• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

17
Feb

Minnum á fundinn með Vilhjálmi Bjarnasyni formanni félags fjárfesta

Minnum á fundinn á morgunMinnum á fundinn á morgunStjórn félagsins minnir á fræðslufund um efnahagsmál og framtíðarhorfur í íslensku samfélagi sem haldinn verður á morgun miðvikudaginn 18. febrúar í safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi kl 20:00. 

Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta flytur erindi en hann mun fjalla um efnahagsmál þjóðarinnar - stöðuna, tilurðina og horfurnar.  Einnig mun Stefán Einar Stefánsson guðfræðingur og viðskiptasiðfræðingur flytja erindi er hann nefnir: Mammon, Guð og manneskjan.

Að loknum erindum gefst tóm til fyrirspurna og almennra umræðna.

Fundarstjórar verða Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og sr. Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur.

Það eru Borgarfjarðarprófastsdæmi og Verkalýðsfélag Akraness sem efna til þessa fræðslufundar um efnahagsmál og horfur á Íslandi og er fundurinn öllum opinn.

17
Feb

Fimm stéttarfélög á móti frestun á launahækkunum

Í gær fjallaði formannafundur ASÍ um beiðni SA um frestun á endurskoðun kjarasamninga til sumars og þar með frestun launahækkana. Fundurinn var líflegur og stóð í fjórar klukkustundir.  Skoðanir voru skiptar en þó virtist meirihluti fundarmanna vera fylgjandi frestun vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem efnahags- og atvinnumál þjóðarinnar eru í. 

Fjörugar umræður sköpuðust á fundinum og voru það einkum formenn nokkurra félaga á landsbyggðinni sem höfnuðu hugmyndinni um frestun algerlega.  Þeir vildu launahækkanir 1. mars eins og samningar kvæðu á um.  Það var mat þeirra formanna sem voru á móti því að fresta launahækkunum að ekki væri grundvöllur fyrir því að fresta hækkunum til handa þeim sem starfa á lágmarkstöxtum.

Í máli formanns Verkalýðsfélags Akraness á fundinum í gær kom fram að það væri með öllu óviðunandi að lágmarkslaun væru lægri en atvinnuleysisbætur og það væri eitthvað sem þyrfti klárlega að lagfæra við þessa endurskoðun.

Því miður náðu sjónarmið þeirra stéttarfélaga sem vildu fresta umræddum launahækkunum fram að ganga, en eins áður hefur komið fram þá vildi meirihluti þeirra formanna sem sátu fundinn fresta endurskoðun og launahækkunum fram á sumar.

Afstaða stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness kemur skýrt fram í ályktun sem félagið samþykkti á fundi sínum á miðvikudaginn í síðustu viku um þetta mál. Í þeirri ályktun kom meðal annars þetta fram:

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness vill að staðið verði við þau  ákvæði aðalkjarasamninga  er varða launahækkanir 1. mars nk. þó svo að forsendur samningsins er lúta að verðbólgumarkmiði samningsins séu kolbrostnar 

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness krefst þess að Samtök atvinnulífsins standi við þau ákvæði aðalkjarasamninga  er varða launahækkanir 1. mars nk.  Kjarasamningarnir sem undirritaðir voru 17. febrúar sl. voru hófstilltir og skynsamir og voru samningarnir einnig framlag verkafólks til að tryggja stöðugleika í íslensku samfélagi.

Á þeirri forsendu harmar stjórn og trúnaðaráð VLFA það ef Samtök atvinnulífsins taka upp á því að segja samningum upp eins og margt bendir til að verði raunin þessa stundina.

Íslensku verkafólki er fullkunnugt um þá erfiðleika sem íslenskt atvinnulíf á við að etja í kjölfar þeirra hamfara sem riðið hafa yfir Íslenskt efnahagslíf á undanförnum mánuðum.    Það er hins vegar mat stjórnar og trúnaðarráðs VLFA að ekki sé hægt að fresta launahækkunum til handa þeim allra tekjulægstu, einfaldlega vegna þess að þeir einstaklingar sem eru með hvað lægstu launin blæðir hratt út þessa daganna.  Það er ljóst að íslenskt verkafólk getur ekki undir nokkrum kringumstæðum axlað meiri ábyrgð á íslensku efnahagslífi en það gerði í síðustu kjarasamningum.

Komi hins vegar til þess að forsendunefndin telji í ljósi þungra aðstæðna í efnahagslífi að unnt sé að ná samkomulagi um frestun á endurskoðunarákvæðinu sem telja megi til hagsbóta fyrir félagsmenn, þá er afar mikilvægt að fram fari allsherjaratkvæðagreiðsla á meðal félagsmanna sem vinna eftir umræddum kjarasamningum.

 Á fundinum í gær lögðu Verkalýðsfélag Akraness, Framsýn á Húsavík, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Afl - starfsgreinafélag Austurlands og Drífandi í Vestmannaeyjum fram tillögu um að ef gert yrði samkomulag við Samtök atvinnulífsins um frestun á hækkun launa 1. mars nk. þá skyldi sú frestun lögð til atkvæðagreiðslu á meðal allra félagsmanna sem vinna eftir þeim samningum sem um ræðir.  Því miður taldi forseti ASÍ fundinn ekki geta afgreitt umrædda tillögu og var tillögunni því vísað til samninganefndar ASÍ.

Það verður því fróðlegt að sjá hvort samninganefnd ASÍ afgreiðir þessa frestun án þess að leggja hann í atkvæðagreiðslu á meðal félagsmanna sem starfa eftir þeim samningum sem um ræðir.

16
Feb

Formenn ASÍ funda í dag

Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá verður haldinn fundur með formönnum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Aðalmálið sem verður til umfjöllunar er hugmynd miðstjórnar og forseta ASÍ um að fresta endurskoðun kjarasamninga og þeim launahækkunum til félagsmanna á hinum almenna vinnumarkaði sem eiga að koma til 1. mars nk.

Nú liggur fyrir að mjög skiptar skoðanir eru um þessa hugmynd og hafa fjölmörg félög innan Starfsgreinasambands Íslands ályktað um að krafa sé um að atvinnurekendur standi við gerða samninga og hafnar því algerlega að fresta endurskoðun og hækkun á launalið samninganna.

Þau félög sem hafa gagnrýnt þessa hugmynd harðlega eru t.d. Verkalýðsfélag Akraness, Framsýn á Húsavík, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Afl - starfsgreinafélag Austurlands og Drífandi í Vestmannaeyjum.

Það er ljóst að á fundinum í dag verður tekist á um þetta atriði, en afstaða áðurnefndra félaga er skýr, það er að atvinnurekendur standi við þá samninga sem við þá hafa verið gerðir enda er ekki hægt að þeir sem eru með hvað lægstu launin verði af þeim hækkunum sem um hefur verið samið.

Væntanlega mun verða tekin afstaða til þessar hugmyndar ASÍ á fundinum og verður fjallað ítarlega um þá niðurstöðu hér á heimasíðunni á morgun.

13
Feb

Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta verður á fundi í Vinaminni á miðvikudaginn n.k.

Vilhjálmur BjarnasonVilhjálmur BjarnasonFræðslufundur um efnahagsmál og framtíðarhorfur í íslensku samfélagi verður haldinn miðvikudaginn 18. febrúar í safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi kl 20:00. 

Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta flytur erindi en hann mun fjalla um efnahagsmál þjóðarinnar - stöðuna, tilurðina og horfurnar.  Einnig mun Stefán Einar Stefánsson guðfræðingur og viðskiptasiðfræðingur flytja erindi er hann nefnir: Mammon, Guð og manneskjan.

Að loknum erindum gefst tóm til fyrirspurna og almennra umræðna.

Fundarstjórar verða Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og sr. Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur.

Það eru Borgarfjarðarprófastsdæmi og Verkalýðsfélag Akraness sem efna til þessa fræðslufundar um efnahagsmál og horfur á Íslandi og er fundurinn öllum opinn.

13
Feb

Fjölmörg félög vilja ekki fresta umsömdum launahækkunum

Á mánudaginn verður haldinn fundur með formönnum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Aðalmálið sem verður til umfjöllunar er hugmynd miðstjórnar og forseta ASÍ um að fresta endurskoðun kjarasamninga og þeim launahækkunum til félagsmanna á hinum almenna vinnumarkaði sem eiga að koma til 1. mars nk.

Nú liggur fyrir að mjög skiptar skoðanir eru um þessa hugmynd og hafa fjölmörg félög innan Starfsgreinasambands Íslands ályktað um að krafa sé um að atvinnurekendur standi við gerða samninga og hafnar því algerlega að fresta endurskoðun og hækkun á launalið samninganna.

Þau félög sem hafa gagnrýnt þessa hugmynd harðlega eru t.d. Verkalýðsfélag Akraness, Framsýn á Húsavík, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Afl - starfsgreinafélag Austurlands og Drífandi í Vestmannaeyjum.

Það er ljóst að á fundinum á mánudaginn verður tekist á um þetta atriði, en afstaða áðurnefndra félaga er skýr, það er að atvinnurekendur standi við þá samninga sem við þá hafa verið gerðir enda er ekki hægt að þeir sem eru með hvað lægstu launin verði af þeim hækkunum sem um hefur verið samið.

12
Feb

313 manns atvinnulausir á Akranesi og í nærsveit

Það er óhætt að segja að atvinnuleysi haldi áfram að aukast jafnt og þétt og í dag eru rétt tæplega 500 manns án atvinnu á Vesturlandi öllu en af þessum 500 eru 130 í hlutastarfi. Á Akranesi og í nærsveit eru 313 manns án atvinnu, þar af eru 170 karlar og 143 konur.

Á öllu landinu er atvinnulausir orðnir hvorki fleiri né færri en 14.746 og eykst eins og áður sagði dag frá degi. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir því að atvinnulausir geti orðið allt að 20.000 þegar kemur fram á vorið og á þeirri forsendu er gríðarlega mikilvægt að ríkisstjórn Íslands komi með raunhæfan aðgerðapakka til hjálpar heimilum og fyrirtækjum.

Nú liggur fyrir að sjávarútvegsráðherra mun kynna í næstu viku niðurstöðu um auknar hvalveiðar en það hefur verið til skoðunar hjá honum frá því ráðherrann tók við embættinu ekki alls fyrir löngu. Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá ýjaði ný ríkisstjórn að því að þau myndu afturkalla auknar heimildir til hvalveiða sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hafði heimilað. En niðurstaða kemur eins og áður sagði í næstu viku.

Það er alveg ljóst að ef reglugerðin um auknar hvalveiðar fær að standa óbreytt þá mun það hafa verulega jákvæða þýðingu fyrir atvinnulífið hér á Vesturlandi enda er talið að það muni skapa um 200 til 300 störf. Á þeirri forsendu er sjávarútvegsráðherra ekki stætt á því að afturkalla áðurnefnda reglugerð.

11
Feb

Stjórn og trúnaðarráð krefst þess að Samtök atvinnulífsins standi við samninga á hinum almenna vinnumarkaði

Fram hefur komið fréttum að vilji sé innan miðstjórnar ASÍ um að fresta endurskoðun á kjarasamningum fram til loka júní nk.  Hefur forseti ASÍ óskað eftir afstöðu aðildarfélaga innan ASÍ  til þess að fresta endurskoðun og umsömdum launahækkunum loka júní.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness fjallaði um þennan möguleika á fundi sínum í kvöld og samþykkti ályktun um frestun kjarasamninga en í ályktuninni kemur m.a. fram að stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness krefjist þess að Samtök atvinnulífsins standi við þau ákvæði aðalkjarasamninga er varða launahækkanir 1. mars nk. Kjarasamningarnir sem undirritaðir voru 17. febrúar sl. voru hófstilltir og skynsamir og voru samningarnir einnig framlag verkafólks til að tryggja stöðugleika í íslensku samfélagi.

Eftirfarandi ályktun samþykkti stjórn og trúnaðarráð á fundi sínum í kvöld:

Nú liggur fyrir að forsendur kjarasamninga er undirritaðir voru í febrúar 2008 eru kolbrostnar. Nú hafa Samtök atvinnulífsins ýjað að því að þau muni segja kjarasamningum upp þegar endurskoðunin mun eiga sér stað í þessum mánuði ef ekki næst samkomulag við forsendunefnd ASÍ um frestun á þeim launahækkunum sem koma eiga til 1. mars n.k.

Í lögfræðilegu áliti sem stjórn Verkalýðsfélags Akraness lét gera kemur fram að forsendunefnd og samninganefnd ASÍ hafi ekki heimild til að lækka eða fresta þeim launahækkunum sem um var samið 17. febrúar sl.  Umboð forsendunefndar ASÍ og SA er því klárlega umdeilt í ljósi þessa.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness vill að staðið verði við þau  ákvæði aðalkjarasamninga  er varða launahækkanir 1. mars nk. þó svo að forsendur samningsins er lúta að verðbólgumarkmiði samningsins séu kolbrostnar.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness krefst þess að  Samtök atvinnulífsins standi við þau  ákvæði aðalkjarasamninga  er varða launahækkanir 1. mars nk.  Kjarasamningarnir sem undirritaðir voru 17. febrúar sl. voru hófstilltir og skynsamir og voru samningarnir einnig framlag verkafólks til að tryggja stöðugleika í íslensku samfélagi.

Á þeirri forsendu harmar stjórn og trúnaðaráð VLFA það ef Samtök atvinnulífsins taka upp á því að segja samningum upp eins og margt bendir til að verði raunin þessa stundina.

Íslensku verkafólki er fullkunnugt um þá erfiðleika sem íslenskt atvinnulíf á við að etja í kjölfar þeirra hamfara sem riðið hafa yfir Íslenskt efnahagslíf á undanförnum mánuðum.    

Það er hins vegar mat stjórnar og trúnaðarráðs VLFA að ekki sé hægt að fresta launahækkunum til handa þeim allra tekjulægstu, einfaldlega vegna þess að þeir einstaklingar sem eru með hvað lægstu launin blæðir hratt út þessa daganna.  Það er ljóst að íslenskt verkafólk getur ekki undir nokkrum kringumstæðum axlað meiri ábyrgð á íslensku efnahagslífi en það gerði í síðustu kjarasamningum.

Komi hins vegar til þess að forsendunefndin telji í ljósi þungra aðstæðna í efnahagslífi að unnt sé að ná samkomulagi um frestun á endurskoðunarákvæðinu sem telja megi til hagsbóta fyrir félagsmenn, þá er afar mikilvægt að fram fari allsherjaratkvæðagreiðsla á meðal félagsmanna sem vinna eftir umræddum kjarasamningum.

Það er mat stjórnar og trúnaðarráðs VLFA að ekki sé hægt að fresta endurskoðun og umsömdum launahækkunum án þess að slík allsherjaratkvæðagreiðsla fari fram á meðal félagsmanna sem vinna efir þeim kjarasamningum sem um ræðir. Allt annað eru ólýðræðisleg vinnubrögð og verkalýðshreyfingunni til vansa verði slíkt gert.

Akranesi 11. febrúar 2009

11
Feb

Kynningarfundur um launahækkanir starfsmanna Norðuráls

 Í gærkvöldi kynnti formaður félagsins nýtt samkomulag um launahækkanir til handa starfsmönnum Norðuráls fyrir starfsmönnum á C og B vakt. Farið var yfir samkomulagið í heild sinni og hverjar hækkanir til handa starfsmönnum verða eftir undirskrift samkomulagsins.

Fundurinn var mjög góður og komu fjölmargar spurningar frá starfsmönnum og virtust starfsmenn almennt vera sáttir með það samkomulag sem gengið var frá þó vissulega sé það einu sinni þannig að alltaf vilji menn ná fram hærra kjarabótum.

Á föstudagskvöldið mun formaður taka tvær síðustu vaktirnar sem eru A og D vakt og kynna samkomulagið fyrir þeim. Ekki er greitt atkvæði sérstaklega um þetta samkomulag þar sem það var hluti af samningi frá árinu 2005. Kjarasamningur starfsmanna Norðuráls verður laus um næstu áramót og er allt eins líklegt að undirbúningur fyrir komandi kjarasamningaviðræður muni hefjast von bráðar.

10
Feb

Gengið frá launahækkunum fyrir starfsmenn Norðuráls

Í gær náðist samkomulag við forsvarsmenn Norðuráls um þær launahækkanir sem taka eiga gildi hjá starfsmönnum frá og með 1. janúar sl. Samningsaðilar voru búnir að reyna ítrekað að ná saman og var samninganefnd stéttarfélaganna búin að taka ákvörðun um að vísa deilunni til félagsdóms til úrlausnar en eins og áður sagði þá náðist lausn í deilunni í gær.

Í kjarasamningnum frá árinu 2005 er kveðið á um að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum og laun í sambærilegum orkufrekum iðnaði. Ágreiningurinn sneri um það hvernig þetta meðaltal skyldi fundið út og einnig við hvaða fyrirtæki ætti að miða.

Samkomulagið í gær felur það í sér að laun verkamanna hækka að meðaltali um 10,7% upp í 12,5%.  Heildarlaun byrjanda munu því hækka um tæpar 35.000 kr. á mánuði og starfsmaður sem starfað hefur í 10 ár hækkar um 45.126 kr. á mánuði.

Orlofs- og desemberuppbætur hækka úr 212.676 kr. í 252.232 kr. sem er hækkun uppá 39.556 kr.

Rétt er að minna á að forsvarsmenn Norðuráls ákváðu einhliða að koma með hækkun á launum um 3% 1. janúar 2008 umfram kjarasamningsbundar hækkanir og átti sú hækkun að gilda tímabundið til síðustu áramóta.  Forsvarsmenn Norðuráls tilkynntu samninganefnd stéttarfélaganna að áðurnefnd hækkun frá 1. janúar 2008 hefði verið felld niður frá og með 1. janúar 2009.

Samkomulagið byggist á því að grunnlaun byrjanda hækkar úr 156.973 kr, í 167.176 kr. og hámarksbónusinn hækkaður úr 4% í 7,5%.  Meðaltalsbónus á síðasta ári var 3,2% sem er 80% nýtni á bónusum.  Með því að hækka hámarkið á bónusnum þá á hann að geta gefið starfsmönnum 6% ef sama nýtni verður á honum og undanfarin ár.  Það þýðir að bónusinn mun hækka um 2,8% frá því sem verið hefur.  Einnig verður breyting á greiðslu á bónusnum en sá þáttur sem lýtur að öryggisþætti verður greiddur út mánaðarlega en sá þáttur bónusins getur gefið að hámarki 4,1%

Það var mat samninganefndar stéttarfélaganna að ekki væri lengra komist og væri þetta því mun betri leið heldur en að fara með málið fyrir félagsdóm þar sem ekkert er öruggt hvað varðar niðurstöðu félagsdóms og einnig tæki nokkra mánuði að fá niðurstöðu frá dómnum. 

Formaður hvetur félagsmenn sína til að hafa samband vilji þeir fá nánari upplýsingar um samkomulagið og einnig er formaður finna út tíma til að kynna samkomulagið fyrir félagsmönnum sínum.  Mun það verða auglýst fljótlega hvenær kynning verður. 

09
Feb

Törn hjá bræðsluköllum á Akranesi

Formaður fór í vinnustaðaheimsókn í Síldarbræðsluna á Akranesi í gær en þar hefur staðið yfir bræðsla á gulldeplu síðastliðna viku og hafa starfsmenn nú staðið vaktir sleitulaust í 7 daga.

Þetta er ágætis búbót fyrir starfsmenn, en þeir tjáðu formanni að búið væri að landa um 4000 tonnum af gulldeplu á þessari vertíð. Þetta er í fyrsta sinn sem slík afurð er brædd í verksmiðjunni á Akranesi og að sögn starfsmanna hafa verið svolitlir byrjunarörðugleikar á vinnslunni.

Bræðsla á gulldeplu mun að öllum líkindum standa til 15. þessa mánaðar en það er sá tími sem skipin hafa leyfi til veiða á gulldeplu. Vonuðust þeir til að í framhaldinu myndi loðnuvertíð hefjast en eins og staðan er í dag er alls óvíst hvort gefinn verður út loðnukvóti eða ekki.

Eins og fram kom í fréttum í gær þá var verið að landa úr Ingunni AK um 1000 tonnum af gulldeplu þegar tveir starfsmenn sem voru að störfum við löndun urðu fyrir súrefnisleysi í lest skipsins og liðu út af. Má segja að skjót viðbrögð sjúkraflutningamanna og starfsmanna á staðnum hafi bjargað því að ekki fór verr. Samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur þá voru löndunarmennirnir fluttir á gjörgæslu í Reykjavík en voru báðir komnir til meðvitundar í gærkvöldi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image