• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Sep

Verðbólgan hefur hækkað um 8,7% frá undirritun kjarasamninga 17. febrúar

Forsendur kjarasamninga kolbrostnarForsendur kjarasamninga kolbrostnarVerðbólgan mælist nú 14,5% og hefur ekki verið hærri í hart nær tvo áratugi.  Kaupmáttur launa dregst hratt saman og skuldsettar fjölskyldur standa frammi fyrir miklum vanda við að láta enda ná saman.  Þessu til viðbótar hafa tæplega fjórtán hundruð manns misst vinnuna í hópuppsögnum á árinu og fleiri hundruðum til viðbótar hefur líklega verið sagt upp í minni uppsögnum. Á þessu sést að það eru öll merki um stóraukið atvinnuleysi og mjög líklegt að haustið og veturinn verði mjög erfiður hvað varðar samdrátt í atvinnulífinu. 

Það er morgunljóst að það þurfa fleiri en íslenskt verkafólk að leggja sitt af mörkum til að viðhalda hér stöðugleika og lágri verðbólgu.  Nú er komið að öðrum axla ábyrgð á verðbólguvandanum. Þann 17. febrúar sl. var gengið frá mjög hóflegum kjarasamningum sem höfðu það markmið að auka hér kaupmátt og koma böndum á verðbólguna.  Það er því grátlegt að horfa uppá það efnahagsástand sem nú ríkir í íslensku samfélagi og bitnar hvað harðast á skuldsettum verkamannafjölskyldum.

Verðbólgan var 5,8% þegar gengið var frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði 17. febrúar 2008. Nú einungis 6 mánuðum frá undirritun hefur verðbólgan aukist um hvorki meira né minna um 8,7% og mælist verðbólgan í dag 14,5%  Ein af grunnforsendum fyrir því að gengið var frá kjarasamningum á þeim nótum sem gert var 17. febrúar sl. var endurskoðunarákvæði í samningunum, en þar er getið um að í byrjun febrúar 2009 muni endurskoðunarnefnd koma saman til að vega og meta hvort forsendur kjarasamningsins hafi staðist.  Þessar forsendur byggjast á því hvort kaupmáttur hafi staðið í stað eða aukist.  Einnig þurfti verðbólgan að hafa farið lækkandi.  Með lækkandi verðbólgu var átt við að verðbólga innan ársins 2008 þ.e. 12 mánaða verðbólgan í desember 2008 sé lægri en 5,5%.  Ennfremur er getið um í endurskoðunarákvæðinu að verðbólga á 6 mánaða tímabilinu ágúst 2008- janúar 2009 sé innan við 3,8% miðað við árs hraða. 

Á þessu sést svo ekki verður um villst að forsendur kjarasamninga eru kolbrostnar en þær byggðu eins og áður hefur komið fram á þeim forsendum að það tækist að koma böndum á verðbólgu og verja kaupmátt.

Þegar endurskoðun kjarasamninga fer fram verður verkalýðshreyfingin að gera skýlausa kröfu um að fá viðbót við kjarasamninginn ella er ekkert annað í stöðunni en að segja samningnum upp eins og heimilt er samkvæmt endurskoðunarákvæðinu.

Það er ljóst að fyrirtæki eru að hagræða hjá sér í rekstri með því að segja upp fólki í stórum stíl og mörg önnur fyrirtæki hækka verð á sinni vöru og þjónustu. 

Rjúfa verður þann vítahring að seljendur vöru og þjónustu hækki verð í samræmi við liðna verðbólgu og leggi þannig grunn að enn meiri verðbólgu. Gera verður þá lágmarkskröfu á ríki og sveitarfélög að þau haldi aftur af gjaldskrárhækkunum sínum en nokkuð hefur borið á þeim að undanförnu.

Hinn almenni launþegi getur lítið sem ekkert gert þegar kaupmáttur launa dregst hratt saman og greiðslubyrðin hækkar frá mánuði til mánaðar.  Á þeirri forsendu verða að koma einhverjar viðbætur við kjarasamninginn þegar endurskoðun á sér stað, ella er ljóst að illa mun fara fyrir íslensku verkafólki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image