• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

08
Dec

Aftur í nám, 11 nemendur útskrifuðust í gær

Nú í haust hefur 13 manna hópur stundað nám á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Bar námið heitið "Aftur í nám".  Í gær fór fram útskrift hjá þeim nemendum sem höfðu klárað námið og voru það 11 nemendur, en tveir munu klára á næstu dögum.  Námsskráin var samin af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.  Sú sem hafði veg og vanda af þessu verkefni heitir Erla Olgeirsdóttir.

Markmiðið með þessu námi er að styrkja fullorðna sem glíma við lestrar-og skriftarörðugleika, til að takast á við frekari nám og/eða geta mætt auknum kröfum í atvinnulífinu.

Þetta var í fyrsta sinn sem boðið er uppá slíkt nám hér á Vesturlandi.  Verkalýðsfélag Akraness tók þátt í því að styrkja þetta verkefni sem Símenntunarstöð Vesturlands stóð fyrir af miklum myndarskap.

07
Dec

Forgangsverkefni í næstu kjarasamningum að hækka lágmarkstaxta til samræmis við markaðslaun

Formaður félagsins hefur að undanförnu verið að benda á það að í næstu kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði þurfi að hækka lágmarkslaun til samræmis við þau markaðslaun sem eru í gildi á vinnumarkaðnum í dag. 

Þessi skoðun formannsins byggð á þeirri staðreynd að markaðslaunin eru í verulegri hættu vegna þess að aðgengi atvinnurekanda að ódýru vinnuafli erlendis frá er afar auðvelt um þessar mundir.  Í dag telur Vinnumálastofnun að um 20 þúsund erlendir starfsmenn séu á íslenskum vinnumarkaði.

Eins og margoft hefur komið fram í máli formanns félagsins er alveg ljóst að þetta mikla innstreymi af ódýru vinnuafli frá Austur - Evrópu ógnar því markaðslaunakerfi sem hér hefur verið við lýði á undanförnum áratugum. 

Starfsgreinasamband Íslands lét gera könnun á meðal félagsmanna aðildarfélaga SGS í haust.  Í þeirri könnun kom fram að dagvinnulaun karla eru að meðaltali 176 þúsund krónur á mánuði.  Lágmarkslaun fyrir fulla dagvinnu í dag eru 123 þúsund á mánuði sem þýðir að lágmarkstaxtar þyrftu að hækka um rétt rúm 30%.

Að undanförnu hafa einstaka stjórnmálamenn tekið undir það sem formaður félagsins hefur verið að segja um það hversu mikilvægt það er að hækka lágmarkstaxta upp að markaðslaunum.  T.d hefur Magnús Þór Hafsteinsson hjá Frjálslyndum verið að benda á það hversu áríðandi það er fyrir verkalýðshreyfinguna að verja markaðslaunin.  Í Íslandi í bítið á þriðjudaginn var rætt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur frá Samfylkingunni og taldi hún það nauðsynlegt að lágmarkstaxtar yrðu hækkaðir til samræmis við markaðslaun. Hægt er að sjá viðtalið með því að smella hér.

Það er afar ánægjulegt að stjórnmálamenn séu sammála formanni Verkalýðsfélagi Akraness um að verja þurfi markaðslaunin hjá íslensku verkafólki í næstu kjarasamningum.  Nú er bara að vona að forustumenn í verkalýðshreyfingunni séu einnig sammála því að þetta sé forgangsverkefni í næstu kjarasamningum.

05
Dec

Góður fundur var haldinn í gærkveldi

Í gærkveldi var haldinn mjög góður fræðslufundur um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.  Það var Magnús M. Norðdahl deildarstjóri lögfræðideildar Alþýðusambands Íslands sem sjá um að þann þátt fundarins.

Fundarmönnum gafst góður tími til að spyrja lögfræðing ASÍ spurninga og nýttu fundarmenn sér það nokkuð vel.  Mikið var rætt um öryggismál á vinnustöðum.  Einnig voru málefni erlends vinnuafls mjög mikið rædd og fór ekki á milli mála að fundarmenn hræðast almennt þann mikla innflutning sem orðið hefur á ódýru erlendu vinnuafli hingað til lands að undanförnu.

Það er vitað að um 20 þúsund erlendir starfsmenn starfa hér á landi um þessar mundir.  Það er alveg ljóst að það verður erfitt fyrir íslenskt verkafólk að keppa við erlent ódýrt vinnuafl sem kemur frá Austur - Evrópu um störf þegar samdráttur verður á íslenskum vinnumarkaði.  Einfaldlega vegna þess að stór hluti erlends vinnuafls er settur á berstrípaða lágmarkstaxta og sættir sig við það.

Formaður félagsins ítrekaði þá skoðun sína á fundinum að eina leiðin til að bjarga þeim markaðslaunum sem nú er verið að greiða á íslenskum vinnumarkaði er að færa lágmarkastaxtana upp að markaðslaunum.  Til að það takist þurfa taxtarnir að hækka um allt að 50%.

Það kom einnig fram hjá formanni félagsins að til að það takist verður öll verkalýðshreyfingin að standa þétt saman í þeirri baráttu. 

04
Dec

Verkalýðsfélag Akraness minnir á fræðslufundinn í kvöld kl. 20:15 !

Stóriðjudeild Verkalýðsfélags Akraness heldur opinn fræðslufund fyrir félagsmenn sína í kvöld að Kirkjubraut 40, 3. hæð kl: 20:00. 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi: 

 Magnús M. Norðdahl  deildarstjóri lögfræðideildar Alþýðusambands Íslands mun vera með fyrirlestur um eftirfarandi þætti:

  • Vinnustöðvanir   
  • Forgangsréttarákvæði kjarasamninga
  • Launamaður eða verktaki
  • Veikindaréttur, slys og skaðabætur

Önnur mál.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta.  Boðið verður uppá kaffiveitingar.

Stjórn Stóriðjudeildar

01
Dec

Desemberuppbót - færð þú það sem þér ber?

Desemberuppbót - færð þú það sem þér ber?  Verkalýðsfélag Akraness hvetur sína félagsmenn til að fylgjast vel með hvort desemberuppbót sé rétt greidd.  Endilega hafið samband við skrifstofu félagsins og fáið upplýsingar séu þið ekki viss hver réttur ykkar er.   

Almenni markaðurinn: 40.700 Kr.
Samiðn: 40.700 Kr.
Ríkissamningurinn: 40.700 Kr.
Akraneskaupstaður: 59.729 Kr.
Norðurál: 99.605 Kr.
Íslenska járnblendið 99.605 Kr.
Klafi: 99.605 Kr.
Fang: 99.605 Kr.
Sementsverksmiðjan: 80.340 Kr.

Rétt er að vekja athygli á eftirfarandi:

Starfsfólk með skemmri starfstíma skal fá greitt hlutfallslega miðað við starfstíma sinn. Þá á starfsmaður sem lætur af starfi á árinu vegna aldurs eða eftir 12 vikna samfellt starf hjá sama vinnuveitanda á árinu rétt á að fá, við starfslok, greidda desemberuppbót miðað við starfstíma og starfshlutfall á árinu.

30
Nov

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness athugið !

Stóriðjudeild Verkalýðsfélags Akraness heldur opinn fræðslufund fyrir félagsmenn sína mánudaginn 4. desember að Kirkjubraut 40, 3. hæð kl: 20:00. 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi: 

Magnús M. Norðdahl  deildarstjóri lögfræðideildar Alþýðusambands Íslands mun vera með fyrirlestur um eftirfarandi þætti:

 

  • Vinnustöðvanir   
  • Forgangsréttarákvæði kjarasamninga
  • Launamaður eða verktaki
  • Veikindaréttur, slys og skaðabætur

Önnur mál.

 

Félagsmenn eru hvattir til að mæta.  Boðið verður uppá kaffiveitingar.

Stjórn Stóriðjudeildar

29
Nov

Aðstoðarmaður félagsmálaráðherra fundaði með formanni félagsins í morgun

Formaður Verkalýðsfélags Akraness átti góðan fund með aðstoðarmanni félagsmálaráðherra, Guðmundi Páli Jónssyni, á skrifstofu félagsins í morgun. 

Megin umræðuefni fundarins var íslenski vinnumarkaðurinn og hvernig megi tryggja sem best að ekki sé brotið á réttindum erlends vinnuafls sem hingað kemur til starfa.

Formaður félagsins afhenti aðstoðarmanni félagsmálaráðherra gögn sem styðja sterklega grun um að verið sé að brjóta á réttindum erlendra verkamanna.  Aðstoðamaður félagsmálaráðherra bauðst til að skoða þessi mál sérstaklega í ljósi þeirra grunsemda sem fram komu í gögnunum. Hann sagði einnig að félagsmálaráðuneytið muni alls ekki sætta sig við að ekki sé farið eftir þeim leikreglum sem eiga að gilda á íslenskum vinnumarkaði. 

Einnig sýndi formaðurinn aðstoðarmanni ráðherra ráðningarsamning sem atvinnurekandi hafði skilað inn til Vinnumálastofnunar.  Á ráðningarsamningnum kom fram að erlendi starfsmaðurinn fengi 760 kr. í dagvinnu og 1368 kr. í yfirvinnu.  Á launaseðli kom hins vegar fram að hann var með 680 kr. í dagvinnu og 1.224 kr. í yfirvinnu.

Á þessari forsendu telur formaður VLFA afar brýnt að Vinnumálastofnun geri stikkprufur og kalli eftir launaseðlum til að kanna hvort verið sé að greiða eftir þeim ráðningarsamningum sem sendir eru inn til Vinnumálastofnunar.  Þetta dæmi sýnir að full þörf er á slíku eftirliti. 

Formaður félagsins tjáði aðstoðarmanni félagsmálaráðherra áhyggjur sínar á því að markaðslaun færu því miður lækkandi vegna þess mikla innstreymis sem orðið hefur á ódýru vinnuafli frá Austur - Evrópu að undanförnu.  Formaðurinn greindi aðstoðarmanninum frá því að hann telur að eina leiðin til að bjarga markaðslaununum sé að færa lágmarkstaxtana upp að markaðslaunum í næstu kjarasamningum.

Einnig fór formaður félagsins yfir það hversu mikilvægt hann telji að skerpa þurfi verulega á eftirlitshlutverki stéttarfélaga með þeim atvinnurekendum sem eru með erlent vinnuafl í sinni þjónustu.  Það væri hægt að gera með því að veita stéttarfélögum heimild til að kalla eftir launaseðlum, ráðningarsamningum og tímaskriftum hjá þeim atvinnurekendum sem hafa ráðið til sín erlent vinnuafl og sú heimild þyrfti að vera til staðar án þess að grunur um brot liggi fyrir.

Það fór ekki á milli mála á þessum fundi að félagsmálaráðuneytið er að skoða alla þessa þætti og hefur greinilega fullan vilja til að skerpa á þessum þáttum til að reyna að koma í veg fyrir að óprúttnir atvinnurekendur brjóti á réttindum erlends vinnuafls bæði hvað varðar aðbúnað og önnur starfskjör.

27
Nov

Laun starfsmanna Norðuráls hækka um 3,65% um næstu áramót

Laun hjá Norðuráli munu hækka um 3,65% frá og með næstu áramótum.  Einnig mun koma 500 kr. auka hækkun ofaná launataxta hjá verkamönnum, nánar tiltekið hjá þeim sem taka laun eftir launaflokki 112 og 212.

Samkvæmt kjarasamningi Norðuráls áttu laun að hækka um 3% um næstu áramót.  Í kjarasamningi Norðuráls var hins vegar kveðið á um að ef aðilar vinnumarkaðarins myndu ná samkomulagi um breytingu á launaliðum kjarasamninga vegna endurskoðunar á kjarasamningum á árinu 2005 og 2006 þá skuli það einnig gilda fyrir kjarasamning Norðuráls.

Á árinu 2005 náðist samkomulag á milli ASÍ og SA sem fólst í því að félögum Alþýðusambandsins sem eiga aðild að kjarasamningum við SA hækka um 0,65% í janúar 2007 til viðbótar við þá hækkun sem kveður á um í einstökum samningum.

Almennt munu laun hækka um 2,9% um næstu áramót.  Þó má geta þess að laun starfsmanna sveitarfélaga hækka um 3% um næstu áramót.  Þessi umframhækkun hjá Norðuráli er liður í því að brúa það launabil sem er á milli Norðuráls og þeirra verksmiðja sem eru í sambærilegum iðnaði.

24
Nov

Sjómannasambandsþing haldið í Reykjavík

25. þingi Sjómannasambands Íslands var að ljúka rétt í þessu.  Verkalýðsfélag Akraness átti tvo fulltrúa á þessu þingi.  Fullrúar félagsins voru þeir Jóhann Örn Matthíasson og Þorsteinn Pétursson. Þeir er báðir skipverjar á frystiskipinu Höfrungi III.

Þau mál sem helst voru til umræðu á þessu þingi voru atvinnu-og kjaramál, öryggis-, aðbúnaðar- og tryggingamál og einnig voru lagabreytingar til umfjöllunar.

Einnig var kosið í sambandsstjórn Sjómannasambandsins og var Jóhann Örn Matthíasson frá VLFA kosinn í stjórn sambandsins.

23
Nov

Viðurkennum að vandinn sé til staðar

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal bæði við Grétar Þorsteinsson forseta ASÍ og Ragnar Árnason forstöðumann vinnumálasviðs Samtaka atvinnulífsins.

Í fréttinni kemur fram að kjaramunur milli aðfluttra og innfæddra hafi minnkað eftir að ákvæði ESS-samningsins var innleitt með öllu þann 1. maí þessa árs.  Er þessi staðhæfing byggð á frásögn aðila á vinnumarkaðnum.  Formanni Verkalýðsfélags Akraness þætti fróðlegt að vita hvaða aðili á vinnumarkaðnum haldi þessu fram.  Það er alvitað að laun verkafólks eru á hraðri niðurleið vegna þess gríðarlegs innstreymis sem orðið hefur á ódýru vinnuafli frá Austur -Evrópu frá gildistöku laganna. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness getur ekki orða bundist þegar forseti ASÍ segist hafa orðið var við að laun erlends vinnuafls hafi hækkað í kjölfarið á því að takmörkunum á frjálsri för launafólks var aflétt 1. maí sl.  Einnig nefnir forsetinn að umfang starfsmannaleiga hafi minnkað.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur bæði þessi atriði kolröng hjá forsetanum og í raun með öllu óskiljanleg.  Eftirfarandi er haft orðrétt eftir forseta ASÍ í fréttablaðinu í dag um þetta mál:

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, kannast við þessa þróun og segir hana fagnaðarefni fyrir verkafólk.  "Hvað sem um opnunina þann 1. maí má segja, töldu menn að með henni myndi draga úr umfangi starfsmannaleiganna.  Það virðist vera raunin, því það er ljóst að síðustu mánuðina hefur ráðningum starfsmannaleiga snarfækkað, og beinar ráðningar aukist á móti.  Við höfum heyrt að þetta sé ein helsta skýringin á því að laun er að nálgast markaðskjör. Verkalýðshreyfingin hefur reynt að tryggja þessu fólki markaðslaun en oftast hefur okkur aðeins tekist að tryggja lágmarkskjör.  Því er þessi þróun fagnaðarefni,"segir Grétar.

Eins og áður sagði telur formaður VLFA þetta alrangt hjá forsetanum.  Einfaldlega vegna þess að það liggur fyrir í fyrsta lagi að starfsmannaleigum hefur fjölgað um 10 frá 1. maí.  Starfsmönnum sem ráðnir eru í gegnum starfsmannaleigur hefur fjölgað um 724 frá gildistöku laganna. Í dag koma 80 erlendir starfsmenn inná íslenskan vinnumarkað í hverjum mánuði í gegnum starfsmannaleigur.  Telur Vinnumálastofnun að á milli 10 til 11% nýrra erlendra starfsmanna sem hingað koma til starfa séu ráðnir í gegnum starfsmannaleigur.  Þessar upplýsingar eru byggðar á upplýsingum frá Vinnumálastofnun. 

Formaður VLFA kannast alls ekki við það að laun erlendra starfsmanna séu að nálgast markaðslaun.   Formaður VLFA talaði við kollega sinn á Húsavík sem einnig var undrandi á ummælum forseta ASÍ.  Hann kannast heldur við að laun erlends verkafólks hafi hækkað í kjölfar á frjálsri för launafólks frá hinum nýju ríkum ESS. 

Það er alvitað að stór meirihluti þeirra ráðningarsamninga sem berast Vinnumálastofnun miðast við lágmarkskjör.  Það er einnig vitað að stéttarfélögin vítt og breitt um landið eru á fullu í því að verja það að atvinnurekendur greiði ekki laun undir lágmarkstöxtum.  Fréttir birtast nánast daglega um að verið sé að misbjóða þessu aumingja erlenda verkafólki bæði hvað varðar aðbúnað og önnur starfskjör, þetta er alvitað.

Ef við ætlum að ná að laga það ástand sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði þá er algert grundvallaratriði að þeir sem eru í forsvari fyrir íslenskt verkafólk viðurkenni að vandinn sé til staðar.  

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ætíð sagt að íslensk stjórnvöld hafi ekki verið tilbúin með það regluverk sem þurfti til að taka við þeirri aukningu sem varð samhliða því að takmörkunum var aflétt.  Einnig  hafði formaður VLFA bent á að markaðslaunakerfið yrði í hættu og að eftirlit stéttarfélaganna yrði stórskert vegna hinna nýju laga um atvinnu-og búseturétt launafólks frá hinum nýju ríkum ESS, sem tóku gildi 1.maí sl. 

Formaður VLFA telur að því miður hafi stór hluti þessara varnaðarorða nú þegar ræst.

Skoðum hvaða vandamál hafa komið upp eftir að lögin tóku gildi 1. maí.  Samt er rétt að benda á að hluti af þessum atriðum sem nefnd eru hér að neðan voru til staðar fyrir 1. maí.

  • Þjóðskrá hafði ekki undan að afgreiða kennitölur.
  • Tilkynningar til Vinnumálastofnunar voru ekki í neinu samræmi við fjöldann á afgreiddum kennitölum.
  • Áætlað er að 2000 manns séu að starfa án þess að hafa verið tilkynntir til Vinnumálastofnunar.
  • Stór hluti erlendra starfsmanna er settur á berstrípuð lágmarkskjör. 
  • Eftirlit stéttarfélaga hefur verið skert töluvert.
  • Starfsmannaleigum hefur fjölgað um 10
  • 724 hafa verið ráðnir í gegnum starfsmannaleigur og fjölgar um 80 í hverjum mánuði.
  • Þó nokkur fjöldi erlendra starfsmanna býr við ömurlegar aðstæður í ósamþykktum iðnaðarhúsnæðum.
  • Fjöldi erlendra starfsmanna nýtur ekki réttinda í sjúkratryggingum vegna þess að ekki er hægt að skrá lögheimili í iðnaðarhúsnæði.
  • Framlag ríkisins vegna íslenskukennslu var ekkert.

Sú umræða sem orðið hefur um innflytjendur að undanförnu hefur þegar skilað eftirtöldum árangri: 

  1. Ríkisstjórnin nýtti sér heimild til að takmarka för launafólks frá Rúmeníu og Búlgaríu.
  2. 100 milljón króna framlag til íslensku kennslu.
  3. Möguleiki á fjárstuðningi við innflytjendaráð.

Aðalmálið er eins og áður sagði það verða allir að viðurkenna að vandinn sé til staðar til að hægt sé að leysa hann.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image