• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
May

Þeir sem hafa hæstu launin hjá Akraneskaupstað hækka langtum meira en ófaglærðir komi til sameiningar á milli Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur félagsfundur Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar heimilað stjórn félagsins að kanna hugsanlega sameiningu félagsins við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Einnig hefur bæjarráð samþykkt að leita eftir samstarfi við Reykjavíkuborg um launamál starfsmanna Akranesskaupstaðar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur verið að bera saman laun ófaglærðs starfsfólks kaupstaðarins miðað við kjarasamning Reykjavíkurborgar annars vegar og kjarasamning launanefndar sveitarfélaga hins vegar. Karl Björnsson formaður launanefndar sveitarfélaga sagði í viðtali við Skessuhornið ekki alls fyrir löngu að á launaráðstefnu sem haldin var 28. janúar hafi laun ófaglærðs fólks hjá Akraneskaupstað verið aðlöguð að kjarasamningi Reykjavíkurborgar. Einnig sagði hann að launanefndin hefði ekki treyst sér til að hækka þá sem hæstu hefðu launin hjá Akraneskaupstað.

Í þessum samanburði sem formaður félagsins hefur unnið kemur í ljós að stór hluti ófaglærðs fólks sem starfar hjá Akraneskaupstað hækkar sáralítið með því að taka laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar og í sumum tilfellum lækka einstök störf á við Reykjavíkurborg og nægir þar að nefna starfsfólk í ræstingu og í þvottahúsi. Hins vegar munu forstöðumenn, fulltrúar og deildarstjórar, eða með öðrum orðum: þeir sem hæstu hafa launin, hækka svo jafnvel tug-þúsundum skiptir. Þó eru störf sem munu einnig hækka t.d. matráðar með mannaforráð og stuðningsfulltrúar í skólum.  Þeir sem munu hækka lítillega eða jafnvel standa í stað eru skólaliðar, sundlaugarverðir, matráðar I, verkamenn í bæjarvinnu og starfsmenn á leikskóla.

Sem dæmi má nefna að 36 ára gamall starfsmaður í ræstingu sem vinnur eftir kjarasamningi launanefndar er með í grunnlaun 138.279 kr. Taki hann hins vegar laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar eru grunnlaunin 134.294 kr. Lækkunin er því upp á 5.785 kr.

Hins vegar mun algengt vera að stjórnendur og millistjórnendur Akraneskaupstaðar hækki frá 20.000 kr. upp í tæpar 50.000 kr. á mánuði.  Það getur ekki verið vilji bæjaryfirvalda að þeir sem hæstu hafa launin hækki um tugi þúsunda á mánuði á meðan ófaglærðir standa nánast í stað. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness átti óformlegan fund með formanni Starfsmannafélags Akraness þar sem farið var yfir þessi mál og ríkir ekki ágreiningur um að kjarabót þeirra lægstlaunuðustu verður ekki í neinu samræmi við þær kjarabætur sem þeir hæstlaunuðustu fá.

Einnig hefur formaður félagsins átt fund með bæjarráði þar sem hann gerði þeim grein fyrir því að hækkanir til þeirra sem hæstu hafa launin eru ekki nokkru samræmi við hækkanir til ófaglærða.  Vissulega ber að fagna því að Akraneskaupstaður er tilbúin að hækka laun starfsmanna bæjarins en grundvallaratriði er að það ríki sanngirni í þeim hækkunum.

Skilningur hefur ríkt í samfélaginu um að hækka laun þeirra sem hvað lægstu hafa launin en ef niðurstaðan verður sú að starfsmenn Akraneskaupstaðar fari að taka laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar þá hefur dæmið snúist við, þeir hæstlaunuðustu munu fá langmest en þeir sem lægstu hafa launin fá lítið og sumir ekki neitt. Er það, að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness, algerlega óásættanlegt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image