• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Jan

Búið að þingfesta verðtryggingarmálið sem VLFA stendur fyrir

Klukkan 10 í morgun var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir og snýst um það hvort verðtrygging hér á landi sé ólögmæt eða ekki. Látið verður á það reyna hvort verðtrygging á Íslandi standist lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og tilskipunum Evrópuréttar. Málið lýtur að svokölluðum MiFID neytendaverndarreglum ESB, sem voru lögfestar hér á landi með lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, en samkvæmt þeim er bannað að lána almenningi flókna fjármálagjörninga á borð við afleiður. Þetta er aðalkrafan í stefnunni, en til vara verður látið á það reyna hvort heimilt sé að uppreikna höfuðstól samkvæmt neysluvísitölu.

Ástæða þess að Verkalýðsfélag Akraness fer í þennan málarekstur er sú að fjöldi lögspekinga hefur ýjað að því að þessi áðurnefndu lög heimili ekki verðtryggingu til almennings þar sem um sé að ræða flókna fjármálagjörninga, svokallaðar afleiður. En ekki síður er ástæðan fyrir málsókninni sú að það er orðið fullreynt að stjórnvöld ætli sér að gera eitthvað er lýtur að verðtryggingunni og þeim skelfilega vanda sem af henni hlotist. En verðtryggðar skuldir heimilanna hafa stökkbreyst frá hruni og hafa þær nú hækka um yfir 400 milljarða króna frá 1. janúar 2008. Á meðal annars þessari forsendu sá félagið sig knúið að láta á þetta mál reyna í eitt skipti fyrir öll fyrir dómsstólum.

Það er rétt að geta þess að Hagsmunasamtök Heimilanna þingfestu sitt mál fyrir nokkrum vikum, en það er mikilvægt að fólk átti sig á því að hér er ekki verið að láta reyna á sömu lagaheimildirnar. Hagsmunasamtök heimilanna eru samkvæmt upplýsingum félagsins ekki að láta reyna á það hvort verðtryggingin sé ólögleg eða ekki. Þeir eru hins vegar að láta reyna á það hvort upplýsingaskylda fjármálafyritækja skv. 5., 6. og 7. grein áðurnefndra laga hafi verið uppfyllt, en í þeim greinum er kveðið á um að  heildarlántökukostnaður eigi allur að koma fram á lánasamningum. En eins og almenningur veit þá er oft og tíðum ekki gert ráð fyrir neinni verðbólgu inni í greiðsluáætlunum og það er það sem HH ætla að láta á reyna, að ekki sé verið að fullnægja upplýsingaskyldu lánveitanda.

En eins og áður hefur komið fram lýtur mál Verkalýðsfélags Akraness að allt öðru, þ.e. hvort verðtrygging hér á landi standist lög eða ekki, því það er mat lögmanna félagsins að það sé óheimilt með öllu að lána flókna fjármálagjörninga, svokallaðar afleiður, til einstaklinga.

Stefnan vegna þessa máls er ítarleg og nemur hún á þriðja tug blaðsíðna og það verður afar fróðlegt að sjá hvernig þetta mál fer fyrir dómstólum. Það er mat formanns VLFA að hér sé um að ræða eitt brýnasta mál skuldsettra heimila og alþýðu þessa lands fyrr og síðar og er formaður fullur bjartsýni á að jákvæð niðurstaða muni nást frá dómsstólum í þessu máli.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image