• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Nov

Aðstoðarmaður félagsmálaráðherra fundaði með formanni félagsins í morgun

Formaður Verkalýðsfélags Akraness átti góðan fund með aðstoðarmanni félagsmálaráðherra, Guðmundi Páli Jónssyni, á skrifstofu félagsins í morgun. 

Megin umræðuefni fundarins var íslenski vinnumarkaðurinn og hvernig megi tryggja sem best að ekki sé brotið á réttindum erlends vinnuafls sem hingað kemur til starfa.

Formaður félagsins afhenti aðstoðarmanni félagsmálaráðherra gögn sem styðja sterklega grun um að verið sé að brjóta á réttindum erlendra verkamanna.  Aðstoðamaður félagsmálaráðherra bauðst til að skoða þessi mál sérstaklega í ljósi þeirra grunsemda sem fram komu í gögnunum. Hann sagði einnig að félagsmálaráðuneytið muni alls ekki sætta sig við að ekki sé farið eftir þeim leikreglum sem eiga að gilda á íslenskum vinnumarkaði. 

Einnig sýndi formaðurinn aðstoðarmanni ráðherra ráðningarsamning sem atvinnurekandi hafði skilað inn til Vinnumálastofnunar.  Á ráðningarsamningnum kom fram að erlendi starfsmaðurinn fengi 760 kr. í dagvinnu og 1368 kr. í yfirvinnu.  Á launaseðli kom hins vegar fram að hann var með 680 kr. í dagvinnu og 1.224 kr. í yfirvinnu.

Á þessari forsendu telur formaður VLFA afar brýnt að Vinnumálastofnun geri stikkprufur og kalli eftir launaseðlum til að kanna hvort verið sé að greiða eftir þeim ráðningarsamningum sem sendir eru inn til Vinnumálastofnunar.  Þetta dæmi sýnir að full þörf er á slíku eftirliti. 

Formaður félagsins tjáði aðstoðarmanni félagsmálaráðherra áhyggjur sínar á því að markaðslaun færu því miður lækkandi vegna þess mikla innstreymis sem orðið hefur á ódýru vinnuafli frá Austur - Evrópu að undanförnu.  Formaðurinn greindi aðstoðarmanninum frá því að hann telur að eina leiðin til að bjarga markaðslaununum sé að færa lágmarkstaxtana upp að markaðslaunum í næstu kjarasamningum.

Einnig fór formaður félagsins yfir það hversu mikilvægt hann telji að skerpa þurfi verulega á eftirlitshlutverki stéttarfélaga með þeim atvinnurekendum sem eru með erlent vinnuafl í sinni þjónustu.  Það væri hægt að gera með því að veita stéttarfélögum heimild til að kalla eftir launaseðlum, ráðningarsamningum og tímaskriftum hjá þeim atvinnurekendum sem hafa ráðið til sín erlent vinnuafl og sú heimild þyrfti að vera til staðar án þess að grunur um brot liggi fyrir.

Það fór ekki á milli mála á þessum fundi að félagsmálaráðuneytið er að skoða alla þessa þætti og hefur greinilega fullan vilja til að skerpa á þessum þáttum til að reyna að koma í veg fyrir að óprúttnir atvinnurekendur brjóti á réttindum erlends vinnuafls bæði hvað varðar aðbúnað og önnur starfskjör.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image