• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

15
Feb

Umtalsverð hækkun á starfsmenntastyrkum Landsmenntar og Sjómenntar

Stjórn Landsmenntar ákvað á stjórnarfundi 13. febrúar sl. að hækka einstaklingsstyrki sjóðsins. Hækkunin tekur gildi f.o.m. 1. janúar 2006. Þetta þýðir að það sem búið er að greiða af styrkjum vegna ársins 2006 þarf að leiðrétta m.t.t. hækkunarinnar.

Hækkunin er sem hér segir: Greitt er að hámarki kr. 44.000.- (var áður 35.000.-), aldrei er þó greitt meira en sem nemur 75% af námskostnaði.
Styrkur vegna aukinna ökuréttinda hækkar í kr. 81.000.-(var kr. 42.500.-) og getur viðkomandi einstaklingur einungis fengið þennan styrk einu sinni.
Þá hækka styrkir vegna tómstundanámskeiða í hámark kr.15.000.-  (var kr. 12.000.-) og er endurgreiðsla vegna þeirra 50% af kostnaði eins og áður var.
Styrkir vegna tómstundanámskeiða dragast jafnframt af heildarupphæð einstaklingsstyrks þess árs kr. 44.000.-
Viðmiðunargjald félagsgjalda hækkar í kr. 13.300.- (var kr. 12.400.-)

Verkalýðsfélag Akraness hvetur félagsmenn sína til að nýtta sér þessa styrki eins og kostur er.  Endilega hafi þið samband við skrifstofu félagsins ef þið þurfið nánari upplýsingar.

13
Feb

Verkalýðsfélag Akraness mun fara fram á að mælikvarðar í nýtingabónusnum hjá Íj verði endurskoðaðir

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ákveðið að senda formlegt erindi til forsvarsmanna Íslenska járnblendifélagsins, þar sem óskað verður eftir að mæliákvarðar í nýtingabónusnum verði endurskoðaðir. 

Það eru þættir í bónusnum sem hafa því miður alls ekki verið að virka sem skildi.  Þó er einn þátturinn af þremur í nýtingabónusnum sem er sýnu verstur og er það í hreinsuðum málmi, sá þáttur í bónusnum hefur ekki skilað þeim ávinningi sem samningsaðilar voru sammála um að hann gæti gert.

Í kaflanum um endurskoðun á bónuskerfinu kemur fram að í febrúar ár hvert er hægt að endurskoða mælikvarða í bónuskerfinu.  Sú endurskoðun getur átt sér stað ef mælikvarðarnir liggja í efrimörkum eða neðrimörkum til langs tíma litið.  Núna hefur d liðurinn í nýtingarbónusnum legið frá byrjun kjarasamningsins í neðrimörkunum og ekkert sem bendir til að þar sé að verða nein breyting á. 

Formaður félagsins telur það afar brýnt að breyta mælikvarðanum í d lið nýtingarbónussins því allt bendir til að hann sé alltof hár.

Þar sem endurskoðun og breyting á mælikvörðum getur einungis átt sér stað í febrúar ár hvert, þótti formanni VLFA nauðsynlegt að senda formlegt erindi um málið. 

10
Feb

Mjög góður kynningarfundur um lesblindu var haldinn á vegum Verkalýðsfélags Akraness

Opinn kynningarfundur sem Verkalýðsfélag Akraness stóð fyrir  um árangursríka aðferð til að takast á við lesblindu var haldinn miðvikudaginn 8. febrúar og tókst mjög vel í alla staði.  Vel á þriðja tug manna sóttu fundinn og hlýddu á þær Erlu Olgeirsdóttur og Ástu Guðmundsdóttur Davis ráðgjafa fara yfir hvernig hægt er að hjálpa fólki sem er lesblint með Davis aðferðinni.

Fundarmönnum var boðið að skrá sig í greiningarviðtal þar sem kannað er hvort Davis aðferðin henti viðkomandi einstaklingi.  Þó nokkrir skráðu sig í greiningarviðtal á fundinum.   Í greiningarviðtali kemur í ljós hvort Davis aðferðin hentar viðkomandi.  Ef Davis ráðgjafar telja að Davis aðferðin henti þá er hægt að fara í Davis leiðréttingu.

Þær Erla og Ásta fóru mjög vel yfir hvernig Davis leiðrétting fer fram.  Hún felst í 30 klst. vinnu maður á mann, sem oftast er dreift yfir 5 daga í röð.  Þá hefur viðkomandi fengið í hendurnar þau tæki sem hann þarf til að leiðrétta lesblinduna og finnur strax greinilega breytingu.  Að 5 daga leiðréttingu lokinni þarf um 80 klukkustunda heimavinnu á 1-2 árum, til að tryggja þann árangur sem náðst hefur og leiðrétta lesblinduna til fulls.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill minna fullgilda félagsmenn á að starfmenntasjóður félagsins veitir styrk til þeirra sem fara í Davis leiðréttingu og einnig fyrir þá sem fara í greiningarviðtal hjá Davis ráðgjafa. 

08
Feb

Kjarasamningur Launanefndar sveitafélagana gefur allt að 30% meira heldur en kjarasamningurinn á almenna vinnumarkaðnum fyrir sambærileg störf

Formaður félagsins hefur verið að bera saman grunnlaun hjá þeim sem starfa hjá sveitarfélögunum og þeim sem starfa á hinum almenna vinnumarkaði.  Þegar þessi samanburður er skoðaður þá kemur í ljós að það munar vel á þriðjatug þúsunda á launum á milli þessara tveggja samninga fyrir mjög svo sambærileg störf. 

Samanburðurinn á milli kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands við Launanefnd sveitafélaga og kjarasamnings við Samtök atvinnulífsins á hinum almenna vinnumarkaði er eftirfarandi:

 

  Almenni markaðurinn Sveitafélögin  
Ræstingafólk 109.212 138.278 Mismunur 29.066 eða 26,6%
Aðstoðarmaður í mötuneyti 109.212 138.278 Mismunur 29.066 eða 26,6%
Almennt verkafólk 108.000 140.352 Mismunur 32.352 eða 30%
Hafnarverkamenn 115.914 142.458 Mismunur 26.544 eða 23%
Sérhæfðir verkamenn 119.418 148.965 Mismunur 29.547 eða 25%
Matráður I 114.201 142.458 Mismunur 28.257 eða 25%
Tækjamaður II 128.646 151.199 Mismunur 22.553 eða 17.5%

Þessi samanburður miðast við 7 ára starfsreynslu á almenna markaðnum og hjá sveitafélögunum að starfsmaðurinn hafi náð 36 ára aldri.

Það verður að vera skýlaus krafa að þessi launamunur verði leiðréttur og það sem allra fyrst.  Annars verða stéttarfélögin að gera þá kröfu til fulltrúa ASÍ í forsendunefndinni að kjarasamningum verði sagt upp í desember þegar endurskoðunin fer fram

07
Feb

Samningsforsendur eru brostnar ef ekki koma til lagfæringar á kjörum verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði !

Formannafundur Starfsgreinasambandsins var haldinn í dag.  Það voru tvö mál sem helst voru til umræðu á fundinum.  Fyrra málið var um heimild Launanefndar sveitafélagana til hækkunar á lægstu launa  Síðara málið var um breytingar á lögum Alþýðusambandsins sem lýtur að reglugerðum sjúkrasjóða aðildarfélaga ASÍ.

Á fundinum voru formenn SGS almennt mjög ánægðir með þá ákvörðun Launanefndarinnar að heimila hækkun á launum þeirra sem lægstu hafa launin hjá sveitarfélögunum.  Það liggur hins vegar ekki fyrir hvort öll sveitarfélög muni nýta sér þessa heimild.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness upplýsti á fundinum að Akraneskaupstaður hafi nú þegar tekið ákvörðun um að fullnýta heimildir Launanefndarinnar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hvatti sé hljóðs á fundinum og sagði það gríðarleg vonbrigði að Samtök atvinnulífsins skyldu hafna alfarið að fylgja að fordæmi Launanefndar sveitafélaga um hækkun lægstu launa. 

Verkalýðsfélag Akraness hefur ítrekað sýnt framá að kjarasamningurinn sem gerður var við verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði 7. mars 2004 gaf langtum minna en aðrir kjarasamningar eða einungis 15,8% á samningstímanum.

Samanburður sem Ólafur Darri hagfræðingur ASÍ gerði á þeim kjarasamningum sem gerðir voru á tímabilinu mars 2004 til miðs árs 2005, sína svo ekki verður um villst hvernig verkafólk á almenna vinnumarkaðnum var skilið illilega eftir.  Samkvæmt samanburði hagfræðingsins kemur fram að kostnaðarmat margra kjarasamninga var á bilinu 20 og alveg uppí 37% þegar tekið hefur verið tillit til samningstíma samningana.  En eins og áður sagði þá  var kostnaðarmat kjarasamningsins á almenna markaðnum einungis 15,8%

 Þessa vegna skilur formaður Verkalýðsfélags Akraness ekki hvernig það gat gerst að fulltrúar ASÍ í forsendunefndinni um endurskoðun kjarasamninga, hafi ekki beitt sér fyrir sérstaklegri hækkun handa þeim sem taka laun eftir kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði, þegar endurskoðunin átti sér stað í desember.  Það virðist ekkert tillit hafa verið tekið til þess að verkafólk á almenna markaðinum fékk mun minna í kostnaðarhækkanir heldur en kjarasamningar hjá öðrum starfsstéttum. 

Forsendunefndin um endurskoðun kjarasamninga komust að þeirri niðurstöðu í desember 2005.  Að allir skildu fá það sama eða 26 þúsund í eingreiðslu og hækkun um 0,6% í janúar 2007.  Burt séð frá því hversu mikill kostnaðarmunur væri á milli kjarasamningana.  Þessi niðurstaða forsendunefndarinnar er að mati formanns félagsins fáránleg.

Það svo sorglegt að sjá hvernig almennt verkafólk hefur farið út úr sínum kjarasamningi að það verður vart með tárum tekið.

Kjarasamningur sem Starfsgreinasambandið gerði við Launanefnd sveitafélagana í maí 2005 gaf 24% á samningstímanum og núna hefur Launanefndin gefið sveitarfélögunum heimild til að hækka lægstu launin um allt að 12% til viðbótar. 

Á sama tíma hafna Samtök atvinnulífsins alfarið að fylgja að fordæmi Launanefndarinnar og hækka lægstu launin með sambærilegum hætti og sveitafélögin hafa heimild til. 

Á fundinum í dag lá fyrir ályktun þar sem krafist var að SA og ríkið beiti sér fyrir sambærilegum hækkunum til þeirra sem lægstu hafa launin.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness lagði til við fundinn að bætt væri við ályktunina og var það samþykkt.  Viðbótin var eftirfarandi:

 "Það er mat fundarins að samningsforsendur kjarasamninga SGS við ríki og SA séu brostnar, ef ekki koma til hækkanir á hinum almenna vinnumarkaði með sambærilegum hætti".

 

Ef SA og ríkið munu ekki lagfæra laun þeirra sem lægstu hafa launin verða aðildarfélög innan Starfsgreinasambandsins að beita sér af fullum þunga fyrir því að kjarasamningum verði sagt upp þegar endurskoðun fer fram í desember.

Á morgun verður birtur hér á heimasíðunni samanburður á launum í sambærilegum störfum eftir því hvort unnið er hjá sveitafélögunum eða á hinum almenna vinnumarkaði.  Launamunurinn er nokkuð sláandi fyrir sambærileg störf. 

06
Feb

Opinn kynningarfundur um lesblindu verður haldinn miðvikudaginn 8. febrúar

Opinn kynningarfundur um lesblindu verður haldinn miðvikudaginn 8. febrúar kl. 20:00.  Fundurinn verður haldinn að Kirkjubraut 40 3. hæð.  Fundur er öllum opinn og skorar stjórn Verkalýðsfélagsins Akraness á sem flesta að mæta og kynna sér hvaða úrræði eru í boði.  Það eru Davis ráðgjafarnir Erla S. Olgeirsdóttir og Ásta Valdís Guðmundsdóttir sem munu kynna aðferðir til að takast á við lesblindu og einnig munu þær svara spurningum frá fundarmönnum.   

 

Verkalýðsfélag Akraness auglýsir kynningarfund

Áttu í erfiðleikum með lestur, skrift eða stærðfræði?

 

Opinn kynningarfundur um árangursríka aðferð til

að takast á viðlesblindu

verður haldinn

Miðvikudaginn 8. febrúar kl. 20 í sal félagsins að Kirkjubraut 40.

 

Erla S. Olgeirsdóttir og Ásta Valdís Guðmundsdóttir, Davis ráðgjafar, munu á fundinum kynna þessar aðferðir og svara spurningum. Þær hafa báðar töluverða reynslu við að þjálfa lesblinda einstaklinga á öllum aldri.

Hægt er að bóka greiningarviðtal að fundi loknum.

Í greiningarviðtölum er fundið út hvort Davis aðferðin henti einstaklingnum.

02
Feb

Bæjarráð Akraneskaupstaðar ætlar að nýta sér heimild Launanefndar sveitafélaganna til að hækka laun þeirra lægst launuðu til fullnustu

Rétt í þessu var að ljúka fundi sem formaður félagsins átti með bæjarráði Akraneskaupstaðar.  En eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá var Verkalýðsfélag Akraness búið að gera kröfu um að launakjör starfsmanna Akraneskaupstaðar yrðu samræmd kjarasamningi sem Efling gerði við Reykjavíkurborg.  Á fundinum rétt áðan var bæjarráð að svara kröfu félagsins.  Það er skemmst frá því að segja að bæjarráð ætlar að nýta sér heimild launanefndar sveitarfélagana til fullnustu.  Sem þýðir að launakjör þeirra sem lægstu hafa launin hækka um allt að 12%.  Verkalýðsfélag Akraness fagnar innilega þessari niðurstöðu hjá bæjarráði.  

Nú verður að beita miklum þrýstingi á Samtök atvinnulífsins og ríkið um að hækka laun þeirra sem lægstu hafa launin á almenna markaðinum og hjá ríkinu.  Sú hækkun verður að vera með sambærilegum hætti og sveitafélögin eru að gera þessa stundina.   Þeir sem eru á lægstu töxtunum og starfa á hinum almenna vinnumarkaði eru að fá allt að 20% minni launahækkanir á samningstímanum heldur en þeir sem starfa hjá sveitarfélögunum og voru að fá lagfæringu á sínum launum. 

Við það getur verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði alls ekki sætt sig við.  Núna verður verkalýðshreyfingin að knýja Samtök atvinnulífsins og ríkið til að lagfæra launakjör þeirra sem allra lægstu launin hafa og það með öllum tiltækum ráðum sem til eru.

02
Feb

Formaður félagsins hefur verið boðaður á fund bæjarráðs

Formaður félagsins hefur verið boðaður á fund hjá bæjarráði í dag kl. 16:45.  Tilefni fundarins er væntanlega ósk félagsins um að kjör félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Akraneskaupstað verði samræmd við kjör starfsmanna Reykjavíkurborgar.  Eins og flestir vita þá hefur launanefnd sveitarfélaga gefið heimild fyrir því að kjör þeirra sem hafa lægstu launin verði hækkuð um allt að 12%.  Fróðlegt verður að heyra hvað bæjarráð Akraneskaupstaðar hefur um málið að segja og hvernig þeir ætla að bregðast við heimild launanefndarinnar

31
Jan

Nefnd skipuð til að fara yfir einstaka þætti í bónuskerfi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins

Í gær var haldinn fundur vegna bónuskerfis starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins.  En nýtt bónuskerfi var tekið upp samhliða nýjum kjarasamningi á síðastliðnu ári.  Nokkur vonbrigði hafa verið með hið nýja bónuskerfi og hefur bónusinn alls ekki verið að skila þeim ávinningi sem samningsaðilar vonuðust til.

Reiknað var með að í janúar 2006 væri bónuskerfið  farið að gefa um 80% af því sem bónusinn getur gefið, en hámarkið er 7%.  Því miður hefur það ekki gengið eftir. 

Þeir sem sátu þennan fund í gær voru Ingimundur Birnir forstjóri, aðaltrúnaðarmaður, trúnaðartengiliðir, og formaður Verkalýðsfélags Akraness. 

Ákveðið var að skipa nefnd sem verður skipuð að stæðustum hluta af starfsmönnum og verður hlutverk  nefndarinnar að skoða hvað veldur því að bónuskerfið er ekki að virka sem skildi.

Því er ei að neita að Verkalýðsfélag Akraness hefur vissar áhyggjur af því að mælistikurnar í einum þættum í nýtingarbónusnum séu einfaldlega of háar og meðan svo sé mun sá þáttur ekki skila þeim ávinningi til starfsmanna eins og reiknað var með.  Væntanlega mun nefndin skoða það mál alveg sérstaklega.  Áætlað er að nefndin skili niðurstöðum fyrir febrúarlok.

30
Jan

Ætla Samtök atvinnulífsins virkilega ekki að fylgja fordæmi launanefndar sveitafélaga og hækka lægstu launin?

Launanefnd sveitarfélaga hefur gefið sveitarfélögunum heimild  um að hækka laun þeirra sem lægstu hafa launin.  Hér er verið að tala um allt að 12% hækkun fyrir umrædda hópa. 

Verkalýðsfélag Akraness fagnar innilega þessari ákvörðun launanefndarinnar og margir telja að nú sé að verða þjóðarsátt um að hækka laun þeirra sem hvað lægstu launin hafa.

Nei því miður virðist alls ekki vera svo ef marka má viðbrögð Hannesar G Sigurðssonar aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í fjölmiðlum í dag.  En þar segir hann að það sé ekkert tilefni til að endurskoða kjarasamninga á almenna markaðinum með sambærilegum hætti og launanefnd sveitarfélaga gerði.

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að benda á undanförnum vikum hvernig verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fór skelfilega illa útúr sínum kjarasamningi og fékk langtum minna   úr sínum samningi heldur en allir aðrir hópar.

Skoðum muninn á milli kjarasamningsins á almenna vinnumarkaðnum og kjarasamningum sem gerður var við sveitafélögin.  En hér er um töluverðan mun að ræða

Kostnaðarmat á kjarasamningum sem Starfsgreinasambandið gerði við launanefnd sveitarfélagana var 24% á samningstímanum og nú hefur verið bætt í samning fyrir þá lægst launuðu sem nemur allt að 12%. 

Kjarasamningurinn sem Starfsgreinasambandið gerði við  Samtök atvinnulífsins og gildir fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði gaf einungis 15,8%

Með öðrum orðum þá er ófaglært verkafólk sem er á lægstu töxtunum og starfar hjá sveitarfélögunum að fá 20% hærri kauphækkanir á samningstímanum heldur en verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði.

Tökum eitt dæmi um þau skelfilegu kjör sem fiskvinnslufólk býr við.  Sérhæfður fiskvinnslumaður sem er með 7 ára starfsreynslu hjá sama atvinnurekanda fær í grunlaun 117.653 á mánuði.  Það eru þessu láglaunastörf á almenna vinnumarkaðinum sem verður að lagfæra með sambærilegum hætti og launanefnd sveitarfélaga er að gera hjá sveitarfélögunum.  Verkalýðshreyfingin getur alls ekki sætt sig við neitt annað.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image