• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Jun

Fundað um kjaramál á Egilsstöðum

Í dag 8. júní komu fulltrúar frá nokkrum landsbyggðarfélögum Starfsgreinasambandsins saman til fundar á Egilsstöðum til að ræða framkomnar hugmyndir um breytingar á veikinda og slysarétti launafólks innan ASÍ og hugsanlegt samstarf í komandi kjarasamningum. Kjarasamningar eru lausir 31. desember n.k. Mikil samstaða, baráttuhugur og góður andi ríkti á fundinum.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness var fulltrúi félagsins á umræddum fundi.Niðurstaða fundarins er að ekki komi til greina að blanda inn í gerð komandi kjarasamninga þeim hugmyndum sem komið hafa fram af hálfu nefndar Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins er lúta að stofnun ,,Áfallatryggingasjóðs”. Fundarmenn tóku saman greinargerð um málið þar sem afstaða hópsins er skýrð. Greinagerðin fylgir hér á eftir.Eftir fundinn er kominn góður grundvöllur til áframhaldandi samstarfs og tillögugerðar fyrir komandi kjarasaminga. Næsti fundur félagana og þeirra félaga sem vilja vera með verður haldinn 6. júlí á Sauðárkróki.

Hægt er er að lesa sameignlega yfirlýsingu frá þeim aðilum sem sátu fundinn með því að smella á meira.

Yfirlýsing:

Föstudaginn 8. júní komum við neðangreind saman á Egilsstöðum til að ræða framkomnar hugmyndir að breytingum á veikinda og slysarétti launafólks innan ASÍ,  og hugsanlegt samstarf í komandi kjarasamningum.

Niðurstaða okkar er að ekki komi til greina að blanda saman þeim hugmyndum sem komið hafa fram af hálfu nefndar SA og ASÍ er lúta að stofnun ,,Áfallatryggingasjóðs” við gerð komandi kjarasamninga.

Ljóst er eftir fundinn í dag að kominn er góður grundvöllur til áframhaldandi samstarfs og tillögugerðar fyrir komandi kjarasaminga. Næsti fundur hópsins verður 6. júlí á Sauðárkróki

Vegna hugmynda um þróun áfallatrygginga eins og það er nefnt í minnisblaði sameiginlegrar nefndar ASÍ og SA viljum við taka eftirfarandi fram.

  1. Þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram fyrir aðildarfélögin eru lítt mótaðar og óljósar.
  2. Í minnisblaðinu er tekið fram að aðeins sé lokið fyrsta áfanga af fimm eða fleirum, í undirbúningi þessara breytinga.
  3. Samráð við aðildarfélög hefur verið af skornum skammti hingað til og nauðsynlegt er að forystufólki aðildarfélaga og sjúkrasjóða þeirra fái að kynna sér tillögurnar.
  4. Þrátt fyrir ofangreint virðist af, m.a. ummælum framkvæmdastjóra SA í fjölmiðlum nú nýverið, sem uppi séu hugmyndir um að taka þessar breytingar upp í komandi kjarasamningum .
  5. Í minnisblaði nefndarinnar er tekið fram að til undirbúnings næsta áfanga sé nauðsynlegt að fá ábendingar frá „baklandi nefndarinnar“ eins og það er orðað, þ.e. stéttarfélögum og fyrirtækjum. Okkur er ekki kunnugt um að óskað hafi verið slíkra ábendinga né að undirbúningur formlegrar vinnu við slíkt ferli sé hafinn.
  6. Þær hugmyndir sem fyrir liggja, fela í sér veigamiklar breytingar á nánast öllum þáttum veikinda- og slysaréttar félagsmanna okkar og stöðu sjúkrasjóða félagsmannanna. Það er því eðlilegt að við viljum stíga varlega til jarðar í þessu máli.
  7. Sumar af þeim hugmyndum sem felast í tillögunum eru jákvæðar við fyrstu sýn. Endurskoðun á rétti og málsmeðferð örorkubótaþega er brýn og ýmislegt jákvætt hefur verið unnið síðustu ár til að auka lífsgæði þessa fólks – s.s. Janus endurhæfing og Starfsendurhæfing Norðurlands.
  8. Framkomnum hugmyndum má skipta í eftirfarandi þætti sem hvern um sig má framkvæma sjálfstætt.
  9. Aukin réttindi og bætt lífskjör örorkuþega með nýjum úrræðum. Þennan þátt styðjum við en bendum á að mestu breytingarnar verða að vera hjá opinberum aðilum en ekki stéttarfélögum.
  10. Flutningur veikindaréttar frá fyrirtækjunum til sjúkrasjóða stéttarfélaganna.Þetta er framkvæmanlegt með hækkun sjúkrasjóðsiðgjalda.
  11. Miðstýrð stjórnun við endurhæfingarmeðferð. Hér sjáum við ekki rökin eða nauðsyn. Við teljum þessum verkþætti best komið í heimabyggð og bendum á góðan árangur m.a. Starfsendurhæfingar Norðurlands.
  12. Flutningur sjúkrasjóðsiðgjalda í sameiginlegan sjóð þar sem forræði sjúkrasjóðs og þar með veikindaréttar félagsmanna er framseldur til sjóðs þar sem verkalýðshreyfingin hefði þegar best léti helming stjórnarmanna. Að svo stöddu sjáum við engann tilgang með þessari breytingu og sýnist að hér verði einungis búið til ný miðstýrð stofnun sem fjarlægist verkalýðshreyfinguna í hugum félagsmanna okkar og fái á sig hálfopinberan stimpil. Að auki höfum við verulegar efasemdir um að aðrir ,,aðilar” leggi þessu nýja „kerfi“ til fjármagn án þess að krefjast áhrifa í stjórn sjóðsins. Þannig yrðu fulltrúar verkalýðsfélaganna í minnihluta stjórnar innan skamms og forræði hreyfingarinnar á þessum mikilvæga þætti réttinda launafólks horfið.
  1. Með tilliti til þróunar í nágrannalöndum okkar þar sem sífellt harðar er sótt að verkalýðsfélögum með þeim afleiðingum að félagsaðild fer minnkandi, teljum við sjúkrasjóði stéttarfélaganna eitt mikilvægasta tæki okkar til að tryggja framtíð verkalýðshreyfingarinnar. Þess vegna finnst okkur fráleitt að setja stærstan hluta veikindaréttar félagsmanna okkar í einn pott með stjórnaraðild SA og mögulega fleiri og sjáum verulegar líkur á því að innan fárra ára verði unnt að kaupa sér réttindi þar án félagsaðildar í verkalýðsfélagi.

Að teknu tilliti til ofangreindra atriða teljum við útilokað að breytingar á veikinda-og slysarétti félagsmanna okkar í anda þessara tillagna verði til umfjöllunar í komandi kjarasamningum.

AFL – Starfsgreinafélags                 VerkalýðsfélagHúsavíkur og nágrennis

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir        AðalsteinnBaldursson

Sigurður Hólm Freysson              Kristbjörg Sigurðardóttir

Sverrir Albertsson                      Olga Gísladóttir                                                                                                             

Aldan Stéttarfélag                                    Verkalýðsfélag  Akraness

Þórarinn Sverrisson                                     VilhjálmurBirgisson

Dífandi Stéttarfélag

Arnar Hjaltalín

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image