• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Jan

Umfjöllun um verðtryggingarmál VLFA sem þingfest var í gær

Þá er prófmál um lögmæti verðtryggingar komið til dómstóla.  Málið var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur 29. janúar og er málinu stefnt gegn Landsbankanum hf.  Í raun var það tilviljun ein sem réði því hvaða fjármálafyrirtæki varð fyrir valinu sem gagnaðili, vinnist málið verður að telja að niðurstaða þess verði fordæmisgefandi gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum einnig.  Kröfur málsins sem varða verðtrygginguna og lögmæti hennar eru aðallega að ákvæði skuldabréfsins um verðtryggingu sé óskuldbindandi.  Til vara er þess krafist, að viðurkennt verði með dómi að óheimilt sé að uppreikna mánaðarlega höfuðstól skuldabréfsins skv. vísitölu neysluverðs.  Þá fylgir að lokum með krafa í síðari kröfulið stefnunnar, þess efnis að uppgreiðslugjald sem Landsbankinn hf. áskilur sér í stofnskjölum lánsins verði ógilt, en það er í augljósri andstöðu við ákvæði 16. gr. a í lögum um Neytendalán nr. 121/1994, eins og þeim var breytt með lögum 63/2008, en þar er mælt fyrir um að gjaldtaka af slíkum neytendalánum sé með öllu óheimil.

Aðal málsástæður lögmanna Verkalýðsfélags Akraness í þeim hluta málsins sem snýr að verðtryggingunni eru í fyrsta lagi þær að verðtryggingin eins og hún er framkvæmd, fari gegn MiFID tilskipuninni, sem gerir það að kröfu að ekki megi eiga viðskipti með flókna fjármálagerninga (afleiður) við neytendur.  Í öðru lagi er á því byggt, að lánveitingin, framkvæmd greiðsluáætlunar og upplýsingar um birtingu árlegrar hlutfallstölu kostnaðar standist ekki skilyrði neytendalánalaga og þeirra Evróputilskipana sem þau byggja á.  Í þriðja lagi er síðan byggt á því að um sé að ræða ósanngjarna samningsskilmála í skilningi samningalaga og neytendasjónarmiða þeim tengdum.  Með verðtryggingunni og framkvæmd hennar sé allri áhættu af framtíðarverðþróunum í landinu velt yfir á neytendur, um sé að ræða óvenju flókinn skilmála sem í raun enginn leið sé að átta sig á hvaða skuldbindingargildi felist í, því sé um að ræða ósanngjarnan samningsskilmála í skilning laganna og því beri að víkja honum til hliðar (ógilda).  Varakrafan um að óheimilt sé að höfuðstólsfæra verðbætur byggir á þeirri skoðun, að allt frá árinu 2001, hafi verið óheimilt að verðtryggja höfuðstól fjárskuldbindinga hér á landi, heldur einungis greiðslur.  Hagsmunasamtök heimilanna beindu erindi til umboðsmanns Alþingis fyrir einu og hálfu ári vegna þessa.  Umboðsmaður tók málið upp, sendi bréf til Seðlabanka Íslands og krafðist skýringa.  Í svari Seðlabankans kom fram, að bankinn teldi að útfærsla þessa hefði engin áhrif á endanlega efndaskyldu lántakenda, en að vísu treysti Seðlabankinn sér ekki til að senda útreikninga vegna jafngreiðslulána (annuitet), þar sem það væri svo flókið!  Þau lán eru nánast öll húsnæðislán landsmanna, þ.e. þau lán sem fólkið í landinu tók verðtryggð (algengt til 25-40 ára), en ljóst er að afleiðan í tengslum við vaxta- og vaxtavaxtatöku af slíkum lánum, er gegnvænleg, hvað sem snillingarnir í Seðlabankanum segja.   Þar sem umræddur ágreiningur er ekki hluti af því máli sem Hagsmunasamtökin sækja nú gegn Íbúðalánasjóði, þótti lögmönnum Verkalýðsfélags Akraness rétt að grípa boltann og láta á þetta reyna fyrir dómstólum, samfara megin ágreiningi málsins.

Brýnasta hagsmunamál alþýðunnar

Verkalýðsfélag Akraness telur að eitt mikilvægasta kjaramál hins almenna launamanns felist í því að leiðrétta skuldir heimilanna, sem hafa stökkbreyst á síðastliðnum árum, langt umfram launaþróun, á sama tíma og framfærslukostnaður og skattheimta ríkisins hefur stóraukist.  Það er grundvallaratriði ef hægt á að vera að semja um hóflegar launahækkanir verkafólks, að staða og útgjöld heimilanna vegna stökkbreyttra lána verði þá jafnframt leiðrétt.  Stjórn Verkalýðsfélags Akraness var einhuga í því efni að láta á lögmæti verðtryggingarinnar reyna fyrir dómstólum, enda virðist helsta leiðin til réttlætis hér á landi í seinni tíð liggja um dyr dómskerfisins.  Er það miður, enda má til þess ætlast að þjóðkjörnir fulltrúar gæti að hagsmunum venjulegs fólks í störfum sínum, en í stað þess hafa landsmenn mátt þola að horfa uppá grímulausa sérhagsmunagæslu stjórnmálaflokkanna, á meðan heimilum venjulegra landsmanna blæðir út.  Á sama tíma hafa peningaöflin innan Alþýðusambands Íslands algerlega brugðist hlutverki sínu og skyldum við hinn almenna launamann, enda liggur fyrir að þar er að finna nokkra af öflugustu varðhundum verðtryggingarinnar.  Á sama tíma er gríðarlegur verðbólguþrýstingur undirliggjandi og skattahækkanir ríkisstjórnarinnar virka með beinum hætti í þágu banka og fjármálafyrirtækja, enda hækka hinar verðtryggðu skuldir sjálfkrafa við hverja nýja álögu ríkisvaldsins.  Þetta er svikamylla gegn alþýðu landsins, ekkert annað!

Að lokum skorar Verkalýðsfélag Akraness á ríkisstjórnina og Alþingi allt, að kynna sér rækilega málatilbúnaðinn í málinu og bregðast við af ábyrgð.  Því miður var það ekki gert þegar ágreiningurinn um lögmæti gengistryggingarinnar kom upp á fyrri hluta ársins 2009, þá skellti ríkisstjórnin skollaeyrum við málinu og neitaði alfarið að kynna sér efnisatriði þess.  Löggjafarsamkoman hundsaði málið að mestu einnig.  Það varð svo algert uppnám innan stjórnmála- og peningakerfisins þegar ólögmætið var staðfest í Hæstarétti Íslands hinn 16. júní 2010.  Enn sér ekki fyrir endann á þeim málum öllum, enda virðist fjármálakerfið ekki virða lög og reglur nema skv. skipunum Hæstaréttar Íslands í hverju máli fyrir sig.  Vinnist málið um ólögmæti verðtryggingarinnar fyrir dómstólum, er það ekki vilji nokkurs manns að „tjónið“ lendi á ríkissjóði eða skattgreiðendum.  Því er vísasta leiðin til að lágmarka og stýra afleiðingunum að bregðast strax við af ábyrgð og gera þá eðlilegar ráðstafanir til varnar slíkri niðurstöðu í garð ríkisins.  Það er á ábyrgð stjórnmálamanna hvernig til tekst í því efni – til þess eru þeir kjörnir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image