• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Dec

Útrýmum fátækt úr íslensku samfélagi

Í skýrslu sem forsætisráðherra lét gera um fátækt barna hér á landi kemur fram að um 4600 börn eða rétt tæp 7% allra barna á Íslandi búa við fátækt. Hjálparstofnun Kirkjunnar hefur einnig sagt að um 3000 barnafjölskyldur búi við fátækt á Íslandi í dag.  Það verður að segjast alveg eins og er að það er þjóðarskömm að hér á landi skuli tæplega 7% barna búa við fátæktarmörk og það hjá þjóð sem státar sig af því að vera ein af ríkustu þjóðum heims.

En hvað er það sem veldur því að hér á landi skuli 3000 fjölskyldur búa við fátækt?  Vissulega eru að öllum líkindum margir samverkandi þættir sem valda því að fólk býr við fátækt hér á landi t.d atvinnuleysi og langvarandi veikindi, sumir þessara einstaklinga búa við skerta starfsorku og einnig er rétt að nefna þær aðstæður sem einstæðir foreldrar þurfa að búa við.

En það eru sannarlega fleiri þættir sem valda fátækt hér á landi og lúta þeir þættir að íslenskum stjórnvöldum.  Það liggur fyrir að íslensk stjórnvöld leggja mun minna en aðrar Norðurlandaþjóðir til velferðarmála, t.d eru barnabætur hér á landi með þeim lægstu sem þekkjast á Norðurlöndunum.  Það þekkist heldur ekki á hinum Norðurlöndunum að tekjutengja barnabætur eins og gert er hér á landi. Ekki er nóg með að þær séu tekjutengdar hér heldur eru skerðingamörkin afar lág.  Einnig ber að nefna að skattleysismörkin hafa ekki fylgt verðlagsþróun sem hefur gert það að verkum að skattar á meðaltekjur og lágar tekjur hafa aukist umtalsvert á liðnum árum.  Hins vegar hefur ekki staðið á ríkisvaldinu að aðstoða þá sem eru efnameiri og nægir þar að nefna að hátekjuskattur og eignaskattur hafa nýlega verið aflagðir. Rétt er að vekja athygli á því að þegar endurskoðun á kjarasamningum fór fram í sumar náði verklýðshreyfingin samkomulagi við ríkisstjórnina um að skattleysismörkin skuli framvegis fylgja verðlagsþróun. Þetta er mjög mikilvægt atriði fyrir þá tekjulægstu.

Það er alveg ljóst að ef ríkisstjórn Íslands myndi  verja meiri fjármunum til velferðarmála þá myndi það leiða af sér mun minni fátækt en raunin er í dag.

Við í verkalýðshreyfingunni verðum líka skoða það sem okkur stendur næst og það eru lágmarkslaunin en það hefur verið skoðun formanns félagsins lengi að þau séu einfaldlega allt of lág.  Það þýðir ekki fyrir okkur sem erum í forsvari í verkalýðshreyfingunni að benda eingöngu á ríkisvaldið þegar umræðan um fátækt ber á góma.  Það sér það hver maður að það er nánast útilokað að lifa á þeim lágmarkslaunum sem nú eru í gildi á íslenskum vinnumarkaði en lágmarkslaun í dag eru einungis 123 þúsund á mánuði fyrir fullt starf.  Það er alls ekki hægt að bjóða íslensku verkafólki upp á lágmarkslaun sem vart duga fyrir lágmarksframfærslu.    

Það verður að vera forgangskrafa í næstu kjarasamningum að hækka lágmarkslaun til jafns við þau markaðslaun sem nú eru almennt í gildi á íslenskum vinnumarkaði.  Til að það takist þurfa laun að hækka í það minnsta um 30% við undirritun nýs kjarasamnings.

Nú þurfa íslensk stjórnvöld, Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin að leggjast á eitt til að útrýma fátækt úr íslensku samfélagi.  Stjórnvöld þurfa að leggja meira til velferðarmála og verkalýðshreyfingin þarf að berjast með oddi og egg fyrir verulegri hækkun lágmarkslauna. Með því mun okkur takast að útrýma fátækt úr íslensku samfélagi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image