• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

19
Sep

Miklar væntingar

Rétt í þessu var að ljúka fundi með trúnaðartengiliðum Elkem Íslands og Klafa en tilefni fundarins var að fara yfir komandi kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins vegna kjarasamnings áðurnefndra aðila.

Það er algjörlega ljóst að gríðarlegar væntingar eru hjá starfsmönnum þessara fyrirtækja til komandi kjarasamnings og krafan verður hvellskýr, það er umtalsverð hækkun á launatöxtum auk lagfæringa á bónuskerfi sem ekki hefur verið að skila því sem vænst var af því í síðasta samningi.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur grundvöll fyrir því að sækja umtalsverða hækkun á þau fyrirtæki sem starfa í stóriðjugreinum, þ.e. Elkem Ísland, Norðurál og Klafa, en tvö fyrrnefndu fyrirtækin selja allar sínar afurðir í erlendri mynt þannig að sú gengisfelling sem verið hefur á undanförnum misserum hefur komið sér vel fyrir þessi fyrirtæki. Þessu til viðbótar liggur fyrir að verð á  kísiljárni og áli hefur hefur tekið miklum hækkunum að undanförnu.

Starfsmenn vilja fara að hefja viðræður vegna komandi samnings sem allra fyrst en samningurinn rennur út 30. nóvember nk. og vilja menn að búið verði að ganga frá nýjum samningi þegar sá eldri rennur út. Því þarf að nýta tímann vel til 30. nóvember ef það á að takast.

18
Sep

Stjórn og trúnaðarráð fundar

Næstkomandi mánudag mun stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness koma saman til fundar. Fjölmörg mál verða til umfjöllunar á þessum fundi og verður m.a. rætt um endurskoðun kjarasamninga sem mun eiga sér stað í febrúar. En löngu er ljóst að allar forsendur kjarasamningsins sem undirritaður var 17. febrúar sl. eru kolbrostnar og klárt mál að verkafólk mun þurfa að fá einhvers konar viðbót við kjarasamninginn ef ekki á til uppsagnar hans að koma. Það liggur fyrir að greiðslubyrði skuldsettra heimila er að stóraukast þessa dagana vegna gríðarlegs gengisfalls krónunnar og ljóst að mörg heimili munu eiga í vandræðum á næstu misserum. Á þeirri forsendu verður einhver leiðrétting að koma til í endurskoðun kjarasamninga.

Einnig verður fjallað um þá samninga sem lausir verða nú á næstu mánuðum og það hvort Starfsgreinasambandi Íslands verði veitt umboð vegna komandi kjarasamninga við launanefnd sveitarfélaganna en sá samningur rennur út 30. nóvember nk. Þó nokkur félög innan SGS íhuga nú að fela SGS ekki samningsumboðið vegna komandi kjarasamninga og er allt eins líklegt að VLFA geri það ekki heldur.

Á fundinum verður einnig fjallað um komandi kjarasamninga í stóriðjunum, en þar liggur fyrir að þeir fastlaunasamningar sem tilheyra stóriðjunni hafa því miður setið eftir samanborið við það launaskrið sem verið hefur á hinum almenna vinnumarkaði.

Einnig verður til umfjöllunar hinn nýi endurhæfingarsjóður, en þessa dagana er verið að móta reglur í kringum þennan nýja sjóð og ljóst að félagið vill sjá ávinning af þessum nýja sjóði til handa okkar félagsmönnum enda rennur umtalsvert fé í þennan sjóð í gegnum þá kjarasamninga sem félagið er aðili að.

Að sjálfsögðu verður á fundinum rætt um atvinnu- og efnahagshorfur í íslensku samfélagi en sem betur fer er atvinnuástandið á Akranesi feikigott um þessar mundir og skýrist það af þeim sterku stoðum sem byggðar hafa verið undir atvinnulífið á okkar félagssvæði með tilkomu stóriðjunnar á Grundartanga. Sem dæmi má nefna að þegar uppsagnir dynja yfir, vítt og breitt í atvinnulífinu þessa dagana þá er auglýst eftir fólki til starfa hjá Elkem Íslandi og samkvæmt upplýsingum sem félagið hefur aflað sér þá er þar um 7-8 störf að ræða.

17
Sep

Lagfæra þarf kjör starfsmanna Akraneskaupstaðar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er kjarasamningur við launanefnd sveitarfélaganna laus 30. nóvember nk. og er undirbúningur að kröfugerð þegar hafinn. Verkalýðsfélag Akraness hefur sent viðhorfskönnun til þeirra félagsmanna sem vinna hjá Akraneskaupstað og tilheyra VLFA. Þar geta félagsmenn komið á framfæri þeim atriðum sem þeir vilja leggja áherslu á í komandi kjaraviðræðum.

Það liggur fyrir að kjör ófaglærðra starfsmanna hjá Akraneskaupstað þarf að bæta og nægir í því samhengi að nefna að sundlaugarverðir, skólaliðar og starfsmenn á leikskóla sem náð hafa 25 ára aldri eru einungis með 144.789 kr. í grunnlaun auk 6.000 mánaðarlegrar eingreiðslu. Slík laun duga vart til lágmarksframfærslu og greinilegt að lagfæra þarf laun þessara hópa.

Krafan verður að öllum líkindum umtalsverð hækkun á launatöxtum og samningur sem gildir í skamman tíma, því glapræði er að gera langtímasamning í því árferði sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness mun á fundi sínum næstkomandi mánudag fjalla um það hvort samningsumboð vegna komandi kjarasamnings verði fært til Starfsgreinasambands Íslands, en eins og staðan er í dag er allt eins líklegt að það verði ekki gert.

Það er óhætt að segja að annríki verði hjá félaginu við samningsgerð á næstu mánuðum enda eru fjölmargir samningar á vegum félagsins lausir þegar líður á haustið og nægir þar að nefna kjarasamninga Elkem Íslands, Klafa, Sementsverksmiðjunnar, sjómanna og starfsmanna Akraneskaupstaðar.

15
Sep

Umtalsverðar væntingar vegna komandi kjarasamninga hjá stóriðjum

Fyrsta desember nk. verður kjarasamningur starfsmanna Elkems Íslands laus og á sama tíma verður kjarasamningur starfsmanna Klafa laus, en það eru starfsmenn sem vinna við út- og uppskipun í Grundartangahöfn.

Það er ljóst að kröfur starfsmanna verða umtalsverðar í komandi kjarasamningi, sérstaklega í ljósi þess að starfsmenn hafa setið töluvert á hakanum sé tekið mið af því launaskriði sem verið hefur á hinum almenna vinnumarkaði. Starfsmenn hafa haft á orði við formann félagsins að þeir vilji stefna að skammtímasamningi sökum þess efnahagsástands sem nú ríkir.

Formaður hefur verið að skoða hvernig laun starfsmanna stóriðjunnar á Grundartanga hafa þróast samanborið við launavísitölu frá 1. janúar 2004 til 1. júlí 2008. Þá kemur í ljós að frá þeim tíma hefur launavísitalan hækkað um 42,4%.

Einnig hefur formaður skoðað hækkun vísitölu neysluverðs (verðbólgu) frá 1. janúar 2004 til 1. júlí 2008 og kemur þá í ljós að á þessum tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 34,7%.

Hins vegar hafa laun starfsmanna Elkem Íslands og Klafa hækkað um 29,7% og sést því að kaupmáttarskerðing á umræddu tímabili er 5%. Einnig sést að launavísitalan hefur hækkað um 42,4% sem er 12,7% meira en laun starfsmanna áðurnefndra fyrirtækja.

Á þessari forsendu liggur fyrir að krafa starfsmanna Elkem Íslands og Klafa í komandi samningum verður umtalsverð hækkun á grunntöxtum. Það liggur fyrir að fastlaunasamningar eins og eru í stóriðjunni hafa þá tilhneigingu að sitja eftir á við almenna markaðinn eins og fram kemur þegar launavísitalan er skoðuð, enda þekkist vart launaskrið þegar um fastlaunasamninga er að ræða.

Það er einnig ljóst að starfsmenn stóriðjunnar eru ekki að fara að taka þátt í þjóðarsátt einfaldlega vegna þess að þeir telja sig vera búna að leggja sitt af mörkum í þeim efnum í gegnum tíðina eins og sést þegar að launahækkanir þessara hópa eru skoðaðar og bornar saman við hækkun á launavísitölunni.

12
Sep

Viðskiptaráðherra styður verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands

Í gærkvöldi stóð viðskiptaráðuneytið fyrir fundi undir yfirskriftinni "Ný sókn í neytendamálum". Fundurinn var haldinn í Skrúðgarðinum hér á Akranesi og var þriðji fundurinn í fundarherferð viðskiptaráðherra um neytendamál sem hann heldur vítt og breitt um landið þessa dagana.

Fundurinn í gær var afar gagnlegur og forvitnilegur en framsögumenn á fundinum voru Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Jón Magnússon þingmaður Frjálslynda flokksins og Guðbjartur Hannesson þingmaður Samfylkingarinnar. Eftir erindi frá áðurnefndum aðilum voru leyfðar fyrirspurnir sem þeir félagar svöruðu og brunnu fjölmargar spurningar á fundargestum.

Til að mynda var spurt um verðtrygginguna og kom fram hjá Jóni að hana eigi að leggja af sem allra fyrst. Hann sagðist samt sem áður gera sér grein fyrir því að það verði erfitt miðað við þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku efnahagslífi.

Viðskiptaráðherra sagði að erfitt yrði að leggja verðtrygginguna niður á meðan að krónan væri við lýði hér á landi og vart væri hægt að leggja verðtrygginguna niður fyrr en nýr gjaldmiðill væri kominn og stöðugleika í íslensku efnahagslífi náð.

Fyrirspurn kom frá einum fundarmanni um veggjaldið í Hvalfjarðargöngum og fram kom í svari frá Jóni að hann telji það varla standast jafnræðisreglu að greitt sé veggjald í Hvalfjarðargöngum á sama tíma og gjaldtaka eigi sér ekki stað í öðrum jarðgöngum hér á landi.

Viðskiptaráðherra svaraði því til að Guðbjartur Hannesson hefði farið yfir málið á sínum tíma með þingflokki Samfylkingarinnar og á þeim tíma studdi allur þingflokkur Samfylkingarinnar afnám vegatolla um Hvalfjarðargöng. Vonaðist ráðherrann til þess að Samfylkingin gæti uppfyllt þetta kosningaloforð sitt í náinni framtíð.

Formaður félagsins, sem jafnframt var fundarstjóri á fundinum, lagði fyrir þá félaga spurningar um verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands og þær hörðu ásakanir sem fulltrúar verslunarinnar hafa sett fram á verðlagseftirlit ASÍ og félaga þess undanfarið. Einnig var spurt um afstöðu þeirra félaga til þeirra tillagna sem fram hafa komið af hálfu verslunarinnar um að fenginn verði "óháður aðili" til að sinna verðlagseftirliti.

Fram kom í máli Jóns og Guðbjarts Hannessonar að þeir styðji það öfluga starf sem verðlagseftirlit Alþýðusambandsins hefur unnið og Guðbjartur sagðist ekki sjá að neinir hnökrar hafi verið á verðlagseftirliti ASÍ. Ráðherra sagðist búinn að fara vandlega yfir þetta mál og það væri ljóst að engar breytingar yrðu á því ágæta samstarfi sem ríkisvaldið ætti við Alþýðusamband Íslands um verðlagseftirlitið og myndi ASÍ því áfram sinna því hlutverki.

11
Sep

Fundur með viðskiptaráðherra á Skrúðgarðinum í kvöld

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína á fund sem viðskiptaráðuneytið stendur fyrir í kvöld. Fjallar hann um nýja sókn í neytendamálum.

Fundurinn hefst kl. 20:00 og er í Skrúðgarðinum. Ræðumenn á fundinum verða Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Jón Magnússon þingmaður Frjálslynda flokksins og Guðbjartur Hannesson þingmaður Samfylkingarinnar.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á félagsmenn sína að mæta og spyrja viðskiptaráðherra spurninga er lúta að neytendamálum enda er algerlega ljóst að af nægu er að taka í þeim efnum.

Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, mun verða fundarstjóri á fundinum í kvöld.

10
Sep

Forystumenn fjölmargra stéttarfélaga kannast ekki við viðræður um þjóðarsátt

Í fréttum í dag kemur fram að alvarlegar þreifingar hafi átt sér stað á milli Samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélaganna um leiðir til að leysa efnahagsvandann til langframa.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lýsir furðu sinni á þessum fréttum og kannast ekki við að slíkar þreifingar hafi átt sér stað. Það sama má segja um marga aðra forystumenn innan aðildarfélaga ASÍ, þeir koma af fjöllum þegar fréttin er borin undir þá.

Í þessum "þreifingum" á meðal annars að hafa verið rætt um upptöku erlends gjaldmiðils þar sem krónan sé steindauð sem framtíðargjaldmiðill.  Einnig kom fram í fréttum varðandi þessar þreifingar að kjarasamningar verði endurskoðaðir á næstu vikum en ekki beðið fram í febrúar þegar samningar verða lausir í ljósi þess að allar forsendur þeirra séu löngu brostnar. Meðal annars sé gert ráð fyrir því að núverandi samningar verði framlengdir óbreyttir og að laun hækki um 3,5%.
Í fréttinni kemur jafnframt fram að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafi rætt við forystumenn í verkalýðshreyfingunni og kynnt í trúnaði 12 punkta plagg þar sem tíundaðar eru hugmyndir sem verði að taka á til að hér verði komið á jafnvægi í efnahagsmálum.
Í fréttum er einnig fullyrt að samstaða sé að myndast um að atvinnurekendur, verkalýðshreyfingin, ríkisstjórnin, bankar og fleiri taki höndum saman til að hér náist jafnvægi í efnahagsmálum.

Það væri afar fróðlegt að vita við hverja Samtök atvinnulífsins eru að ræða við innan verkalýðshreyfingarinnar, sérstaklega í ljósi þess að samningsumboðið liggur hjá stéttarfélögunum vítt og breitt um landið og forystumenn fjölmargra félaga kannast ekki við að viðræður um þjóðarsátt standi yfir þessa daganna.

Það er einnig morgunljóst að Það þýðir lítið að tala um þjóðarsátt fyrr en ljóst er hvað aðrir en launafólk ætla að leggja af mörkum.  Rétt er minna enn og aftur á það að þurfa fleiri en íslenskt verkafólk að leggja sitt af mörkum til að viðhalda stöðugleika í íslensku efnahagslífi.  

09
Sep

Nýr kjarasamningur við Landsamband smábáteigenda

Þann 8. júlí sl. gekk Starfsgreinasamband Íslands frá kjarasamningi við Landsamband smábátaeigenda um vinnu við uppstokkun og beitningu á línu. Samningurinn nær einnig til þeirra sem vinna við netavinnu.

Beitningarmönnum eru tryggð ýmis réttindi í þessum nýja kjarasamningi eins og t.d. kauptrygging, orlofs- og desemberuppbætur, réttindi í veikinda- og slysatilfellum og hlífðarfatnaður. Um önnur réttindi sem ekki er getið um í kjarasamningnum við Landssamband smábátaeigenda vísast í aðalkjarasamning SGS við SA.

Það er alveg ljóst að með þessum nýja samningi við Landsamband smábátaeigenda hafa fjölmörg kjaraatriði verið tryggð en hingað til hafa beitningamenn yfirleitt verið án kjarasamnings.

Þó nokkrir beitningamenn tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og hefur félagið að undanförnu verið að kynna samninginn fyrir sínum félagsmönnum.  Hægt er að skoða samninginn með því að smella á kjarasamningar hér til vinstri og velja beitningarsamningur.

08
Sep

Frystihús HB Granda á Akranesi opnar eftir sumarlokun

Starfsemi í frystihúsi HB Granda hér á Akranesi er nú að komast á fullt skrið aftur eftir sumarlokun sem stóð frá 11. júlí til 18. ágúst. Í sumarlokuninni var frystihúsinu breytt og settur upp nýr lausfrystibúnaður þar sem nú er verið að vinna léttsöltuð og lausfryst ufsaflök.

Rúmlega 20 manns starfa í frystihúsinu núna og nú er bara að vona að þessi nýja framleiðsla muni ganga sem allra best með von um að fjölga þurfi starfsmönnum við þessa nýju vinnslu.

04
Sep

Formaður í vinnustaðaheimsókn í Norðuráli

Í morgun fór formaður félagsins í vinnustaðaheimsókn til Norðuráls. Tilefni heimsóknarinnar var að fara yfir það hvað Norðurál hefur verið að gera í hinum ýmsu málum er tengjast öryggi starfsmanna. Formaður fór í steypuskála og skautsmiðju þar sem honum var sýnt hvað gert hefur verið í öryggismálum á liðnum mánuðum.

Ánægjulegt var að sjá að forsvarsmenn Norðuráls virðast leggja töluverðan fókus á öryggi starfsmanna þessi misserin enda skipta öryggismál gríðarlega miklu máli bæði fyrir starfsmenn og fyrirtækið sjálft.

Formanni var t.d. sýnt hvar ný handrið hafa verið sett til að afmarka hættuleg svæði ásamt hinum ýmsu öðrum atriðum sem eiga að leiða til aukins öryggis starfsmanna. Fram kom í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þegar kemur að öryggismálum þá séu verkefnin ærin og unnið sé nú eftir lista yfir atriði sem starfsmenn og forsvarsmenn telja að þurfi að bæta. Markmið fyrirtækisins er að reyna að koma sem flestum þessara atriða til betri vegar á sem skemmstum tíma.

Öryggismál skipta gríðarmiklu máli í verksmiðju þar sem hættur geta leynst víða og skemmst er að minnast alvarlegs slyss fyrir ekki svo löngu þegar starfsmaður missti hluta af fæti vegna þess að hann varð fyrir lyftara. Á þeirri forsendu er mikilvægt að starfsmenn og forsvarsmenn fyrirtækisins vinni eins vel og hægt er að því að bæta öryggi í verksmiðjunni enn frekar. Það var því afar ánægjulegt að sjá að til er aðgerðalisti um öryggismál sem nú er unnið af hörðum höndum við að vinna í.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image