• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
May

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins óskuðu eftir óformlegum fundi með formanni félagsins.

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri og Hannes Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka avinnulífsins óskuðu eftir óformlegum fundi með formanni Verkalýðsfélags Akraness. Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins tjáðu formanni félagsins áhyggjur sínar yfir þeirri verðbólguaukningu sem átt hefur sér stað að undanförnu og einnig áhyggjur um að kjarasamningum verði sagt upp í haust.

Vissulega tekur formaður félagsins undir þessar áhyggjur forsvarsmanna SA hvað varðar verðbólguna. Verðbólgan nú er langt yfir viðmiðunarmörkum Seðlabanka Íslands sem er 2,5% og hefur töluverð kaupmáttarrýrnun átt sér stað hjá því verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði sem tekur laun eftir kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tjáði forsvarsmönnum SA að hans mat væri  það að það væri grundvallaratriði að lagfæra laun þeirra lægstlaunuðu sem starfa á hinum almenna vinnumarkaði  ætli menn að komast hjá því að kjarasamningum verði sagt upp í haust.   Verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði hefur setið skelfilega eftir hvað varðar almennar launahækkanir.  Allir hópar sem sömdu á eftir Starfsgreinasambandi Íslands 7. mars 2004 sömdu um langt um meira en verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fékk í sínum samningum.  Nægir þar að nefna starfsmenn sveitarfélaga og hjá ríki sem hafa fengið leiðréttingar á sínum launum á undanförnum vikum og mánuðum.

Það verður aðalkrafan þegar endurskoðun á kjarasamningum fer fram í haust að laun verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði verði jöfnuð til fulls á við sveitarfélög og ríki.

Þessi fundur var afar gagnlegur og þetta framtak forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins að boða formann félagsins til óformlegra viðræðna um þessi mál sýnir að fullur vilji er hjá Samtökum atvinnulífsins til að reyna að finna lausn á þessu máli þannig að ekki komi til uppsagnar á kjarasamningum í haust. Allir verða að leggjast á eitt og ekki síst íslensk stjórnvöld og reyna að kveða niður þann verðbólgudraug sem nú er farinn að láta á sér kræla allískyggilega því það er ekkert jafn slæmt fyrir íslenskt verkafólk en há verðbólga sem leiðir ekki nema eitt af sér sem er kaupmáttarskerðing.

Aðalmálið er eins og áður sagði að ef ekki á að koma til uppsagnar á kjarasamningum verður að leiðrétta laun þeirra sem lægstu hafa launin á hinum almenna vinnumarkaði um það þarf að ríkja sátt í samfélaginu. Ef verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fær ekki leiðréttingu á sínum samningum á við aðra sambærilega hópa er ekkert annað en uppsögn kjarasamninga sem mun blasa við.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image