• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fiskvinnslufólk HB Granda fær 13.500 kr. hækkun Eggert B. Guðmundsson í hópi ánægðra starfsmanna
20
Mar

Fiskvinnslufólk HB Granda fær 13.500 kr. hækkun

Rétt í þessu var að ljúka fundi með forstjóra HB Granda, starfsmönnum fyrirtækisins á Akranesi og formanni Verkalýðsfélags Akraness. Eins og fram hefur komið í fréttatilkynningu þá hefur stjórn HB Granda ákveðið að láta áður umsamdar launahækkanir upp á 13.500 kr. taka gildi eins og samningurinn kvað á um.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði á fundinum að hann fagnaði innilega þessari ákvörðun forsvarsmanna HB Granda og benti á að þetta væri það sem félagið hefði farið fram á þegar að í ljós hefði komið að fyrirtækið væri að skila ágætis afkomu.

Það fór ekki á milli mála að starfsmenn fyrirtækisins voru afskaplega ánægðir með þessi málalok og endurspeglaðist það í lófaklappi sem fylgdi í kjölfarið á tilkynningu um að laun starfsmanna myndu hækka eins og kjarasamningar kvæðu á um.

Ljóst er að sú vinna sem Verkalýðsfélag Akraness hefur lagt í þetta mál hefur nú skilað starfsmönnum fyrirtækisins umtalsverðum ávinningi.

Félagið sendi stjórn HB Granda bréf þar sem félagið fagnaði góðri afkomu fyrirtækisins og skoraði jafnframt á stjórn fyrirtækisins að koma með áður umsamdar launahækkanir til handa starfsmönnum í ljósi góðrar afkomu. Hægt er að lesa bréfið hér.

Verkalýðsfélag Akraness var fyrst allra félaga til að fjalla um þetta mál þann 12. mars sl. og það var gríðarlega ánægjulegt og jákvætt að finna þann mikla stuðning sem félagið hefur fengið í baráttunni í þessu máli enda hefur þessi barátta skilað fiskvinnslufólki sem starfar hjá HB Granda launahækkunum sem munu koma því til góða.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill skora á fyrirtæki sem eru vel sett að taka ákvörðun forsvarsmanna HB Granda til fyrirmyndar og láta áður umsamdar launahækkanir taka gildi strax, enda var tilgangur Verkalýðsfélags Akraness í þessu máli einvörðungu sá að bæta kjör síns fólks.

Að lokum vill félagið ítreka þakklæti til forsvarsmanna HB Granda fyrir að láta það góða starfsfólk sem hjá þeim starfar njóta ávinning af góðri afkomu fyrirtækisins og er þetta farsæll endir á þessu máli.

Hægt er að skoða myndir frá fundinum í dag með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image