• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

23
Jun

Samkomulagið sem verkalýðshreyfing gerði við Samtök atvinnulífsins skilar vaktavinnumönnum Norðuráls 25 þúsund króna hækkun á mánuði

Formaður félagsins hefur verið að kanna hvernig starfsmenn sem starfa í stóriðjunni á Grundartanga koma útúr nýju samkomulagi sem verkalýðshreyfingin gerði við Samtök atvinnulífsins í gær.

Starfsmenn sem vinna í vaktarvinnu í Norðuráli munu til að mynda hækka í launum um rétt rúmar 25 þúsund krónur á mánuði.  Ástæðan fyrir því að vaktarvinnumenn Norðuráls hækka umfram 15 þúsund krónurnar í taxtaviðaukanum er að taxtaviðaukinn skapar grunn fyrir yfirvinnu- og vaktarálag. 

 Vaktarálagið hjá Norðuráli er 37.62% þannig að hækkun á grunnlaunum um 15 þús á mánuði gerir það að verkum að vaktarálagið hækkar um 5.643 kr. á mánuði.  Taxtaviðaukinn skapar líka grunn til hækkunar á yfirvinnu og hefur það einnig áhrif á launakjör Norðurálsmanna þar sem þeir skila 26 föstum yfirvinnutímum á mánuði.  Sú hækkun nemur 4.446 kr á mánuði.  Samtals hækka því byrjunarlaun hjá vaktavinnumanni Norðuráls um 25.089 krónur á mánuði.

Vaktavinnumenn Íslenska járnblendifélagsins munu hækka um 20.643 á mánuði.  Skýring á því að þeir hækka ekki um það sama og vaktavinnumenn Norðuráls er sú að þeir skila ekki fastri yfirvinnu eins og Norðurálsmenn.

23
Jun

Persónuafslátturinn verður verðtryggður

Samkomulag hefur náðst milli verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins um endurskoðun kjarasamninga. Þá hefur ríkisstjórnin gefið út yfirlýsingu um aðgerðir tengdar endurskoðunin


Meginmarkmið samkomulags aðila vinnumarkaðarins og aðgerða ríkisstjórnarinnar er að eyða óvissu á vinnumarkaði og leggja grunn að hjöðnun verðbólgu þannig að hún verði komin í takt við 2,5% verðbólguviðmið kjarasamninga á síðari hluta ársins 2007.

Mikilvæg forsenda þess að þetta markmið náist er að allir aðilar samfélagsins leggi sitt að mörkum til lækkunar verðbólgu. Þar má engin skorast undan.

Hægt er að skoða samkomulagið við Samtök atvinnulífsins og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar með því að smella á meira

 5,5% launaþróunartrygging og kjarasamningar í gildi út árið 2007
Samkvæmt samkomulagi forsendunefndar ASÍ og SA skal starfsmanni sem er í starfi í júníbyrjun 2006 og hefur starfað samfellt hjá sama vinnuveitanda í a.m.k. 12 mánuði tryggð að lágmarki 5,5% launahækkun á þeim tíma. Hafi launahækkun starfsmannsins verið minni á tímabilinu skulu laun hans hækka frá 1. júlí 2006 um þá upphæð sem á vantar til að 5,5% hækkun sé náð.

Með samkomulagi forsendunefndar telst starfi hennar lokið og munu kjarasamningar halda gildi sínu út árið 2007.

15.000 kr. taxtaviðauki
ASÍ og landssambönd þess hafa samið við Samtök atvinnulífsins um 15.000 kr. taxtaviðauka sem bætist við alla mánaðarlaunataxta kjarasamninga þessara aðila. Þessum taxtaviðauka er ætlað að draga úr því misvægi á vinnumarkaði sem myndast hefur vegna launahækkana hjá hinu opinbera á undanförnum mánuðum og misserum.

Taxtaviðaukinn hefur ekki áhrif á laun annarra en þeirra sem fá greidd laun samkvæmt umsömdum launatöxtum. Starfsmenn sem eru á hærri launum en nemur launatöxtunum eftir hækkun eiga ekki rétt á hækkun sem nemur taxtaviðaukanum.

Lágmarkslaun (lágmarkstekjur fyrir fullt starf) hækka í 123.000 kr. á mánuði, frá 1. júlí 2006.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar
Ríkisstjórnin tekur í yfirlýsingu sinni undir þau markmið sem ASÍ og SA hafa sett sér um hjöðnun verðbólgu og mun hún eiga náið samstarf við hlutaðeigandi aðila til að tryggja þær efnahagslegu forsendur sem liggja að til grundvallar samkomulagi ASÍ og SA. Til að stuðla að áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði mun ríkisstjórnin beita sér fyrir eftirfarandi:

Hækkun skattleysismarka í 90.000 kr. um næstu áramót.

Skattleysismörk munu hækka í 90.000 kr. um næstu áramót. Persónuafsláttur verður endurskoðaður árlega og mun þá hækka í samræmi við vísitölu neysluverðs.

Vaxtabætur ársins endurskoðaðar

Ákvæði laga um vaxtabætur verða endurskoðuð ef í ljós kemur að hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 hafi leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum.

Barnabætur til 18 ára aldurs

Um næstu áramót verða teknar upp greiðslur barnabóta til 18 ára aldurs í samræmi við sjálfræðisaldur.

Tekjuskattur lækkar um 1% um næstu áramót

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir að tekjuskattur einstaklinga lækki um 1% stig um næstu áramót.

Framlög til fullorðinsfræðslu og starfsmenntamála

Framlög til fullorðinsfræðslu og starfsmenntamála verða aukin um 120 milljónir á ári og kemur hækkunin til framkvæmda árið 2007. Fjármunirnir eru ætlaðir til námskeiðahalds og endurmenntunar einstaklinga á vinnumarkaði, til eflinga náms- og starfsráðgjafar og raunfærnimats og til eflingar símenntamiðstöðvar ASÍ á höfuðborgarsvæðinu, með sambærilegum hætti og gildir á landsbyggðinni.

Vinnumarkaðurinn treystur og unnið gegn gerviverktöku og ólöglegri atvinnustarfsemi

Yfirlýst markmið er að tryggja að réttur sé ekki brotinn á erlendu launafólki og þau fyrirtæki sem starfa hér á landi virði lög og kjarasamninga. Tillögur ASÍ og SA frá 20. júní sl. um þetta efni verða hafðar til hliðsjónar og fjármögnun til verkefnisins tryggð.

Atvinnuleysisbætur hækka

Grunnfjárhæðir atvinnuleysisbóta hækka 1. júlí 2006 um 15.000 kr. til samræmis við þær hækkanir sem felast í samkomulagi ASÍ og SA. Hækkun þessi kemur til viðbótar þeirri hækkun sem þegar hafði verið ákveðin. Jafnframt mun hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta hækka í 185.400 kr.

Aldraðir og öryrkjar

Greiðslur til aldraðra og öryrkja verða ákveðnar til samræmis við samkomulag aðila vinnumarkaðarins og hækkun atvinnuleysisbóta. Málefni þessara hópa eru í sérstakri skoðun og verður nánari útfærsla á þessum hækkunum ákveðin þar.
Sjá nánar:
Samkomulag forsendunefndar ASÍ og SA

Samningur um taxtaviðauka

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar


Tillögur ASÍ og SA vegna erlendra starfsmanna, gerviverktöku, opinberra innkaupa og lögbrota í atvinnustarfi

22
Jun

Formannafundur hjá Starfsgreinasambandinu var haldinn í gær

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands funduðu í gær.  Tilefni fundarins var að fara yfir stöðuna við Samtök atvinnulífsins vegna endurskoðunar á kjarasamningum.  Einnig var til umræðu aðkoma ríkisstjórnarinnar að hugsanlegu samkomulagi við Samtök atvinnulífsins.

Það liggur orðið fyrir að í nýjum taxtaviðauka munu launataxtar hækka um 15 þúsund krónur og mun það gilda fyrir alla  kjarasamninga og sérkjarasamninga sem félagið hefur gert við Samtök atvinnulífsins.  

Hafi starfsmaður hinsvegar einhverskonar viðbótargreiðslur sem ekki er getið um í kjarasamningum þá hefur atvinnurekandi heimild til að draga viðbótargreiðsluna frá sem nemur allt að 15 þúsund krónum.    

Það náðist hinsvegar að tryggja að fastir afkastahvetjandi bónusar sem ekki er getið um í kjarasamningum í fiskvinnslunni komi ekki til lækkunar á 15 þúsund króna taxtaviðaukanum.  Með þessu er nánast öllum sem starfa í fiskvinnslu tryggð 15 þúsund króna taxtahækkun.

Formaður félagsins telur að miðað við aðstæður geta félagsmenn nokkuð vel við unað þó svo að vissulega hefði við formaðurinn viljað sjá en og meiri hækkanir til okkar félagsmanna.

Staðan er því þannig núna að verkalýðshreyfing er orðin nokkuð sátt við drögin að samkomulagi  við Samtök atvinnulífsins.  Því miður er ekki hægt að segja það sama með aðkomu ríkisins að þessu samkomulagi.  Þó er það vissulega  ánægjulegt að lagfæring mun koma á vaxta-og barnabótakerfið sem mun klárlega skila okkar félagsmönnum töluverðum ávinningi.   Ríkisstjórnin hefur því miður hafnað nýju skattþrepi handa þeim tekjulægstu og við það á verkalýðshreyfing afar erfitt með að sætta sig við.  Formaður félagsins telur það mjög mikilvægt að persónuafslátturinn verði verðtryggður og þá kröfu eigum við að gera á ríkisstjórnina. 

Stjórn félagsins mun halda félagsfund þar sem samkomulagið verður kynnt fyrir félagsmönnum þegar það liggur endanlega fyrir.

21
Jun

Festa lífeyrissjóður stofnaður á Akranesi

Á mánudaginn sl. var haldinn á Akranesi stofnfundur Festu lífeyrissjóðs. Sjóðurinn varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs Vesturlands og Lífeyrissjóðs Suðurlands. Lífeyrissjóður Suðurlands var sameinaður úr Lífeyrissjóði Suðurnesja og Lífeyrissjóði Suðurlands um mitt síðasta ár.  Stjórnir sjóðanna hófu viðræður í apríl á síðasta ári og á vormánuðum síðasta árs var skipuð sérstök viðræðunefnd sem í sátu stjórnarformenn og framkvæmdastjórar sjóðanna auk eins stjórnarmanns frá hvorum sjóði. Einnig komu tryggingafræðingar sjóðanna að málinu.

Á stofnfundinum kom fram að markmið með sameiningu sjóðanna sé að auka hagkvæmni í rekstri, bæta áhættudreifingu og ávöxtun eigna og hámarka með þeim hætti þau lífeyrisréttindi sem sjóðirnir geta veitt sjóðsfélögum sínum. Einnig að stærri sjóður sé betur í stakk búinn til þess að veita þá þjónustu sem nú er krafist. Í stofnefnahagsreikningi hins nýja sjóðs þann 1. janúar 2006 var hrein eign til greiðslu lífeyris rúmlega 39,4 milljarðar króna og verður sjóðurinn því í hópi stærstu lífeyrissjóða landsins.

 

Heimili og varnarþing hins nýja sjóðs verður í Reykjanesbæ en skrifstofa sú sem Lífeyrissjóður Vesturlands rak á Akranesi verður rekin þar áfram. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Gylfi Jónasson sem áður var framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vesturlands. Kristján Gunnarsson er formaður stjórnar sjóðsins og Bergþór Guðmundsson varaformaður. Aðrir stjórnarmenn eru Ragna Larsen, Þórarinn Helgason, Bergþór Baldvinsson og Sigrún Helga Einarsdóttir. 

19
Jun

Stofnfundur hjá Lífeyrissjóði Vesturlands og Lífeyrissjóði Suðulands haldinn í dag

Þann 16. maí sl. samþykkti aðalfundur Lífeyrissjóður Vesturlands að sameinast Lífeyrissjóði Suðurlands.  Í dag er haldinn aukaársfundur hjá Lífeyrissjóði Suðurlands sem er í raun stofnfundur hins nýja Lífeyrissjóðs.  Á fundinum í dag verður t.b. kynnt nýtt nafn á hinum nýja sjóði og einnig mun verða kosið í stjórn sjóðsins.  Fundur er haldinn í fundarsal HB-Granda hér á Akranesi. 

19
Jun

Formannafundi frestað beðið eftir haldbærum upplýsingum frá ríkisstjórninni

Fyrirhugðum formannafundi hjá Starfsgreinasambandinu sem átti að vera á morgun hefur verið frestað til miðvikudags.  Eitt mál átti að vera til umræðu en það lítur að kjaramálum sem tengjast endurskoðun kjarasamninga.  Ákveðið var að fresta fundinum vegna þess að ekki liggur ennþá fyrir hver aðkoma ríkisstjórnarinnar verður í fyrirhuguðu samkomulaginu við Samtök atvinnulífsins.  Góð aðkoma ríkisstjórnarinnar er forsenda fyrir því að samkomulag náist við SA og eðlilega vilja aðildarfélög SGS fá að sjá hvert innlegg ríkisstjórnarinnar verður í áðurnefndu samkomulagi.

16
Jun

Boðað hefur verið til formannafundar í Starfsgreinasambandi Íslands nk. þriðjudag

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands hafa verið boðaðir til formannafundar á þriðjudaginn kemur.  Einungis eitt mál verður á dagskrá, en það er staðan í kjaraviðræðunum við Samtök atvinnulífsins og aðkoma ríkisstjórnarinnar að hugsanlegu samkomulagi við SA.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá eru aðilar innan verkalýðshreyfingarinnar nokkuð bjartsýnir að það náist samkomulag við Samtök atvinnulífsins.  Hins vegar liggur ekki fyrir á þessari stundu hvort  aðkoma ríkisstjórnarinnar að samkomulaginu sé nægileg til að forða uppsögn kjarasamninga í haust.  Væntanlega mun það skýrast á fundinum á þriðjudaginn.

15
Jun

Ríkisstjórnin hafnar nýju láglaunaskattþrepi, hins vegar vafðist ekki fyrir ríkisstjórninni á sínum tíma að afnema eignar-og hátekjuskatt

Á mbl.is í dag er haft eftir Hannesi G. Sigurðssyni hjá Samtökum atvinnulífsins að líkur séu á að samkomulag náist um hærri greiðslu en sem nemur 12 þúsund krónum í svo kölluðum taxtaviðauka.  Hversu mikið sú hækkun mun nema kom ekki fram í fréttinni.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur látið hafa það eftir sér að 15 þúsund króna hækkun á taxtaviðauka sé algert lágmark hvað varðar þann þátt samkomulagsins. 

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá þarf að tryggja þeim sem starfa í tímamældri ákvæðisvinnu sambærilega hækkun og boðið er í taxtaviðaukanum.  Einnig þarf að tryggja að umsamdar viðbótargreiðslur, t.d afkasta- eða frammistöðutengdir bónusar skerðist ekki, þó svo að ekki sé getið um þær viðbótagreiðslur í kjarasamningum.  Þetta er lykilatriði til að hægt verði að ganga að tilboði Samtaka atvinnulífsins. 

Reyndar er formaður félagsins ekki ýkja svartsýnn á að það náist að lagfæra það tilboð sem SA hefur lagt fram þannig að verkalýðshreyfingin verið nokkuð sátt.  Hins vegar hræðist formaður félagsins mun meira að aðkoma ríkisstjórnarinnar verði ekki með þeim hætti sem verkalýðshreyfingin geti sætt sig við.  Það liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur hafnað nýju láglaunaskattþrepi og einnig hafa þeir hafnað því alfarið að endurskoða eftirlaunafrumvarpið sem samþykkt var 2003 við litla hrifningu hjá meginþorra þessa þjóðar.  Enda eru eftirlaun æðstu ráðamanna þessarar þjóðar ekki í neinum takti við það sem gerist hjá hinum almenna launamanni.  Ekki vafðist það fyrir núverandi ríkisstjórn að afnema hátekjuskattinn og eignarskattinn.  Hins vegar tók það  ekki langan tíma hjá ríkisstjórninni að hafna verkalýðshreyfingunni um nýtt skattþrep fyrir lægstu launin.  Það er rétt að minna á að það er einungis tæpt ár í alþingiskosningar og íslenskt verkafólk verður ekki búið að gleyma þeirri höfnun og einnig verður íslenskt verkafólk ekki búið að gleyma því hvernig núverandi ríkisstjórn lagfærði skattkerfið fyrir eigna- og hátekjufólk. 

13
Jun

Aðkoma ríkisstjórnarinnar er nauðsynleg eigi samkomulag að nást við Samtök atvinnulífsins

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur undir það með forseta ASÍ að það séu vonbrigði að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin að koma til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar um nýtt skattþrep fyrir lægri tekjur.  Einnig eru það gríðarleg vonbrigði að ekki skuli vera vilji hjá ríkisstjórninni til að endurskoða eftirlaun ráðherra, þingmanna og æðstu ráðamanna, en eftirlaun þessara aðila eru ekki í neinum takt við það sem almennt gerist í þessu þjóðfélagi.

Einnig er rétt að minna enn og aftur á að þingfarakaup þingmanna hafi hækkað frá 1. janúar 1998 til 1. febrúar 2006 um 114%, en lágmarkslaun verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði hækkuðu um 70% á sama tímabili.  Þingfarakaupið var árið 1998 220.168 en er í dag 471.427 og hefur því hækkað um 251.259 krónur eða um 114% frá árinu 1998.  Lágmarkslaun voru árið 1998 63.399 en eru í dag 108.000 og hafa því hækkað um 44.601 krónur eða sem nemur 70% frá árinu 1998.

Með öðrum orðum þá hefur þingfarakaup alþingismanna hækkað tæplega sexfalt umfram lágmarkslaun hjá verkafólki frá árinu 1998.  Því stenst það alls ekki eins og einstaka þingmenn hafa haldið fram að lágmarkslaun hafi hækkað umtalsvert umfram önnur laun á síðustu árum.  Einnig sést á þessum samburði að það eru ekki verkamenn á hinum almenna vinnumarkaði sem bera ábyrgð á stigvaxandi verðbólgu hér á landi.

Aðkoma ríkisstjórnar að því samkomulagi sem verkalýðshreyfingin er hugsanlega tilbúin til að gera við Samtök atvinnulífsins er bráðnauðsynleg og sú aðkoma þarf að vera í þeim anda sem verkalýðhreyfingin hefur nú þegar kynnt fyrir talsmönnum ríkisstjórnarinnar.

Það er einnig alveg ljóst að mati formanns félagsins að það tilboð sem Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram nægir ekki til að forða því að kjarasamningum verði sagt upp í haust.  Til dæmis verður að koma hærri hækkun á launatöxtum en 12 þúsund krónur á mánuði.  Einnig hafa Samtök atvinnulífsins boðið 6% hækkun handa því fólki sem starfar við tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingum, en 6% hækkun handa starfsfólki sem starfar við tímamælda ákvæðisvinnu er lægri en 12 þúsund krónurnar sem SA hefur boðið að komi ofan á launataxtana.  Það verður að vera skýlaus krafa að starfsfólk sem starfar við tímamælda ákvæðisvinnu fái sambærilega hækkun og verið er að bjóða í taxtaviðaukanum.

Það er engum vafa undirorpið að það verður erfitt að ná þessu samkomulagi saman ef ríkisvaldið verður ekki tilbúið að koma mjög myndarlega að þessu samkomulagi.  Eins er það mat formanns félagsins að það verði að gera þó nokkrar lagfæringar á því tilboði sem SA hefur lagt fram til að verkalýðshreyfingin geti gengið að þessu samkomulagi.

Með því að smella hér er hægt að sjá minnisblaðið sem verkalýðshreyfingin hefur afhent fulltrúum ríkisstjórnarinnar.

12
Jun

Tvö sumarhús laus til leigu vikuna 16. júní til 23. júní

Félagsmenn athugið það eru tvö laus sumarhús sem félagið er með til útleigu fyrir félagsmenn. Um er að ræða vikuna 16. júní til 23. júní (næsta föstudag).  Það er annars vegar raðhús að Laufásvegi 31 í Stykkishólmi og hins vegar orlofshús nr. 1 að Eiðum.  Nú gildir reglan fyrstur kemur fyrstur fær.  Hægt er að skoða myndir frá þessum stöðum með því að smella á orlofshús.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image