• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Nov

Viðurkennum að vandinn sé til staðar

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal bæði við Grétar Þorsteinsson forseta ASÍ og Ragnar Árnason forstöðumann vinnumálasviðs Samtaka atvinnulífsins.

Í fréttinni kemur fram að kjaramunur milli aðfluttra og innfæddra hafi minnkað eftir að ákvæði ESS-samningsins var innleitt með öllu þann 1. maí þessa árs.  Er þessi staðhæfing byggð á frásögn aðila á vinnumarkaðnum.  Formanni Verkalýðsfélags Akraness þætti fróðlegt að vita hvaða aðili á vinnumarkaðnum haldi þessu fram.  Það er alvitað að laun verkafólks eru á hraðri niðurleið vegna þess gríðarlegs innstreymis sem orðið hefur á ódýru vinnuafli frá Austur -Evrópu frá gildistöku laganna. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness getur ekki orða bundist þegar forseti ASÍ segist hafa orðið var við að laun erlends vinnuafls hafi hækkað í kjölfarið á því að takmörkunum á frjálsri för launafólks var aflétt 1. maí sl.  Einnig nefnir forsetinn að umfang starfsmannaleiga hafi minnkað.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur bæði þessi atriði kolröng hjá forsetanum og í raun með öllu óskiljanleg.  Eftirfarandi er haft orðrétt eftir forseta ASÍ í fréttablaðinu í dag um þetta mál:

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, kannast við þessa þróun og segir hana fagnaðarefni fyrir verkafólk.  "Hvað sem um opnunina þann 1. maí má segja, töldu menn að með henni myndi draga úr umfangi starfsmannaleiganna.  Það virðist vera raunin, því það er ljóst að síðustu mánuðina hefur ráðningum starfsmannaleiga snarfækkað, og beinar ráðningar aukist á móti.  Við höfum heyrt að þetta sé ein helsta skýringin á því að laun er að nálgast markaðskjör. Verkalýðshreyfingin hefur reynt að tryggja þessu fólki markaðslaun en oftast hefur okkur aðeins tekist að tryggja lágmarkskjör.  Því er þessi þróun fagnaðarefni,"segir Grétar.

Eins og áður sagði telur formaður VLFA þetta alrangt hjá forsetanum.  Einfaldlega vegna þess að það liggur fyrir í fyrsta lagi að starfsmannaleigum hefur fjölgað um 10 frá 1. maí.  Starfsmönnum sem ráðnir eru í gegnum starfsmannaleigur hefur fjölgað um 724 frá gildistöku laganna. Í dag koma 80 erlendir starfsmenn inná íslenskan vinnumarkað í hverjum mánuði í gegnum starfsmannaleigur.  Telur Vinnumálastofnun að á milli 10 til 11% nýrra erlendra starfsmanna sem hingað koma til starfa séu ráðnir í gegnum starfsmannaleigur.  Þessar upplýsingar eru byggðar á upplýsingum frá Vinnumálastofnun. 

Formaður VLFA kannast alls ekki við það að laun erlendra starfsmanna séu að nálgast markaðslaun.   Formaður VLFA talaði við kollega sinn á Húsavík sem einnig var undrandi á ummælum forseta ASÍ.  Hann kannast heldur við að laun erlends verkafólks hafi hækkað í kjölfar á frjálsri för launafólks frá hinum nýju ríkum ESS. 

Það er alvitað að stór meirihluti þeirra ráðningarsamninga sem berast Vinnumálastofnun miðast við lágmarkskjör.  Það er einnig vitað að stéttarfélögin vítt og breitt um landið eru á fullu í því að verja það að atvinnurekendur greiði ekki laun undir lágmarkstöxtum.  Fréttir birtast nánast daglega um að verið sé að misbjóða þessu aumingja erlenda verkafólki bæði hvað varðar aðbúnað og önnur starfskjör, þetta er alvitað.

Ef við ætlum að ná að laga það ástand sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði þá er algert grundvallaratriði að þeir sem eru í forsvari fyrir íslenskt verkafólk viðurkenni að vandinn sé til staðar.  

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ætíð sagt að íslensk stjórnvöld hafi ekki verið tilbúin með það regluverk sem þurfti til að taka við þeirri aukningu sem varð samhliða því að takmörkunum var aflétt.  Einnig  hafði formaður VLFA bent á að markaðslaunakerfið yrði í hættu og að eftirlit stéttarfélaganna yrði stórskert vegna hinna nýju laga um atvinnu-og búseturétt launafólks frá hinum nýju ríkum ESS, sem tóku gildi 1.maí sl. 

Formaður VLFA telur að því miður hafi stór hluti þessara varnaðarorða nú þegar ræst.

Skoðum hvaða vandamál hafa komið upp eftir að lögin tóku gildi 1. maí.  Samt er rétt að benda á að hluti af þessum atriðum sem nefnd eru hér að neðan voru til staðar fyrir 1. maí.

  • Þjóðskrá hafði ekki undan að afgreiða kennitölur.
  • Tilkynningar til Vinnumálastofnunar voru ekki í neinu samræmi við fjöldann á afgreiddum kennitölum.
  • Áætlað er að 2000 manns séu að starfa án þess að hafa verið tilkynntir til Vinnumálastofnunar.
  • Stór hluti erlendra starfsmanna er settur á berstrípuð lágmarkskjör. 
  • Eftirlit stéttarfélaga hefur verið skert töluvert.
  • Starfsmannaleigum hefur fjölgað um 10
  • 724 hafa verið ráðnir í gegnum starfsmannaleigur og fjölgar um 80 í hverjum mánuði.
  • Þó nokkur fjöldi erlendra starfsmanna býr við ömurlegar aðstæður í ósamþykktum iðnaðarhúsnæðum.
  • Fjöldi erlendra starfsmanna nýtur ekki réttinda í sjúkratryggingum vegna þess að ekki er hægt að skrá lögheimili í iðnaðarhúsnæði.
  • Framlag ríkisins vegna íslenskukennslu var ekkert.

Sú umræða sem orðið hefur um innflytjendur að undanförnu hefur þegar skilað eftirtöldum árangri: 

  1. Ríkisstjórnin nýtti sér heimild til að takmarka för launafólks frá Rúmeníu og Búlgaríu.
  2. 100 milljón króna framlag til íslensku kennslu.
  3. Möguleiki á fjárstuðningi við innflytjendaráð.

Aðalmálið er eins og áður sagði það verða allir að viðurkenna að vandinn sé til staðar til að hægt sé að leysa hann.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image