• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Aug

Lögin um frjálst flæði launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES sem tóku gildi 1. maí sl. halda vart vatni né vindi !

Eins og flestum er í fersku minni þá var takmörkunum á frjálsu flæði launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES aflétt þegar lög þess efnis voru samþykkt á Alþingi þann 1. maí sl.

Á sínum tíma mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega breytingum á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Félagsmálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn félagsins á sínum tíma og í þeirri umsögn varaði félagið íslensk stjórnvöld við því að aflétta takmörkunum á frjálsu flæði launafólks og lagði jafnframt til að takmörkunum á frjálsu flæði yrði framhaldið í það minnsta til 1. maí 2009 eins og lögin heimiluðu.

Því miður hlustaði Alþingi Íslendinga ekki á þessi varnaðarorð sem bárust ekki aðeins frá Verkalýðsfélagi Akraness heldur einnig víða annars staðar frá verkalýðshreyfingunni. Núna bendir margt til þess að áhyggjur Verkalýðsfélags Akraness hafi ekki verið ástæðulausar.

Eitt af þeim málum sem félagið hafði áhyggjur af varðandi breytingar á lögunum var að íslensk stjórnvöld væru einfaldlega ekki undir það búin að taka við auknu flæði launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES. Einnig taldi félagið að tíminn þar til að lögin ættu að taka gildi væri allt of skammur og þær stofnanir ríkisins sem ættu að framfylgja lögunum væru ekki undir það búnar. Nú hefur komið í ljós að þær áhyggjur reyndust hárréttar og það einungis tæpum fjórum mánuðum frá gildistöku laganna.

Formaður félagsins hefur verið í sambandi bæði við Þjóðskrá sem og Vinnumálastofnun til að kynna sér hvort aukning hafi orðið á atvinnuþátttöku erlends vinnuafls frá hinum 8 nýju aðildarríkum ESS frá því lögin tóku gildi. Margt forvitnilegt kom í ljós þegar formaður félagsins kynnti sér þessi mál. Í 3. gr. laganna er kveðið skýrt á um að atvinnurekandi skuli tilkynna Vinnumálastofnun ráðningu ríkisborgara frá hinum nýju aðildarríkum EES. Einnig segir í 3. gr. laganna að fram skuli koma í tilkynningunni nafn atvinnurekanda, kennitala, og heimilisfang ásamt nafni útlendingsins, kennitölu og aðsetri hans hér á landi. Einnig ber atvinnurekanda að skila inn ráðningarsamningi sem tryggi útlendingum laun og önnur starfskjör samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum. Lögin kveða skýrt á um að tilkynningunni beri að skila inn eigi síðar en tíu dögum frá ráðningu og hefur Vinnumálastofnun heimild til að beita allt að 50 þúsund króna dagsektum fyrir hvern þann dag sem fyrirtæki sem láta hjá líða að tilkynna um nýja starfsmenn sem koma frá hinum nýju aðildarríkum ESS.

Eins og áður sagði þá hefur formaður félagsins verið í sambandi við Vinnumálastofnun og Þjóðskrá og hafa starfsmenn Vinnumálastofnunar töluverðar áhyggjur af því að það virðist vera töluvert misræmi á milli fjölda umsókna sem berast Þjóðskrá um nýjar kennitölur fyrir útlendinga og þeirra tilkynninga sem berast til Vinnumálastofnunar. Því miður er margt sem bendir til þess að veruleg brotalöm sé á því að fyrirtæki skili inn tilkynningu með ráðningarsamningi til Vinnumálastofnunar vegna erlenda starfsmenn frá nýjum aðildarríkjum EES eins og kveðið er á í lögunum.

Samkvæmt viðtali við Skúla Guðmundsson skrifstofustjóra Þjóðskrár á mbl.is þann 23. júlí sl. berast Þjóðskrá 100 umsóknir um kennitölur fyrir útlendinga á degi hverjum. Hann sagði jafnframt að þessi umsóknaraukning hefði dregið úr afgreiðsluhraðanum og bætti við að mikið rýmra sé um för fólks frá EES og meiri hreyfing virðist vera á atvinnulífinu en áður. Núna tekur 6 vikur að fá nýja kennitölu, en fyrir um rétt rúmu ári var nánast hægt að fá hann samdægurs.

Í nýju lögunum er mjög skýrt kveðið á um að atvinnurekanda beri að tilkynna til Vinnumálastofnunar 10 dögum frá ráðningu nafn og kennitölu útlendingsins, ella getur atvinnurekandinn átt yfir höfði sér dagsekt sem nemur 50 þúsund krónum fyrir hvern óskráðan dag. Formaður félagsins spyr sig hvernig á að vera hægt að framfylgja þessum lögum þegar það tekur 6 vikur að fá nýja kennitölu. Þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu illa var staðið að þessari lagasetningu og með ólíkindum að ekki hafi verið hlustað á varnaðarorð verkalýðshreyfingarinnar.

Einnig er rétt að benda á það að samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun þá voru afgreidd tæp 700 atvinnuleyfi í apríl sl., mánuði áður en frjáls för launafólks var heimiluð. Í júlí eftir að nýju lögin tóku gildi var einungis tilkynnt um tæplega 300 nýja starfsmenn frá EES til Vinnumálastofnunar. Þessi fækkun á sér stað, þó svo að umsóknum um kennitölur útlendinga hafi fjölgað umtalsvert . Þetta misræmi sýnir hversu mikil brotalöm er á þessum nýju lögum og alveg óhætt að segja að þau vart halda vatni né vindi.

Það er æði margt sem bendir til þess umtalsverð fjölgun hafi orðið á erlendu vinnuafli frá hinum nýju aðildarríkum EES eftir að landið var galopnað 1. maí sl.

Það er einnig alveg morgunljóst að þegar atvinnurekendur skila ekki inn tilkynningum um nýja erlenda starfsmenn til Vinnumálastofnunar eins og lög gera ráð fyrir þá verður gríðarlega erfitt að fylgjast með því hvort verið sé að greiða laun eftir þeim kjarasamningum sem gilda í þessu landi. Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur einnig óttast að því markaðslaunakerfi sem við höfum komið okkur upp muni vera stórlega ógnað með stórauknu framboði af ódýru vinnuafli. Dæmin sýna okkur svo sannarlega að það er ekki ástæðulaus ótti.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image