• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness vegna Klafa við Samtök atvinnulífsins lokið Starfsmenn Klafa munu kjósa um nýgerðan kjarasamning í dag
03
Feb

Kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness vegna Klafa við Samtök atvinnulífsins lokið

Síðdegis í gær skrifuðu formaður Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmaður starfsmanna undir nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna kjarasamnings starfsmanna Klafa.  Nýi kjarasamningurinn gildir frá 1. desember 2008 til 31. desember 2010.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá voru starfsmenn búnir að samþykkja að grípa til vinnustöðvunar 12. febrúar nk. ef ekki hefði tekist að semja fyrir þann tíma.

Í þessum samningi er búið til nýtt bónuskerfi sem getur gefið allt að 10% en gamla bónuskerfið gaf að hámarki 7%.  Samningsaðilar eru sammála því að hið nýja bónuskerfi eigi að geta skilað starfsmönnum að jafnaði 7% sem er um 2% meira en í því bónuskerfi sem nú er verið að leggja niður.

Orlofs- og desemberuppbætur hækka úr 210.110 kr. í 243.000 kr. eða sem nemur 32.980 kr.  Einnig mun veikindadögum vegna barna fjölga úr 10 í 12. 

Eins og áður hefur komið fram þá gildir samningurinn frá 1. desember og mun byrjandi hækka í launum við undirskrift um tæpar 30.000 kr. eða sem nemur tæpum 12%. Starfsmaður sem unnið hefur í 10 ár hjá fyrirtækinu mun hækka um rúmar 35.000 kr eða sem nemur 13,14% við undirskrift.  Grunnlaun hjá byrjanda verða 175.640 kr. og eftir 10 ára starf 207.255 kr.

1. janúar 2010 munu byrjandalaun fara í 180.031 kr. og eftir 10 ára starf í 212.437 kr.  Á samningstímanum gefur samningurinn starfsmönnum hækkun sem nemur frá 14,8% uppí tæp 16%

Formaður félagsins er nokkuð sáttur við þessa niðurstöðu og þá sérstaklega í ljósi þess alvarlega ástands sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði.  Einnig er formaður ánægður með að allt bendi til þess að náðst hafi að forða þessari deilu frá því að enda í verkfalli sem hefði ekki verið gott í því ástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi.

Mun formaður kynna nýjan kjarasamning fyrir starfsmönnum í dag og að lokinni kynningu munu starfsmenn kjósa um samninginn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image