• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

24
Mar

Skelfilegt slys í Norðuráli í dag

Alvarlegt vinnuslys varð í álveri Norðuráls á Grundartanga rétt fyrir klukkan þrjú í dag. Slysið varð fyrir utan einn af kerskálum álversins þegar stórum lyftara var ekið á starfsmann sem var á gangi.

Stjórn VLFA leggur mikla áherslu á að öryggismál starfsmanna séu í góðu lagi og á þeirri forsendu fór formaður félagsins á slysstað í dag til að kynna sér hvað hafi valdið þessu hörmulega slysi. Lögreglan og vinnueftirlitið voru að störfum þegar formann bar að garði og er afar erfitt að segja á þessari stundu hvað hafi valdið þessu slysi.

Formaður hitti öryggistrúnaðarmann Norðuráls í dag en fram kom hjá honum að aðkoman að slysinu hafi verið afar ljót og aðstæður á slysstað hafi verið afar erfiðar.  Slysið varð utandyra og þegar það gerist var veður afar slæmt, hávaðarok og mikil úrkoma.  Það var alveg ljóst að starfsmönnum var verulega mikið brugðið við þetta hræðilega slys í dag.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem formaður hefur fengið þá eru umtalsverðar líkur á að starfsmaðurinn missi annan fótinn í þessu hræðilega slysi. 

Stjórn félagsins sendir þeim starfsmanni sem lendi í umræddu slysi ósk um eins skjótan bata og hægt er og ekki síður þeim er varð fyrir því óláni að aka á starfsmanninn.  Einnig er mikilvægt að hlúa að þeim starfsmönnum sem komu fyrstir á slysstaðinn og veita þeim áfallahjálp.  Sem dæmi má nefna er áfallateymi starfrækt hjá Íslenska járnblendifélaginu og er það ræst út þegar alvarleg slys verða hjá Íslenska járnblendinu.   Formanni er ekki kunnugt um hvort slíkt teymi sé starfrækt hjá Norðuráli. 

23
Mar

Fara verður varlega í breytingu á veikinda-og slysarétti

Í gær var haldinn ráðstefna sem bar yfirskriftina Ný tækifæri til atvinnuþátttöku.  Þeir sem stóðu fyrir ráðstefnunni voru Öryrkjabandalagið og Vinnumálastofnun í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins.

Margir góðir aðilar fluttu erindi á ráðstefunni t.d Laila Gustavsen ráðuneytisstjóri í atvinnumálaráðneyti  Noregs. Fram kom í máli hennar að Norðmenn eru að gjörbylta þessum málum hjá sér og t.d hefur Norska Vinnumálastofnunin og Tryggingastofnun verið sameinuð.  Fram kom í máli hennar að Norðmenn eru að einfalda kerfið svo fólk þurfi aðeins að leita á einn stað.  Með áðurnefndri sameiningu verður atvinnu-og félagsleg ráðgjöf á einum stað.  Einnig kom fram hjá Laila að Norðmenn hafa virkilega trú á því að þær umbætur sem þau vinna nú að hafi þau áhrif að það hægi verulega á fjölgun öryrkja.

Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu fór yfir helstu niðurstöður úr örorkumatsnefndinni sem skipuð var af forsætisráðherra.  Í máli hans kom fram að nefndin var sammála um að stórefla þyrfti starfsendurhæfingu hér á landi í því skyni að hjálpa einstaklingum sem af einhverjum ástæðum hafa ekki náð að festa rætur á vinnumarkaðnum sökum örorku.

Einnig var Gylfi Arnbjörnsson frá ASÍ með erindi sem bar heitið,,Endurskoðun samningsbundinna veikinda- og slysaréttinda í ljósi nýrra viðhorfa til endurhæfingar". 

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa verið að ræða saman að undanförnu um breytingu á veikinda- og slysarétti, en megin markmið ASÍ og SA er að stofna nýjan Áfallatryggingarsjóð.  Í þeim tillögum sem Gylfi fór yfir á fundinum í gær er gert ráð fyrir verulegum breytingum á veikinda- og slysarétti launafólks á hinum almenna vinnumarkaði og einnig er gert ráð fyrir því að stór hluti framlags atvinnurekanda í sjúkrajóði stéttarfélaganna muni renna í þennan nýja áfallatryggingarsjóð.  Einnig er gert ráð fyrir aðkomu ríkisins, sveitarfélaga og lífeyrissjóða að þessum nýja sjóði.  Rétt er að geta þess að þessar viðræður eru á algjöru byrjunarstigi. 

Það sem Gylfi kynnti á ráðstefnunni í gær hugnast formanni félagsins alls ekki og telur formaður að stíga verði afar varlega í þessu máli.  Hugmyndir um breytingu á sjúkrasjóðum félaganna og einnig breytingu á veikinda-og slysaréttinum hugnast formanni félagsins ekki og það eru verulega skiptar skoðanir varðandi þessar hugmyndir innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins. 

 Vissulega eru allir sammála því að stórefla verði starfsendurhæfingu og það er eitthvað sem stéttarfélögin geta svo sannarlega tekið þátt í að gera í fullri samvinnu við ríkið, sveitarfélögin, lífeyrissjóðina og alla þá sem hafa hagsmuni af því að efla starfsendurhæfingu. 

En umpólun sjúkrasjóða stéttarfélaganna og hugmyndir um að skerða veikindarétt er eitthvað sem formaður VLFA hræðist.  Vissulega er rétt að geta þess enn og aftur að þessi mál eru á byrjunarstigi og erfitt að leggja endanlegt mat á þessa fyrirhuguðu breytingu.

Reyndar undrast formaður félagsins af hverju við Íslendingar förum ekki sömu leið í þessum málum og Norðmenn eru að gera.  En í máli Lailu var ekki annað að skilja en að norska ríkið sæi alfarið um alla þá þætti er lúta að þeim breytingum sem þar er verið að gera í þessum sama málaflokki.   

Fyrir örfáum vikum skilaði öryrkjanefnd sem skipuð var af forsætisráðherra skýrslu um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar en nefndinni var ætlað að koma með tillögur til úrbóta í þessum málum.  Það er lítið mál að leggja fram fagrar skýrslur sem eiga að taka á þessum málum er lúta að starfsendurhæfingu þeirra sem dottið hafa út af vinnumarkaðnum.  Hins vegar er öllu meira mál  hver eigi að fjármagna þessa auknu starfsendurhæfingu og hver á að hafa umsjón með henni, en þeim spurningum hefur ekki verið svarað.

Í Kastljósi á mánudaginn sl. var afar athyglisvert viðtal við Ástu Gunnarsdóttur kennara en hún átti við geðræn vandamál að stríða til langs tíma en hefur nú náð bata með aðstoð iðjuþjálfunardeildar Landsspítalans.  Ásta hefur verulegar áhyggur af því að iðjuþjálfun hjá geðdeild Landsspítalans verði lokað 1. maí nk. þar sem ekki fást iðjuþjálfar til starfa vegna lágra launa.  Hún telur að sú endurhæfing sem hún fékk hjá iðjuþjálfun Landsspítalans hafi algerlega bjargað sér og gert það að verkum að hún varð aftur vinnufær. 

Það er hálf kaldhæðnislegt að á sama tíma og verið er að skila skýrslu sem skipuð var af forsætisráðherra um að stórefla þurfi starfsendurhæfingu þá næst ekki að manna iðjuþjálfunardeild Landsspítalans og allt útlit að henni verði lokað 1. maí vegna þess að laun iðjuþjálfa eru alltof lág.   

Hvernig væri fyrir hið opinbera að það tæki á svona máli eins og Ásta bendir réttilega á af fullri einurð og ákveðni og bjargi því að iðjuþjálfun á Landsspítalanum leggist ekki af.  Flottar nefndir og fagrar skýrslur skila ekki miklu einnar og sér.  Það eru allir sammála um að það þarf að stórauka starfsendurhæfingu til að það takist þá þarf ríkið að koma að því máli af fullum þunga og leggja verulega aukið fé í það verkefni. Eigum við ekki að byrja á því að hlúa að þeim meðferðarúrræðum sem þegar eru til staðar áður en menn leggjast í stórbreytingar á kerfinu.

Hægt er að horfa á viðtalið við Ástu Gunnarsdóttur í Kastljósinu með því smella hér   

21
Mar

Stéttarfélag á hraðri uppleið

Stjórn félagsins fundaði á mánudaginn var og á fundinum var farið yfir hinn ýmsu mál sem nú eru í gangi hjá félaginu.  

Stjórn félagsins ákvað á fundinum í gær að aðalfundur félagsins skuli vera haldinn á svipuðum tíma og í fyrra eða nánar tiltekið seinni partinn í apríl.

Nú eru að verða liðinn fjögur ár frá því núverandi stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness.  Það verður að segjast alveg eins og er að VLFA hefur tekið algjörum stakkaskiptum á þessum fjórum árum bæði hvað varðar félagslega þáttinn og alls ekki síður fjárhagslega, en félagsjóður var til að mynda rekinn á yfirdrætti þegar ný stjórn tók við 2003.

Stjórn félagsins hefur á þessum fjórum árum tekist að snúa þessari skelfilegu fjárhagsstöðu algjörlega við og er fjárhagsstaða félagsins mjög góð um þessar mundir.

Fjölgað hefur um rúma 500 félagsmenn á þessum árum og þjónustan við félagsmenn hefur verið stóraukin.  Vissulega er stjórnin þó meðvituð um að alltaf má gera betur hvað varðar þjónustu við félagsmenn.  En markmiðið er skýrt hjá stjórn félagsins, það er að vera það stéttarfélag sem býður sínum félagsmönnum uppá hvað bestu þjónustuna.

Til að nálgast þetta markmið hefur stjórn sjúkrassjóðs ákveðið að bæta við í það minnsta þremur nýjum styrktarflokkum úr sjúkrasjóði félagsins.  Þetta verður kynnt nánar á aðalfundi félagsins í apríl.

21
Mar

Hvaða orlofsstaðir eru í boði 2007?

Að undanförnu hafa starfsmenn félagsins unnið að því koma umsóknum um orlofshús/íbúð í póst.  Umsóknarblöðin ættu að vera búinn að berast öllum félagsmönnum um og eftir helgina.

Umsóknarfrestur er til kl. 14:00 föstudaginn 13.apríl.  Þau orlofshús sem félagið býður uppá í sumar eru á eftirfarandi stöðum:

  • Svínadalur Hvalfjarðastrandarhreppi.
  • Ölfusborgir við Hveragerði.
  • Húsafell í Borgarfirði.
  • Hraunborgir í Grímsnesi.
  • Íbúð í Stykkishólmi.
  • Þrjár íbúðir á Akureyri.
  • Sumarbústaður að Eiðum.
  • Bláfell Biskuptungum.
20
Mar

Fundað um bónuskerfi Íslenska járnblendifélagsins

Formaður félagsins ásamt aðaltrúnaðarmanni Íslenska járnblendifélagsins funduðu með Ingamundi Birni forstjóra IJ og  Önnu Dóru Guðmundsdóttur en hún er ný tekin við starfi sem nefnist  mannauðsstjórnandi hjá ÍJ.

Tilefni fundarins var að fara yfir ýmsa þætti í bónuskerfi fyrirtækisins sem ekki hafa verið að virka sem skildi.  Því miður hefur bónuskerfið  ekki verið að skilja þeim árangri sem samningsaðilar voru sammála um að það ætti að geta gefið starfsmönnum. 

Í samningaviðræðunum þegar kjarasamningur var gerður árið 2005 kom fram að aðilar áætluðu að bónusinn myndi að jafnaði vera í kringum 5,6% á samningstímanum.  Á árinu 2006 var bónusinn hins vegar einungis 3.38% eða sem nemur 2.2% minna heldur en aðilar vonuðust til að hann myndi gefa.

Formaður hefur fundað með trúnaðartengiliðum vegna þessa máls.  Fólu trúnaðartengiliðir ÍJ formanni að leggja til breytingar á bónuskerfinu og á fundinum í morgun afhenti formaður félagsins fram tillögur þar að lútandi. 

Forstjóri Íj tók nokkuð jákvætt í þessar tillögur.  Ákveðið var að funda aftur í byrjun apríl og mun forstjóri IJ væntanlega svara á þeim fundi hvort fyrirtækið sé tilbúið að ganga að þessum tillögum eða ekki.

Fram kom í máli Ingimunds að gríðarlegur tími og orka hefur farið í að undirbúa verkefni er lítur að hinni nýju sérframleiðslu sem hefst væntanlega næsta vor . 

En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá mun Íslenska járnblendifélagið hefja framleiðslu á svokölluðu sérefni sem nefnist FSM og við það mun rekstur verksmiðjunnar styrkjast til mikilla muna að sögn þeirra sem til þekkja.  Við þessa stækkun munu skapast í kringum 35 til 40 ný störf.

Formaður félagsins telur afar ánægjulegt að forsvarsmönnum Íj hafi tekist að ná þessari sérframleiðslu hingað til lands,  einfaldlega vegna þess að rekstur IJ hefur verið nokkuð sveiflukenndur á liðnum árum og áratugum.  En eins og áður sagði þá eru umtalsverðar líkur á því rekstur verksmiðjunar sé nokkuð vel tryggður í það minnsta næsta áratuginn með tilkomu á áðurnefndri sérframleiðslu FSM.

19
Mar

Landburður hjá Ísaki Ak 67

Það er óhægt að segja að það sé líf og fjör á bryggjunni þessa dagana.  Það er ekki aðeins að mikið berist af loðnu heldur er alger landburður hjá smábátnum Ísaki Ak 67.

Rétt í þessu lagðist Ísak að bryggju með rúm 7 tonn og var einungis búinn að draga þrjár trossur og átti aðrar þrjár úti.  Um leið og búið var að landa héldu þeir félagar Eiður Ólafsson og Kristófer Jónsson út til að vitja þeirra neta sem eftir voru. 

Ekki óvarlegt að áætla að heildaraflinn verði nálægt 15 tonnum þegar þeir félagar hafa vitjað þeirra neta sem þeir áttu eftir að draga. Ísak AK er 11,6 tonn að stærð.  Það hefur gengið ótrúlega vel hjá þeim félögum á þessari vertíð enda er hér um algera harðjaxla um að ræða.  Það verður hins vegar ekki tekið af Eiði Ólafssyni að hann er  einstaklega fengsæll skipstjóri. 

Rétt er að geta þess að þeir félagar á Ísaki Ak eru báðir félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.

19
Mar

Uppgrip hjá skipverjum á Víkingi Ak

Víkingur Ak var snöggur að fylla sig af loðnu en það tók einungis rétt rúman sólahring að fá um 1.300 tonn.  Formaður fór á bryggjuna í morgun og fékk þær upplýsingar að loðnan hafi veiðst við Malarrifið á Snæfellsnesi.

Faxi Re lá einnig við bryggju með fullfermi þannig að það er nóg að gera við hrognatöku sem og í síldarbræðslunni. 

Það er óhætt að segja að það hafi verið uppgrip hjá skipverjunum á Víkingi Ak.  Formaður félagsins heyrði að hásetahluturinn sé að nálgast þrjár milljónir króna og það á rétt tæpum tveimur mánuðum. Skýrist þessi góði aflahlutur fyrst og fremst af því að afurðaverð er mjög gott þessa stundina, einnig hefur áhöfninni á Víkingi gengið mjög vel við loðnuveiðarnar sjálfar. Víkingur Ak á hugsanlega einn til tvo fullfermistúra eftir sé tekið tillit til þess að ekki verði bætt enn frekar við loðnukvótann.

16
Mar

Gríðarlegt annríki vegna skattaframtalsaðstoðar

Gríðarlegt annríki hefur verið á skrifstofu félagsins vegna skattaframtalsaðstoðar sem félagið bíður uppá. Mun fleiri hafa nýtt sér þessa þjónustu í ár sé miðað við árið í fyrra.

Núverandi stjórn ákvað þegar hún tók við árið 2003 að bjóða uppá þessa þjónustu og eins og áður sagði hefur hún svo sannarlega fallið í góðan jarðveg hjá félagsmönnum.

Tugir erlendra starfsmanna hafa þegið þessa þjónustu á undanförnum dögum og er afar ánægjulegt að sjá að erlent vinnuafl er að nýta sér þá þjónustu sem félagið bíður uppá.

Þær Hugrún Olga Guðjónsdóttir og Björg Bjarnadóttir hafa borið hitann og þungann af þessari þjónustu og hafa gert það með glæsibrag.

15
Mar

Formaður félagsins og framkvæmdastjóri SGS fóru á fund sérnefndar Alþingis í morgun

Formaður félagsins fór í morgun ásamt framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins á fund sérnefndar Alþingis sem hefur það verkefni að fjalla um frumvarp um auðlindaákvæði í stjórnarskrá (þjóðareign á náttúruauðlindum).

Hafði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar óskað eftir áliti SGS á umræddu frumvarpi. 

Skúli Thoroddsen framkvæmdastjóri SGS fór yfir afstöðu SGS í þessu máli og kom fram í hans máli að SGS vill að náttúruauðlindir Íslands séu í þjóðareign og þær nýttar til hagsbóta fyrir þjóðina.  

Formaður félagsins telur það afar brýnt að auðlindir hafsins sem og aðrar auðlindir séu eign þjóðarinnar.  Hins vegar verður að tryggja að frumvarpið skapi ekki réttarfarslega óvissu. 

Það er með öllu óþolandi að horfa uppá hvernig kvótakerfið hefur leikið margar byggðir þessa lands.  

Það getur vart verið eðlilegt að útgerðamaður sem hefur umráðarétt yfir aflaheimildum geti ákveðið uppá sitt einsdæmi að hætta útgerð og selt allar aflaheimildir frá sér og skilið heilt byggðarlag í sárum.  Gengið í burtu með tugi ef ekki hundruði milljóna króna í vasanum og skilið sjómenn og fiskivinnslufólk eftir atvinnulaust og nánast allslaust. 

Þetta atvinnuóöryggi sem sjómenn og fiskvinnslufólk þarf að búa við er ekki nokkrum bjóðandi.  Við Skagamenn höfum að undanförnum misserum þurft að horfa eftir umtalsverðum aflaheimildum sem seldar hafa verið burt úr bænum.  Nægir þar að nefna að smábátaútgerð hér á Akranesi hefur dregist stórlega saman á síðustu mánuðum.  Einnig hefur starfsfólki Haraldar Böðvarssonar fækkað umtalsvert við sameiningu við Granda.  Starfsöryggi sjómanna og fiskivinnslufólks er verulega ótryggt í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Það er gríðarlega mikilvægt að sátt náist í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmál okkar Íslendinga.  Það sjávarútvegskerfi sem við búum við núna er eins ósanngjarnt og hugsast getur og því þarf að breyta, þjóðinni allri til hagsbóta.

14
Mar

Fast þeir sóttu sjóinn

Formaður félagsins kíkti á bryggjuna snemma í morgun og hitti þar harðjaxlana Eið Ólafsson og Kristófer Jónsson en þeir eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.

Þeir félagar er á tólf tonna bát sem ber nafnið Ísak Ak 67.  Voru þeir Eiður og Kristófer að  koma úr róðri í skítabrælu, suðvestan 7 til 8 vindstigum með drekkhlaðinn bát samtals um 11 tonn.

Þeir tjáðu formanni að fiskiríið sé búið að vera með ágætum það sem af er vertíð.   Núna sé staðan hins vegar þannig að erfitt sé að fá leigukvóta og verðið sé einnig mjög hátt. 

Það er alveg óhætt að segja að trillusjómennskan sé ekkert sældarlíf þegar veður eru válynd eins og oft vill verða hér á Íslandi.  Nægir að heyra fréttir að sjóslysinu frá því í gærkveldi vestur á fjörðum til að sjá hversu hættulegt starf trillusjómennska getur verið.  En vissulega eru æði margir ljósir punktar varðandi trillusjómennsku, tekjurnar geta t.d verið mjög góðar þegar aflar vel.  Og í góðri tíð og góðu fiskiríi er fátt skemmtilegra en að vera í snertingu við hafið og anda að sér tærum sjávarilmi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image