• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

23
Jul

Óskiljanleg afstaða stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Samband íslenskra sveitarfélagaSamband íslenskra sveitarfélagaEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá samþykkti bæjarstjórn Akraness 13. maí sl. tillögu frá bæjarfulltrúanum Guðmundi Páli Jónssyni um að bæjarráð Akraneskaupstaðar skoði möguleika á að standa fyrir ráðstefnu á haustdögum um atvinnumál sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirkomulag kvótamála í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Bréf barst bæjarráði Akraneskaupstaðar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 30.6.2008, þar sem tilkynnt er að sambandið sjái sér ekki fært að taka þátt í undirbúningi eða framkvæmd ráðstefnu um atvinnumál sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirkomulag kvótamála, samkvæmt tillögu bæjarráðs Akraness frá 28. maí 2008.

Í bréfi frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að sambandið telji sér ekki fært að taka þátt í ráðstefnunni vegna þess að ráðstefnan snertir ekki öll sveitarfélög í landinu.  Fram kom í fundargerð Bæjarráðs Akraneskaupstaðar að það harmaði afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga til tillögunar. 

Það verður að segjast alveg eins og er að þetta svar frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sambandið sjái sér ekki fært að taka þátt í undirbúningi eða framkvæmd ráðstefnu um atvinnumál sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirkomulag kvótamála er gjörsamlega óskiljanlegt.  Þessi afstaða sambandsins er óskiljanleg í ljósi þess að fjölmörgum sjávarútvegsplássum hefur nánast blætt út vegna þess að kvótinn hefur verið seldur úr byggðarlögunum.  Þessi afstaða sambandsins er sem blaut tuska framan í þá 500 einstaklinga sem misst hafa sitt lífsviðurværi við fiskvinnslu og sjósókn á undanförnum mánuðum og misserum vegna þess fyrirkomulags sem er hér við lýði í sjávarútvegsmálum. 

Rétt er að minna sveitarstjórnarmenn á að þeir eru kosnir af fólkinu í landinu og þeim ber skylda til að vinna að hagsmunum fólksins. Því er það afar undarlegt að stjórn sambandsins sjái sér ekki fært að taka þátt í ráðstefnu um þessi mál, ráðstefnu þar sem hægt hefði verið að fara yfir kosti og galla þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem hér hefur verið við lýði á undanförnum áratugum. Einnig hefði verið hægt að krefjast þess af þeim sem fara með tímabundinn umráðarétt yfir auðlindum hafsins að þeir sýni samfélagslega ábyrgð. Á því hefur klárlega verið skortur á undanförnum árum. Þessi afstaða stjórnar sambandsins hlýtur að valda formanni hennar Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar vonbrigðum, sérstaklega í ljósi þess hvernig það fiskveiðistjórnunarkerfi sem nú er við lýði hefur leikið Vestfirði í heild sinni.

Það var eins og áður hefur komið fram Guðmundur Páll Jónsson bæjarfulltrúi sem lagði tillöguna fram.  Í máli Guðmundar Páls á sínum tíma kom fram að liðinn vetur hafi verið okkur Akurnesingum sérstaklega erfiður varðandi þróun í fiskvinnslu- og útgerðamálum.  Hann sagði einnig að almenning hér á Akranesi setti algjörlega hljóðan yfir þeirri þróun sem átt hefur sér stað í fiskvinnslumálum og átti hann við þann mikla samdrátt og uppsagnir sem átt hafa sér stað hjá HB Granda.

Í máli bæjarfulltrúans kom fram að ráðstefnuna yrði að halda í samvinnu eða á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Á þeirri ráðstefnu vildi bæjarfulltrúinn að farið yrði yfir þær leikreglur sem gilda í íslenskum sjávarútvegi og í stjórnun fiskveiðistjórnunarkerfisins með tilliti til þeirra afleiðinga sem það hefur haft á byggðir landsins.

Guðmundur Páll vildi einnig að sveitarstjórnarmenn hefðu spurt sig á þessari ráðstefnu hvort þær leikreglur sem gilda í íslenskum sjávarútvegi í dag séu barn síns tíma og hvort þær þurfi ekki að vera með öðrum hætti en þær eru í dag.  Hann vildi að sveitarstjórnarstigið skoðaði á þessari ráðstefnu leikreglur fiskveiðistjórnunarkerfisins á hlutlausan og yfirvegaðan hátt með hagsmuni almennings sem í byggðunum býr og hafa búið að leiðarljósi.

Formaður félagsins fagnaði á sínum tíma því að bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefði haft frumkvæði að því að halda slíka ráðstefnu því það væri með öllu óþolandi hvernig það fiskveiðistjórnunarkerfi sem nú er við lýði hefur leikið þetta samfélag hér á Akranesi sem og aðrar byggðir þessa lands.  Þess vegna er þessi óskiljanlega afstaða stjórnar sambandsins grátleg.

Það er full ástæða til að kalla eftir nýjum leikreglum í íslenskum sjávarútvegi í ljósi þess að fjölda byggðarlaga hefur nánast blætt út vegna þess kerfis sem hér hefur verið í hart nær 24 ár.

21
Jul

Taka verður hart á ólöglegum mótmælaaðgerðum

Nú á þriðja tímanum í dag lokuðu 20 mótmælendur frá samtökunum Saving Iceland veginum niður á Grundartanga og hafa með því stöðvað umferð til og frá álverinu og Járnblendiverksmiðjunni.

Fólkið hefur hlekkjað sig saman og myndað vegartálma. Lögreglan á Akranesi er mætt á staðinn til að ræða við fólkið og fá það til að hætta aðgerðum sínum.

Saving Iceland hefur frá því aðgerðir hófust fyrir rúmri viku beitt kröftum sínum gegn Hellisheiðarvirkjun og byggingarframkvæmdum Norðuráls á lóð væntanlegs álvers í Helguvík. Nú beinast aðgerðirnar gegn Norðuráli og stóriðjustarfseminni á Grundartanga. Þess má geta að sami hópur mótmælti við Grundartanga í júlímánuði fyrir ári síðan.

Aðgerðir þessar eru með öllu óþolandi og Formaður spyr sig: hvernig geta það verið friðsamleg mótmæli að loka vegi með því hlekkja sig saman með það eitt að markmiði að starfsmenn Norðuráls og Íslenska járnblendifélagsins komist ekki til og frá vinnu?

Það liggur fyrir að starfsmenn stóriðjufyrirtækjanna á Grundartanga vinna langan og strangan vinnudag þannig að mótmæli af þessu tagi ógna hugsanlega öryggi starfsmanna.  Slík mótmæli eru með öllu ólíðandi og ber yfirvöldum að taka hart á slíkum mótmælum.

Formaður veltir öðru atriði fyrir sér: hvað með löggæslu í Borgarfirði á meðan slík ólögleg mótmæli eiga sér stað? Hvað ef alvarlegt slys hefði orðið t.d. uppá Holtavörðuheiði og stór hluti lögreglunnar í Borgarnesi að sinna ólöglegum mótmælaaðgerðum.  Fyrir einu ári síðan varð mjög alvarlegt banaslys hér í nágrenninu og í því slysi þurfti að sameina löggæslu frá Akranesi og Borgarnesi.

Það eru grundvallar mannréttindi að mega mótmæla, um það er ekki deilt. Hins vegar verða allir mótmælendur að fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda hér á landi og mega ekki undir neinum kringumstæðum ógna öryggi annarra.  Þess vegna ber yfirvöldum að taka hart á þeim mótmælendum sem ekki virða lög og reglur hér á landi. 

17
Jul

Hækkun á álverði ætti að liðka til við komandi kjarasamningagerð

Álver Norðuráls á GrundartangaÁlver Norðuráls á GrundartangaEins og fram hefur komið í fréttum þá er álverð í sögulegu hámarki um þessar mundir. Í dag er tonnið af áli á 3200 dollara og hefur vart verið hærra áður.

Það er ljóst að þetta háa álverð mun auðvelda kjarasamningsgerð við álfyrirtækin en álverð hefur hækkað um rúm 80% frá því að gengið var frá síðasta kjarasamningi við Norðurál árið 2005. Hins vegar hafa laun hjá Norðuráli hækkað á sama tímabili um 43,9%.

Það er mat formanns félagsins að þetta jákvæða umhverfi í áliðnaðinum verði skýlaust notað við gerð næsta samnings enda eigum við Íslendingar að gera þá kröfu að þau stóriðjufyrirtæki sem fá hér ódýra raforku, land og þann mannauð sem við búum yfir, greiði sem hæstu launin.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að þegar verið er að ákveða hvaða stóriðjufyrirtæki fái orku hér á landi þá að vega og meta hvaða fyrirtæki eru tilbúin að greiða hvað hæstu launin og það fyrirtæki sem greiðir hæstu launin á að fá forgang að raforku hér á landi.

Það liggur fyrir að launamunur er á milli álfyrirtækjanna Alcan og Norðuráls og mun það vera skýlaus krafa í næstu samningum að þeim launamuni verði eytt.

15
Jul

Formaður VLFA tekur undir áhyggjur félagsmálaráðherra

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur heils hugar undir áhyggjur Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra en hún óttast að staða skuldara versni á næstu mánuðum og vanskilin aukist vegna efnahagsástandsins.  Það er afar ánægjulegt að heyra að félagsmálaráðherra skuli skora á bankana að sýna fólki í fjárhagserfiðleikum skilning og koma til móts við það með greiðsluaðlögun.

Það er algerlega ljóst að þegar líður á haustið þá mun atvinnuleysi aukast til muna vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir hér á landi.  Á þeirri forsendu er mjög mikilvægt eins og félagsmálaráðherra segir að bankarnir sýni fólki skilning í þeim greiðsluerfiðleikum sem samdráttur í atvinnulífinu leiðir af sér.

Það er einnig afar ánægjulegt að viðskiptaráðherra hyggist leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun fyrir fólk í fjárhagserfiðleikum. Greiðsluaðlögun gefur fólki möguleika á að vinna sig út úr fjárhagserfiðleikum án þess að missa eigur sínar og húsnæði í gjaldþroti. Gert er ráð fyrir að frumvarpið fækki gjaldþrotum einstaklinga um fimmtíu til sjötíu prósent. 

Félagsmálaráðherra vonast eftir breytingum í haust. Hún hvetur bankana til þess að fara að skoða hjá sér svokallaða frjálsa greiðsluaðlögun. Jóhanna segir í viðtali við vísir.is að bankarnir verði að vera liðlegir þegar kemur að því að fólk lendi í miklum vandræðum.

14
Jul

Sumar 2008 - Allar vikur bókaðar í orlofshúsum félagsins

Nú eru allar vikur sumarsins í orlofshúsum félagsins uppbókaðar. Ef marka má þann mikla fjölda fyrirspurna sem skrifstofu berast daglega í síma og í tölvupósti um lausar vikur þá er ljóst að aðsókn í orlofshúsin hefur sjaldan verið meiri. Hægt er að skrá sig á biðlista á skrifstofu og verður hringt í félagsmenn á listanum verði einhver forföll það sem eftir er orlofstímans.

Sumarleigan hefur gengið mjög vel fyrir sig og er einstaklega ánægjulegt hversu vel félagsmönnum líkar við þær breytingar sem gerðar voru í bústöðum félagsins í Svínadal og Hraunborgum. Þar var skipt um eldhúsinnréttingar og gólfefni í vor og er mikil bót að því fyrir dvalargesti húsanna. Einnig er fólk ánægt með framkvæmdir á Akureyri þar sem svalir voru stækkaðar síðastliðinn vetur við íbúðir félagsins í Furulundi.

Sumarleigu lýkur þann 5. september nk. og eftir þann tíma hefst helgarleiga á ný. Nú þegar er hægt að bóka lausar helgar vetrarins og eru þeir félagsmenn sem hafa áhuga á að njóta haustsins í orlofshúsum félagsins hvattir til að hafa samband við skrifstofu.

07
Jul

Greiðslur úr sjúkrasjóði félagsins munu hækka frá og með 1.ágúst nk

Stjórn sjúkrasjóðs Verkalýðsfélags Akraness kom saman til fundar á miðvikudaginn var.  Á fundinum var ákveðið að hækka styrki úr sjóðnum allverulega og munu hækkanirnar taka gildi frá og með 1.ágúst nk.

Þeir styrkir sem munu taka hækkunum frá með 1. ágúst eru til dæmis fæðingarstyrkur, styrkir til sjúkranudds, sjúkraþjálfunar, glasa- eða tæknifrjóvgunar, ættleiðingar, krabbameinsskoðana, gleraugna- og heyrnartækjakaupa og heilsueflingar.

Það er markmið stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að bjóða uppá eins góða þjónustu fyrir sína félagsmenn og kostur er og eru þessar hækkanir á styrkveitingum úr sjúkrasjóði félagsins einn liður í þeirri vinnu.

02
Jul

Ályktun um efnahagsmál

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness samþykkti eftirfarandi ályktun á stjórnarfundi sem haldinn var í kvöld:

Ályktun um efnahagsmál

Akranesi 2. júlí 2008

 Stjórn Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir gríðarlegum áhyggjum af stöðu efnahagsmála vegna mikillar verðbólgu og himinhárra vaxta, sem eru að sliga mörg íslensk heimili.

Í síðustu kjarasamningum var gengið frá hófstilltum og skynsamlegum samningum sem höfðu það markmið að auka kaupmátt íslensks verkafólks og stuðla  um leið að stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Í ljósi þessa er grátlegt fyrir íslenskt verkafólk að sjá að sá ávinningur sem náðist í síðustu kjarasamningum sé gufaður upp vegna aðgerða- og úrræðaleysis ríkisstjórnar Íslands í efnahagsmálum.

Það er morgunljóst að það er fátt sem getur komið í veg fyrir að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði verði ekki sagt upp í febrúar þegar  endurskoðun kjarasamninga fer fram. Það er einnig ljóst að íslenskt verkafólk mun ekki sætta sig við að gera hófstillta kjarasamninga slag í slag til að tryggja hér stöðugleika þegar lítið sem ekkert kemur frá stjórnvöldum í þeim efnum.

Það er mat stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að mörgum íslenskum heimilum muni blæða út ef ríkisstjórnin grípur ekki til tafarlausra aðgerða til að ná vöxtum og verðbólgu niður.

Stjórn VLFA skorar á alla verslunareigendur og stórkaupmenn að takmarka hækkanir á vörum sínum eins og kostur er og leggja þannig sitt af mörkum við að vinna bug á þeirri gríðarlegu verðbólgu sem nú ríkir í íslensku samfélagi. 

Stjórn VLFA skorar á ríkisstjórn Íslands að lækka álögur á eldsneyti vegna mikillar hækkunar á heimsmarkaðsverði. Slíkt mun klárlega hjálpa íslenskum neytendum og slá á verðbólguna. Einnig skorar stjórn félagsins á stjórnvöld að grípa þegar til aðgerða til að koma í veg fyrir vaxandi atvinnuleysi í því sambandi telur stjórnin mikilvægt að ríkið auki mannaflsfrekar framkvæmdir svo sem hin ýmsu viðhaldsverkefni.

30
Jun

Fundað með forstjóra Norðuráls

Formaður Verkalýðsfélags Akraness og formaður Stéttarfélags Vesturlands áttu fund með forstjóra og starfsmannastjóra Norðuráls á Grundartanga í morgun. 

Á fundinum fór forstjórinn David Kjos ítarlega yfir stefnumið, framtíðarsýn og gildismat fyrirtækisins.  Það er alveg óhægt að segja að þessi fundur hafði verið afar fróðlegur og gagnlegur.  Norðurál stefnir að því að hjá Norðuráli verði framúrskarandi starfsemi, stöðugar umbætur og verður lögð rík áhersla á teymisvinnu til að ná þessum markmiðum.

Það kom einnig fram hjá forstjóranum að fyrirtækið leggur mikla áherslu á öryggismál enda má ávallt gera betur í þeim efnum.

27
Jun

Eldsneyti hefur hækkað um 30% á árinu

Verðbólga mældist 12,7% í júní og hefur verðlag hækkað um 0,9% frá því í maímánuði. Verðbólga hefur ekki mælst hærri hér á landi í 18 ár og er nú 10,2% yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans sem er 2,5%.

Verð á bensíni og olíum hækkaði um 7,2% frá því í maí og hefur líkt og í fyrra mánuði mest áhrif til hækkunar á vísitölunni nú.

 

Verð á bensíni og olíu hefur hækkað um 30% á þessu ári.

Húsnæðisliður vísitölunnar hækkaði um 0,9% á milli mánaða sem skýrist af hækkun á húsaleigu um rúm 4% og hækkun á viðhaldi húsnæðis um 2% auk þess sem kostnaður vegna eigin húsnæðis hækkaði um 0,4% frá því í maí.

Hækkun á eigin húsnæði skýrist af því að óveruleg breyting mældist á markaðsverði húsnæðis á milli mánaða (-0,04%) en áhrif af hækkun vaxta voru 0,1%.

Hækkun á viðhaldi og viðgerðum á húsnæði um 2% nú bætist við tæplega 6% hækkun á þessum lið í síðasta mánuði og nemur hækkunin frá áramótum 14%.

Af breytingum á öðrum liðum vístölunn má nefna að verð á símaþjónustu hækkaði um 1,3% á milli mánaða og gistiþjónusta hækkaði um 2,4% og er það þriðja mánuðinn í röð sem sá liður vísitölunnar hækkar en frá áramótum nemur hækkunin rúmum 18%. Þá hækkaði verð á mat- og drykkjarvörum um 0,6% frá því í maí.

Heimild: ASÍ

26
Jun

Ekkert lát á innstreymi erlends verkafólks til landsins

Störfum í fiskvinnslu hefur fækkað mikið á undanförnum mánuðum sökum samdráttarEkkert lát er á gríðarlegu innstreymi erlends verkafólks inní landið og það á sama tíma og verulegar blikur eru á lofti á íslenskum vinnumarkaði sökum samdráttar í fiskvinnslu og byggingariðnaði eins og dæmi undanfarna vikna hafa sýnt. 

Fyrstu fimm mánuði þessa árs hefur Vinnumálastofnun nýskráð 2074 erlenda starfsmenn en á sama tíma í fyrra voru nýskráningar 2114 á þessu sést að lítið sem ekkert hefur dregið úr innstreymi á erlendu verkfólki til landsins.

Í janúar nýskráði Vinnumálastofnun 354 í febrúar 573 í mars 412 í apríl  353 í maí 382 og allt útlit er fyrir að nýskráningar í júní fari vel yfir 400 samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun.

Það verður að segjast alveg eins og er að formaður félagsins undrast þennan mikla innflutning atvinnurekanda á erlendu verkafólki til landsins sérstaklega í ljósi þess samdráttar og uppsagna sem hafa verið að birtast okkur landsmönnum á undanförnum misserum.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image