• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

29
Oct

Á fimmta tug hefur verið sagt upp störfum í þessari viku

Það er óhætt að segja að þessi mánaðarmót ætli að verða blóðug fyrir verkafólk, iðnaðarmenn og skrifstofufólk.  En samkvæmt upplýsingum sem Verkalýðsfélag Akraness hefur þá hefur á fimmta tug verkamanna, iðnaðarmanna og skrifstofumanna verið sagt upp í þessari viku hér á Akranesi.  Flestir þeirra sem sagt hefur verið upp eru með eins mánaðar uppsagnarfrest þannig að síðasti starfsdagur flestra verður 30. nóvember.

Nánast allar þessar uppsagnir tengjast starfsemi í byggingariðnaði og er óhætt að segja að byggingarmarkaðurinn sé nánast helfrosinn og því miður ber formaður félagsins verulegan kvíðboga fyrir því að mun fleiri uppsagnir eigi eftir að líta dagsins ljós áður en kemur að mánaðarmótum.

Það er algerlega morgunljóst að mörg heimili munu eiga um sárt að binda í þeim hörmungum sem nú dynja á íslensku atvinnulífi í kjölfar þeirrar hrinu uppsagna sem nú ríður yfir íslenskan vinnumarkað.  Það er deginum ljósara að íslensk stjórnvöld verða að koma íslenskum launþegum og heimilum landsins til hjálpar og það tafarlaust ef ekki á verulega illa að fara fyrir íslenskum heimilum.

28
Oct

Passaðu að missa ekki rétt þinn !

Allar líkur eru á því að margt launafólk geti staðið frammi fyrir uppsögnum á næstu vikum og mánuðum. Mikilvægt er að minna á að þegar sótt er um atvinnuleysisbætur, þá er launamanni það í sjálfsvald sett hvort hann greiðir félagsgjald til stéttarfélags síns eða ekki. Með því að greiða félagsgjaldið viðheldur félagsmaður réttindum sínum hjá félaginu svo sem réttindum í sjóðum félagsins sem taka þátt í kostnaði vegna sjúkradagpeninga, sjúkraþjálfunar og menntunar félagsmann.

Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur eða greiðslur í fæðingarorlofi fyllir viðkomandi út umsóknareyðublað um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hjá Atvinnuleysistryggingasjóði. Þá þarf að merkja við að umsækjandi vilji að félagsgjöld séu dregin af viðkomandi greiðslum.

Með því að greiða ekki félagsgjald af þessum greiðslum tapast því mikilvæg réttindi.

27
Oct

Verðbólgan náði nýjum hæðum í október

Verðbólga mældist 15,9% í október og hefur verðlag hækkað um 2,2% frá því í septembermánuði. Þetta er mesta verðbólga sem mælst hefur hér á landi síðan vorið 1990.

Mest áhrif til hækkunar á verðlagi nú hefur hækkun á mat og drykkjarvörum um 4,3% á milli mánaða. Þar af hækkar verð á innfluttum mat- og drykkjarvörum um rúm 8%, innlendum vörum öðrum en grænmeti og búvörum um 4%, grænmeti um tæp 9% og búvörur um 1,7%. Á síðustu 12 mánuðum hefur verð á mat- og drykkjarvörum hækkað um 24,5%.

Þá hækkar verð á fötum og skóm um 4,9% frá því í septembermánuði og þar af hækkar verð á barnafötum mest eða um tæp 14%. Verð á ýmsum öðrum innfluttum vörum hækkar mikið á milli mánaða.  Má þar nefna húsgögn, heimilistæki og ýmsan húsbúna sem hækka um 7,1%, varahluti og hjólbarða sem  hækka um 19,6%, flugfargjöld til útlanda um 18,7% og verð á sjónvörpum, dvd-spilurum, tölvum o.fl. um 10,6%.

Af öðrum liðum vístiölunnar sem hækka á milli mánaða má nefna að hitakostnaður hækkar um 6,6% sem rekja má til hækkunar á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir heitt vatn.

Til lækkunar á vísitölunni nú kemur verðlækkun á bensíni og olíum sem lækka um 3,4% frá því í september. Þá lækkar kostnaður vegna eigin húsnæðis um 1,3% á milli mánaða sem rekja má að mestu til lækkunar á markaðsverði húsnæðis.

Alþýðusambandið hefur ítrekað á síðustu mánuðum bent á að við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að opinberir aðilar og fyrirtæki á þeirra vegum gangi á undan með góðu fordæmi og hækki ekki gjaldskrár sínar. Slíkt er þó enn raunin. Mikil óvissa í gengismálum um þessar mundir gerir alla verðlagningu á innfluttum vörum erfiða og staðfestir enn nauðsyn þess að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf. Það er brýnna nú en nokkru sinni að allir, bæði fyrirtæki og opinberir aðilar, leggist á árar og haldi aftur af verðhækkunum á vörum sínum og þjónustu til þess að koma í veg fyrir frekari hækkun verðlags á næstu mánuðum.

25
Oct

Ársfundi ASÍ lauk í gær

VLFA þakkar Grétari Þorsteinssyni fyrir gott samstarfVLFA þakkar Grétari Þorsteinssyni fyrir gott samstarfí gær lauk ársfundi Alþýðsambands Íslands. Yfirskrift fundarins bar heitið Áfram Ísland - fyrir ungt fólk og framtíðina.  Verkalýðsfélag Akraness átti fimm fulltrúa á fundinum.

Kosið var um nýjan forseta ASÍ en fyrir lá að Grétar Þorsteinsson myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu sem forseti ASÍ. Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri ASÍ og Ingibjörg R. Guðmundsdóttir varaforseti ASÍ buðu sig fram til forseta og bar Gylfi sigurorð í þeirri kosningu.

Gylfi Arnbjörnsson nýkjörinn forseti Alþýðusambandsins sagðist árétta fyrirheit sín um að efla samstöðu og samheldni innan verkalýðshreyfingarinnar, þegar hann sleit 8. ársfundi ASÍ síðdegis. Hann sagðist hafa staðfasta trú á því að með samstöðunni muni verkalýðshreyfingunni takast að vinna sig í gegnum þrengingarnar, fyrir ungt fólk og framtíðina. Í lok fundarins var Grétar Þorsteinsson fráfarandi forseti ASÍ ákaft hylltur fyrir frábær störf í þágu verkalýðshreyfingarinnar.

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness vill þakka Grétari Þorsteinssyni kærlega fyrir mjög gott samstarf á liðnum árum og óskar honum velfarnaðar á komandi árum.

24
Oct

Fundur boðaður með bæjaryfirvöldum

Verkalýðsfélag Akraness óskaði eftir því við bæjaryfirvöld að boðað yrði til fundar vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Á þeim fundi yrði farið yfir þau úrræði sem tiltæk eru.

Verkalýðsfélag Akraness hafði hug á því að einnig yrðu boðaðir til fundarins Guðjón Brjánsson frá heilsugæslunni, fulltrúi frá Rauða Krossi íslands, séra Eðvarð Ingólfsson og Sigurður Sigursteinsson frá endurhæfingarmiðstöðinni Hver.

Bæjaryfirvöld brugðust fljótt við þessari beiðni félagsins og hafa boðað til fundar í bæjarþingsalnum kl. 14:30 á þriðjudaginn kemur þar sem farið verður yfir þau alvarlegu tíðindi sem nú blasa við í íslensku atvinnulífi. Telur formaður félagsins mjög mikilvægt að áðurnefndir aðilar samnýti krafta sína í þeirri vinnu sem framundan er vegna samdráttar í atvinnulífinu og verði tilbúnir að takast á við það verkefni.

Athygli er vakin á því að hér á heimasíðunni er að finna ýmsar upplýsingar vegna efnahagsástandsins undir svo merktum hnappi hér til hægri á síðunni.

21
Oct

Mikið annríki á skrifstofu vegna efnahagsástandsins

Annríki er mikið á skrifstofu félagsins þessa dagana, og mikið um að félagsmenn leiti til skrifstofu með ýmsar fyrirspurnir og vandamál sem rekja má til þess ástands sem nú hefur skapast í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Töluvert er um að félagsmenn vilji kanna réttarstöðu sína gagnvart atvinnurekanda sínum, en einnig snúast fyrirspurnir um atriði tengd efnahagsástandinu.

Vegna þessa hefur verið safnað saman upplýsingum tengdum þessu undir nýjum hnappi hér hægra megin á síðunni merktum "Efnahagsástandið". Upplýsingar á þeirri síðu eru að mestu frá Alþýðusambandi Íslands sem hefur útbúið nokkur upplýsingarit með gagnlegum upplýsingum. Þessi síða verður uppfærð eftir þörfum.

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness hvetur félagsmenn til að vera vakandi yfir rétti sínum, og hika ekki við að hafa samband þurfi þeir á aðstoð eða ráðgjöf að halda.

18
Oct

Frábært framtak forsvarsmanna Norðuráls

Norðurál á GrundartangaNorðurál á GrundartangaEigendur Norðuráls hafa ákveðið að greiða starfsmönnum fyrirtækisins aukalega sem samsvarar einum mánaðarlaunum. Sem dæmi um þetta glæsilega framtak þá fær starfsmaður sem starfað hefur í 7 ár hjá fyrirtækinu 308.994 kr. Þeir sem eru í hlutastarfi fá greitt í samræmi við það. Einnig ákváðu eigendur fyrirtækisins að greiða fólki sem starfaði við sumarafleysingar í sumar eingreiðslu sem nemur 50.000 kr.

Í dag starfa hjá Norðuráli vel á fimmta hundrað manns og um 80% af þeim starfsmönnum tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness.

Ástæða þess að eigendur Norðuráls ákváðu að umbuna starfsmönnum með þessum hætti er sú að í sameiningu hafa menn náð miklum árangri á Grundartanga og reka nú nútímalegt og samkeppnisfært 270.000 tonna álver. Einnig var á árinu haldið upp á 10 ára starfsafmæli álversins.

Í bréfi sem starfsmönnum barst kemur fram að árið 2008 hafi verið gott fyrir fyrirtækið, góður endir á frábærum áratug og einnig segir í bréfinu að ekkert fyrirtæki getur vaxið og dafnað eins og Norðurál hefur gert nema með traustu starfsfólki sem hefur vilja og getu til að lyfta byrðum saman og vinna sem ein heild að sameiginlegum markmiðum. Einnig er sagt í bréfinu að elja og áhugi starfsfólks Norðuráls hefur verið einstök og eftir henni tekið. Fyrir það vilji fyrirtækið þakka og telja ástæðu til að fanga þeim áföngum sem náðst hafa á árinu.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessu framlagi forsvarsmanna Norðuráls innilega enda algjörlega ljóst að þetta framlag mun koma sér vel fyrir starfsmenn vegna stighækkunar á greiðslubyrði heimilanna. Þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvæg stóriðjan er fyrir okkur Íslendinga. Það að hafa sterkar stoðir í okkar atvinnulífi eins og Norðurál og Elkem Ísland skiptir sköpum fyrir atvinnusvæðið hér á Akranesi.

Þetta framlag sýnir einnig hversu sterkt fyrirtæki Norðurál er og skiptir það miklu máli fyrir starfsmenn fyrirtækisins að finna fyrir þessum velvilja og þetta staðfestir ekki síður að starfsmenn búa við eins mikið atvinnuöryggi og hægt er á þessum óvissutímum.

Hægt er að lesa bréfið til starfsmanna með því að smella hér.

16
Oct

Endurreisn efnahagslífsins

Á fundi formanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins, sem haldinn var í dag sagði Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri ASÍ.

,,Mikilvægasta verkefnið til skemmri og lengri tíma litið er að tryggja stöðugleika og trúverðugleika hagkerfisins. Það verður ekki gert með núverandi peningamálastefnu og íslensku krónunni,“

Farið var yfir stöðu efnahagsmála eins og hún blasir við og rætt hvernig styrkja megi og efla aðildarfélögin við að upplýsa og aðstoða félagsmenn þeirra sem lenda efnahagsþrengingum og atvinnumissi.

 

Á fundinum var endurreisn efnahagslífsins mjög til umræðu, en hún verður að byggja á félagslegum viðhorfum um jöfnuð, réttlæti og samfélagslega ábyrgð í stað þeirrar einstaklings- og sérhyggju misskiptingar og græðgi sem tröllriðið hefur samfélaginu undanfarin áratug. 

Gylfi Arnbjörnsson ræddi mikilvægi þess að við sameinuðumst um skýra aðgerðaáætlun til næstu ára m.a. um aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, bæði lán og ráðgjöf og skapa þannig trúverðugleika. Vinna þarf að trúverðugri áætlun um stöðugleika í gengis- og peningamálum þar sem aðildarumsókn að ESB og þar með aðild að evrusamstarfinu yrði lokaáfangi.

 Sú lausn myndi, að mati færustu sérfræðinga, leiða til  hraðari lækkunar vaxta en aðrar lausnir. Það sem er brýnast núna er að fá stöðugt og sterkara gengi til að lækka verðbólgu. Það verður að lækka vexti þegar í stað um allt að helming.

 Aðkoma lífeyrissjóðanna að endurfjármögnun atvinnulífsins, gæti reynst afar þýðingarmikil við endurreisnarstarf í efnahagslífinu, en brýnustu verkefnin núna er að koma til móts við fyrirsjáanlegan vanda heimilanna, þ.e. lækka verðbólgu, taka á greiðslubyrði húsnæðislána, treysta atvinnu og bæta hag unga fólksins.

Fundurinn sendi ekki frá sér sérstaka ályktun, en gerir ráð fyrir að ársfundur ASÍ, sem haldinn verður í lok næstu viku, taki afstöðu til þeirra atriða sem rædd voru.

15
Oct

Formannafundur hjá Starfsgreinasambandi Íslands

Á morgun verður haldinn fundur formanna aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands. Málefni fundarins eru staðan í efnahagsmálum og aðgerðir til að upplýsa og aðstoða félagsmenn stéttarfélaga vegna þeirra aðstæðna sem nú ríkja í íslensku efnahagslífi.

Það liggur fyrir að fyrirtækin eiga nú verulega undir högg að sækja í því ölduróti sem nú gengur yfir íslenskt efnahagslíf. Hins vegar hefur ekki eins mikið borið á því í umræðunni hversu grafalvarleg staðan er hjá heimilum landsins, en eins og flest heimili hafa fundið fyrir þá hefur greiðslubyrði einstaklinga vegna húsnæðislána, matarinnkaupa og annarra kostnaðarliða hækkað gríðarlega að undanförnu. Það er ljóst að koma verður heimilum til hjálpar en allir gera sér grein fyrir mikilvægi þess að tannhjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast.

13
Oct

Ábyrgð upp á 600 milljarða!

Það er óhætt að segja að nú kraumi gríðarleg reiði í almenningi vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi. Reiðin beinist að því hvernig í ósköpunum það megi gerast að bankakerfið hafi veðsett íslensku þjóðina fyrir 600 milljarða erlendis eins og kemur fram í þessari frétt. Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðherra munu eignir Landsbankans og Icesave sem betur fer ganga að einhverju leyti upp í þessa 600 milljarða.

Almenningur spyr sig, hvernig getur þetta hafa gerst og hvar var fjármálaeftirlitið og ríkisvaldið þegar bankarnir þöndust út með þessum hætti og settu íslenska þjóð í ábyrgð fyrir 600 milljörðum? Almenningur virðist ekki hafa haft hugmynd um að þjóðin þyrfti að bera ábyrgð á þessari útrás bankanna eins og nú er orðin raunin.

Þessu til viðbótar ríkir gríðarlega óvissa hjá ótal einstaklingum sem hafa lagt í reglulegan sparnað í formi peningasjóða bankanna, en eins og fram hefur komið í fréttum þá er alls óvíst hversu mikið einstaklingar munu fá til baka af þeim sparnaði. Formanni er kunnugt um verkafólk sem hefur lagt reglulega fyrir í þessa peningasjóði af sínum launum og nú standa þessir einstaklingar frammi fyrir því að bíða milli vonar og ótta eftir því hversu mikil niðurfærsla verður á þessum sjóðum.

Það liggur fyrir að íslenskt verkafólk mun finna fyrir þungu höggi vegna þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi og er fólk óttaslegið um starfsöryggi sitt. Það er grátlegt fyrir verkafólk að horfa upp á það ástand sem nú ríkir, sérstaklega í ljósi þess að verkafólk hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum til að viðhalda hér stöðugleika og nægir að nefna gerð síðustu kjarasamninga sem voru skynsamir og hóflegir. Eitt er víst að það er ekki íslenskt verkafólk sem ber ábyrgð á þeirri skelfilegu stöðu sem nú blasir við íslenskri þjóð.

Það er alveg ljóst að almenningur mun ekki sætta sig við það að þeir sem eiga að bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslensku þjóðinni nú sæti ekki ábyrgð. Þetta mál þarf að rannsaka ofan í kjölinn því allt bendir til þess að fjölmargir aðilar hafi brugðist í þessu máli og nægir að nefna stjórnendur bankanna, fjármálaeftirlitið, Seðlabankann og þá sem fara með stjórn ríkisins á hverjum tíma.

Hins vegar er aðalmálið núna að verja heimilin og fyrirtækin en þegar um hægist þá er ljóst að víðtæk rannsókn verður að fara fram á því hvað fór úrskeiðis í íslensku efnahagslífi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image