• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Félagsmálaráðherra í heimsókn á skrifstofu félagsins Félagsmálaráðherra ásamt formanni félagsins
20
Apr

Félagsmálaráðherra í heimsókn á skrifstofu félagsins

Nú í dag kom Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra í heimsókn á skrifstofu félagsins.

Formaður félagsins átti langt og gott spjall við félagsmálaráðherra en það voru aðallega tvo mál sem helst voru til umræðu.  Annars vegar var það mál er lýtur að erlendu vinnuafli og þeim félagslegu undirboðum sem því miður hafa stóraukist í kjölfar aukinnar þátttöku erlends vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði.

Formaður félagsins tjáði félagsmálaráðherra að mjög brýnt væri að auka heimildir stéttarfélagana til eftirlits með þeim fyrirtækjum sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.

Það þarf að setja í lögin að atvinnurekendur skili ráðningarsamningum inn til stéttarfélaganna í stað Vinnumálstofnunar þegar þeir hafa ráðið erlendan starfsmann í sína þjónustu.  Einnig þurfa stéttarfélögin að hafa heimild til að kalla eftir launaseðlum og tímaskriftum án þess að fyrir liggi grunur um brot.  Þessi tvö atriði myndu hjálpa mikið við að koma í veg fyrir félagsleg brot á erlendu vinnuafli.

Félagsmálaráðherra var algerlega sammála formanni félagsins um að það sé með öllu ólíðandi að til væru fyrirtæki sem misbjóði erlendu vinnuafli eins og raun ber vitni.  Var ekki annað að heyra á ráðherranum en að taka verði á félagslegum undirboðum af fullri hörku.  Fram kom í máli ráðherrans að hann sé tilbúinn að skoða þau atriði sem formaður nefndi með jákvæðum huga.  Formaður og ráðherra voru sammála um að það verði að koma í veg fyrir þessi félagslegu undirboð, sem því miður eru alltof algeng á íslenskum vinnumarkaði í dag.

Félagsmálaráðherra kom einnig inn á atvinnuuppbygginguna sem orðið hefur á Grundartanga á undanförnum árum og telur ráðherra að stækkun Norðuráls hafi verið mikil lyftistöng fyrir Akurnesinga sem og Vesturland allt.  Formaður félagsins er algerlega sammála ráðherranum hvað það varðar.  Ef stækkun Norðuráls hefði ekki orðið að veruleika væri atvinnuástand hér á Akranesi verulega bágborið og er þó vægt til orða tekið.  Um 430 manns hafa nú atvinnu af álverinu á Grundartanga.

Eins og áður sagði þá var þetta gott spjall sem formaður átti við félagsmálaráðherra og vonandi skilar þetta góða spjall því að heimildir stéttarfélaganna, hvað varðar eftirlit með félagslegum undirboðum, verði auknar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image