• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Dec

Forgangsverkefni í næstu kjarasamningum að hækka lágmarkstaxta til samræmis við markaðslaun

Formaður félagsins hefur að undanförnu verið að benda á það að í næstu kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði þurfi að hækka lágmarkslaun til samræmis við þau markaðslaun sem eru í gildi á vinnumarkaðnum í dag. 

Þessi skoðun formannsins byggð á þeirri staðreynd að markaðslaunin eru í verulegri hættu vegna þess að aðgengi atvinnurekanda að ódýru vinnuafli erlendis frá er afar auðvelt um þessar mundir.  Í dag telur Vinnumálastofnun að um 20 þúsund erlendir starfsmenn séu á íslenskum vinnumarkaði.

Eins og margoft hefur komið fram í máli formanns félagsins er alveg ljóst að þetta mikla innstreymi af ódýru vinnuafli frá Austur - Evrópu ógnar því markaðslaunakerfi sem hér hefur verið við lýði á undanförnum áratugum. 

Starfsgreinasamband Íslands lét gera könnun á meðal félagsmanna aðildarfélaga SGS í haust.  Í þeirri könnun kom fram að dagvinnulaun karla eru að meðaltali 176 þúsund krónur á mánuði.  Lágmarkslaun fyrir fulla dagvinnu í dag eru 123 þúsund á mánuði sem þýðir að lágmarkstaxtar þyrftu að hækka um rétt rúm 30%.

Að undanförnu hafa einstaka stjórnmálamenn tekið undir það sem formaður félagsins hefur verið að segja um það hversu mikilvægt það er að hækka lágmarkstaxta upp að markaðslaunum.  T.d hefur Magnús Þór Hafsteinsson hjá Frjálslyndum verið að benda á það hversu áríðandi það er fyrir verkalýðshreyfinguna að verja markaðslaunin.  Í Íslandi í bítið á þriðjudaginn var rætt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur frá Samfylkingunni og taldi hún það nauðsynlegt að lágmarkstaxtar yrðu hækkaðir til samræmis við markaðslaun. Hægt er að sjá viðtalið með því að smella hér.

Það er afar ánægjulegt að stjórnmálamenn séu sammála formanni Verkalýðsfélagi Akraness um að verja þurfi markaðslaunin hjá íslensku verkafólki í næstu kjarasamningum.  Nú er bara að vona að forustumenn í verkalýðshreyfingunni séu einnig sammála því að þetta sé forgangsverkefni í næstu kjarasamningum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image