• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Sep

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar launahækkunum fyrir þá tekjulægstu hjá Akraneskaupstað

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar þeirri ákvörðun Bæjarráðs Akraneskaupstaðar að hækka laun þeirra sem lægstu hafa launin.  Eftir þeim upplýsingum sem formaður félagsins hefur þá eru það þeir starfsmenn sem taka laun eftir launaflokkum 115, 116 og 117 sem fá umræddar hækkanir og eru þær á bilinu 2,5 til 3%. 

Vissulega hefði verið ánægjulegt að sjá lagfæringu á launakjörum þeirra sem starfa á launaflokkum alveg upp í 122.  Það eru þessir hópar sem hvað lægstu launin hafa. 

Sveinn Kristinsson bæjarráðsmaður Samfylkingarinnar lét bóka að hann teldi samþykktina óheppilega. Vísaði hann til þess að í vor samþykkti bæjarstjórn samhljóða að verða við tilmælum Starfsmannafélags Akraness um að ef félagið sameinaðist Starfsmannafélagi Reykjavíkur myndu bæjaryfirvöld samþykkja fyrir sitt leyti að kjarasamningar yrðu á hendi hins sameinaða stéttarfélags. Mikilvægt sé að þessar viðræður félaganna verði til lykta leiddar áður en bæjaryfirvöld hafa afskipti af kjaramálum félagsins enda sé kjarasamningur í gildi. Þá kemur fram í bókun Sveins að hann telji nauðsynlegt að hækka laun hinna lægstlaunuðustu hjá bænum en telur sameiningu stéttarfélaganna farsælli leið til þess.

Það vekur reyndar furðu formanns félagsins að Sveinn Kristinsson skuli telja það koma sér betur fyrir þá sem lægstu hafa launin hjá Akraneskaupstað að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.  Formaður félagsins gerði fyrrverandi bæjarráði grein fyrir því fyrir kosningar að þeir starfsmenn sem lægstu hafa launin hjá Akraneskaupstað myndu sáralítinn ávinning hafa af því að sameinast suður til Reykjavíkur.  Í sumum tilfellum eins og hjá ræstingafólki myndi sameining fela í sér tekjulækkun.

Hins vegar upplýsti formaður félagsins Svein og þá sem áttu sæti í bæjarráði að stjórnendur, millistjórnendur og forstöðumenn myndu hækka um tugi þúsunda við það að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. 

Einnig er rétt að minna á að Karl Björnsson hjá Launanefnd sveitafélaga sagði í viðtali við Skessuhornið á sínum tíma að sameining Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar og Starfsmannafélags Reykjavíkuborgar myndi þýða sáralitla breytingu fyrir þá sem lægstu launin hafa.  Hins vegar myndu hæstu launin hækka umtalsvert.    

Það er formanni félagsins alveg fyrirmunað að skilja hvernig Sveinn getur talið það farsælast fyrir þá tekjulægstu að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar á grundvelli þeirra staðreynda sem hann hefur verið upplýstur um.

Rétt er að minna á að stjórn Verkalýðsfélags Akraness bauð Starfsmannafélagi Akraneskaupstaðar að hefja viðræður um sameiningu eða samstarf. Það telur formaður félagsins mun farsælla fyrir ófaglærða starfsmenn Akraneskaupstaðar. Því miður reyndist ekki vilji fyrir því hjá stjórn STAK.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image