• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

16
Mar

Fréttin um arðgreiðslur HB Granda hefur vakið gríðarlega athygli

Það er óhætt að segja að fréttin um nýlega ákvörðun stjórnar HB Granda hafi vakið mikla athygli. Þessi ákvörðun snerist um að leggja það til við hluthafafund að greiða út 8% arð til hluthafa, á sama tíma og launafólk hefur frestað sínum umsömdu launahækkunum um allt að 3 mánuði til að koma til móts við atvinnurekendur í því árferði sem nú ríkir í íslensku atvinnulífi.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar því innilega að fyrirtækið skuli hafa skilað 2,3 milljörðum í hagnað, sem sýnir það að fyrirtækið hefur vel borð fyrir báru til að standa við þær launahækkanir sem áttu að koma til 1. mars sl. En þær hækkanir áttu að nema 13.500 krónum til þeirra sem vinna eftir kauptöxtum, og 3,5% til handa þeim sem eru með einhvers konar yfirborganir.

Það stenst ekki nokkra skoðun að almennt launafólk afsali sér tímabundið sínum umsömdu launahækkunum, á sama tíma og greiddur er út arður til hluthafa. Arðgreiðslan nemur 150 milljónum króna sem myndi duga til að greiða landvinnslufólki fyrirtækisins hækkunina í 8 ár. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að fyrirtækið getur staðið við þann samning sem gerður var þann 17. febrúar 2008 og á þeirri forsendu hefur stjórn Verkalýðsfélags Akraness sent forsvarsmönnum HB Granda bréf þar sem skorað er á stjórn fyrirtækisins að greiða þá launahækkun sem átti að taka gildi 1. mars sl. Með því myndi fyrirtækið sýna feikilega gott fordæmi. Bréfið má lesa með því að smella hér.

Það er einnig ljóst að það kraumar mikil reiða á meðal launþega yfir þeirri ákvörðun að fresta umsömdum launahækkunum og horfa síðan upp á tillögur um að greiddur skuli út arður vegna góðrar afkomu fyrirtækja. Slíkt er argasta móðgun við íslenska launþega sem Verkalýðsfélag Akraness mun ekki og getur ekki sætt sig við.

Hér fyrir neðan eru tenglar á vefsíður sem fjalla um þetta efni:

Arðgreiðsla móðgun við fiskvinnslufólk

Hófsamar arðgreiðslur

Hagnaður hjá HB Granda

HB Grandi greiðir út arð en hækkar ekki laun starfsmanna

Greiða sér arð í stað þess að hækka laun starfsmanna

Erfitt að fá svör hjá stjórn HB Granda

Arðgreiðslur HB Granda afar hófsamar

Starfsmenn Granda viðja fá launauppbót

Hér má heyra þáttinn Vikulokin á Rás 1 frá 14.03.2009 en formaður félagsins var einn af gestum þáttarins.

13
Mar

Verðandi formaður VR í heimsókn

Kristinn Örn Jóhannesson, nýkjörinn formaður VRKristinn Örn Jóhannesson, nýkjörinn formaður VRKristinn Örn Jóhannesson, nýkjörinn formaður VR, hefur þegið boð formanns Verkalýðsfélags Akraness um að koma í heimsókn á skrifstofu félagsins á mánudaginn kemur. Eins og flestir vita þá sigraði Kristinn í nýafstaðinni allsherjarkosningu til formanns í VR.

Það er óhætt að segja að veigamikið starf bíði Kristins, en koma hans að formennsku í VR er með mjög líkum hætti og þegar formaður Verkalýðsfélags Akraness tók við starfi sínu árið 2003. En þá fór fram allsherjarkosning í Verkalýðsfélagi Akraness til formanns og reyndar stjórnarinnar í heild sinni, en mikil átök höfðu verið í félaginu um nokkra hríð áður.

Formaður ætlar að miðla til Kristins af sinni reynslu sem formaður félagsins, en vert er að hafa í huga að vart er hægt að líkja saman því starfi sem hann er að taka að sér þar sem um 27.000 félagsmenn eru í VR en í kringum 3.000 í Verkalýðsfélagi Akraness.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar Kristni innilega til hamingju með sigurinn og velfarnaðar í því veigamikla starfi sem hann er nú að taka við og vonast félagið eftir því að eiga gott samstarf við verðandi formann.

12
Mar

8% arður greiddur út en umsömdum launahækkunum frestað!

Hægt að greiða út 8% arð en ekki  hægt að standa við gerða kjarasamningaHægt að greiða út 8% arð en ekki hægt að standa við gerða kjarasamningaÞað eru afar ánægjuleg tíðindi að HB Grandi sé að skila 2,3 milljörðum í hagnað á síðasta ári og þá sérstaklega í ljósi þess ástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi.

Stjórn HB Granda hefur ákveðið í ljósi góðrar afkomu að leggja til á aðalfundi félagsins sem haldinn verður föstudaginn 3. apríl að greiddur verði 8% arður til hluthafa.

Rétt er að minna á að samninganefnd Alþýðusambands Íslands gekk frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins þann 25. febrúar sl. um frestun til loka júní á endurskoðun kjarasamninga og þeim umsömdu launahækkunum sem áttu að koma til handa verkafólki 1. mars sl. 

Verkalýðsfélag Akraness ásamt fimm öðrum landbyggðarfélögum var ósammála meirihluta verkalýðshreyfingarinnar um að fresta umsömdum launahækkunum og voru rök formanns VLFA t.d. þau að það væru til fyrirtæki sem hæglega gætu staðið við gerða kjarasamninga, til að mynda fyrirtæki í fiskvinnslunni.  

Nú hefur komið í ljós að HB Grandi var rekinn með 2,3 milljarða hagnaði og ætlar að greiða hluthöfum 8% arð á næsta hluthafafundi. Á sama tíma var ekki var hægt að hækka laun fiskvinnslufólks um 13.500 kr. eins um hafði verið samið.  Það er móðugun við fiskvinnslufólk HB Granda ef greiddur verður út arður til hluthafa á sama tíma og ekki var staðið við þær launahækkanir sem áttu að koma til 1. mars sl.

Þetta sýnir einnig að það var hárrétt hjá Verkalýðsfélagi Akraness og hinum landsbyggðarfélögunum að leggjast af alefli gegn því að fresta umsömdum launahækkunum.  Verkalýðsfélag Akraness skorar á aðalfund HB Granda að greiða þær launahækkanir sem áttu að koma 1. mars strax og sýna þannig í verki að góð fyrirtæki eru ekki rekin með hagnaði nema með góðum starfsmönnum.  Í dag er sérhæfður fiskvinnslumaður eftir 7 ára starf með 154.500 kr. fyrir fulla vinnu, án bónusgreiðslna.  Ef þær launahækkanir sem áttu að koma til 1. mars hefðu komið þá hefði sérhæfður fiskvinnslumaður farið uppí 168.000 kr. fyrir fullt starf.

11
Mar

Lífeyrissjóðir ekki hafnir yfir gagnrýni

Það er óhætt að segja að viðtal við Ragnar Þór Ingólfsson verslunarmann í síðasta Silfri um starfsemi lífeyrissjóðanna hafi vakið gríðarlega athygli.

Í umræddu viðtali gagnrýndi Ragnar ýmislegt í starfsemi lífeyrissjóðanna. Sérstaklega gagnrýndi hann lífeyrissjóð Verslunarmanna og þau launakjör sem forstjóri þess sjóðs er með.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur heils hugar undir þá gagnrýni Ragnars á þau umræddu ofurlaunakjör sem nema tæpum 30 milljónum á ársgrundvelli eða launum sem nema tæpum 2,5 milljónum á mánuði.

Það er alveg ljóst að lífeyrissjóðirnir eru ekki hafnir yfir gagnrýni og hefur formaður félagsins t.d. bent á það hér á þessari heimasíðu að launþegar eiga að hafa sjálfir val um hvaða lífeyrissjóð þeir velja.  Einnig er það mat stjórnar Verklýðsfélags Akraness að atvinnurekendur eiga ekki að sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna enda er hér um lífeyri launafólks að ræða og eiga atvinnurekendur því ekkert að vera að véla með lífeyri verkafólks.

Það er einnig mat formanns VLFA að það eigi að sameina lífeyrisssjóði enn frekar og með því myndu sparast gríðarlegir fjármunir enda eru flestir lífeyrissjóðir að gera nákvæmlega sömu hlutina.

Formaður VLFA hefur skoðað launakjör forstjóra, framkvæmdastjóra og stjórnarformanna nokkurra lífeyrissjóða. Þeir sjóðir sem formaður skoðaði eru:  Lífeyrissjóður Verslunarmanna, lífeyrissjóðurinn Gildi, lífeyrissjóðurinn Stapi, og lífeyrissjóðurinn Festa sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að. Rétt er að geta þess lífeyrissjóðirnir eru með mis marga sjóðsfélaga á bakvið sig.  Launakjörin samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2007 voru eftirfarandi:

Nafn forstjóra / frkv.stjóra Lífeyrissjóður Árslaun Mánaðarlaun
Þorgeir Eyjólfsson Verslunarmenn 29.842.000 2.486.000
Árni Guðmundsson Gildi 21.534.000 1.794.500
Gylfi Jónasson Festa 13.103.006 1.091.917

Kári Arnór Kárason

Stapi 12.917.000 1.076.417
Nafn stjórnarformanns   Lífeyrissjóður Árslaun Mánaðarlaun
Gunnar P Pálsson Verslunarmenn 2.070.000 172.500
Vilhjálmur Egilsson Gildi 1.542.000 128.500
Björn Snæbjörnsson Stapi 1.140.000   95.000
Bergþór Guðmundsson Festa 805.844   67.153

Á þessari samantekt sést að launakjör framkvæmdastjóra verða að teljast nokkuð rífleg og þá sérstaklega hjá forstjórum lífeyrissjóðs Verslunarmanna og hjá Gildi. Þegar ofurlaun hafa verið gagnrýnd hefur hingað til verið í tísku að svara því til að starfinu fylgi mikil ábyrgð og á þeirri forsendu séu launa uppá 30 milljónir á ári réttlætanleg.  Rétt er að minna á að lífeyrissjóðirnir eru að tapa gríðarlegum fjármunum samhliða bankahruninu og því spyr formaður sig hver er ábyrgð forstjóra lífeyrissjóðanna hvað það varðar milljarðatap sjóðanna? 

Það má einnig spyrja sig hvort það sé eðlilegt að forstjórar og framkvæmdastjórar lífeyrissjóða séu með hærri laun en forsætisráðherra landsins.  Það má einnig spyrja sig hvort það sé eðlilegt að formaður í stéttarfélagi sé með hærri mánaðarlaun fyrir stjórnarformennsku í lífeyrissjóði en þau lágmarkslaun sem eru í gildi hjá viðkomandi stéttarfélagi eins og í tilfelli Gunnars Pálssonar.  Svar formanns VLFA við því er að sjálfsögðu NEI, slíkt er alls ekki eðlilegt, enda gegna stjórnarformenn lífeyrissjóða fullu starfi annars staðar.

10
Mar

Orlofshús sumarið 2009!

Þessa dagana vinna starfsmenn skrifstofu félagsins að því að koma umsóknum um sumardvöl í orlofshúsum félagsins í póst til félagsmanna. Umsóknareyðublöð og nýr orlofshúsabæklingur fara í póst innan fárra daga og ætti að berast félagsmönnum í næstu viku.

Í sumar verður sem fyrr boðið upp á dvöl í orlofshúsum félagsins í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum og í þremur íbúðum á Akureyri. Að auki er félagið með í leigu bústað að Eiðum (nánari upplýsingar hér) eins og undanfarin sumur. Nýir orlofshúsamöguleikar eru bústaður í Stóru Skógum (nánari upplýsingar hér) og bústaður í Flókalundi í Vatnsfirði (nánari upplýsingar hér).

Helstu dagssetningar:

14. apríl kl. 16:00 - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús í sumar rennur út

16. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá sent bréf um úthlutun

04. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

07. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

18. maí  - Eindagi endurúthlutunar

19. maí  - Fyrstur kemur, fyrstur fær! Lausum vikum er úthlutað til þeirra sem fyrstir koma

  Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu.

  Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Eftir eindaga endurúthlutunar verða lausar vikur auglýstar hér á heimasíðunni og hægt verður að sækja um þær á skrifstofu félagsins. Gildir þá hin ágæta regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

09
Mar

Mikið annríki við skattaframtalsaðstoðina

Mikið annríki hefur verið á skrifstofu félagsins við skattaframtalsaðstoð sem félagið býður sínum félagsmönnum uppá.  Þetta er fimmta árið sem félagið býður uppá slíka þjónustu og það fer ekki á milli mála að félagsmenn kunna gríðarlega vel að meta hana.

Skattaframtalsaðstoðin byrjaði 5. mars sl. og hefur nánast verið fullt í alla þá tíma sem hafa verið í boði.  Hins vegar er laust í nokkra tíma í þessari viku og þeirri næstu og eru félagsmenn hvattir til að panta tíma fljótlega ef þeir hyggjast nýta sér þessa þjónustu. 

06
Mar

Félagsmenn fengu tæpar 5 milljónir greiddar í námsstyrki á árinu 2008

Á síðasta ári voru félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness duglegir við að nýta sér einstaklingsstyrki úr þeim fræðslusjóðum sem félagið á aðild að. Þeir sjóðir sem um ræðir eru Landsmennt, Ríkismennt, Sveitamennt og Sjómennt. Samtals voru greiddir út styrkir til um 200 félagsmanna upp á rétt tæpar fimm milljónir króna sem er talsverð aukning frá því á árinu 2007.

Sé rýnt betur í tölurnar kemur í ljós að fólk á aldrinum 21 til 30 ára er duglegast að nýta sér þessa styrki, og að algengast er að sótt sé um endurgreiðslu vegna framhaldsnáms, háskólanáms og tungumálanáms. Ýmis önnur námskeið eru endurgreidd og má nefna sem dæmi vinnuvélaréttindi, ýmis tölvunámskeið, sjálfstyrkingarnámskeið, tónlistarnám og ýmis tómstundanámskeið.

Það er ljóst að styrkir úr fræðslusjóðunum koma sér vel fyrir félagsmenn sem eru í námi og vill félagið hvetja félagsmenn til að kynna sér réttindi sín á heimasíðum sjóðanna eða á skrifstofu félagsins.

06
Mar

Góðir hlutir að gerast í Reykjanesbæ fyrir atvinnuleitendur

Í gær fóru fulltrúar frá Verkalýðsfélagi Akraness, Símenntunarstöð Vesturlands, Akraneskaupstað, Vinnumálastofnun og Borgarbyggð í kynningarferð til Reykjanesbæjar. Tilefnið var að skoða Virkjun, sem er ný miðstöð fyrir atvinnuleitendur þar í bæ.

Óhætt er að segja að margt forvitnilegt og jákvætt kom út úr þessari kynningarferð og greinilegt að á Reykjanesi hefur tekist vel til með þessa nýju miðstöð. Í Virkjun býðst atvinnuleitendum að sækja alls kyns kynningar, námskeið og afþreyingu af ýmsum toga.

Samkvæmt upplýsingum frá Önnu Lóu Ólafsdóttur, sem er starfs- og námsráðgjafi hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, þá sækja á milli 50 og 90 manns miðstöðina á hverjum degi og hefur að undanförnu orðið töluverð fjölgun. Í gær var t.d. fjöldi námskeiða í gangi sem atvinnuleitendum stóð til boða og þegar okkur bar að garði var Jón Gnarr með fyrirlestur sem vakti mikla kátínu þeirra sem á hlýddu.

Það er alveg ljóst að full þörf er fyrir að reka svona miðstöð eins og gert er í Reykjanesbæ og vonandi munu bæjaryfirvöld á Akranesi skoða það með jákvæðum hætti að setja slíka miðstöð á laggirnar hér í bæ.

04
Mar

Námskeið fyrir ráðgjafa Starfsendurhæfingarsjóðs

Dagana 18. og 19. febrúar sl. var haldið fyrra námskeið í fjögurra daga námskeiðslotu fyrir ráðgjafa Starfsendurhæfingarsjóðs. Fyrri daginn var fjallað um starfsemi Starfsendurhæfingarsjóðs, hugmyndafræði sjóðsins, hlutverk ráðgjafa og vinnuferla og sáu sérfræðingar sjóðsins um fræðsluna.

Seinni daginn hélt Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við HÍ, námskeið um samskipti og hvatningu, en stór hluti af starfi ráðgjafa felst einmitt í hvatningu og uppbyggjandi samskiptum við fólk.

Nú fer fram seinni hluti námskeiðslotunnar, þ.e. dagana 3. og 4. mars. Það verður m.a. fjallað um persónuvernd, siðareglur, lög og reglugerðir sem tengjast vinnumarkaði og algengar ástæður fyrir skertri starfsorku.

Í framtíðinni er gert ráð fyrir að allir ráðgjafar sæki grunnnámskeið hjá Starfsendurhæfingarsjóði fljótlega eftir að þeir hefja störf og að síðan verði ráðgjöfum tryggð símenntun í formi námskeiða eða námsdaga á vegum sjóðsins einu sinni til tvisvar á ári.

Tilgangurinn með námskeiðunum er að tryggja að allir vinni eftir sömu hugmyndafræði, aðferðafræði og vinnuferlum og að ráðgjafarnir sem munu starfa dreift um allt land kynnist sérfræðingum Starfsendurhæfingarsjóðs og öðrum ráðgjöfum til að auðvelda samskipti og samvinnu.

Björg Bjarnadóttir, starfsmaður Verkalýðsfélags Akraness er ráðgjafi sjóðsins á Akranesi og sat hún námskeiðið.

04
Mar

Hver er stefna stjórnmálaflokkana í stóriðjumálum?

Stóriðjufyrirtækin á Grundartanga gríðarlega mikilvæg fyrir atvinnulífiðStóriðjufyrirtækin á Grundartanga gríðarlega mikilvæg fyrir atvinnulífiðFormaður Verkalýðsfélags Akraness hefur verulegar áhyggjur af stefnu Vinstri - Grænna í stóriðjumálum en eins og fram kom í fréttum Rúv í hádeginu þá  styður Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra ekki frumvarp ríkisstjórnarinnar um byggingu og rekstur álvers í Helguvík sem Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra leggur fram.

Þetta kom fram í viðtali við Kolbrúnu í hádegisfréttum RÚV.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að  iðnaðarráðherra fái heimild til að ganga til samninga við Century Aluminum Company og Norðurál vegna byggingar og reksturs álvers í Helguvík.

Það er morgunljóst að stóriðjan á Grundartanga bæði Norðurál og Elkem Ísland hafa gjörsamlega bjargað atvinnulífinu hér á Akranesi og vill formaður félagsins ekki hugsa þá hugsun til enda ef þessi tvö stóriðjufyrirtæki væru ekki til staðar í dag.  Í dag starfa um 560 manns hjá Norðuráli og yfir 200 manns hjá Elkem ísland.  Þessu til viðbótar eru nokkur hundruð afleidd störf sem tengjast þessum tveimur verksmiðjum .

það er einnig ljóst að atvinnuástandið hér á Akranesi væri afar bágborið ef við hefðum ekki þessi tvö öflugu fyrirtæki á okkar félagssvæði og hafa þessi þessi fyrirtæki gert það að verkum að á Akranesi hefur vaxið öflugt og gott samfélag.

Núverandi stjórnarflokkar sem og allir stjórnmálaflokkar þurfa að svara því með afgerandi hætti fyrir kosningar hver stefna þeirra er til stóriðjumála t.d. álver á Bakka við Húsavík, álver í Helguvík og kísilflöguverksmiðju á Grundartanga ef hún verður að veruleika. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image