• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Aðalfundarmenn ánægðir starfsemi félagsins Félagsmenn njóta afraksturs góðrar afkomu félagsins
28
Apr

Aðalfundarmenn ánægðir starfsemi félagsins

Rétt í þessu var að ljúka aðalfundi Verkalýðsfélags Akraness.  Á fundinum kom fram hjá endurskoðendum félagsins að afkoma félagsins væri einkar góð og ljóst að rekstur félagsins er til mikillar fyrirmyndar.

Heildarhagnaður allra sjóða félagsins nam tæpum 55 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 15 milljónir á milli ára.  Í skýrslu stjórnar fór formaður vítt og breitt og kom t.d. fram í máli hans að þegar ný stjórn tók við 19. nóvember 2003  hafi félagssjóður nánast verið fjárvana og var rekinn til að mynda á 2,5 milljóna yfirdrætti og peningalegar innistæður félagssjóðs voru engar.  Á árinu 2006 var hagnaður 15 milljónir og innstæður félagssjóðs rúmar 30 milljónir.  Á þessum þremur árum hefur félagið tekið algerum stakkaskiptum, ekki aðeins fjárhagslega heldur einnig félagslega.

Afkoma sjúkrasjóðs var einnig mjög góð þrátt fyrir stóraukin réttindi félagsmanna frá því ný stjórn tók við og var hagnaður sjúkrasjóðs á síðastliðnu ári tæpar 30 milljónir.  Á grundvelli góðrar afkomu sjóðsins lagði stjórnin fram á aðalfundinum reglugerðabreytingu á  sjúkrasjóðnum sem tryggir félagsmönnum fimm nýja styrki úr sjúkrasjóði félagsins.  Aðalfundur samþykkti þessa reglugerðabreytingu með öllum greiddum atkvæðum.   Það er stefna stjórnar að láta félagsmenn njóta afrakstur á góðri afkomu félagsins og er þessi reglugerðabreyting einn liður í því.  Þeir styrkir sem koma nýir inn eru eftirfarandi:

  • Styrkur vegna ættleiðingar
  • Gleraugnastyrkur
  • Heyrnatækjastyrkur
  • Styrkur vegna skoðunar hjá Hjartavernd
  • Heilsueflingarstyrkur

Á þessu sést að stjórn félagsins vill klárlega láta félagsmenn njóta afraksturs góðrar afkomu félagsins.

Fram kom í máli þeirra sem tóku til máls á fundinum að þeir væru afar ánægðir með það hvernig núverandi stjórn hefði tekist að vinna félagið upp úr þeim dimma dal sem það var komið í áður en núverandi stjórn tók við. 

Formaður félagsins sagði einnig á fundinum að stefna stjórnar væri hvellskýr, það væri að vera það stéttarfélag sem þjónustar sína félagsmenn hvað best.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image