• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

16
Oct

Trúnaðarmannanámskeið hófst í morgun

Í morgun hófst trúnaðarmannanámskeið á vegum Verkalýðsfélags Akraness.  Námskeiðið mun standa framá föstudag.

Fyrir hádegi var fjallað um samskipti og einelti  á vinnustöðum, var það í umsjón Aðalheiðar Sigurjónsdóttur.  Eftir hádegi fer Haukur Harðarson yfir starf og stöðu trúnaðarmanna.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness leggur mikla áherslu á að trúnaðarmenn félagsins séu vel í stakk búnir til að takast á við þau verkefni sem geta lent inná borði trúnaðarmanna.  Námskeið þetta er einn liður í þeirri vinnu.

13
Oct

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar ákvörðun Elkem um að hefja framleiðslu magnesíumkísilmálms á Grundartanga

Stjórn Elkem í Noregi ákvað á fundi sínum rétt í þessu að flytja starfsemi einnar verksmiðju fyrirtækisins í Noregi til Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga sem einnig er í eigu Elkem.

Ingimundur Birnir forstjóri Íslenska járnblendifélagsins segir að við þessa breytingu skapist um fjörtíu ný störf á Grundartanga og nauðsynlegt verði að fjárfesta fyrir um þrjá milljarða og áætlað er að velta fyrirtækisins aukist um 3,5 milljarða króna án þess að orkuþörf verksmiðjunnar aukist.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessari ákvörðun Elkem vegna þess að vinnsla á FSM mun tryggja Íslenska járnblendifélaginu mun stöðugri rekstrur heldur verið hefur að mati þeirra sem til þekkja.  En rekstur ÍJ hefur ætíð verið nokkuð sveiflukennur.  Einnig er það afar ánægjulegt að við þessa stækkun mun störfum fjölga um allt að 40 manns.

11
Oct

Störfum í fiskvinnslu hefur fækkað um 500 á milli ára

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands var haldinn á Ísafirði föstudaginn 6. september. Þar kom meðal annars fram að fiskvinnslufólki á Íslandi hefur fækkað um 500 á milli ára.

Helsta skýringin á þessari fækkun er væntanlega lokun loðnuverksmiðja og einnig rækjuverksmiðja víða um land á síðustu misserum.  Félagsmönnum innan Verkalýðsfélags Akraness sem starfa í fiskvinnslu hefur verið að fækka töluvert á liðnum misserum.  Nægir þar að nefna að einungis einn starfsmaður er eftir í Síldar- og fiskimjölsverksmiðju HB-Granda, en þar störfuðu 25 manns þegar mest var. 

 Það er alveg óhætt að segja að formanni félagsins hafi verið verulega brugðið þegar hann heyrði þessar tölur en þess má geta að fiskvinnslufólk á Íslandi er á bilinu 5-6 þúsund.

Haldi þessi þróun áfram eru ekki mörg ár í það að fiskvinnsla leggist af á Íslandi.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur þetta mikið áhyggjuefni og vonast til þess að menn efli fiskvinnsluna í landinu til að sporna við þessari þróun.

11
Oct

Stjórn og trúnaðarráð félagsins kom saman til fundar á mánudaginn

Stjórn og trúnaðarráð kom saman til fundar á mánudaginn var.  Á fundinum voru nokkur mál til umfjöllunar. T.d gerði formaður félagsins grein fyrir þeim málum sem rædd voru á formannafundi Starfsgreinasambandsins sem haldinn var á Ísafirði í síðustu viku.  Málefni erlends vinnuafls var einnig til umræðu á fundinum. 

Það kom skýrt fram hjá þeim sem eiga sæti í trúnaðarráði félagsins að þeir hafa verulegar áhyggur af þeirri gríðarlegu fjölgun sem hefur orðið hefur á erlendu vinnuafli á íslenskum vinnumarkaði á undanförnum mánuðum.  

Verkalýðsfélag Akraness hefur ítrekað bent á að félagsleg undirboð og svört atvinnustarfsemi hefur stóraukist eftir að takmörkunum á frjálsu flæði launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES var aflétt 1.maí sl.

Á fundinum voru einnig valdir þeir fulltrúar sem munu eiga sæti á ársfundi ASÍ sem haldinn verður 26. og 27. október nk.  Þeir aðilar sem sitja fyrir hönd Verkalýðsfélags Akraness eru:  Vilhjálmur Birgisson, Þórarinn Helgason, Björgólfur Einarsson og Tómas Rúnar Andrésson.

06
Oct

Helstu niðurstöður úr launa- og kjarakönnun Starfsgreinasambands Íslands

Farið var yfir helstu niðurstöður úr 2000 manna úrtaki úr félagaskrám Eflingar, Hlífar og VSFK og 1500 manna úrtaki úr öðrum aðildarfélögum SGS á landsbyggðinni, á formannafundi aðildarfélaga SGS á Ísafirði nú í dag. Svarhlutfall var 50,4% 

Helstu niðurstöður eru birtar hér á eftir en skýrsla um könnunina  í heild sinni verður birt 20 október.:

Helstu niðurstöður:

  • Ríflega 60% telja að fjárhagsleg staða þeirra í dag sé heldur eða miklu betri en hún var fyrir þremur árum síðan
  • Yfir 80% hafa fundið mikið fyrir hækkandi verðbólgu og þá helst í hækkun á matvöruverði
  • 49% telja mjög eða frekar líklegt að þeir verði í sama starfi núna og eftir 3 ár, en þetta hlutfall er lægra heldur í viðhorfskönnun sem gerð var fyrir Flóabandalagið í mars 2005
  • Mun færri konur en karlar hafa óskað eftir launahækkun sl. 12 mánuði umfram samningsbundnar eða áður ákveðnar launahækkanir eða einungis 21% á móti 33% karla.  75% þeirra sem óskuðu eftir launahækkun, fengu hækkun í kjölfarið
  • Meðalvinnustundir voru tæplega 50 hjá þeim sem voru í fullu starfi og meðalyfirvinnustundir 12.  Austurland sker sig úr með fjölda yfirvinnustunda en þeir vinna að meðaltali tæplega 17 yfirvinnustundir á viku
  • Heildarlaun þeirra sem voru í fullu starfi voru tæp 244 þús að meðaltali. (Heildarlaun karla voru tæp 279 þús en kvenna 188 þús.).
  • Meðaldagvinnulaun karla í fullu starfi eru tæp 187þús. og hjá konum eru þau tæp 150þús.
  • Umönnunarhópurinn er ósáttastur með launin þar sem að 54,7% segjast vera frekar eða mjög ósátt með launin en í heildina var hlutfallið 32,1%.  Þá er þetta hlutfall einnig mjög breytilegt á milli kynja en 22,3% karla eru frekar eða mjög ósáttir og 51% kvenna
04
Oct

Trúnaðarmenn Verkalýðsfélags Akraness athugið!

Verkalýðsfélag Akraness býður trúnaðarmönnum félagsins uppá trúnaðarmannanámskeið.  Námskeiðið er liður í því að gera trúnaðarmenn hæfari til að takast á við þau verkefni sem tilheyra trúnaðarmönnum.

Námskeiðið byrjar mánudaginn 16. október og lýkur föstudaginn 20. október.  Námskeiðið verður haldið í fundarherbergi félagsins að Sunnubraut 13.

Samkvæmt kjarasamningum á hver trúnaðarmaður rétt á að sækja trúnaðarmannanámskeið einu sinni á ári, án skerðingar á dagvinnulaunum.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hvetur alla trúnaðarmenn félagsins til að skrá sig fyrir föstudaginn 13. október.  Skráning fer fram á skrifstofu félagsins eða í síma 430-9900 og þar er einnig hægt að fá nánari upplýsingar um námskeiðið.

02
Oct

Formannafundur Starfsgreinasambandsins verður haldinn á Ísafirði 5-6 október

Það ár sem þing SGS er ekki haldið, er boðað til sérstaks formannafundar sambandsins. Að þessu sinni verður fundurinn haldinn á Ísafirði þar sem staða kjara- og efnahagsmála verður ofarlega á baugi.

Kynntar verða niðurstöður kjarakönnunar meðal félagsmanna aðildarfélaga SGS, sem Gallup hefur unnið. Ólafur Darri Andrason forstöðumaður hagdeildar ASÍ mun fjalla um karaþróunina í ljósi efnahagsmálanna og Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur og lektor við HÍ mun viðra skoðun sína á því hvernig bæta megi kjörin, hvað sé mikilvægast fyrir verkafólk á næstunni.

Formenn 26 aðildarfélaga SGS munu sitja fundinn og afgreiða  ályktanir sambandsins m.a. um kjaramál.

29
Sep

Myndir frá ferð eldri félagsmanna komnar á síðuna.

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni fóru eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness í vel heppnaða dagsferð í boði félagsins á dögunum. Hægt er að skoða myndir úr ferðinni undir liðnum myndir hér vinstra megin á síðunni.

26
Sep

Kjör á ársfund ASÍ

Verkalýðsfélag Akraness hefur ákveðið að kjör fulltrúa á ársfund ASÍ fari fram að viðhafðri allherjar atkvæðagreiðslu. Verkalýðsfélagið á rétt á fjórum fulltrúum á ársfundinn sem haldinn verður í Reykjavík dagana 26. - 27. október 2006. Listum þar sem tilgreind eru nöfn aðal- og varafulltrúa sem skulu einnig vera fjórir skal skila á Skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13, eigi síðar en kl. 16:00 miðvikudaginn 4. október 2006. Hverjum framboðslista skal fylgja meðmæli 50 fullgildra félagsmanna.

22
Sep

Verkalýðsfélag Akraness þarf ekki að stefna fiskvinnslufyrirtæki fyrir félagsdóm!

Eins og fram kom hér á heimasíðunni fyrir skemmstu þá var Verkalýðsfélag Akraness búið að ákveða að stefna fiskvinnslufyrirtæki hér í bæ fyrir félagsdóm.  Verkalýðsfélag Akraness taldi fyrirtækið hafa ekki staðið við það samkomulag sem lítur að taxtaviðaukanum sem verkalýðshreyfingin gerði við Samtök atvinnulífsins og tók gildi 1. júlí sl. 

Formaður félagsins reyndi að leysa málið með forsvarsmönnum fyrirtækisins en það tókst ekki.  Í ágúst tilkynnt formaður félagsins forsvarsmönnum fyrirtækisins að VLFA myndi stefna fyrirtækinu fyrir félagsdóm þar sem málið yrði tekið til úrskurðar.  Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa hins vegar tilkynnt það núna að þeir hyggist greiða starfsmönnum eftir umræddum taxtaviðauka með sama hætti og Verkalýðsfélag Akraness lagði til við fyrirtækið í byrjun.  Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessari ákvörðun forsvarsmanna fyrirtækisins því hér voru umtalsverðir hagsmunir í húfi fyrir starfsmenn. 

Þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er að vera félagsmaður í öflugu stéttarfélagi.   Það er einu sinni þannig að stjórn Verkalýðsfélags Akraness vílar ekki fyrir sér að fara með mál fyrir félagsdóm ef ekki næst samkomulag við atvinnurekendur og einnig ef grunur leikur á að  brotið sé á okkar félagsmönnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image