• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

12
Dec

Þolinmæði alþýðu þessa lands er að þrotum komin

Hvað eiga þessi lög sem Alþingi afgreiddi í gær að þýða? Hækkun gjalda á áfengi, tóbaki og bifreiðum auk kílómetragjalds og vörugjalds af ökutækjum og eldsneyti mun þýða umtalsverða hækkun á verðbólgu.

Hækkun þessara gjalda mun leiða til þess að neysluvísitalan mun hækka um 0,4-0,5%. Þetta koma m.a. fram hjá sérfræðingum Hagstofu Íslands í hádegisfréttum RUV.

Afleiðing þessa er að verðtryggt lán upp á eina milljón króna mun hækka um 5 þús.kr. og 20 milljón króna verðtryggt húsnæðislán því hækka um 100 þúsund krónur. Samtals munu verðtryggð lán heimilanna, sem eru 1.400 milljarðar króna, hækka um 6-7 milljarða króna bara vegna þessarar ákvörðunar og þá eru ótaldar aðrar gjaldskrárhækkanir eins og afnotagjöld RÚV o.fl.

Áttar ríkisstjórn Íslands sig ekki á því að það er ekki hægt að leggja meiri byrðar á skuldsett heimili landsins. Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr: varla eru þessar hækkanir hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til bjargar heimilum landsins.  Svo er bara bíða og sjá hvaða álögur sveitarfélögin munu leggja á almenning, en það liggur fyrir að mörg þeirra eiga í umtalsverðum rekstrarvandræðum vegna þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.

Það er alveg ljóst að þolinmæði alþýðu þessa lands er að þrotum komin.  Það er ótrúlegt að engin hafi verið látinn sæta ábyrgð á þessu grafalvarlega ástandi sem ríkir í íslensku samfélagi og það á sama tíma og fólk verður fyrir skerðingu á sínum launum, atvinnumissi og verðlag á vöru og þjónustu stórhækkar og allur þessi vandi sem blasir við íslenskri þjóð er vegna græðgisvæðingar nokkurra fjárglæframanna. 

12
Dec

Skagamenn æfir af reiði vegna hækkunar á strætófargjöldum

Það er óhætt að segja að það sjóði á þeim einstaklingum sem hafa verið að nýta sér þjónustu Skagastrætó en nú liggur fyrir að fargjaldið er að hækka úr 280 kr. í 840 kr. sem er 200% hækkun. Einnig er verið að fækka stoppistöðvum samkvæmt þeim upplýsingum sem félagið hefur aflað sér.

Fjölmargir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness nýta sér strætó þannig að ljóst er að hér er um mikla hagsmuni að ræða fyrir okkar félagsmenn sem og alla Akurnesinga. Bæjaryfirvöld á Akranesi þurfa svo sannarlega að útskýra fyrir Akurnesingum á hvaða forsendu þessi hækkun er byggð því það er ljóst að sá hópur sem hefur verið að nýta sér þessa þjónustu mun ekki sætta sig við þessa hækkun.

Samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur þá ætla þeir sem hafa verið að nýta sér þessa þjónustu að hittast á Skrúðgarðinum á morgun kl. 15:00 og fara yfir málið. Einnig verður óskað eftir því að bæjarfulltrúar mæti til að skýra þessa ótrúlegu hækkun því með henni er verið að kippa grundvellinum undan fólki sem stundar nám og atvinnu á höfuðborgarsvæðinu.

Á þeirri forsendu krefst stjórn Verkalýðsfélags Akraness þess að þessi hækkun verði endurskoðuð og dregin til baka að stórum hluta.

Hér má lesa skrif Guðríðar Haraldsdóttur um málið.

11
Dec

Verkalýðafélag Akraness styrkir mæðrastyrksnefnd Akraness

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði í sérstakan styrktarsjóð Verkalýðsfélags Akraness sem nota á til að styrkja góðagerðarmál á félagssvæði VLFA.

Á grundvelli þessa samnings við Landsbankann ákvað stjórn félagsins á fundi í gær að styrkja mæðrastyrksnefnd Akraness um 100.000 kr.

Stjórn félagsins er afar ánægð með að geta komið mæðrastyrksnefnd Akraness til hjálpar með þessu framlagi. 

Það er alveg ljóst að margir eiga um sárt að binda fjárhagslega um þessar  mundir sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.  Á þeirri forsendu er jákvætt að geta aðstoðað einhverja sem eiga í tímabundnum erfiðleikum fjárhagslega við að halda gleðilega jólahátíð.

10
Dec

Nýr kjarasamningur starfsmanna Klafa í vinnslu

Unnið er að því þessa dagana að klára samning fyrir starfsmenn Klafa en það eru starfsmenn sem starfa á höfninni á Grundartanga.  Verkalýðsfélag Akraness hefur lagt fram tilboð til Samtaka atvinnulífsins, en það tilboð byggist að meginhluta á þeim samningi sem félagið gerði fyrir starfsmenn Elkem.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni gefur kjarasamningur Elkem starfsmönnum umtalsverða hækkun á launum og hækkuðu heildarlaun byrjanda um 45.000 kr. og hjá starfsmanni eftir 10 ára starf um 57.000 kr. á mánuði.

Formaður og trúnaðarmaður starfsmanna vonast til að búið verði að ganga frá nýjum samningi fyrir helgi.

09
Dec

Kjarasamningur vegna starfsmanna Akraneskaupstaðar undirritaður í dag

Verkalýðsfélag Akraness skrifaði rétt í þessu undir samning um framlengingu og breytingar á kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga við Verkalýðsfélag Akraness:

    

Aðalatriði samningsins VLFA og LN:

  • Gildistími samningsins er 1. desember 2008 til 31. ágúst 2009 með fyrirvara, sbr. yfirlýsingu sem fylgir samningnum.
  • Ný launatafla tekur gildi frá.1. desember 2008.
  • Launataxtar hækka um kr. 20.300.-
  • Ný launatafla hækkar sem nemur launaviðbótum á lfl. 117-127 skv. ákvörðun Launanefndar frá 28. janúar 2006 sem voru kr. 2000, kr. 3000, kr. 4000, kr. 4500, kr. 6000.
  • Innfærsla á launaviðbótum í taxta hefur áhrif á vaktaálagsgreiðslur og yfirvinnu starfsmanna sem taka laun skv. launaflokkum 117-127.
  • Starfsmenn í tímamældri ákvæðisvinnu og ræstingu samkvæmt fermetragjaldi fá 16% hækkun.
  • Orlofsuppbót árið 2009 verður kr. 25.200.- 
  • Persónuuppbót í desember 2008 verður kr. 72.399.-
  • Réttur foreldra til fjarveru á launum vegna veikinda barna er aukinn úr 10 í 12 daga.
  • Nýtt framlag til endurhæfingar verður öflug stoð til að takast á við vaxandi örorku og styðja þá, sem lenda í skertri vinnugetu til áframhaldandi starfa á vinnumarkaði.
  • Endurskoða skal á samningstímanum innleiðingu og framkvæmd starfsmatskerfisins SAMSTARF og áframhaldandi þróun þess.
  • Einnig náðist að skerpa á grein varðandi greiðslu vegna ferðatíma þegar starfsmenn ferðast með og annast nemendur og eða skjólstæðinga á ferðalögum. Greiðsla þessi nemur 12 klst (8 dagvinnutímar og 4 yfirvinnutímar).  Í grein í samningi SGS er aðeins kveðið á um að starfsmenn á vistheimilum eigi rétt á slíkri greiðslu.

Félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness verður kynntur samningurinn á Skrúðgarðinum 17. desember nk. kl. 20:00.  Hægt verður að kjósa um samninginn eftir þá kynningu og einnig á skrifstofu félagsins fimmtudaginn 17. og föstudaginn 18. desember.

09
Dec

Upplýsingafundur fyrir erlenda íbúa

Í gærkvöldi stóð Rauði Kross Íslands fyrir fundi með erlendum íbúum hér á Akranesi um það ástand sem nú ríkir í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Frummælendur á fundinum voru formaður Verkalýðsfélags Akraness og fulltrúar frá Vinnumálastofnun, Símenntunarmiðstöð Vesturlands og Akraneskaupstað.

Fjölmargar spurningar bárust um það ástand sem nú ríkir hér á landi og kom fram hjá fólki að erfitt væri að skilja ekki allt sem hér væri að gerast þessa dagana. Reyndu áðurnefndir fulltrúar að útskýra og upplýsa fólk um þá stöðu sem nú ríkir og einnig þau úrræði sem í boði eru.

08
Dec

Nýr kjarasamningur Elkem Ísland samþykktur með 80% atkvæða

Kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness við Elkem Ísland var rétt í þessu samþykktur með miklum meirihluta atkvæða.

Á kjörskrá voru 179. Alls greiddu atkvæði 126 eða 71% þeirra sem voru á kjörskrá. Já sögðu 100 eða 80% þeirra sem greiddu atkvæði. Nei sögðu 23 eða 19% atkvæða. Auðir og ógildir voru 3 eða 1%.

Nú liggur fyrir að starfsmenn munu núna 15. desember fá greidd laun skv. nýgerðum kjarasamningi frá 1. desember. Ljóst er að starfsmönnum mun muna um þá hækkun sem um samdist.

04
Dec

Kynningarfundur um kjarasamning Elkem Ísland verður haldinn á morgun

Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun á morgun kynna fyrir starfsmönnum Elkem Ísland nýgerðan kjarasamning sem undirritaður var í gær. Kynningarfundurinn hefst kl. 14:10 og hvetur félagið alla starfsmenn til að mæta á kynningarfundinn.

Það er mat félagsins að hér hafi verið gerður mjög góður samningur sem félagið mun eindregið mæla með að verði samþykktur enda eru t.d. ofngæslumenn, eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni, að hækka við undirritun frá 45.000 kr. á mánuði upp í allt að 57.000 kr eða sem nemur 17,7% til 18,9%. 

Starfsmönnum gefst kostur á að kjósa um samninginn að afloknum kynningarfundi og einnig verður hægt að kjósa á mánudaginn 8. desember. Tíminn sem gefst til að kjósa um samninginn er stuttur því verði hann samþykktur þá koma þessar hækkanir til greiðslu í næstu útborgun sem er 15. desember. Í því árferði sem nú er veitir hinum almenna launamanni ekki af því að fá launahækkanir sem fyrst.

03
Dec

Nýr kjarasamningur vegna Elkem Ísland gefur 22% á tveggja ára samningstímabili

Nú í morgun gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins vegna stóriðjunnar Elkem Ísland á Grundartanga. Fyrri kjarasamningur rann út 1. desember sl. og mun nýi kjarasamningurinn gilda frá þeim tíma til 31. desember 2010.

Samningurinn á að geta gefið byrjanda sem starfar sem ofngæslumaður tæpa 45.000 króna hækkun á mánuði við undirskrift en sú hækkun nemur um 17,3%. Starfsmaður sem starfað hefur sem ofngæslumaður í 10 ár mun fá um 56.500 króna hækkun á mánuði við undirskrift eða sem nemur 18,7%. Í þessum nýja samningi er tekið upp nýtt bónuskerfi sem mun geta gefið allt að 10% en nýja bónuskerfið verður fest að lágmarki í 7% fyrstu 4 mánuðina.

Þann 1. janúar 2010 kemur næsta hækkun og þá hefur byrjandi hækkað um samtals 53.000 frá undirritun samningsins sem gerir 20,4% hækkun. Starfsmaður með 10 ára starfsaldur verður þá með 65.000 krónur hærri laun á mánuði en hann er með fyrir undirritun samningins. Nemur sú hækkun tæplega 22%.

Trúnaðartengiliður starfsmanna voru með hjá ríkissáttasemjara þegar samningurinn var undirritaður og voru þeir almennt ánægðir með þann árangur sem náðist með þessum samningi þótt vissulega vilji menn alltaf ná öllu sínu fram.

Samningurinn verður kynntur fyrir starfsmönnum á föstudaginn kemur og verður kosið um samninginn að aflokinni kynningu.

02
Dec

Fundað með Launanefnd sveitarfélaga

Fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness funduðu í morgun með Launanefnd sveitarfélaga í húsakynnum Ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings starfsmanna Akraneskaupstaðar. Samningurinn rann út 1. desember og var þetta þriðji fundurinn sem formaður hefur átt með Launanefnd sveitarfélaga.

Á morgun munu samningsaðilar funda aftur en fundurinn í morgun var nokkuð gagnlegur og árangursríkur. Það voru nokkur atriði sem formaður gerði athugasemdir við sem eru nú til skoðunar hjá forsvarsmönnum Launanefndar sveitarfélaga og mun væntanlega fá svar við þeim spurningum á morgun.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image