• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

16
Feb

Félagsmálanefnd Alþingis óskar eftir umsögn frá Verkalýðsfélagi Akraness

Félagsmálanefnd Alþingis hefur óskað eftir að Verkalýðsfélag Akraness gefi umsögn um frumvarp til laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör þeirra.

 Að sjálfsögðu verður VLFA við þessari ósk félagsmálanefndar og skilar umsögninni inn fyrir tilskilinn tíma sem er 20. febrúar 2007.

Formaður félagsins vinnur nú við að fara yfir frumvarpið og það er alveg ljóst að atriði í þessu frumvarpi eru til verulegra bóta fyrir erlenda starfsmenn sem hingað koma til starfa tímabundið. 

Samt eru nokkur atriði í frumvarpinu sem félagið mun klárlega gera athugasemdir við.

Aðalmálið er að það er ekki nóg að setja lög sem eiga tryggja réttindi erlendra starfmanna hér á landi ef stéttarfélögin hafa ekki þær heimildir sem til þarf til sinna sínu eftirliti.  Það er algjört grundavallaratriði að stéttarfélögin hafi lagaheimild til að kalla eftir gögnum hjá þeim fyrirtækjum sem hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Þannig er hægt að tryggja það sem best að farið sé eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og koma í veg fyrir hverskyns félagsleg undirboð.

Þessi gögn eru t.d. launaseðlar, ráðningarsamningar og tímaskriftir.  Þessi gögn verða stéttarfélögin að geta fengið án þess að fyrir liggi grunur um brot.

Reyndar er formanni félagsins það illskiljanlegt að Samtök atvinnulífsins leggist gegn því að stéttarfélögin hafi þessa heimild og einnig að Alþingi skuli ekki vilja nýta sér þá sérþekkingu sem stéttarfélögin hafa á þessum málum.  

Eins og áður sagði þá verður að gefa stéttarfélögunum víðtækari  heimildir til að fylgjast með þeim fyrirtækjum sem eru með erlent vinnuafl til að tryggja að ekki sé verið að misbjóða þessum erlendu gestum okkar og einnig til að gjaldfella ekki þau launakjör sem íslenskir launþegar hafa barist fyrir á liðnum árum og áratugum.

Umsögnin sem félagið mun senda félagsmálanefnd mun verða birt hér á heimasíðunni í heild sinni þegar hún liggur fyrir.

15
Feb

Fundað um bónusmál Íslenska járnblendifélagsins

Formaður félagsins fundaði með trúnaðartengiliðum Íslenska járnblendifélagsins í dag.  Tilefni fundarins var að í febrúar ár hvert er hægt að fara fram á endurskoðun á bónuskerfi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins. Sú endurskoðun getur átt sér stað ef aðilar séu sammála um að bónuskerfið sé ekki að skila því sem til þess var vænst.

Það er alveg ljóst að það eru þættir í bónusnum sem eru ekki að skila því sem samningsaðilar voru sammála um að hann ætti að geta gefið af sér. 

Þegar samningar voru undirritaðir 2005 voru samningsaðilar sammála um að bónuskerfið ætti að geta gefið starfsmönnum Íj að meðaltali 5,6%, en því miður hefur raunin orðið önnur og í fyrra var meðaltal á bónusnum einungis 3,38%. 

Fundur verður með forsvarsmönnum Íslenska járnblendifélagsins fljótlega. Á þeim fundi mun Verkalýðsfélag Akraness mun leggja til breytingar á bónuskerfinu sem getur skilað bæði starfsmönnum og fyrirtækinu töluverðum ávinningi. 

14
Feb

Hagsmunir þeirra tekjulægstu ekki hafðir að leiðarljósi

Í gær var haldinn bæjarstjórnarfundur hjá Akraneskaupstað sem vart er í frásögur færandi að öðru leyti en því að stór hluti fundarins fjallaði um sameiningu Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar (STAK) við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Einnig var á fundinum mikið fjallað um hvort meirihluti bæjarstjórnar myndi láta laun starfsmanna bæjarins taka eftir kjarasamningum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar strax, eða að láta núverandi kjarasamning við launanefndina gilda út samningstímann fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar.

Formaður félagsins sat og fylgdist með umræðum á þessum fundi og vill fara yfir þessi mál bæði til fróðleiks fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar sem og fyrir þann bæjarráðsmann sem fór mikinn á þessum fundi og heitir sá maður Sveinn Kristinsson frá Samfylkingunni. Sveinn byrjaði á því að tala um það að það væri óvenjulegt að formaður VLFA skyldi hafa verið að tjá sig opinberlega um það sem fram fór á fundi sem formaður sat nýverið með bæjarráði og fjallaði um frjálsa félagaaðild. Í máli Sveins kom fram að vissulega væri frjáls félagaaðild í gildi hér á landi og allir starfsmenn bæjarins gætu ákveðið í hvort stéttarfélaginu þeir vildu frekar vera en svo kom fram hjá honum að það yrði að vera með samþykki þess stéttarfélags sem viðkomandi starfsmaður væri nú þegar í.

Ég spyr, hvernig getur það kallast félagafrelsi þegar það er annar aðili en þú sjálfur sem ákveður hvort þú getir skipt um stéttarfélag eða ekki. Að sjálfsögðu eiga starfsmennirnir sjálfir að ákveða í hvaða stéttarfélagi þeir eru og það er nánast grátlegt að horfa upp á það að til eru einstakir aðilar innan bæjarkerfisins sem leggja sig í líma við það að hindra að félagsmenn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar geti gengið í VLFA.

Einnig sagði Sveinn á þessum fundi að sá áróður hefði dunið í fjölmiðlum að kjör starfsmanna Akraneskaupstaðar myndu lækka ef þau tækju eftir kjarasamningum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Hann sagði líka að þessum áróðri hefði ekki verið svarað og taldi hann að kosningin um sameiningu STAK við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar væri nægilegur vitnisburður þess að starfsmenn teldu hag sínum betur borgið í síðarnefnda félaginu. 

Þær upplýsingar sem formaður VLFA hefur um það hvernig þessi sameining var kynnt fyrir starfsmönnum Akraneskaupstaðar skýrir að mörgu leyti hvers vegna þessi sameining varð að veruleika. Flestir starfsmenn sem ég hef talað við sögðust hafa fengið upplýsingar um að þeir myndu hækka umtalsvert í launum ef þeir myndu sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og einnig átti að hafa verið ýjað að því við fólkið að gert yrði nýtt starfsmat fyrir öll störf. Þetta er kannski meginástæða þess að fólk greiddi þessari sameiningu atkvæði sitt. Það er mat formanns að slíkt hafi verið gert á röngum forsendum. Starfsfólkið fékk ekki þá kynningu á þessu máli sem eðlileg hefði verið.

Rétt er að upplýsa starfsmenn um það að starfsmat Reykjavíkurborgar er byggt á sömu forsendum og starfsmat launanefndar Sveitarfélaga sem starfsmenn eru að vinna eftir núna, svokölluðu breska starfsmati.

Varðandi þann þátt Þegar Sveinn talaði um áróður er hann væntanlega að meina þær athugasemdir sem formaður VLFA hefur gert við samanburð á þeim kjörum sem félagsmenn STAK eru með í dag og hins vegar þeim kjörum sem þeir hefðu hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.

Vissulega er það rétt hjá Sveini að því hefur ekki verið svarað né það hrakið þegar formaður félagsins hefur ítrekað bent á að tekjulægstu starfsmenn Akraneskaupstaðar standa flestir í stað og sumir hverjir lækka umtalsvert taki þeir laun eftir kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Hins vegar hefur formaður líka bent á að forstöðumenn, millistjórnendur og stjórnendur eru að hækka um allt að tugi þúsunda króna á mánuði. Þetta eru blákaldar staðreyndir sem verða ekki hraktar og ég spyr hvernig getur það verið sanngjarnt að tekjulægstu hóparnir eigi að standa í stað eða nánast enga hækkun að fá og jafnvel lækka, á meðan þeir tekjuhæstu hækka um tugi þúsunda í launum.

Ég spyr aftur Svein: er þetta hin eina sanna jafnaðarstefna að færa þeim tekjuhærri ennþá meira og svíða þá tekjulægstu? Er þetta jafnaðarstefnan hjá Sveini hvað varðar það launamisrétti sem gætir í okkar samfélagi?

Hægt að lesa meira með því að smella á meira.

Einnig kom eftirfarandi fram hjá Sveini á fundinum í gær, og þetta er afar athyglisvert. Hann sagði að það væri ekkert mál að slíta öllu samstarfi við launanefnd sveitarfélaganna. Það væri bara ákvörðun pólitíkusanna hvort það skyldi gert eða ekki. Benti hann á í því samhengi að hann hefði leitað til virtasta lögfræðings í vinnurétti til að kanna hvort að þetta væri ekki örugglega hægt. Sveinn hvatti eindregið til þess samstarfinu yrði slitið, sennilega vegna þess að launanefnd sveitarfélaganna er búin að fara illa með starfsmenn Akraneskaupstaðar.

Ég reyndar spyr: hví í ósköpunum er Sveinn Kristinsson ekki búinn að beita sér fyrir því þegar hann var í meirihluta í þessum bæ að segja upp samstarfinu við launanefnd sveitarfélaganna úr því hann hefur álit virts lögfræðings sem segir það ekki vera mikið mál og lagfæra launakjör starfsmanna Akraneskaupstaðar? Hann er búinn að hafa fleiri, fleiri ár til að framkvæma þetta, kemur svo á þessum fundi og belgir sig út eins og hani og reynir að telja fólki trú um að það sé verið að svíkja það stórkostlega fái það ekki að taka laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar.  

Ég er margbúinn að benda á það og bjóðast til að setjast yfir það með Sveini Kristinssyni og sýna honum það svart á hvítu að ófaglært starfsfólk fær enga hækkun og eins og áður sagði lækka einstök störf. Að geta talað með þessum hætti eins og Sveinn gerði í gær, vitandi fyrir víst að það eru störf að lækka ef þau taka eftir kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar er ámælisvert og reyndar til skammar. 

Ég býð Sveini enn og aftur, og hef margoft gert, að setjast niður og sýna honum það hvaða afleiðingar það hefur fyrir starfsfólk bæjarins að taka laun eftir kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Það þýðir kannski ekki ef vilji Sveins er í þá áttina að þeir ríku verði ríkari og þeir fátæku fátækari.

Eitt er Þó víst að stjórn Verkalýðsfélags Akraness mun berjast fyrir bættum hag allra sinna félagsmanna af festu og ákveðni og býður alla þá starfsmenn Akraneskaupstaðar sem telja hag sínum betur borgið í VLFA velkomna í félagið og munum við kappkosta að þjónusta þá eins vel og kostur er. Mikilvægt er líka fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar að muna það núna að fram er að fara endurmat á starfsmati sem gert var árið 2004 og þeir starfsmenn sem telja starfsmat sitt rangt geta nú óskað eftir endurmati á sínu starfi. Það ferli er nú að fara af stað.

Að lokum vill formaðurinn segja að þetta hefur ekkert með pólitík að gera, enda er formaður félagsins að vinna fyrir félagsmenn sem koma úr öllum flokkum. Það er einfaldlega ekki hægt að horfa upp á að það sé verið að hvetja til þess að laun starfsmanna taki eftir kjarasamningi sem gefi þeim tekjulægstu lægri laun en þeir hafa nú þegar. Það er eitthvað sem stjórn VLFA getur á engan hátt sætt sig við.  Fremstur í flokki fyrir því að starfsmenn bæjarins taki laun eftir kjarasamningi sem er lakari að sumu leyti fyrir einstaka hópa starfsmanna bæjarins er Sveinn Kristinsson. Þess vegna er þessi pistill skrifaður með hagsmuni þeirra tekjulægstu að leiðarljósi.

13
Feb

Búið að greiða vangreidd laun skipverjana á Castor Star

Samkomulag hefur náðst við gríska útgerðarmanninn sem á og rekur flutningaskipið Castor Star.  En eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hafði áhöfnin ekki fengið laun í um 5 mánuði og matarkostur um borð var af skornum skammti.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður félagsins hefur aflað sér frá eftirlitsmanni Alþjóðaflutningasambandsins þá náðist samkomulag við gríska útgerðamanninn í gærkveldi. Samkomulagið gengur út á það að skipverjunum var greitt allt það sem þeir áttu inni hjá útgerðinni og kjör þeirra voru látin taka eftir samningum sem gilda hjá Alþjóðaflutningasambandinu, sem er 50% hærra heldur skipverjarnir höfðu samið um.

 Skipverjarnir, sem eru frá Georgíu og Úkraínu, hafa hins vegar tekið þá ákvörðun að hætta á umræddu skipi og er þessa stundina verið að koma hluta af áhöfninni út á flugvöll þar sem þeir munu halda til síns heima seinna í kvöld.  Uppskipun á súrálinu er nú þegar hafin úr Castor Star og er reiknað með að uppskipun taki einn til tvo daga.

Það er ánægjulegt að skipverjarnir skuli hafa náð öllum sínum kröfum fram.  Hins vegar er það dapurlegt að þeir skyldu ekki treysta sér til að vinna fyrir gríska útgerðamanninn lengur, en lái þeim hver sem vill.

11
Feb

Byrjað að bræða loðnu í kvöld

Fyrsta loðnan sem landað hefur verið hér á Akranesi á þessari loðnuvertíð barst í gærkveldi, en þá landaði Faxi RE um 1.100 tonnum.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður félagsins aflaði sér þá er búið að manna á vaktir í síldarbræðslunni og er reiknað með að bræðsla hefjist í kvöld.

Það er mikið fagnaðarefni að sjá að tannhjól síldarbræðslunnar séu byrjuð að snúast aftur eftir gríðarlegan samdrátt á liðnu ári, en nú er liðið rúmt ár síðan bræðsla átti sér stað síðast í verksmiðjunni.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var flest öllum starfsmönnum verksmiðjunnar sagt upp störfum í janúar í fyrra vegna samdráttar á uppsjáfarafla.  Hins vegar hefur einhver hluti af þeim starfsmönnum sem sagt var upp störfum í fyrra verið endurráðnir, því ber að fagna. 

09
Feb

Stál í stál í deilu skipverja Castor Star við gríska útgerðamanninn

Grískur útgerðarmaður flutningaskipsins Castor Star kom í morgun um borð í skipið í Grundartangahöfn ásamt lögmanni sínum. Áhöfnin hefur ekki fengið laun í um 5 mánuði og kostur um borð mun vera af skornum skammti.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður félagsins hefur aflað sér í morgun um málið þá er stál í stál í þessari deilu og þessa stundina er útlitið ekki bjart hvað varðar lausn á deilunni.  Samkvæmt upplýsingum frá eftirlitsmanni Alþjóðaflutningasambandsins sem gætir hagsmuna skipverjanna þá er útlitið ekki gott.  Krafan er skýr frá skipverjum, það er að þeir fái laun sín greidd og það eftir samningum sem fari að reglum Alþjóðaflutningasambandsins.

Skipið kom með súrál til Grundartanga í fyrradag. Eftirlitsmaður Alþjóðaflutningasambandsins kannaði aðbúnað og formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur kynnt sér málið eins vel og kostur er. Hefur formaðurinn lýst yfir vanþóknun sinni á meðferðinni á skipshöfn Castor Star. Skipverjar, sem eru frá Georgíu og Úkraínu, sögðust ekki hafa fengið laun greidd frá því í september og auk þess hefðu þeir ekki fengið almennilegan mat í þrjár vikur. Athugun mun hafa leitt í ljós að matur var af skornum skammti og illa farinn og því stöðvuðu skipverjarnir sjálfir uppskipun í hádeginu í gær að höfðu samráði við eftirlitsmann Alþjóðaflutningasambandsins.

 

Fulltrúi Siglingastofnunar kom síðan um borð í morgun til að kanna skipið og pappíra því tengdu.  Eins og áður sagði þá finnur formaður félagsins til með áhöfn skipsins og vonar að þessar aðgerðir skipverjanna beri tilætlaðan árangur.

08
Feb

Skipverjar fá ekki laun og eru nánast matarlausir

Formaður félagsins fór og kynnti sér ástandið um borð í flutningaskipinu sem er að losa súrál fyrir Norðurál í Grundartangahöfn, en skipverjarnir sjálfir stöðvuðu uppskipun úr skipinu nú í hádeginu.  Grundartangasvæðið þ.m.t, höfnin tilheyrir félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness.

Eftirlitsmenn á vegum Alþjóðaflutningasambandsins (IFT) hafa einnig verið á svæðinu til að gæta hagsmuna þeirra sem eru í áhöfn skipsins.

Skipið siglir undir fána Panama en er í eigu grísks útgerðarmanns og telur áhöfnin 17 Úkraínumenn og Georgíumenn. 

Samkvæmt upplýsingum sem formaður félagsins fékk þá hafa skipverjarnir ekki fengið laun síðan í september og því til viðbótar er matur um borð í skipinu af afar skornum skammti.  Einnig fékk formaður félagsins þær upplýsingar að skipverjar séu verulega uggandi um sinn hag.

Útgerðarmaður skipsins er á leið hingað til lands frá Grikklandi vegna málsins. Vonandi leysist þessi deila sem allra fyrst.

Hins vegar er það með öllu óþolandi og ólíðandi ef rétt reynist að skipverjar hafi ekki fengið laun sín greidd frá því í september í fyrra, og ekki bætir úr skák að skipverjar séu nánast matarlausir. Það þarf að taka á þeim útgerðarmönnum sem haga sér með þessum hætti af fullri hörku, sama hvar næst til þeirra. 

07
Feb

Lágmarkslaun eru 125.000 fyrir fullt starf

Af gefnu tilefni vill formaður félagsins vekja athygli félagsmanna á því að lágmarkstekjur fyrir fullt starf (173,33 tímar) eru frá áramótum 125.000 kr á hinum almenn vinnumarkaði. að teknu tilliti til þess að starfsmaðurinn hafi náð 18 ára aldri og hafi starfað samfellt í fjóra mánuði. 

Til félagsins leitaði félagsmaður sem taldi að verið væri að brjóta á sér og reyndist það vera rétt hjá honum. 

Umræddur félagsmaður var að fá greitt sem almennur verkamaður eftir launataxta SGS við SA nánar tiltekið eftir launaflokki II þar sem byrjunarlaun eru kr. 121.317. Þessi umræddi starfsmaður er að vinna fullt starf og á þar af leiðandi að vera með að lágmarki 125.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf. Þessu til viðbótar var umræddur starfsmaður orðinn 22 ára og skv. kjarasamningum er það ígildi eins árs starfsreynslu.

Formaður félagsins hafði samband við umrætt fyrirtæki og greinilegt var að fyrirtækið áttaði sig ekki á því að lágmarkstekjutrygging fyrir fulla dagvinnu er 125.000 kr. Fyrirtækið taldi sig vera algerlega að standa við kjarasamninga þar sem það var að greiða eftir þeim lágmarkstöxtum sem getið er um í þeim.  Það er alveg ljóst að mati formanns félagsins að það þarf sannarlega að kynna þetta betur fyrir atvinnurekendum því þótt þeir séu að greiða lágmarkslaun skv. launatöxtum þ.e. kr. 121.317 þá verða þeir að  greiða uppbót á laun þeirra starfsmanna sem ekki ná lágmarkstekjutryggingu sem er kr. 125.000,-

06
Feb

Félagsmenn VLFA fá dagbók

Þessa stundina ættu allflestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness að vera búnir að fá senda heim til sín dagbók.  Í dagbókinni eru hinar ýmsu upplýsingar er lúta að starfsemi félagsins og einnig eru upplýsingar um hin ýmsu réttindamál sem tengjast okkar félagsmönnum. Dagbókin gildir einnig sem félagsskírteini.

05
Feb

Aflaskipið Víkingur Ak 100 heldur til loðnuveiða á morgun

Líf er að færast yfir aflaskipið Víking Ak 100, en til stendur að skipið haldi til loðnuveiða á morgun eftir um eins árs stopp. Eins og fram hefur komið á heimasíðu félagsins þá var öllum skipverjum sagt upp störfum í janúar í fyrra vegna samdráttar á uppsjávarafla.

Formaður félagsins fór og hitti nokkra skipverja í morgun sem voru að gera klárt svo hægt væri að halda til veiða.  Það leyndi sér ekki að skipverjar voru nokkuð kampakátir með þá ákvörðun að skipið skuli halda til loðnuveiða á ný.

Af síldarbræðslunni er það að frétta að búið er að ráða nokkra starfsmenn þar til vinnu og eru þeir að yfirfara tæki og tól svo allt verði nú klárt ef hráefni skyldi fara að berast til verksmiðjunnar, sem vonandi gerist von bráðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image