• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Nov

Krafan í næstu kjarasamningum á að vera sú að lágmarkstaxtar hækki um allt að 40%

Nú er einungis rétt rúmt ár þar til kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út, nánar tiltekið 31. desember 2007.  Það er ljóst að undirbúningur fyrir komandi kjarasamningagerð mun væntanlega hefjast fljótlega á næsta ári.

Það er mat formanns VLFA að aðalkrafan í næstu kjarasamningagerð á hinum almenn vinnumarkaði eigi að vera sú að færa lágmarkstaxta upp að þeim markaðslaunum sem eru almennt í gildi á hinum almenna vinnumarkaði.  Til þess þurfa lágmarkstaxtar að hækka í það minnsta um 30% til 40% við undirritun nýs kjarasamningsins.

Umtalsverð hækkun á lágmarkstöxtum verður að nást í næstu kjarasamningagerð til að koma í veg fyrir þann gríðarlega ávinning sem atvinnurekendur hafa haft af því að ráða ódýrt erlent vinnuafl frá Austur - Evrópu á berstrípaða lágmarkstaxta.  Það er alvitað að stór hluti þess erlenda vinnuafls sem hingað kemur til starfa hefur verið sett á lágmarkslaun.  Sú þróun hefur ekki gert neitt annað en að grafa undan því markaðslaunakerfi sem hér hefur verið við lýði og gjaldfella launakjör íslenskra launþega.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur heilshugar undir þau orð sem Steingrímur J Sigfússon sagði í ræðu á Alþingi 28.apríl en þar sagði hann orðrétt:

"Það vita t.d allir að laun ófaglærða verkamanna eru á hraðri niðurleið, líka Íslendinga, vegna þess að þeir eru pressaðir niður á sömu kjör og hægt er að flytja inn Pólverja eða Eystrasaltsbúa á.  Fróðir menn segja mér að tímakaupið hafi jafnvel lækkað um 250-300 kr. á einu ári"

Við þessari slæmu þróun verður verkalýðshreyfingin að bregðast af alefli og það gerir hún með því að gera skýlausa kröfu um stórhækkun á lágmarkstöxtum.  Verkalýðshreyfingin þarf að standa fast á þessari kröfu og hvika hvergi í þeim efnum. 

Dr. Lilja Mósesdóttir skrifaði grein í Morgunblaðið 10. nóvember 2006 þar sem hún kom inn á þessa kröfu um að færa laun nær greiddu kaupi.  Formaður VLFA tekur algerlega undir allt sem kemur fram kemur hér að neðan. Hér kemur bútur úr þessari grein sem birtist í Morgunblaðinu 10. nóv:

"Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins á Íslandi komi í veg fyrir að fjölgun innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði hafi neikvæð áhrif á laun. Að öðrum kosti mun andúð Íslendinga á innflytjendum aukast. Íslenska launakerfið sem byggir á lágum viðmiðunartöxtum sem síðan eru yfirborgaðir er illa til þess fallið að taka á þessu “nýja” vandamáli og býður reyndar upp á að áhrif innflytjenda á greidd laun verði meiri hér á landi en annars staðar. Eftir því sem innflytjendum fjölgar verður þrýstingurinn meiri á heimamenn að samþykkja strípaða taxta fyrir vinnu sína. Það er því löngu orðið tímabært að taxtar verði hækkaðir í samræmi við greidd laun í öllum stéttum og að eftirlit með launagreiðslum einstakra atvinnurekenda verði stóreflt".

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image