• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

18
Oct

Frábært framtak forsvarsmanna Norðuráls

Norðurál á GrundartangaNorðurál á GrundartangaEigendur Norðuráls hafa ákveðið að greiða starfsmönnum fyrirtækisins aukalega sem samsvarar einum mánaðarlaunum. Sem dæmi um þetta glæsilega framtak þá fær starfsmaður sem starfað hefur í 7 ár hjá fyrirtækinu 308.994 kr. Þeir sem eru í hlutastarfi fá greitt í samræmi við það. Einnig ákváðu eigendur fyrirtækisins að greiða fólki sem starfaði við sumarafleysingar í sumar eingreiðslu sem nemur 50.000 kr.

Í dag starfa hjá Norðuráli vel á fimmta hundrað manns og um 80% af þeim starfsmönnum tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness.

Ástæða þess að eigendur Norðuráls ákváðu að umbuna starfsmönnum með þessum hætti er sú að í sameiningu hafa menn náð miklum árangri á Grundartanga og reka nú nútímalegt og samkeppnisfært 270.000 tonna álver. Einnig var á árinu haldið upp á 10 ára starfsafmæli álversins.

Í bréfi sem starfsmönnum barst kemur fram að árið 2008 hafi verið gott fyrir fyrirtækið, góður endir á frábærum áratug og einnig segir í bréfinu að ekkert fyrirtæki getur vaxið og dafnað eins og Norðurál hefur gert nema með traustu starfsfólki sem hefur vilja og getu til að lyfta byrðum saman og vinna sem ein heild að sameiginlegum markmiðum. Einnig er sagt í bréfinu að elja og áhugi starfsfólks Norðuráls hefur verið einstök og eftir henni tekið. Fyrir það vilji fyrirtækið þakka og telja ástæðu til að fanga þeim áföngum sem náðst hafa á árinu.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessu framlagi forsvarsmanna Norðuráls innilega enda algjörlega ljóst að þetta framlag mun koma sér vel fyrir starfsmenn vegna stighækkunar á greiðslubyrði heimilanna. Þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvæg stóriðjan er fyrir okkur Íslendinga. Það að hafa sterkar stoðir í okkar atvinnulífi eins og Norðurál og Elkem Ísland skiptir sköpum fyrir atvinnusvæðið hér á Akranesi.

Þetta framlag sýnir einnig hversu sterkt fyrirtæki Norðurál er og skiptir það miklu máli fyrir starfsmenn fyrirtækisins að finna fyrir þessum velvilja og þetta staðfestir ekki síður að starfsmenn búa við eins mikið atvinnuöryggi og hægt er á þessum óvissutímum.

Hægt er að lesa bréfið til starfsmanna með því að smella hér.

16
Oct

Endurreisn efnahagslífsins

Á fundi formanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins, sem haldinn var í dag sagði Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri ASÍ.

,,Mikilvægasta verkefnið til skemmri og lengri tíma litið er að tryggja stöðugleika og trúverðugleika hagkerfisins. Það verður ekki gert með núverandi peningamálastefnu og íslensku krónunni,“

Farið var yfir stöðu efnahagsmála eins og hún blasir við og rætt hvernig styrkja megi og efla aðildarfélögin við að upplýsa og aðstoða félagsmenn þeirra sem lenda efnahagsþrengingum og atvinnumissi.

 

Á fundinum var endurreisn efnahagslífsins mjög til umræðu, en hún verður að byggja á félagslegum viðhorfum um jöfnuð, réttlæti og samfélagslega ábyrgð í stað þeirrar einstaklings- og sérhyggju misskiptingar og græðgi sem tröllriðið hefur samfélaginu undanfarin áratug. 

Gylfi Arnbjörnsson ræddi mikilvægi þess að við sameinuðumst um skýra aðgerðaáætlun til næstu ára m.a. um aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, bæði lán og ráðgjöf og skapa þannig trúverðugleika. Vinna þarf að trúverðugri áætlun um stöðugleika í gengis- og peningamálum þar sem aðildarumsókn að ESB og þar með aðild að evrusamstarfinu yrði lokaáfangi.

 Sú lausn myndi, að mati færustu sérfræðinga, leiða til  hraðari lækkunar vaxta en aðrar lausnir. Það sem er brýnast núna er að fá stöðugt og sterkara gengi til að lækka verðbólgu. Það verður að lækka vexti þegar í stað um allt að helming.

 Aðkoma lífeyrissjóðanna að endurfjármögnun atvinnulífsins, gæti reynst afar þýðingarmikil við endurreisnarstarf í efnahagslífinu, en brýnustu verkefnin núna er að koma til móts við fyrirsjáanlegan vanda heimilanna, þ.e. lækka verðbólgu, taka á greiðslubyrði húsnæðislána, treysta atvinnu og bæta hag unga fólksins.

Fundurinn sendi ekki frá sér sérstaka ályktun, en gerir ráð fyrir að ársfundur ASÍ, sem haldinn verður í lok næstu viku, taki afstöðu til þeirra atriða sem rædd voru.

15
Oct

Formannafundur hjá Starfsgreinasambandi Íslands

Á morgun verður haldinn fundur formanna aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands. Málefni fundarins eru staðan í efnahagsmálum og aðgerðir til að upplýsa og aðstoða félagsmenn stéttarfélaga vegna þeirra aðstæðna sem nú ríkja í íslensku efnahagslífi.

Það liggur fyrir að fyrirtækin eiga nú verulega undir högg að sækja í því ölduróti sem nú gengur yfir íslenskt efnahagslíf. Hins vegar hefur ekki eins mikið borið á því í umræðunni hversu grafalvarleg staðan er hjá heimilum landsins, en eins og flest heimili hafa fundið fyrir þá hefur greiðslubyrði einstaklinga vegna húsnæðislána, matarinnkaupa og annarra kostnaðarliða hækkað gríðarlega að undanförnu. Það er ljóst að koma verður heimilum til hjálpar en allir gera sér grein fyrir mikilvægi þess að tannhjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast.

13
Oct

Ábyrgð upp á 600 milljarða!

Það er óhætt að segja að nú kraumi gríðarleg reiði í almenningi vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi. Reiðin beinist að því hvernig í ósköpunum það megi gerast að bankakerfið hafi veðsett íslensku þjóðina fyrir 600 milljarða erlendis eins og kemur fram í þessari frétt. Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðherra munu eignir Landsbankans og Icesave sem betur fer ganga að einhverju leyti upp í þessa 600 milljarða.

Almenningur spyr sig, hvernig getur þetta hafa gerst og hvar var fjármálaeftirlitið og ríkisvaldið þegar bankarnir þöndust út með þessum hætti og settu íslenska þjóð í ábyrgð fyrir 600 milljörðum? Almenningur virðist ekki hafa haft hugmynd um að þjóðin þyrfti að bera ábyrgð á þessari útrás bankanna eins og nú er orðin raunin.

Þessu til viðbótar ríkir gríðarlega óvissa hjá ótal einstaklingum sem hafa lagt í reglulegan sparnað í formi peningasjóða bankanna, en eins og fram hefur komið í fréttum þá er alls óvíst hversu mikið einstaklingar munu fá til baka af þeim sparnaði. Formanni er kunnugt um verkafólk sem hefur lagt reglulega fyrir í þessa peningasjóði af sínum launum og nú standa þessir einstaklingar frammi fyrir því að bíða milli vonar og ótta eftir því hversu mikil niðurfærsla verður á þessum sjóðum.

Það liggur fyrir að íslenskt verkafólk mun finna fyrir þungu höggi vegna þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi og er fólk óttaslegið um starfsöryggi sitt. Það er grátlegt fyrir verkafólk að horfa upp á það ástand sem nú ríkir, sérstaklega í ljósi þess að verkafólk hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum til að viðhalda hér stöðugleika og nægir að nefna gerð síðustu kjarasamninga sem voru skynsamir og hóflegir. Eitt er víst að það er ekki íslenskt verkafólk sem ber ábyrgð á þeirri skelfilegu stöðu sem nú blasir við íslenskri þjóð.

Það er alveg ljóst að almenningur mun ekki sætta sig við það að þeir sem eiga að bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslensku þjóðinni nú sæti ekki ábyrgð. Þetta mál þarf að rannsaka ofan í kjölinn því allt bendir til þess að fjölmargir aðilar hafi brugðist í þessu máli og nægir að nefna stjórnendur bankanna, fjármálaeftirlitið, Seðlabankann og þá sem fara með stjórn ríkisins á hverjum tíma.

Hins vegar er aðalmálið núna að verja heimilin og fyrirtækin en þegar um hægist þá er ljóst að víðtæk rannsókn verður að fara fram á því hvað fór úrskeiðis í íslensku efnahagslífi.

09
Oct

Mikilvægi stóriðjunnar aldrei verið eins áberandi

Nú hefur það sýnt sig svo ekki verður um villst hversu gríðarlega mikilvægt það er að vera með sterkar stoðir í okkar atvinnulífi eins og stóriðjan á Grundartanga er. Varlega áætlað starfa hjá þessum sterku fyrirtækjum í dag á milli 700 og 800 manns og á atvinnuöryggi þessara starfsmanna að vera eins vel tryggt og kostur er í þeim ólgusjó sem atvinnulífið er nú að ganga í gegnum. Það sýnir að mikilvægi stóriðjunnar hefur aldrei verið eins mikið og nú þegar að atvinnulífið á verulega undir högg að sækja.

Það er mat formanns að hraða eigi allri uppbyggingu stóriðjuframkvæmda eins fljótt og kostur er. Mikilvægt er að ríkisvaldið greiði götu þeirra aðila sem vilja hefja hér stóriðjuframkvæmdir.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni er einnig mjög mikilvægt að auka hér aflaheimildir í þorski sem tryggja myndi auknar gjaldeyristekjur sem og aukna atvinnu fyrir sjómenn og fiskvinnslufólk. Formaður telur að þó svo aflaheimildir í þorski verði auknar tímabundið í eitt ár um einhverja tugi þúsundi tonna þá sé það áhætta sem fiskistofnarnir eiga klárlega að geta þolað en ekki er víst að þjóðarbúið þoli að verða af þeim tekjum.

Ráðamenn þjóðarinnar verða nú að taka djarfar ákvarðanir í þeim hremmingum sem þjóðin stendur frammi fyrir því allt of miklir hagsmunir eru í húfi og fórnum nú ekki minni hagsmunum fyrir meiri.

Það er alveg ljóst að framundan eru gríðarlega erfiðir tímar fyrir atvinnulífið og heimilin í landinu og ljóst að enginn mun sleppa við skakkaföll vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir í heiminum öllum.

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína á að félagið býður fram alla þá aðstoð sem það getur mögulega veitt fyrir þá sem verða fyrir atvinnumissi á næstu misserum og skorar félagið á félagsmenn að nýta sér þá þjónustu sem félagið býður upp á. Samt sem áður er það þannig að atvinnuástandið á okkar félagssvæði er töluvert betur búið til að taka við þessum hremmingum sem nú ganga yfir sökum áðurnefndra staðreynda sem lúta að þeirri miklu og jákvæðu uppbyggingu sem verið hefur á Grundartangasvæðinu.

Það er gríðarlegar mikilvægt að allir standi saman í því að koma okkur út úr því ástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi og er formaður ekki í nokkrum vafa um að okkur muni takast það, sérstaklega í ljósi þeirrar sterku stöðu sem við Íslendingar höfum bæði hvað varðar sjávarútveginn sem og hina miklu uppbyggingu í stóriðjunni svo við tölum nú ekki um þær ónýttu orkulindir sem þessi þjóð býr yfir.

07
Oct

Fyrirspurn til viðskiptaráðherra

Verkalýðsfélag Akraness hefur sent eftirfarandi fyrirspurt til viðskiptaráðherra:

Nú liggur fyrir að fjöldi venjulegs fólks hefur lagt til sparnað á sinni lífsleið, í formi inneignar í séreignarsjóðum eða á venjulegum bankabókum, og nú hefur ríkisstjórn Íslands gefið það út að allar innistæður verði tryggðar að fullu.

Á þeirri forsendu langar stjórn Verkalýðsfélags Akraness að fá svar frá viðskiptaráðherra um þá innlánsvexti sem sparifjáreigendur hafa áunnið sér á reikningum Landsbankans sem nú hefur verið yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu. En í flestum tilfellum eru innlánsvextir ársins greiddir út um hver áramót. Það er alveg ljóst að hér getur verið um umtalsverðar upphæðir að ræða, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Verða þessir innlánsvextir greiddir út miðað við þá ávöxtun sem hver og einn sparifjáreigandi hefur áunnið sér? Eru þessir innlánsvextir líka tryggðir af íslenska ríkinu?

07
Oct

Óhjákvæmilegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar

Það er óhætt að segja að stormur ríki í íslensku efnahagslífi þessa dagana og nægir að nefna að í gær samþykkti Alþingi neyðarlög um fjármálamarkaði. Veita þessi lög Fjármálaeftirlitinu afar víðtækar heimildir til að grípa inn í rekstur fjármálafyrirtækja.

Það er mat formanns félagsins að þessar aðgerðir ríkisstjórnar hafi verið hárréttar miðað við þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í íslensku efnahagslífi og í raun bjargað íslensku þjóðinni frá þjóðargjaldþroti. Með þessum aðgerðum er margt sem bendir til þess að hagur íslenskra heimila, fyrirtækja og þjóðarinnar í heild sinni hafi verið tekinn fram fyrir hagsmuni hluthafa fjármálafyrirtækja.

Það liggur fyrir að það eru gríðarlegir erfiðleikar framundan en miðað við þær traustu stoðir sem við höfum í okkar samfélagi eins og t.d. sjávarútveginn og stóriðjurnar þá munum við vinna okkur út úr þessum hremmingum. En til þess að það takist þá verða allir að taka höndum saman. Það er t.a.m. mikill uppgangur í stóriðjunum, verð á áli og kísiljárni hefur hækkað gríðarlega á undanförnum misserum og við á okkar félagssvæði getum hrósað happi yfir þessum styrku stoðum sem við höfum og á þeirri forsendu telur formaður að allflestir félagsmenn geti horft nokkuð björtum augum til framtíðar.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslensku ríkisstjórnina að koma skuldsettum íslenskum heimilum til hjálpar og nægir þar að nefna að lækkun stýrivaxta verður að koma til tafarlaust. Ríkisstjórn Íslands á tafarlaust að óska eftir aðildarviðræðum við ESB því það liggur fyrir að sú peningastefna sem hér hefur verið rekin og sá gjaldmiðill sem hér er hefur gengið sér til húðar. Einnig á að auka tafarlaust aflaheimildir í þorski um 50 – 100 þúsund tonn til að skapa hér auknar útflutningstekjur enda er bullandi ágreiningur um þá ráðgjöf sem Hafrannsóknarstofnun hefur gefið á undanförnum árum. Einnig á ríkisstjórn Íslands að flýta þeim aðgerðum sem hún tilkynnti í yfirlýsingu samhliða kjarasamningum um hækkun persónuafsláttar á þremur árum og láta þá hækkun þegar taka gildi til að létta á greiðslubyrði fólks. Að auki á ríkisvaldið að lækka álögur á eldsneyti vegna þess að virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs hafa hækkað umtalsvert vegna hækkunar á eldsneytisverði á heimsmarkaði.

03
Oct

Auka þarf aflaheimildir í þorski tafarlaust

Það er óhætt að segja að fólk hafi verulegar áhyggjur af því efnahagsástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi og eru þær áhyggjur svo sannarlega ekki að ástæðulausu. Þessar áhyggjur minnkuðu síður en svo þegar Geir H. Haarde forsætisráðherra kynnti stefnuræðu sína í gærkvöldi en í henni kom ekkert fram til að slá á ótta fólks yfir því ástandi sem nú ríkir. Þegar þetta er skrifað stendur gengisvísitalan í 208 og hefur krónan fallið gríðarlega að undanförnu.

Rétt er að minna á framlag verkafólks til að viðhalda stöðugleika í þessu landi en kjarasamningar sem gerðir voru bæði 2004 og 17. febrúar sl. byggðust á hóflegum hækkunum með það að markmiði að skapa hér stöðugleika og auka kaupmátt verkafólks. Þegar gengið var frá kjarasamningum þann 17. febrúar var verðbólgan í 5,7% en nú einungis átta mánuðum síðan er verðbólgan 14 % og bullandi kjaraskerðing dynur á okkar fólki og miklar hækkanir á greiðslubyrði skuldsettra fjölskyldna. Á forsendu þess að hafa gengið frá hóflegum og skynsamlegum samningum er grátlegt fyrir verkafólk að horfa upp á þá stöðu sem nú blasir við í íslensku samfélagi.

Bankarnir eiga í gríðarlegum erfiðleikum sem ekki sér fyrir endann á og ljóst er að sú útrás sem bankarnir hafa ástundað á undanförnum árum er að koma illilega í bakið á íslensku þjóðinni núna. Þeir aðilar sem hafa stjórnað þessum fjármálafyrirtækjum hafa sópað til sín gríðarlegum fjármunum í formi kaupréttarsamninga, bónusa og annarra launagreiðslna og ávalt hefur verkalýðshreyfingin gagnrýnt þetta. Stjórnendur fjármálastofnana hafa svarað: “ykkur koma launakjör æðstu stjórnenda ekki við” . Málið er einfalt, að þegar bankarnir eru farnir að leita til Seðlabanka Íslands um aðstoð þá kemur skattgreiðendum þessa lands þetta svo sannarlega við. Það er vonandi að sá glannaskapur sem verið hefur í launakjörum æðstu stjórnenda fjármálastofnana heyri nú sögunni til.

En hvað er til ráða? Ríkisstjórn Íslands á tafarlaust að óska eftir aðildarviðræðum við ESB því það liggur fyrir að sú peningastefna sem hér hefur verið rekin og sá gjaldmiðill sem hér er hefur gengið sér til húðar. Einnig á að auka tafarlaust aflaheimildir í þorski um 50 – 100 þúsund tonn til að skapa hér auknar útflutningstekjur enda er bullandi ágreiningur um þá ráðgjöf sem Hafrannsóknarstofnun hefur gefið á undanförnum árum. Einnig á ríkisstjórn Íslands að flýta þeim aðgerðum sem hún tilkynnti í yfirlýsingu samhliða kjarasamningum um hækkun persónuafsláttar á þremur árum og láta þá hækkun þegar taka gildi til að létta á greiðslubyrði fólks. Að auki á ríkisvaldið að lækka álögur á eldsneyti vegna þess að virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs hafa hækkað umtalsvert vegna hækkunar á eldsneytisverði á heimsmarkaði. Seðlabankinn á að lækka stýrivexti eins fljótt og kostur er.

Oft var þörf, en nú er nauðsyn, ríkisstjórnin getur ekki beðið lengur með aðgerðir í efnahagsmálum.

01
Oct

Umgengni orlofshúsa

Að gefnu tilefni vill stjórn orlofssjóðs minna félagsmenn á að ganga vel um orlofshús félagsins. Að öllu jöfnu er frágangur leigutaka til fyrirmyndar en að undanförnu hefur því miður borið á slæmri umgengni í húsum félagsins.

T.a.m. var nýverið skilið þannig við eitt húsanna að það var nánast óíbúðarhæft sökum skemmdarverka, óhreinininda og rusls innan- og utandyra. Þó var verst að í þeim gleðskap sem þarna hafði greinilega staðið yfir hafði einhver tekið upp á því að tæma slökkvitæki sem þar hékk upp á vegg, og síðan hengt það aftur upp að því loknu svo það leit út fyrir að vera óhreyft. Það er óþarft að taka fram þvílík hætta þarna hefði getað skapast ef þetta hefði ekki komist upp strax og ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda hefði komið upp eldur í húsinu seinna meir og dvalargestir gripið í tómt slökkvitæki. Hvað er fólk að hugsa sem gerir svona lagað?

Í öllum tilfellum ber leigutaki ábyrgð á húsinu og öllum búnaði þess á meðan á leigu stendur og skuldbindur sig til að bæta það tjón sem kann að verða af hans völdum eða þeirra sem þar kunna að dvelja á hans vegum. Stjórn orlofssjóðs vill vara félagsmenn við því að framselja leigu til þriðja aðila því ábyrgðin er alltaf félagsmannsins.

Orlofshúsin eru sameign allra félagsmanna, og skorar stjórn orlofssjóðs á félagsmenn að hafa það í huga þegar þeir nota húsin. Einnig er ágætt að muna að skilja við húsin eins og þeir sjálfir vildu koma að þeim.

29
Sep

Ábyrgð hvað?

Það er óhætt að segja að forseti Alþýðusambands Íslands hafi rétt fyrir sér þegar hann talar um að bankarnir hafi farið of geyst í útrás á liðnum árum. En eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur ríkið nú eignast 75% í Glitni með því að leggja bankanum til nýtt hlutafé sem nemur 84 milljörðum.

Margir hafa á undanförnum árum verið undrandi á þeim ofurlaunum sem tíðkast hafa hjá æðstu stjórnendum bankanna og nægir að nefna að þegar Lárus Welding kom til starfa hjá Glitni þá fékk hann 300 milljónir fyrir það eitt að hefja störf þar. Hægt að lesa hér.

Einnig hefur fyrrverandi forstjóri, Bjarni Ármannsson hagnast gríðarlega á kaupréttarsamningum hjá Glitni eins og sjá má í þessari frétt. Reyndar verður fróðlegt að vita hversu mikið Bjarni Ármansson hefur hagnast á kaupréttarsamningum vegna Glitnis sérstaklega í ljósi nýrra atburða.

Ávalt er talað um þegar ofurlaun bankastjóra ber á góma sú mikla ábyrgð sem þeir bera og fróðlegt verður að sjá hver ábyrgð núverandi bankastjóra er. Núna blasir við að það eru almennir skattgreiðendur í þessu landi sem þurfa að bera ábyrgð. Það er morgunljóst að það er ekki hægt að horfa upp á þau ofurlaun sem þessir aðilar hafa sópað til sín og þegar á reynir þá beri þeir litla sem enga ábyrgð.

Samkvæmt tekjublaði frjálsrar verslunar kom t.a.m. fram að forstjóri eins af viðskiptabönkunum var með 64 milljónir í mánaðarlaun, það er því sorglegt fyrir íslenska skattgreiðendur að þurfa að horfa upp á það að koma einum þessara banka til hjálpar.

En að sjálfsögðu er því miður ekkert annað í stöðunni, því ella hefðu sparifjáreigendur hugsanlega tapað sínu sparifé.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image