• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Feb

Opinn fundur um hvalveiðar á Akranesi á morgun

Eins og flestum er kunnugt þá gaf fyrrverandi sjávarútvegsráðherra út leyfi til veiða á hrefnu og langreyði frá árinu 2009 til 2013. Hafa fjölmargir hagsmunaaðilar fagnað þessari ákvörðun gríðarlega vegna þess að þeir telja að við eigum að nýta okkar sjávarauðlindir í samræmi við veiðiráðgjöf frá Hafrannsóknarstofnun Íslands.

Það vita það einnig flestir að þessi jákvæða ákvörðun frá 27. janúar sl. er í uppnámi vegna þess að núverandi ríkisstjórn íhugar að endurskoða þá ákvörðun að heimila hér hvalveiðar á ný.

Eins og fram kom í fréttum í gær þá samþykkti ríkisstjórnin tillögu frá Steingrími J. Sigfússyni sjávarútvegsráðherra um að hvalveiðiréttarhöfum verði send formleg viðvörun um að ákvörðun fyrri ríkisstjórnar um hvalveiðikvóta hafi verið tekin til endurskoðunar. Sagði sjávarútvegsráðherra að þetta væri gert til að tryggja að umræddir veiðiréttahafar ættu ekki bótakröfu á hendur ríkinu. Það eru margir sem skilja þetta á einn veg, að sjávarútvegsráðherra íhugi alvarlega að afturkalla þessa ákvörðun.

Í ljósi þessara tíðinda hafa Verkalýðsfélag Akraness og bæjaryfirvöld á Akranesi boðað til opins fundar um hvalveiðimál á morgun í Bíóhöllinni og hefst fundurinn kl. 20:00. Áðurnefndir aðilar hafa boðið þingmönnum kjördæmisins sérstaklega til þessa fundar, einnig hefur verið haft samband við sjávarútvegsráðherra, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra og þeim einnig boðið að koma á fundinn.

Þeir sem þegar hafa tilkynnt komu sína á fundinn eru m.a.: Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Herdís Þórðardóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda Flokksins, Guðbjartur Hannesson forseti Alþingis og þingmaður Samfylkingarinnar, Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Sturla Bövarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarmenn hafa gefið út að fulltrúi frá þeim komi á fundinn og væntanlega verður það Magnús Stefánsson. Aðrir eru ekki búnir að tilkynna komu sína en reikna fundahaldarar að þeir muni allir mæta. Hins vegar hefur iðnaðarráðherra tilkynnt að hann geti ekki komið og kom ekki fram í svari hans af hverju það stafar.

Einnig hafa hrefnuveiðimenn tilkynnt að þeir muni mæta á fundinn ásamt Kristjáni Loftssyni frá Hval hf. og fulltrúi frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna mun einnig mæta á fundinn.

Það eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur Akurnesinga sem og Vesturland í heild sinni því áætlað er að þessar veiðar geti skapað allt að 300 störf og veitir ekki af þegar atvinnulausir hér á landi eru orðnir 13.300 og þar af eru 450 manns án atvinnu á Vesturlandi. Það er með hreinustu ólíkindum að ríkisstjórnin skuli yfir höfuð vera að velta því fyrir sér að endurskoða eða afturkalla áðurnefnda reglugerð í ljósi þeirra grafalvarlegu stöðu sem nú er í íslensku atvinnulífi. Við slíkt er ekki hægt að sætta sig við enda ekki nein haldbær rök fyrir því að afturkalla áðurnefnda ákvörðun um hvalveiðar að nýju.

Fjallað var um hvalveiðar við formann félagsins í gær í Reykjavík síðdegis hægt að hlusta hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image