• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Apr

Erlendir verkamenn hafa fengið leiðrétt laun fyrir 5,2 milljónir á síðastliðnum tveimur árum

 

Formaður félagsins hefur verið að skoða öll þau mál sem Verkalýðsfélag Akraness hefur unnið að á síðastliðnum tveimur árum og lýtur að brotum á réttindum erlendra verkamanna.  Í þeirri skoðun kemur í ljós að Verkalýðsfélag Akraness hefur fengið leiðréttingu á launakjörum fyrir erlenda verkamenn og nemur sú leiðrétting tæpum 5,2 milljónum króna á síðastliðnum tveimur árum. 

Þessi brot hafa verið margvísleg þó er algengast að launataxtar uppfylli ekki lágmarkstaxta og einnig er algengt að hvíldarákvæði kjarasamninga séu ekki virt. 

Hér eiga fjölmörg fyrirtæki hlut að máli allt frá mjög smáum fyrirtækjum uppí stór fyrirtæki sem formaður hefði að öllu jöfnu talið að væri annt um ímynd sína.

Verkalýðsfélag Akraness hefur tekið mjög fast á félagslegum undirboðum á félagssvæði VLFA og heldur úti reglubundnu eftirliti með þeim fyrirtækjum sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu. Um það getur Vinnumálastofnun vitnað enda hefur verið mjög gott samstarf á milli Verkalýðsfélags Akraness og Vinnumálastofnunar hvað varðar eftirlit með brotum á erlendu vinnuafli.

Formaður félagsins hefur ítrekað bent á hér á heimasíðunni að þessi félagslegu undirboð á erlendu vinnuafli geri ekkert annað en að gjaldfella launakjör á íslenskum vinnumarkaði og við því verður verkalýðshreyfingin að bregðast af fullum þunga í komandi kjarasamningum. 

Það er með öllu ólíðandi að atvinnurekendur misbjóði erlendu vinnuafli hvað varðar launakjör, aðbúnað sem og önnur starfskjör í jafnmiklu mæli og raunin er.  Formaður fer ekkert dult með þær áhyggjur sínar að það markaðslaunakerfi sem við Íslendingar höfum komið okkur upp á liðnum árum og áratugum sé í hættu.  Er það vegna stór aukinnar ásóknar atvinnurekenda í ódýrt vinnuafl frá Austur-Evrópu.  Það er til að mynda alvitað að stór hluti af þeim 20 þúsund erlendu verkamönnum og iðnaðarmönnum sem hafa komið til starfa hér á landi hafa verið settir á berstrípaða lágmarkstaxta.

Eins og áður sagði þá verður verkalýðshreyfingin að bregðast við þessu í næstu kjarasamningum og eina leiðin til þess er að hækka lágmarkstaxta upp að markaðslaunum og stór auka eftirlit með félagslegum undirboðum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image