðar og vegna sértækrar skuldaaðlögunar en rétt er að geta þess að hér var um sokkinn kostnað að ræða hjá fjármálakerfinu eða með öðrum orðum, tapaðar kröfur. En hvað gerðu stjórnvöld þegar dómurinn vegna gengistryggðu lánanna féll árið 2010? Þá ákváðu stjórnvöld að milda áhrif dómsins með því að setja Árna Pálslögin nr. 151/2010 og þetta var gert þrátt fyrir að allar umsagnir til Alþingis kvæðu á um að það stæðist ekki lög að láta vexti gilda afturvirkt. Í Árna Pálslögunum voru Seðlabankavextir látnir gilda afturvirkt en eins og allir vita voru vextir á þessum erlendu lánum mun hagstæðari en vextir Seðlabankans. Já, stjórnvöld ákváðu að slá skjaldborg utan um fjármálakerfið og það er nöturlegt að rifja upp hvað Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði eftir að dómurinn féll um gengistryggðu lánin árið 2010. Hann sagði það fráleita niðurstöðu að hinir erlendu vextir fengju að standa óhaggaðir því slíkt myndi ógna stöðugleika. Það hefur komið fram í fréttum eftir að Árna Pálslögin voru að hluta dæmd ólögleg að þessi lög hefðu kostað heimilin 64 milljarða sem er enn og aftur sama talan og Icesave samningurinn hefði kostað þjóðina. Já það átti að setja 64 milljarða á skuldsett heimili og það þrátt fyrir að allar umsagnir kvæðu á um að slíkt stæðist ekki lög. Ríkisstjórnin sem kennir sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð og lofaði heimilunum skjaldborg ákvað að setja lög til að slá skjaldborg utan um fjármálafyrirtækin og erlenda vogunarsjóði, lög sem hefðu kostað heimilin 64 milljarða eins og áður sagði. Þarna birtist íslenskum heimilum enn og aftur skjaldborgin sem núverandi stjórnvöld lofuðu í hnotskurn.

Áskorun á Sigmund Davíð

Það kom fram í erindi formanns að verðtryggingin og leiðrétting á skuldavanda heimilanna væri brýnasta hagsmunamál íslenskra heimila. Á þeirri forsendu setti formaður fram áskorun á formann Framsóknarflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og krafðist þess að fá skýr svör við því hvort Framsóknarflokkurinn myndi gera það að kröfu sinni ef þeir kæmust í ríkisstjórn að í stjórnarsáttmála stæði með afgerandi hætti að verðtrygging á skuldum heimilanna verði afnumin og leiðrétting á skuldavanda heimilanna komi til. Sigmundur Davíð svaraði formanni með eftirfarandi hætti og verður ekki annað skilið en að þeir muni setja þetta sem skilyrði í stjórnarsáttmála komist þeir í þá stöðu: „Framsóknarflokkurinn mun ekki mynda ríkisstjórn nema tekið verði á skuldavanda heimilanna og verðtryggingin er órjúfanlegur hluti af skuldavandanum.“

Formaður félagsins var afar ánægður með þennan fund og hefur hann margoft sagt það áður að dropinn holar steininn en nú virðist sem að dropinn sé nú þegar farinn að hola steininn og það svo um munar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image