• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Jan

Hækkun iðgjalda í lífeyrissjóð galin

Bullandi sóknarfæri fyrir launahækkun fiskvinnslufólks var ekki nýttRétt í þessu var að ljúka formannafundi Starfsgreinasambands Íslands. Þar fór Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ yfir drög að samkomulagi við Samtök atvinnulífsins vegna endurskoðunarákvæðis í kjarasamningum, en eins og flestir vita þá þarf að liggja fyrir niðurstaða fyrir 21. janúar nk. hvort aðildarfélög ASÍ vilja segja samningum upp eða ekki.  Það verður að segjast alveg eins og er að niðurstaðan í þessum drögum er afar rýr. Þau atriði sem um ræðir í þessu samkomulagi SA og ASÍ eru eftirfarandi:

Gildistími kjarasamninga milli aðila sem undirritaðir voru 5. maí styttist og gilda þeir til 30. nóvember 2013 en ekki 31. janúar 2014. Vissulega er það fagnaðarefni að samningurinn sé styttur um 2 mánuði en formaður vill minna menn á að síðasti kjarasamningur rann út 30. nóvember 2010 en ekki var lokið við gerð nýs kjarasamnings fyrr en 5. maí 2011 eða nánar tiltekið 6 mánuðum eftir að samningurinn rann út og samt var hann ekki látinn gilda frá þeim tíma sem hann rann út. Hins vegar var greidd 50.000 kr. eingreiðsla sem dekkaði alls ekki þá 6 mánuði sem launafólk var án launahækkana.  Á þeirri forsendu verður að tryggja að kjarasamningar gildi frá þeim tíma sem þeir renna út til að koma í veg fyrir það að atvinnurekendur hagnist á því að draga kjarasamningsgerðina úr hófi eins og gert var í síðustu samningum.

Talað er um í þessum drögum að iðgjöld í mennta- og fræðslusjóðina hækki um 0,1% í áföngum. Vissulega ber að fanga þessu en það skondna í þessu er að þetta á ekkert að koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2014 og hefur í raun ekkert með þessa endurskoðun á kjarasamningunum að gera, enda hefði það verið í lófa lagið fyrir stéttarfélögin að semja um þetta í næstu samningum.

 Í bókun sem gerð var í kjarasamningunum 2011 er talað um jöfnun á lífeyrisréttindum á hinum almenna vinnumarkaði við opinbera starfsmenn og þar er talað um að hækka iðgjöld í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5% eða sem nemur 3,5% á næstu árum. Í þessum drögum sem nú liggja fyrir vegna endurskoðunar er talað um að þessi bókun haldi sér og iðgjöld hækki úr 12% í 15,5% frá árinu 2014 til 2020. Þessu varar formaður Verkalýðsfélags Akraness stórlega við, því það er algert glapræði að setja meira inn í lífeyrissjóðskerfið á hinum almenna vinnumarkaði á meðan kerfið hefur ekki náð að sýna fram á sjálfbærni sína. En í dag er tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða innan ASÍ neikvæð sem nemur 100 milljörðum og það þrátt fyrir að búið sé að skerða lífeyrisréttindi á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða frá hruni. Á þessari forsendu leggst Verkalýðsfélag Akraness alfarið gegn því að framlagið verði aukið um 3,5% á næstu árum því það er engin ástæða fyrir sjóðsfélaga að leggja meira inn í þessa hít á meðan sjóðirnir geta ekki sýnt fram á að þeir geti staðið við sínar skuldbindingar nú þegar.

Í málflutningi stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness hefur margoft komið fram að hafi menn í hyggju að segja upp samningum þá verði að fara fram allsherjaratkvæðagreiðsla á meðal allra félagsmanna sem vinna eftir kjarasamningunum. Það getur ekki verið hlutverk fámenns hóps að taka slíka ákvörðun, eins og gerðist m.a. við endurskoðun kjarasamninganna 2009 þegar umsamdar launahækkanir voru hafðar af launafólki með því að fresta þeim um nokkra mánuði. Verkalýðsfélag Akraness hefur sagt að hafi atvinnugreinar burði og getu til að hækka laun, eins og t.d. útgerðarfyrirtækin, þá eigi þau að gera slíkt, enda voru gerð stórfelld mistök í síðustu kjarasamningsgerð með svokallaðri samræmdri launastefnu þar sem ekki mátti taka tillit til sterkrar stöðu útgerðarfyrirækja. En nú er komið í ljós að það er sögulegur hagnaður hjá útgerðinni en hreinn hagnaður hennar á síðasta ári nam 60 milljörðum króna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image