• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

19
Sep

Trúnaðarmannanámskeið verður haldið 16 október

Verkalýðsfélag Akraness mun halda trúnaðarmannanámskeið um miðjan október.  Námskeiðið verður auglýst nánar fljótlega og hvetur stjórn félagsins alla trúnaðarmenn félagsins til að skrá sig þegar að því kemur.

Það er markmið stjórnar félagsins að gera trúnaðarmenn eins hæfa  til að gegna sínu starfi eins og kostur og er þetta námskeið einn liður í því.

15
Sep

Vetrarleiga sumarhúsa VLFA

Vetrarleiga orlofshúsa hefur farið vel af stað á skrifstofu félagsins. Forsjálir félagsmenn eru greinilega byrjaðir að skipuleggja notalegar helgarferðir í haust og hvað er þá betra en að bregða sér út úr bænum og slaka á í heitum potti á stjörnubjartri vetrarnóttu?

Fyrir þá sem kunna ekki eins vel við sveitarómantíkina er auk sumarbústaða félagsins hægt að fá leigða íbúð félagsins við Furulund á Akureyri og einnig íbúð við Laufásveg í Stykkishólmi. Hægt er að skoða myndir frá Stykkishólmi með því að smella hér.

Félagsmönnum er bent á að undir liðnum orlofshús hér vinstra megin á síðunni er hægt að skoða laus tímabil og myndir frá sumarbústöðunum eru komnar undir liðinn myndir.

12
Sep

Félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness fjölgar sem aldrei fyrr

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness eru fleiri nú en nokkru sinni fyrr. Árið 2004, á fyrsta starfsári nýrrar stjórnar félagsins fjölgaði félagsmönnum um 190 og voru í lok þess árs orðnir 1.807 talsins. Í lok síðasta árs voru félagarnir orðnir 1.878 talsins og hafði þá fjölgað um 71 árið 2005.

Það sem af er þessu ári hefur félagsmönnum fjölgað um 306 og eru í dag 2.184 talsins og eru þó aðeins 8 mánuðir liðnir af árinu.

Töluverð fjölgun hefur orðið á starfsfólki hjá stórum fyrirtækjum á félagssvæði VLFA. Samkvæmt skilagreinum voru 199 félagsmenn starfandi hjá Norðuráli í júlí 2005 en þeir voru orðnir 312 í júlí 2006. Fjölgunin er upp á 113 félagsmenn.

Önnur stór fyrirtæki á svæðinu eru m.a. Íslenska Járnblendifélagið með 94 félagsmenn okkar, HB-Grandi með 126 félagsmenn og Smellinn með 59 félagsmenn.

Þessi fjölgun félagsmanna VLFA er afar ánægjuleg og sýnir svo ekki verður um villst að atvinnuástand á okkar félagssvæði er afar gott um þessar mundir. Einnig er greinilegt að félagsmenn okkar kunna vel að meta þá þjónustu sem félagið veitir þeim.

08
Sep

Formaður félagsins skorar á Svein Kristinsson að fara yfir þau launaáhrif sem sameining Stak við Starfsmannafélag Reykjavíkur hefði á þá sem lægstu hafa launin

Sveinn Kristinsson fulltrúi Samfylkingar í bæjarráði fer mikinn í viðtali við Skessuhornið í gær. Sveinn er afar óhress með að formaður Verkalýðsfélags Akraness skuli á heimasíðu félagsins voga sér að gagnrýna bókun sem Sveinn gerði í bæjarráði vegna þeirrar ákvörðunar meirihluta bæjarráðs að hækka laun þeirra starfsmanna sem lægstu launin hafa hjá Akraneskaupstað.

Um hvað snýst umrædd bókun hjá Sveini?  Hún snýst um það að Sveinn lét bóka að hann teldi samþykktina um hækkun lægstu launa óheppilega. Vísaði hann til þess að í vor samþykkti bæjarstjórn samhljóða að verða við tilmælum Starfsmannafélags Akraness um að ef félagið sameinaðist Starfsmannafélagi Reykjavíkur myndu bæjaryfirvöld samþykkja fyrir sitt leyti að kjarasamningar yrðu á hendi hins sameinaða stéttarfélags.  Einnig kemur fram í umræddri bókun að Sveinn telji nauðsynlegt að hækka laun hinna lægst launuðu hjá bænum en telur sameiningu stéttarfélaganna farsælli leið til þess.

Það er að mati formanns félagsins afar ámælisvert af Sveini Kristinssyni að halda því fram í umræddri bókun að farsælla sé fyrir hinna lægst launuðu sem starfa hjá Akraneskaupstað að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar til að fá hækkun á sínum launum. 

Tökum dæmi: ef Starfsmannafélag Akraneskaupstaðar væri sameinað Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og starfsmenn Akraneskaupstaðar tækju laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar hvað myndi það þýða fyrir þá lægst launuðu hjá Akraneskaupstað?  Starfsmenn sem starfa við ræstingar og í þvottahúsi hafa í dag samkvæmt kjarasamningi launanefndar sveitafélaga 143.279 kr. í laun með mánaðarlegum eingreiðslum.  Ef sömu starfsmenn myndu taka laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar þá væru launin fyrir fullt starf 132.494 kr. á mánuði. Mismunurinn er hvorki meira né minna en 10.785 á mánuði eða 129.420 kr. á ári.

Hérna kemur annað dæmi: verkamenn sem starfa við sorpmóttöku hafa í laun í dag samkvæmt kjarasamningi launanefndar sveitafélaga 148.459 kr. með mánaðarlegum eingreiðslum.  Ef sömu starfsmenn myndu taka laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar þá væru launin fyrir fullt starf 147.048 kr. á mánuði. Mismunurinn er 1.410 kr. á mánuði eða 16.920 kr. á ári.

Tökum fleiri dæmi.  Starfsmenn sem starfa sem aðstoðarmenn í eldhúsi (matráður I) hafa í laun í dag samkvæmt kjarasamningi launanefndar sveitafélaga 148.458 kr. með mánaðarlegum eingreiðslum.  Ef sömu starfsmenn myndu taka laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar þá væru launin fyrir fullt starf 147.078 kr. á mánuði. Mismunurinn er 1.380 kr. á mánuði eða 16.560 kr. á ári.  Í öllum þessum dæmum er ekki tekið tillit til starfsaldurs.

Það eru blákaldar staðreyndir að þeir tekjulægstu sem starfa hjá Akraneskaupstað myndu einfaldlega lækka í launum við það að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. 

Það er með hreinustu ólíkindum að Sveinn Kristinsson skuli telja það pólititískar árásir á sig þegar formaður félagsins bendir ófaglærðu starfsfólki Akraneskaupstaðar á að það hefði lægri laun ef það tæki laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar.

Karl Björnsson hjá Launanefnd sveitafélaga var búinn að benda á í viðtali við Skessuhornið að þeir sem lægstu hefðu launin hjá Akraneskaupstað myndu nánast ekki hækka neitt við að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og í sumum tilfellum myndu starfsmenn lækka í launum.  Jafnframt benti Karl á að þeir sem hæstu hefðu launin myndu hækka mest við sameiningu.  

Sveinn sagði við Skessuhornið í gær að hann undraðist að formaður Verkalýðsfélags Akraness skuli helst treysta málflutningi Karls Björnssonar, harðsnúnasta samningamanns Launanefndar sveitafélaga og væntanlega er Sveinn að draga í efa þau ummæli Karls að þeir tekjulægstu fengu minnst og þeir tekjuhæstu mest við sameingu félaganna.

Málið er að formaður Verkalýðsfélags Akraness byggir útreikninga sína á fyrirliggjandi kjarasamningum þessara tveggja stéttarfélaga og einnig fyrirliggjandi starfsmati.  Þannig að formaður félagsins þarf á engan hátt að treysta samningamanni launanefndar í þessu máli. Hann hefur hins vegar komist að sömu niðurstöðu og Karl Björnsson í þessu máli þegar fyrirliggjandi gögn eru skoðuð.

Einnig sagði Sveinn orðrétt við Skessuhornið í gær "Mér finnst ekki mikil reisn yfir þeirri leið, sem formaður Verkalýðsfélags Akraness mælir með, að þiggja launabætur með sérstökum samþykktum stjórnmálamanna og maula þannig einhverja mola úr lófum þeirra". 

 

Hið rétta er að formaður félagsins fagnaði því að meirihluti bæjarráðs ákvað að hækka laun þeirra sem lægstu hafa launin hjá Akraneskaupstað.  Formanni VLFA er alveg sama hvort Sveini finnst lítil reisn yfir þeirri leið sem bæjarráð fór varðandi launahækkanir til þeirra lægst launuðu.  Það sem skiptir máli er að laun þeirra voru hækkuð.  Rétt er að spyrja Svein að því hvort honum hafi fundist lítil reisn yfir þeim einhliða launahækkunum sem fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkuborgar kom með í desember 2005?.  Eitt er víst að formaður VLFA fagnaði þeim sem og öðrum launahækkunum til handa þeim sem lægstu hafa launin. 

Vissulega er það rétt hjá Sveini að félagsmenn Stak eigi að ráða örlögum sínum sjálfir varðandi sameiningu.  En það er algert lágmark að félagsmenn séu rétt upplýstir um breytingu á launakjörum við sameiningu við Starfsmannafélag Reykjavíkur.  Það er því ámælisvert hjá Sveini að reyna að telja þeim tekjulægstu í trú um að það sé farsælast að sameinast Starfsmannfélagi Reykjavíkur til að fá launahækkun.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á Sveinn Kristinsson að fara yfir fyrirliggjandi gögn ásamt formanninum. Án nokkurs efa munu þau sýna fram á að laun tekjulægstu starfmanna Akraneskaupstaðar myndu lækka við sameiningu.  Einnig mun koma í ljós veruleg hækkun hjá þeim tekjuhæstu við sameiningu Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar við Starfsmannafélag Reykjavíkur.

Rétt er að segja frá því að formaður félagsins fundaði með bæjarráði í vor þegar Sveinn var í meirihluta um þessi mál.  Á þeim fundi spurði formaður VLFA Svein hvort hann teldi það sanngjarnt að við sameiningu Stak við Starfsmannafélag Reykjavíkur, myndu þeir sem lægstu hefðu launin lækka eða standa í stað á meðan stjórnendur hækkuðu margir hverjir um tugi þúsunda á mánuði.  Sveinn kannski svarar því núna hvort hann telji það sanngjarnt.

Að lokum spyr formaður:  átti hann að láta ógert að benda t.d ræstingafólki og starfsfólki í þvottahúsi sem starfar hjá Akraneskaupstað á þá staðreynd að við sameiningu við Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar gæti það jafnvel lækkað í launum um 10.785 kr. á mánuði?  Formaður félagsins spyr sig hvort hann hefði átt að þegja yfir þessum mismuni. Kannski að einhverjir hefðu viljað það, en ekki formaður VLFA svo mikið er víst. 

07
Sep

Lausir bústaðir um næstu helgi

Athygli félagsmanna er vakin á því að vegna forfalla eru bústaðir félagsins í Svínadal og í Húsafelli lausir til umsóknar núna um helgina.

Hægt er að skoða lausar vikur undir liðnum orlofshús hér vinstra megin. Einnig er bent á að myndir af flestum bústöðum félagsins eru komnar undir liðinn myndir hér til vinstri.

06
Sep

Áhugavert námskeið á vegum Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi

Í október hefst námskeið ætlað einstaklingum sem glíma við lestrar- eða skriftarörðugleika og eru á vinnumarkaði, en hyggjast fara í nám eða aftur í nám.  Námskeiðið er 95 kennslustundir og munu nemendur fara í sjálfsstyrkingu, íslensku, tölvu- og upplýsingatækni og í svokallaða Davis leiðréttingu. 

Davis leiðrétting er aðferð sem kennd er við Ron Davis sem sjálfur var lesblindur en tókst að þróa aðferðir til að hjálpa sér og öðrum í námi og daglegu lífi. 

Markmiðið er að auka hæfni til náms og stuðla að jákvæðu viðhorfi til áframhaldandi náms. Tilgangur þess er að styrkja sjálfstraust námsmanna, þjálfa þá í lestri og skrift með aðferðum Ron Davis og búa þá undir frekari þjálfun eftir að námskeiðinu lýkur.

“Aftur í nám” er ætlað þeim sem eru komnir af unglingsaldri og glíma við lestrar- og skriftarörðugleika.

Engar kröfur eru gerðar til lágmarks skólagöngu áður en nám hefst og námsmenn gangast ekki undir formleg próf. Kennt er 2x í viku frá kl. 17:00 – 20:00.  Námskeiðið stendur fram í byrjun desember og lýkur með útskrift. 

Kennt er í FVA. Hægt er að skrá sig á heimasíðu Símenntunarmiðstöðvarinnar www.simenntun.is.  Námsvísir Símenntunarmiðst.er væntanlegur og er hann borinn í öll hús á Vesturlandi. Þar má finna nánari upplýsingar um námskeiðið.  Námskeiðið kostar 46.000 þúsund. 

Rétt er að minna fullgilda félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness á að þeir sem starfa eftir kjarasamningum félagsins og Samtaka atvinnulífsins eiga rétt á styrk frá félaginu sem nemur 75% af  námskeiðskostnaðnum.  Þannig mun umrætt námskeið kosta einungis 11.500 kr. fyrir fullgilda félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness. 

05
Sep

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar launahækkunum fyrir þá tekjulægstu hjá Akraneskaupstað

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar þeirri ákvörðun Bæjarráðs Akraneskaupstaðar að hækka laun þeirra sem lægstu hafa launin.  Eftir þeim upplýsingum sem formaður félagsins hefur þá eru það þeir starfsmenn sem taka laun eftir launaflokkum 115, 116 og 117 sem fá umræddar hækkanir og eru þær á bilinu 2,5 til 3%. 

Vissulega hefði verið ánægjulegt að sjá lagfæringu á launakjörum þeirra sem starfa á launaflokkum alveg upp í 122.  Það eru þessir hópar sem hvað lægstu launin hafa. 

Sveinn Kristinsson bæjarráðsmaður Samfylkingarinnar lét bóka að hann teldi samþykktina óheppilega. Vísaði hann til þess að í vor samþykkti bæjarstjórn samhljóða að verða við tilmælum Starfsmannafélags Akraness um að ef félagið sameinaðist Starfsmannafélagi Reykjavíkur myndu bæjaryfirvöld samþykkja fyrir sitt leyti að kjarasamningar yrðu á hendi hins sameinaða stéttarfélags. Mikilvægt sé að þessar viðræður félaganna verði til lykta leiddar áður en bæjaryfirvöld hafa afskipti af kjaramálum félagsins enda sé kjarasamningur í gildi. Þá kemur fram í bókun Sveins að hann telji nauðsynlegt að hækka laun hinna lægstlaunuðustu hjá bænum en telur sameiningu stéttarfélaganna farsælli leið til þess.

Það vekur reyndar furðu formanns félagsins að Sveinn Kristinsson skuli telja það koma sér betur fyrir þá sem lægstu hafa launin hjá Akraneskaupstað að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.  Formaður félagsins gerði fyrrverandi bæjarráði grein fyrir því fyrir kosningar að þeir starfsmenn sem lægstu hafa launin hjá Akraneskaupstað myndu sáralítinn ávinning hafa af því að sameinast suður til Reykjavíkur.  Í sumum tilfellum eins og hjá ræstingafólki myndi sameining fela í sér tekjulækkun.

Hins vegar upplýsti formaður félagsins Svein og þá sem áttu sæti í bæjarráði að stjórnendur, millistjórnendur og forstöðumenn myndu hækka um tugi þúsunda við það að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. 

Einnig er rétt að minna á að Karl Björnsson hjá Launanefnd sveitafélaga sagði í viðtali við Skessuhornið á sínum tíma að sameining Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar og Starfsmannafélags Reykjavíkuborgar myndi þýða sáralitla breytingu fyrir þá sem lægstu launin hafa.  Hins vegar myndu hæstu launin hækka umtalsvert.    

Það er formanni félagsins alveg fyrirmunað að skilja hvernig Sveinn getur talið það farsælast fyrir þá tekjulægstu að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar á grundvelli þeirra staðreynda sem hann hefur verið upplýstur um.

Rétt er að minna á að stjórn Verkalýðsfélags Akraness bauð Starfsmannafélagi Akraneskaupstaðar að hefja viðræður um sameiningu eða samstarf. Það telur formaður félagsins mun farsælla fyrir ófaglærða starfsmenn Akraneskaupstaðar. Því miður reyndist ekki vilji fyrir því hjá stjórn STAK.

04
Sep

Formaður félagsins fór í eftirlitsferð í þau fyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu

Formaður félagsins fór og heimsótti þau fyrirtæki á Akranesi sem hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Að þessu sinni voru aðallega byggingarfyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn til skoðunar.

Það er alveg ljóst að umfjöllun Blaðsins undanfarið um kennitöluleysi, réttindi og aðbúnað erlends vinnuafls hefur gert það að verkum að atvinnurekendur eru að taka við sér hvað þessa þætti varðar.

Verkalýðsfélag Akraness er nú að vinna úr þeim upplýsingum sem fengust í þessum vinnustaðaheimsóknum og er m.a. að athuga hvort fyrirtækin hafa tilkynnt starfsmennina til vinnumálastofnunar eins og lög kveða á um.    

01
Sep

Vel heppnuð ferð eldri félagsmanna farin í gær

Í gær fóru um 100 eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness í dagsferð í boði félagsins. Í þetta sinn var farið um Reykjanesið og heppnaðist ferðin afskaplega vel. Veðrið lék við ferðalangana sem í fylgd Jóhönnu Þórarinsdóttur leiðsögumanns skoðuðu sig um á svæðinu.

 

Steinunn Kolbeinsdóttir við myndina

Þegar leiðsögumaðurinn var komin upp í rútuna í Keflavík var ekið sem leið lá yfir Miðnesheiði. Fyrsti áfangastaður var Hvalsneskirkja þar sem fróðleikur var fenginn um kirkjuna sjálfa og Hallgrím Pétursson sem var prestur þar um tíma. Síðan var ekið um Romshvalanes í gegnum Sandgerði út í Garð þar sem Byggðasafnið á Garðsskaga var skoðað. Þar er einnig mikið vélasafn sem vakti athygli margra. Sérstaklega er skemmtilegt að minnast þess að á byggðasafninu rákust ferðalangarnir óvænt á málverk af Steinunni Kolbeinsdóttur sem einmitt var með í för. Málverkið var gert árið 1940 eftir ljósmynd af Steinunni þar sem hún situr við rokkinn sinn.

Eftir áhugavert stopp á Garðsskaga var ekið til Keflavíkur þar sem boðið var upp á hádegisverð á veitingastaðnum Ránni. Að hádegisverði loknum var farið Reykjaneshringinn, ekið um Hafnir, Álfubrúin, Reykjanesviti og Valahnúkur skoðaður og stoppað við Gunnuhver. Þaðan var ekið framhjá Grindavík og í Bláa Lónið þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti áður en lagt var af stað upp á Skaga.

Myndir frá ferðinni verða settar inn á síðuna von bráðar.

30
Aug

Verkalýðsfélag Akraness styrkir unglingastarf SÁÁ um 100.000 kr

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á stjórnafundi í gærkveldi að styrkja unglingastarf SÁÁ um 100.000 kr. 

Rökin fyrir því að Verkalýðsfélag Akraness skuli telja sér það skylt að styðja við bakið á unglingastarfi SÁÁ blasa raunar allstaðar við.  Tugir einstaklinga af okkar félagssvæði sem hafa átt um sárt að binda sökum ofneyslu áfengis eða fíkniefna hafa notið aðstoðar og hjálpar SÁÁ .

Stjórn Verklýðsfélags Akraness er stolt af því að geta lagt unglingastarfi SÁÁ lið í því góða starfi sem þar er unnið. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image