• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Jan

Matarverð hækkað um 115%!

Síðastliðinn miðvikudag var formaður félagsins í viðtali í Reykjavík síðdegis þar sem formaður spurði hvort það væri virkilega þannig að enginn hefði eftirlit með mælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að mælingin hefur gríðarleg áhrif á skuldir heimila og fyrirtækja. Sem dæmi þá hækkaði neysluvísitalan um 1% á milli mánaða í febrúar 2012 sem gerði það að verkum að verðtryggðar skuldir heimilanna hækkuðu um 14 milljarða króna og það bara á 29 daga tímabili. Á síðustu 12 mánuðum hafa bara verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um tæpa 60 milljarða en rétt er að geta þess að frá 1. janúar 2008 hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hins vegar hækkað yfir 400 milljarða. Á þessu sést hverlags grímulaust rugl þessi verðtrygging er gagnvart skuldsettum heimilum enda hefur verðtrygging gert það að verkum að uppundir 50% af heimilum landsmanna eru tæknilega gjaldþrota.

Í mínum huga liggur það algerlega fyrir að framkvæmd mælinga neysluvísitölunnar þarf að vera hafin yfir allan vafa í ljósi þeirrar staðreyndar að verið er að mæla verðlagsbreytingar á 4.000 vöruflokkum í hverjum mánuði. Ástæða þess að mælingin þarf að vera hafin yfir alla vafa er augljós enda eru milljarða tugir að færast frá skuldsettum heimilum og fyrirtækjum yfir til fjármálafyrirtækja og þeirra sem eiga fjármagnið í þessu landi og upphæðin ræðst af því hversu mikið neysluvísitalan hækkar. Á þeirri forsendu skilur formaður félagsins alls ekki þann gríðarlega leyndarhjúp sem liggur yfir störfum þeirra sem vinna við mælingu á neysluvísitölunni og kallar formaður því eftir skýrum svörum um hver hefur eftirlit með störfum þeirra en formaður hefur reyndar grun um enginn sjái um þetta eftirlit.

Það liggur fyrir að Hagstofan segist virða trúnaðarskyldur við þátttakendur í mælingum og gefur ekki þriðja aðila upplýsingar um hvar eða hvað er mælt og segist alls ekki gefa upp upplýsingar um einstakar vörur eða verðmælingar þeirra, það er þessi leyndarhjúpur sem formaður gagnrýnir harðlega.  Formaður spyr: hví í ósköpunum eiga t.d. fulltrúar heimilanna eða launafólks ekki sæti í þessari nefnd til að sinna eftirliti með að mælingin sé örugglega rétt framkvæmd í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi.

En er neysluvísitalan rétt mæld?

Um það hef formaðurinn engar forsendur til að meta enda ríkir mikil leynd yfir öllum störfum Hagstofunnar hvað mælinguna varðar og má eiginlega segja að nefndin starfi inní reykfylltum bakherbergjum og allt bendir til þess að það sé án nokkurs eftirlits. Það skiptir gríðarlegu máli að almenningur hafi vitneskju um verðlagsþróun, ekki aðeins vegna áhrifa neysluvísitölunnar á verðtryggðar skuldir landsmanna, heldur einnig vegna þróunar kaupmáttur launafólks á milli ára.

Fjölmargir félagsmenn hafa haft samband við formann félagsins og kvartað sáran yfir þeim skefjalausu hækkunum sem dunið hafa á neytendum á liðnum árum og það úr öllum áttum. Ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, orkufyrirtæki, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar hafa varpað sínum vanda grímulaust yfir á neytendur og eru heimilin gjörsamlega að sligast undan öllum þessum verðhækkunum.

Nokkrir aðilar hafa nefnt við formann að þeir hafi það á tilfinningunni að verðhækkanir undanfarin misseri séu heldur meiri en hækkun neysluvísitölunnar segir til um og vilja meina að staðan sé fegruð með því láta hækkun neysluvístölunnar vera minni en hún er í raun. Formaður vill taka fram að hann vonar að þetta sé ekki raunin enda er verðbólgan næg fyrir og maður hefur eins áður sagði ekki nokkra forsendur til að gefa sér af mælingin sé ekki rétt hjá Hagstofunni.

Hins vegar var formanni hugsað sterklega til þeirra einstaklinga sem hafa nefnt þessar áhyggjur við formanninn  þegar hann fékk fyrir fáeinum dögum send gögn frá manneskju sem sýna að vöruverð í Bónus hefur hækkað að meðaltali um 115% frá júní 2007 til desember 2012 á þeim vörutegundum sem hann keypti. Málið er að þessi einstaklingur keypti 40 vörur Bónus í júní 2007 og geymdi strimilinn. Í desember 2012 fór viðkomandi aftur í Bónus og keypti nákvæmlega sömu 40 vörunar og bar síðan saman strimlana. Þá kom í ljós að á þessu tímabili höfðu þessar vörur hækkað gríðarlega eða eins og áður sagði að meðaltali um 115%. Þessi einstaklingur nefndi einnig að á sama tímabili hafi bensínverð hækkað um 101%. Hins vegar var hækkun neysluvísitölunnar fyrir sama tímabil eða frá júní 2007 til desember 2012 einungis 47,6%.

Formaður verður að viðurkenna að hann hrekkur ögn við þegar hann skoðar þetta í ljósi þess að verð á þessum vörum hækkaði um 115% og bensínverð um 101% en neysluvísitalan hækkaði um rúm 47% á sama tíma.  Vissulega eru þetta fáar vörutegundir sem um ræðir en það er ekki ein einasta vara sem hefur hækkað um minna 47% og því gefur þessi mikla verðhækkun vísbendingar um þær gríðarlegu verðhækkanir sem orðið hafa á undanförnum árum.

Getur verið að verðlagshækkanir séu mun meiri en Hagstofan mælir? Alla vega benda þær upplýsingar sem þessi einstaklingur gaf mér til þess að svo sé.  Formaður félagsins spyr: geta verslunareigendur blekkt Hagstofuna þegar verðkannanir eiga sér stað mánaðarlega?  Það hefur alla vega komið fram hjá Hagstofunni að verslanir og fyrirtæki viti í flestum tilvikum ef þau eru þátttakendur í mælingu á vísitölu neysluverðs.

Í ljósi þeirrar staðreyndar að gríðarlegir hagsmunir er hér í húfi þá krefst formaður þess að upplýst verði hvort einhverjir hafi eftirlit með mælingum Hagstofunnar og fari yfir störf hennar og ef svo er, hverjir það eru. Þessi leyndarhjúpur yfir mælingu á neysluvísitölunni er ólíðandi með öllu og getur ekki verið eðlilegur í ljósi þeirra hagsmuna sem almenningur í þessu landi hefur af því að hún sé rétt framkvæmd og því kallar formaður eftir gagnsæi á störfum hennar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image