• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óttast um öryggi þeirra sem hafa aðsetur í iðnaðarhúsnæðum Þessu iðnaðarhúsnæði hefur heilbrigðisfulltrúi lokað, en þar bjuggu 6 pólverjar
21
Nov

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óttast um öryggi þeirra sem hafa aðsetur í iðnaðarhúsnæðum

Í fréttum Stöðvar 2 í gær var fjallað pólska verkamenn sem búa í iðnaðarhúsnæði að Dalshrauni 13 í Hafnafirði.  Vill Verkalýðsfélag Akraness þakka fréttastofu Stöðvar 2 fyrir að vekja máls á þessu vandamáli einfaldlega vegna þeirrar stórhættu sem getur skapast ef eldur brýst út í iðnaðarhúsnæði þar sem fólk hefur aðsetur án vitundar slökkviliðs.

Á heimasíðu félagsins hefur verið bent á þetta vandamál og þá hættu sem af þessu getur skapast.

Það er óheimilt að gefa starfsleyfi fyrir starfsmannabústað í iðnaðarhúsnæði samkvæmt hollustuháttarreglugerð nr. 941/2002.

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið í mjög góðu samstarfi við heilbrigðisfulltrúa Akraneskaupstaðar hvað varðar eftirlit með iðnaðarhúsnæði sem nýtt er sem íbúðarhúsnæði fyrir erlenda starfsmenn.  Eftir ábendingu hefur heilbrigðisfulltrúi Akraneskaupstaðar nú þegar lokað tveimur iðnaðarhúsnæðum sem notuð hafa verið sem gistiaðstaða fyrir erlenda verkamenn á forsendu áðurnefndar reglugerðar.

Annar staðurinn sem um ræðir er fyrrum sólbaðsstofa og voru á milli 10 til 12 Litháar sem þar gistu.  Í eftirlitsferð sem lögreglan og heilbrigðisfulltrúi fóru á umræddan stað kom í ljós að svo virtist sem einn erlendi starfsmaðurinn svæfi í einum af þeim ljósabekkjum sem voru á staðnum.

Á hinum staðnum bjuggu 4 til 6 pólverjar á stað sem hafði ekki heldur nein leyfi sem íbúðarhúsnæði. Eins og áður sagði þá hefur heilbrigðisfulltrúi Akraneskaupstaðar bannað að þessi iðnaðarhúsnæði skuli vera notuð sem gistiaðstaða fyrir erlenda verkamenn.

Í stjórn Verkalýðsfélags Akraness situr stjórnarmaður sem hefur starfað í slökkviliði bæjarins í áratugi. Hefur hann lýst yfir verulegum áhyggjum með þann mikla fjölda erlendra starfsmanna sem hefur aðsetur í iðnaðarhúsnæði vítt og breitt um landið.  Benti þessi stjórnarmaður VLFA á að ef eldur brýst út í iðnaðarhúsnæði þá óttaðist hann að slökkviliðsmenn almennt hefðu ekki hugmynd um hvort einhverjir séu inni í brennandi iðnaðarhúsnæðinu eða ekki, einfaldlega vegna þess að í lögum er óleyfilegt að búa í iðnaðarhúsnæði.  Það var samróma álit stjórnar VLFA að hér getur verið um tifandi tímasprengju um að ræða og afar brýnt að tekið verði fast á þeim aðilum sem eru að leigja iðnaðarhúsnæði undir slíka starfssemi án heimildar.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image