• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Jun

Verkafólk agndofa yfir launahækkunum seðlabankastjóra

Það er óhætt að segja að almennt verkafólk sé agndofa og jafnvel bálreitt yfir þeirri launahækkun sem bankaráð Seðlabankans ákvað til handa seðlabankastjóra fyrir fáeinum dögum.  Að hækka laun seðlabankastjóra um 200 þúsund á mánuði án þess að gefa viðhlítandi skýringu er til háborinnar skammar og er þessi hækkun eins og blaut vatnstuska framaní almennt verkafólk.  Eitt af hlutverkum bankans er að ná hér niður verðbólgunni og hefur bankinn verið óhræddur við að beita þeim tækjum sem hann hefur, þ.e.a.s að hækka stýrivextina sem eru nú í sögulegu hámarki og hafa bitnað illilega á því verkafólki sem er hvað skuldsettast.  Eitt er víst að þessi hækkun launa seðlabankans er ekki til þess fallin að ná hér tökum á verðbólgunni, svo mikið er víst. 

Það er orðið óþolandi að horfa uppá almennt verkfólk sitja alltaf eftir og nægir að nefna síðustu kjarasamninga sem gerðir voru 2004 en þá var samið uppá 15,8% hækkun á samningstímanum sem var fjögur ár.  Flest allir samningshópar sem sömdu á eftir Starfsgreinasambandinu sömdu um töluvert meira heldur en 15,8%.  Eitt er víst að slíkt mun ekki henda aftur ef formaður VLFA fær einhverju ráðið í þeim efnum.  Rétt er það komi fram að formaður VLFA skrifaði ekki undir kjarasamninginn  2004 vegna þess hversu rýr hann var.  Rétt er þó að geta þess að það komu launahækkanir 1. júlí 2006 vegna endurskoðunarákvæðis kjarasamningsins.

Hér á heimasíðunni hefur einnig verið fjallað um það hversu þingfarakaupið hefur hækkað langt um meira en lágmarkslaun frá árinu 1997 fram til ársins 2007.  Á þessu tímabili hefur þingfarakaupið hækkað um 145% á meðan lágmarkslaunin hafa hækkað um 104%. Munurinn nemur 41%. Með öðrum orðum: almennt verkafólk hefur ætíð borið skarðan hlut frá borði þegar kemur að launahækkunum samanborið við aðra þegna þessa lands.

Nú eru kjarasamningar lausir um áramótin og það mun ekki koma annað til greina en að almennt verkafólk fái leiðréttingu á sínum launum í komandi kjarasamningum.  Formaður VLFA hefur áður sagt það vera íslenskri verkalýðshreyfingu og reyndar öllu samfélaginu til skammar að lágmarkslaun skuli einungis vera 125.000, einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt að lifa á slíkum sultarlaunum.  Hækkun á lágmarkstöxtunum verður að vera algert forgangsmál í komandi kjarasamningum, það mun ekki ganga í almennt verkafólk að gera hófstilltan kjarasamning til að koma hér á stöðugleika, nú er komið að öðrum en verkafólki í þeim efnum.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image