• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Jun

Lögreglan byrjuð að rannsaka kæru Verkalýðsfélags Akraness á hendur Formaco

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá lagði Verkalýðsfélag Akraness fram kæru á hendur fyrirtækinu Formaco á föstudaginn sl. 

Formaður félagsins hefur verið í nánu sambandi við Vinnumálastofnun varðandi þetta mál og hefur félagið t.d. komið öllum þeim upplýsingum sem félagið hefur aflað sér til Vinnumálastofnunar.  Fram kemur í viðtali við Unni Sverrisdóttur, lögfræðing Vinnumálastofnunar, í DV í gær að stofnunin hafi í raun hvatt VLFA til að leggja fram kæru á hendur Formaco á þeirri forsendu að fyrirtækið hefur ekki skráð starfsmenn sína eins og lögin kveða á um.  Lögfræðingur Vinnumálastofnunar segir í þessu sama viðtali að það virðist margt vera dularfullt hjá þessu fyrirtæki og ekkert nema gott að lögreglan skoði hugsanleg lögbrot aftur í tímann.

Vissulega er það rétt að Vinnumálastofnun taldi fulla ástæðu að lögð yrði fram kæra í þessu máli og málið rannsakað af lögreglu.   Verkalýðsfélag Akraness hefur og mun berjast af fullri einurð fyrir því að farið sé eftir þeim leikreglum sem eiga að gilda á íslenskum vinnumarkaði. 

Þessi afstaða lögmanns Vinnumálastofnunar til kærunar sýnir svo ekki verður um villst að Vinnumálastofnun er sammála VLFA um að Formaco hafi að öllum líkindum brotið lög er varða atvinnuréttindi útlendinga.

Lögreglan á Akranesi er byrjuð að rannsaka þetta mál og mun hún gera það í fullri samvinnu við Vinnumálastofnun.  Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að taka fast á þeim málum er lúta að félagslegum undirboðum á okkar félagssvæði og er óhætt að fullyrða að fá ef nokkur stéttarfélög hafa tekið þessi mál jafn föstum tökum og VLFA. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image