• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

19
Nov

Verkalýðsfélag Akraness tekur þátt í tilraunaverkefni Endurhæfingarsjóðs

Endurhæfingarsjóður er nýr sjóður sem stofnaður var með kjarasamningum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins í febrúar sl. Markmið sjóðsins er að draga markvisst úr líkum á því að launafólk lendi í varanlegri örorku með aukinni virkni þeirra og eflingu endurhæfingar.

Undirbúningur að faglegri vinnu og uppbyggingu sjóðsins hófst í ágúst. Þessa dagana er Endurhæfingarsjóður að fara af stað með tilraunaverkefni í samvinnu við sjúkrasjóði þriggja stéttarfélaga og er Verkalýðsfélag Akraness eitt þeirra. Markmið þessarar tilraunar er að undirbúa og þróa starf ráðgjafa hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga um allt land og meta þörf fyrir fræðslu og aðstoð.

Stefnt er að því að fyrstu ráðgjafar sjúkrasjóðanna taki formlega til starfa á landsvísu í byrjun árs 2009. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Endurhæfingarsjóðs.

14
Nov

Áfram Ísland - fyrir hag heimilanna

Forysta ASÍ ætlar að efna til fundarherferðar um landið undir yfirskriftinni Áfram Ísland - fyrir hag heimilanna.  Hvert skal stefna? Haldnir verða sjö fundir vítt og breitt um landið í samstarfi við aðildarfélögin. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ mun ræða um stöðuna og framtíðarsýn Alþýðusambandsins.

Formenn landssambanda og stærstu félaga ASÍ munu einnig sitja fyrir svörum. Auk ræðuhalda verður boðið upp á tónlistaratriði. Áhersla verður lögð á fyrirspurnir úr sal þar sem formenn landssambanda og forsetinn munu sitja fyrir svörum.

Fundurinn sem haldinn verður á Akranesi verður í Grundaskóla miðvikudaginn 19. nóvember og hefst fundurinn kl 20:00.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun á fundinum flytja ræðu, en gert er ráð fyrir því að forystumenn hvers aðildarfélags þar sem fundurinn er haldinn verði með ræðu.  Fundaherferðinni lýkur með  útifundi á Ingólfstorgi í Reykjavík 27. nóvember. 

Dagskrá fundaherferðar ASÍ

13
Nov

Alþýða þessa lands á ekki að þurfa að greiða fyrir græðgisvæðingu útrásarvíkinga

Almennt verkafólk spyr sig: hvar eru þeir auðmenn og útrásarvíkingar sem skuldsett hafa íslensku þjóðina upp í rjáfur?

Íslensk alþýða spyr sig líka að því hví í ósköpunum eru eigur þeirra aðila sem stofnuðu t.d. Ice-Save reikninga bæði í Bretlandi og Hollandi ekki frystar á meðan rannsókn á hruni bankanna fer fram? Hvernig má það vera að búið sé að veðsetja íslenska þjóð vegna þessara reikninga og það algjörlega án vitundar almennings í þessu landi?

Hafa þeir aðilar sem bera ábyrgð á því að hafa skuldsett þjóðina með þessum hætti geð í sér til að horfa upp á orðspor heillar þjóðar verða að engu vegna þessara reikninga sem Landsbankinn stofnaði t.d. til á erlendri grundu?

Hvernig getur t.d. Björgólfur Guðmundsson, einn af aðaleigendum Landsbankans, réttlætt það að eiga ennþá knattspyrnufélag að nafni WestHam þegar óljóst er hvort það verði íslenskur almenningur sem verði að greiða fyrir þessi mistök hans í útrásinni.  Svo ekki sé nú talað um alla milljarðanna sem Bjarni Ármannsson hefur hagnast um á meðan hann gegndi stöðu bankastjóra Glitnis.

Almenningur í þessu landi krefst þess að allir þeir aðilar sem bera ábyrgð á þeirri stöðu sem nú er komin upp í íslensku samfélagi beri ábyrgð. Á það bæði við þá sem áttu að hafa eftirlit með bankakerfinu, sem og þá sem stóðu fyrir útrásinni.

Íslenskur almenningur mun ekki sætta sig við að þeir auðmenn sem stóðu fyrir útrásinni komist frá þessum hildarleik með lungann af sínum auðævum á meðan að almenningi nánast blæðir út.

Því er krafan skýr: Komið þið með þá fjármuni sem þið eigið, til að taka þátt í því að greiða fyrir þau mistök sem þið að stærstum hluta eigið sök á.  Látið ekki saklausa alþýðu þessa lands eina greiða fyrir þá græðgisvæðingu sem þið stóðuð fyrir, græðgisvæðingu sem almennt verkafólk á enga sök á.

11
Nov

Af hverju sitja atvinnurekendur í stjórnum lífeyrissjóða ?

Breyta þarf lögum um lífeyrissjóðiBreyta þarf lögum um lífeyrissjóðiNú liggur fyrir að lífeyrissjóðir vítt og breitt um landið hafa tapað tugum ef ekki hundruðum milljarða vegna hruns bankakerfisins og ljóst að einhverjir lífeyrissjóðir munu þurfa að grípa til skerðingar á lífeyri til sinna sjóðsfélaga.

Formaður hefur oft velt því fyrir sér hví í ósköpunum atvinnurekendur eigi fulltrúa inní stjórnum lífeyrissjóðanna.  Hvað eru atvinnurekendur að t.d. véla með lífeyri verkafólks?

Samkvæmt allflestum kjarasamningum þá greiða launþegar 4% af sínum launum í lífeyrissjóði og fá 8% mótframlag frá sínum atvinnurekanda. Með öðrum orðum þá eru þetta kjarasamningsbundin réttindi launþega og algerlega óeðlilegt að atvinnurekendur séu að hafa áhrif á fjárfestingastefnu sjóðanna.

Hagmunaárekstrar hjá fulltrúum atvinnurekenda geta klárlega komið upp þegar stjórnir lífeyrissjóða eru að velta fyrir sér hlutabréfakaupum í íslenskum fyrirtækjum enda eru krosstengslin í fyrirtækjum hér á landi með miklum ólíkindum.

Það er bjargföst skoðun formanns félagsins að atvinnurekendur eiga ekkert með sitja í stjórnum lífeyrissjóða enda er þetta ekki þeirra lífeyrir sem þeir eru að véla með.  Fróðlegt væri að vita hvort fulltrúar atvinnurekenda greiði af sínum launum í þann lífeyrissjóð sem þeir gegna stjórnarmennsku í.

Það er hins vegar mat formanns Verkalýðsfélags Akraness  að Alþingi eigi nú að endurskoða lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða í ljósi þess að sjóðirnir eru nú að tapa gríðarlegum upphæðum vegna þess ástands sem nú ríkir.

Það er einnig mat formanns félagsins að það eigi að breyta lögunum með þeim hætti að afnema skyldugreiðslu launþega í lífeyrissjóði og þess í stað eigi launþegar að greiða allan sinn lífeyri í séreign sem er eyrnamerktur hverjum launþega fyrir sig.

Formaður gerir sér grein fyrir að þetta eru róttækar breytingar og að mörgu verði að hyggja í þessu sambandi.  Það er hins vegar mat formanns að það sé vel hægt að breyta lögunum þannig að þetta sé framkvæmanlegt því það er með öllu óþolandi fyrir launþega að horfa uppá lífeyrissparnað sinn skerðast með þeim hætti sem nú blasir við sjóðsfélögum vítt og breitt um landið.

10
Nov

Boðað verður til bæjarmálafundar síðar í mánuðinum

Um síðustu mánaðarmót var stofnað til samstarfshóps hér á Akranesi sem hefur það hlutverk að meta stöðu og leggja á ráðin um áhrif efnahagsmála. Starfshópinn skipa eftirtaldir: Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness. Gunnar Richardsson frá Vinnumálastofnun Vesturlands, Ólafur Þ. Hauksson sýslumaður á Akranesi og Sveinborg Kristjánsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs Akraneskaupstaðar. Helga Gunnarsdóttir sviðsstjóri fræðslu-, tómstunda- og íþróttasviðs starfar með hópnum og kallar hann saman til fundar.

Samstarfshópurinn fundaði á sl. föstudag og þar var ákveðið að boða til bæjarmálafundar síðar í mánuðinum. Á þann fund munu mæta fulltrúar frá Íbúðalánasjóði, Vinnumálastofnun, Ráðgjafastofu heimilanna og félagsmálaráðuneytinu auk fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands.

06
Nov

Þrír kjarasamningar renna út á næstunni

Þann 30. nóvember nk. munu þrír samningar sem félagið er aðili að renna út. Það eru samningur við launanefnd sveitarfélaga vegna starfsmanna Akraneskaupstaðar, starfsmanna Elkem Ísland á Grundartanga og starfsmanna Klafa.

Það er óhætt að segja að töluvert beri á milli aðila varðandi kjarasamning starfsmanna Elkem Ísland en nokkrar viðræður hafa átt sér stað að undanförnu og ljóst að töluvert þarf að breytast til að aðilar nái saman áður en samningur rennur út.

Fyrsti samningafundur með launanefnd sveitarfélaga hefur verið boðaður næstkomandi mánudag, en félagið tók ákvörðun um að framselja ekki samningsumboðið til Starfsgreinasambands Íslands heldur fara sjálft með umboðið.

03
Nov

Að gefnu tilefni !

Félagsmenn kynnið ykkur rétt ykkarFélagsmenn kynnið ykkur rétt ykkarAð gefnu tilefni vill stjórn Verkalýðsfélags Akraness minna félagsmenn sína á að hafa samband við skrifstofu félagsins þegar fyrirtæki eru að breyta vinnutilhögun og ráðningarsamningum við starfsmenn í þeim hremmingum sem nú ríða yfir íslenskan vinnumarkað.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness óttast að það séu dæmi um að fyrirtæki séu að notfæra sér það grafalvarlega ástand sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði með því að boða breytingu á vinnufyrirkomulagi og lækkun launa.  

Það er mjög mikilvægt að starfsmenn hafi samband við stéttarfélögin til að kanna hvort verið sé að fara eftir þeim leikreglum og kjarasamningum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði þegar boðaðar eru breytingar á kjörum starfsmanna.

03
Nov

Aðgerðahópur skipaður

Bæjarráð Akraness samþykkti á fundi sínum sl. fimmtudag að setja á stofn samstarfshóp sem meti stöðu og leggi á ráðin um áhrif efnahagsmála. Þetta var gert í framhaldi af fundi sem haldinn var í bæjarþingsalnum á Akranesi tveimur dögum áður, þar sem fulltrúar úr atvinnu- og félagsmálum komu saman og fóru yfir stöðuna í efnahagsmálum og sýnilegar afleiðingar hennar.

Bæjarráð samþykkti að starfshópinn skipi eftirtaldir: Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness. Gunnar Richardsson frá Vinnumálastofnun Vesturlands, Ólafur Þ. Hauksson sýslumaður á Akranesi og Sveinborg Kristjánsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs Akraneskaupstaðar.  Helga Gunnarsdóttir sviðsstjóri fræðslu-, tómstunda- og íþróttasviðs starfar með hópnum og kallar hann saman til fundar.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá var í það minnsta 63 starfsmönnum hjá hinum ýmsu fyrirtækjum sagt upp störfum um síðustu mánaðarmót hér á Akranesi.  Sumir þeirra starfsmanna eru með eins mánaðar uppsagnarfrest og aðrir tvo til þrjá mánuði.  Einnig hefur formaður fregnir af því að einstaka fyrirtæki hafi verið að lækka hjá sér starfshlutfall og skera niður yfirvinnu. 

Stjórn félagsins fagnar þessu framtaki bæjaryfirvalda enda telur félagið það mjög brýnt að skipaður verði starfshópur sem samnýtir krafta sína til að aðstoða þá einstaklinga sem verða fyrir því að missa vinnu sína í þeim efnahagsþrengingum sem nú ríður yfir íslenskt samfélag.

31
Oct

Ráðamenn þjóðarinnar vaknið !

Það er óhætt að segja að algjör ringulreið ríki nú á íslenskum vinnumarkaði ef marka má þá holskeflu uppsagna sem nú ríður yfir íslenskan vinnumarkað.  Íslenskir launþegar vita vart hvaðan á sig stendur veðrið og ríkir ótti og angist víða í þjóðfélaginu vegna þeirra uppsagna sem nú dynja á landsmönnum.

Eins og fram kom hér á heimsíðunni í fyrradag þá óttaðist formaður félagsins að fleiri uppsagnir myndu líta dagsins ljós áður en mánuðurinn yrði allur, en á miðvikudaginn sl. var búið að tilkynna 42 einstaklingum um uppsögn í vikunni hér á Akranesi.  Í dag er þessi tala því miður komin uppí 63 einstaklinga.  Sem dæmi þá þurfti fyrirtæki sem tilkynnti á miðvikudaginn um uppsagnir á 13 starfsmönnum að segja upp 9 til viðbótar í dag.  Með öðrum orðum þá ríkir algjört panik hjá atvinnurekendum vegna þess ástands sem ríkir í efnahagslífi þjóðarinnar.

Formaður félagsins vill hvetja atvinnurekendur til að virða þær leikreglur og kjarasamninga sem gilda á íslenskum vinnumarkaði þegar staðið er að uppsögnum og breytingu á vinnutilhögun.  Sem dæmi þá ætlaði t.d. fyrirtæki að segja upp núverandi vaktakerfi og setja upp nýtt vaktakerfi með einungis nokkurra daga fyrirvara þótt kveðið sé á um að slíkt sé ekki hægt að gera með svo stuttum fyrirvara. 

Stjórn félagsins vill minna félagsmenn sína á að leita upplýsinga hjá félaginu ef þeir eru í minnsta vafa um að verið sé að ganga á kjarasamningsbundinn rétt þeirra.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill segja við ráðamenn þessarar þjóðar, vaknið, því íslenskum fyrirtækjum, launþegum og heimilum er að blæða út.  Stjórn félagsins vill ítreka að ríkisstjórn Íslands verður að koma fyrirtækjum,launþegum og heimilum landsins til hjálpar og það tafarlaust og það aðgerða- og úrræðaleysi sem blasað hefur við þjóðinni að undanförnu verður að heyra sögunni til.

30
Oct

Brýnt að auka aflaheimildir í þorski tafarlaust

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness lagt til að ríkisstjórn Íslands auki nú þegar aflaheimildir í þorski umtalsvert á yfirstandandi fiskveiðiári. Slík ákvörðun ætti alls ekki að stofna þorsksstofninum í neina hættu þótt slíkt væri gert í eitt fiskveiðiár eða svo.

Nú er ástandið með þeim hætti í íslensku atvinnulífi að stjórnvöld verða að koma með einhverjar lausnir til að skapa hér auknar gjaldeyristekjur og aukin störf handa verkafólki og sjómönnum.  Að auka aflaheimildir í þorski væri tilvalin leið til þess.

Nú hafa fleiri verið að þrýsta á stjórnvöld að auka aflaheimildir að undanförnu. Til að mynda hefur LÍÚ skorað á sjávarútvegsráðherra að auka þorskkvótann um 30 þúsund tonn. 

Á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn var lögð fram tillaga til bæjarstjórnar sem hljóðaði eftirfarandi:

"Með hliðsjón af þeirri alvarlegu stöðu sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir nú um stundir, fyrirsjáanlegu atvinnuleysi og þrengingum, hjá bæði fjölskyldum og fyrirtækjum á næstu misserum, skorar bæjarstjórn Akraness á sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórn Íslands að nú þegar verði auknar fiskveiðiheimildir.“  

Með tillögunni er gerð krafa um að aukningunni verði úthlutað til sveitarfélaga sem síðan ráðstafi aflanum til vinnslu innan síns sveitarfélags. Þannig verði stuðlað að minna atvinnuleysi, auknum útflutningstekjum og meiri umsvifum í þjóðfélaginu.  Formaður félagsins tekur undir með bæjaryfirvöldum að sveitarfélögum verði úthlutuð sú viðbót í þorski ef til aukningar kemur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image